Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

Frétt af:   http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33060 

24/10/2011 

Í byrjun næsta árs verða lágmarksbætur lífeyrisþega 203.000 krónur og hafa þá hækkað um 61% frá árinu 2007. Þá hafa útgjöld almannatrygginga sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs farið úr 9,5% árið 2006 í 13,1% árið 2012 miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands síðastliðinn laugardag. 

Velferðarráðherra kom víða við í ávarpi sínu. Hann sagði mikilvægt mál hafa verið lögfest á Alþingi nú í haust þegar samþykkt voru lög sem koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum. „Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna.“ 

„Í þrengingum okkar frá hruni hafa stjórnvöld alltaf lagt áherslu á að útfærslur aðhaldsaðgerða og niðurskurðar útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Grunnþjónustan hefur verið varin eins og kostur er og þau verkefni sem samstaða er um að ríkið sinni í þágu samfélagsins. 

Það hefur líka sýnt sig að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum og þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu hafa dregið úr álögum á þá tekjulægstu en fært skattbyrðina í auknum mæli á herðar þeim sem hærri tekjur hafa.“

 Ráðherra ræddi einnig um endurskoðun almannatryggingakerfisins, stefnumótun í húsnæðismálum og fyrirhugaða upptöku húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Þá talaði hann um frumvarp til breytinga á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sem verður lagt fram á Alþingi á næstunni: 

„Ég er sannfærður um að fólk muni fljótt sjá að þetta kerfi er bæði einfaldara og réttlátara en það sem við búum við núna, af því að það mismunar ekki sjúklingum eftir því hvers eðlis veikindi þeirra eru og af því að það er byggt upp til þess að draga úr kostnaði hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda vegna veikinda sinna. Sambærilegar breytingar tel ég nauðsynlegt að gera varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllu, einfaldlega af því að gildandi kerfi styður ekki nógu vel við bakið á þeim sem helst þurfa á því að halda.“ 

     innsett F.S.


Það þarf alltaf að vera að "vakta" aðgerðir stjórnvalda gagnvart öryrkjum.

 

Þetta er ekki ný umræða.  Aftur og aftur eru skipaðar nefndir til að skoða þessi mál, með það að markmiði að einfalda kerfið en samt tryggja afkomu öryrkja.  Gallinn við þetta allt er að þetta má ekki kosta neitt.  Þetta var líka svona fyrir bankahrun svo að þetta er ekki hruninu að kenna.   Samt hefur ímislegt mjakast áleiðis en alltaf eru stjórnvöld að líta í baksýnisspegilinn og skoða hvernig hægt sé að lækka kostnaðinn.

19. ágúst 2009 sendi aðalstjórn ÖBÍ frá sér umsögn um skírslu nefndar um breytingar á lífeyriskerfinu:   Nýskipan almannatrygginga

Þar segir ÖBÍ m.a. 

"Að lokum vill ÖBÍ leggja áherslu á nokkur atriði sem skipta máli við einföldunina:

Aldurstengd örorka.

Bótaflokkurinn aldurstengd örorka er afar mikilvægur bótaflokkur fyrir þá sem fæðast eða fatlast snemma á lífsleiðinni og hafa ekki náð að vinna sér inn réttindi í lífeyrissjóðum. Þennan hóp verður að passa sérstaklega í nýju almannatryggingakerfi. Það má með mörgum rökum halda því fram að fyrrgreindur hópur eigi að fá hærri greiðslur úr almannatryggingum en aðrir vegna stöðu sinnar. Þetta kemur fram í skýrslunni en við viljum leggja sérstaka áherslu á það. ÖBÍ leggur jafnframt áherslu á að aldurstengd örorka skerðist ekki vegna tekna og haldi áfram eftir 67 ára aldur."

 Af sama tilefni kom   31. ágúst 2009  frá Þroskahjálp:

"Aldurstengd uppbót á lífeyri.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja standa sérstaklega vörð um þennan bótaflokk þar sem margir af skjólstæðingum samtakanna hafa búið við fötlun frá fæðingu. Tilkoma þessa bótaflokks var mikið réttlætismál á sínum tíma og tilraun til að jafna ævikjör. Til að svo geti orðið þarf aldurstengda uppbótin að koma sem viðbót við lágmarksframfærslu. Með tilkomu hærra frítekjumarks vegna lífeyristekna er ennþá meira réttlæti í aldurstengdri uppbót sem kemur þeim mest til góða sem hafa litlar sem engar greiðslur úr lífeyrissjóðum".

Það er ekki langt síðan þessi samtök voru að álykta um þetta og fleyra.

Enn er full ástæða til að "vakta" skerðingarhugmyndir stjórnvalda.

Vf:  F.S.

 


mbl.is Breyta aldurstengdri örorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Magnússon endurkjörinn formaður ÖBÍ.

http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/941 

22.10.2011  

Á aðalfundi ÖBÍ sem var haldinn á Grand hóteli Reykjavík í dag, 22. október 2011. Á fundinum var Guðmundur Magnússon endurkjörinn formaður bandalagsins til tveggja ára. 

Grétar Pétur Geirsson var endurkjörinn gjaldkeri ÖBÍ til tveggja ára.  

Kosning var um 2 meðstjórnendur til tveggja ára, þar sem þau Sigríður Jóhannsdóttir og Sigurður Þór Sigurðsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa.  Fjórir gáfu kost á sér til þessara embætta, þær Ellen Calmon  frá ADHD samtökunum og Klara Geirsdóttir frá Félagi CP á Íslandi og fengu yfirburðar kosningu.

Þrír varamenn til eins árs voru kjörnir þau Jórunn Sörensen frá Félagi nýrnasjúkra, Guðmundur S. Johnsen frá Félagi lesblindra og Frímann Sigurnýasson frá SÍBS. Fimm einstaklingar buðu sig fram í varamannskjörinu. 

Í 5 manna kjörnefnd gaf Guðný Guðnadóttir ekki kost á sér til áframhaldandi starfa og Guðjón Sigurðsson hafði sagt sig áður úr kjörnefnd. Þrír fulltrúa í nefndinni gáfu kost á sér til endurkjörs. Þau Gísli Helgason, Sigurður Rúnar Sigursjónsson og Sigurbjörg Ármannsdóttir. Ný í kjörnefnd eru Dagný Erna Lárusdóttir frá SÍBS og Jón Þorkelsson frá Stómasamtökunum. 

Í 5 manna laganefnd höfðu 2 nefndarmenn sagt sig úr nefndinni og að auki gaf Sigríður Jóhannsdóttir ekki kost á sér til endurkjörs. Tvei fulltrúar gáfu kost á sér til endurkjörs þeir Guðmundu S. Johnsen, Félagi lesblindra og Björn Hallgrímsson frá SÍBS.   Nýir í laganefnd eru Gísli Helgason frá Blindarvinafélagi Íslands, Örn Ólafsson frá Félagi CP á Íslandi og Guðbjörn Jónsson frá Parkinsonsamtökunum. Tvær ályktanir voru samþykktar á fundinum. 

  • Ályktun um yfirfærslu þjónustu fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga.
  • Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar til fjárlaga íslenska ríkisins fyrir árið 2012.

 Innsett F.S.


Ályktun um yfirfærslu þjónustu fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga.

 

samþykkt á aðalfundi ÖBÍ í dag, 22. október.

 

http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/942

 

22.10.2011

 

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn á Grand hóteli, Reykjavík, laugardaginn 22. október 2011 ályktar um yfirfærslu á þjónustu fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga sem átti sér stað 1. janúar 2011.

 

Ljóst er að þeir fyrirvarar sem Öryrkjabandalag Íslands hafði uppi um yfirfærsluna voru allir á rökum reistir. Þrátt fyrir undirritun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir fjórum árum er langt í land að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem því ber samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að.

 

Nægilegt fé hefur ekki fylgt málaflokknum, svo hið svokallaða SIS mat virðist ekki hafa  þjónað þeim tilgangi sem því var ætlað, búsetumál hluta fatlaðs fólks eru enn í ólestri, húsaleigubætur hafa ekki fylgt verðlagi um nokkurra ára skeið og verða ráðstöfunartekjur því sífellt minni hjá fólki sem nú þegar hefur lítið handa í millum. Ekki hefur verið mótaður farvegur fyrir þá aðstoð sem framkvæmdasjóður fatlaðra sinnti og kemur það sér meðal annars mjög illa fyrir hagsmunasamtök og félög fatlaðs fólks.

 

Öryrkjabandalagið hefur staðið fyrir fundaröð þetta ár og náð þannig að kynnast stöðu mála um allt land. Ljóst er að vilji er fyrir hendi hjá sveitarfélögunum að gera betur í þessum málaflokki og er bandalagið tilbúið að taka þátt í þeirri uppbyggingu á grundvelli mannréttinda og jafnræðis.

 

Ekkert um okkur án okkar!

Innsett  F.S.

 

 

 

 


Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar til fjárlaga íslenska ríkisins fyrir árið 2012

http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/943 

22.10.2011

Samþykkt á aðalfundi ÖBÍ, 22 október.

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn á Grand hóteli, Reykjavík, laugardaginn 22. október 2011 ályktar um frumvarp til fjárlaga íslenska ríkisins fyrir árið 2012.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 ber með sér að þær réttindaskerðingar og sá niðurskurður sem hófst í janúar 2009, í því velferðarkerfi sem við búum við, verður ekki bættur að sinni.

Samkvæmt 76. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og með hliðsjón af þeim alþjóðlegu mannréttindasamningum og sáttmálum sem Ísland er aðili að er kveðið á um að tryggja skuli fólki viðeigandi lífsafkomu, þannig að hægt sé að lifa með reisn. Ekki verður séð að gert sé ráð fyrir því í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og skorar ÖBÍ á alþingismenn að endurskoða frumvarpið í ljósi þess. Þrátt fyrir verðlagshækkanir og aukna greiðsluþátttöku fólks í lyfja- og lækniskostnaði, sjúkraþjálfun, hjálpartækjum o.fl. hefur öllum viðmiðunartölum í félagslega stuðningskerfinu verið haldið óbreyttum frá 2008. Er þar með enn þrengt að öryrkjum og sjúklingum.Samkvæmt 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkenna aðildarríkin „rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar“.

Viðunandi lífskjör eru sjálfsögð mannréttindi. Við hvetjum  ríkisstjórn sem vill kenna sig við velferð að vinna að samfélagi fyrir alla, með mannréttindi og jafnræði að leiðarljósi.

Ekkert um okkur án okkar!

Innsett F.S.

 


Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband