Fyrirlestur um endurhæfingu mánudag 26. mars.

 

Mánudaginn 26. mars kl 17:00 heldur Ásdís Kristjánsdóttir sviðsstjóri lungnasjúkraþjálfunar á Reykjalundi fyrirlestur um langtímaáhrif endurhæfingar á sjúklinga með langvinna lungnateppu eða langvinna hjartabilun.

 

Fyrirlesturinn verður haldinn í SÍBS-húsinu, Síðumúla 6, gengið inn bakdyramegin. Kaffiveitingar. Allir velkomnir.

innsett: F.S.


Hverjir eiga rétt á sérstökum húsaleigubótum?

 

Fréttablaðið Aðsendar greinar 15. mars 2012 06:00
Grétar Pétur Geirsson
formaður Sjálfsbjargar – Landssambands fatlaðra
Grétar Pétur Geirsson formaður Sjálfsbjargar – Landssambands fatlaðra
Grétar Pétur Geirsson skrifar:
Sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum að greiða húsaleigubætur. Þær eru greiddar tekjulágum leigjendum. Tekjur og eignir hafa áhrif á bætur. Fjármögnunin er í höndum ríkisins og jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sveitarfélögin sjá um afgreiðslu húsaleigubóta. Grunnfjárhæðir voru óbreyttar frá árinu 2000 til 2008. 1. apríl 2008 hækkuðu húsaleigubæturnar og hækkuðu hámarks húsaleigubætur um 48%.


Sérstakar húsaleigubætur
Sveitarstjórn getur tekið ákvörðun um að borga hærri húsaleigubætur sem viðbót við almennar húsaleigubætur og er þá um sérstakar húsaleigubætur að ræða. Umsækjendur þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði um tekjur og eignir, einnig þarf viðkomandi að sýna fram á að hann eigi við sérstakan félagslegan vanda að etja.

Það er ekki skylda sveitarfélaga að greiða sérstakar húsaleigubætur. Það eru einungis 20 af 76 sveitarfélögum sem greiða þær. Nú ber að hafa í huga að þessum sérstöku húsaleigubótum var komið á í tengslum við gerð kjarasamninga 2008 og það hlýtur að skjóta skökku við að öryrkjar skuli ekki ná þessum bótum. Öryrkjar er sá hópur sem minnst bar úr býtum við þessa samninga.


Það fá ekki allir sérstakar húsaleigubætur
Það er ekki nóg í öllum tilfellum að uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk. Eitt af skilyrðum er að um sé að ræða leiguíbúð á frjálsum markaði eða leigu hjá félagsbústöðum. Leigjendur hjá Brynju hússjóði Öryrkjabandalags Íslands, sem á og rekur 700-800 íbúðir, uppfylla ekki skilyrði um sérstakar húsaleigubætur. Þar er um að ræða sérstakt leiguúrræði fyrir öryrkja og uppfylla þar af leiðandi ekki þau skilyrði sem sett eru fyrir því að fá sérstakar húsaleigubætur.


Ákvæði sem mismunar leigjendum gróflega
Í langflestum tilfellum eru þeir sem leigja hjá ÖBÍ (Brynju hússjóði) eingöngu með örorkubætur og uppfylla því skilyrði fyrir sérstökum húsaleigubótum um tekju- og eignamörk, en vegna þess að Brynja hússjóður leigir einungis öryrkjum þá eiga þeir ekki rétt á þeim. 30% af leigjendum félagsbústaða í Reykjavík eru öryrkjar og fá þeir sérstakar húsaleigubætur. Þess vegna sækja öryrkjar í meira mæli inn í það kerfi – eðlilega.


Sjálfsbjörg krefst þess að allir sitji við sama borð
Það sjá allir að við þetta verður ekki unað. Sjálfsbjörg krefst þess að allir sitji við sama borð og hafi sama rétt og aðrir þegar kemur að þessu almenna bótakerfi. Annað er gróf mismunun og stenst enga skoðun að mínu mati. Sjálfsbjörg skorar á ráðamenn að taka nú upp rauða pennann og strika yfir þetta ósamræmi og óréttlæti sem þessi reglugerð er. Rauðu strikin eiga að virka í báðar áttir, ekki bara þegar þarf að skera niður þjónustu við fatlaða, heldur einnig þegar um er að ræða svona grófa mismunun eins og fellst í þessu ákvæði um rétt til sérstakra húsaleigubóta.


Sveitarfélögin bera ábyrgð
Sveitarfélögunum ber skylda til að útvega fólki húsnæði sem hefur ekki tök á að kaupa eða leigja á almennum markaði. Nú er staðan þannig að með tilkomu Brynju hússjóðs hafa sveitarfélögin getað vikið sér undan því að uppfylla þessa skyldu sína. Þá vaknar sú spurning, hvar væri allt þetta fólk sem nú leigir af Brynju statt í dag ef Brynju nyti ekki við? Svona til upprifjunar, þá var staðan þannig áður en Brynja kom til, að þá hírðust margir öryrkjar í litlum herbergjum og geymslum víðs vegar um bæinn. Það sem ég er að segja með þessu er að Brynja hefur leyst mikið af þeim húsnæðisvandamálum sem annars hefðu lent á sveitarfélögunum og eiga heima þar strangt til tekið. Þess vegna skýtur það skökku við að þau sveitarfélög sem greiða sérstakar húsaleigubætur neiti að greiða því fólki sem leigir hjá Brynju þessar bætur.

innfært FS

 

 

 

 


Tillaga um frumvarp um líffæragjafir

Þriðjudagur, 14. febrúar 2012 14:39

Siv Friðleifsdóttir„Tilgangur þess að ég legg þetta fram ásamt meðflutningsmönnum er að freista þess að fjölga líffæragjöfum á Íslandi. Íslendingar hafa gefið um ellefu líffæri á ári og það er í neðri kantinum miðað við Norðurlönd. Biðlistinn eftir líffærum er langur og þurfa sjúklingar okkar að bíða svo mánuðum skiptir. Við þá bið tekur heilsunni að hraka. Þetta er því spurning um mannslíf,“ segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknar og fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um svonefnt ætlað samþykki við líffæragjafir.

 

Gert ráð fyrir ætluðu samþykki

Með tillögunni er Alþingi ætlað að álykta „að fela velferðarráðherra að láta semja frumvarp sem geri ráð fyrir „ætluðu samþykki“ við líffæragjafir í stað „ætlaðrar neitunar“, þannig að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hinn látni hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða … Neiti aðstandendur líffæragjöf við lát einstaklings skuli þó taka tillit til þeirrar óskar,“ segir í þingsályktunartillögunni.

 

Siv bindur vonir við að frumvarpið geti orðið að lögum síðla árs. „Ég vonast til að tillagan verði samþykkt hið fyrsta á Alþingi. Það er ekki mjög flókið að vinna svona tillögu. Við höfum fyrirmyndir til að styðjast við frá Norðurlöndum. Við gætum því séð ný lög á þessu ári ef þingið vinnur hratt og ráðherrann hefur hraðar hendur,“ segir Siv og á við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra.

 

Hún bendir á að hlutfall neitunar af hálfu aðstandenda sé hærra hér en t.d. á Spáni. „Ein ástæðan er sú að þetta er erfið ákvörðun fyrir aðstandandann. Hann veit ekki hvað hinn látni vildi sjálfur. Aðstandendur hafa því oft lítið til að styðjast við. Ef við breytum lagaumhverfinu og gerum ráð fyrir ætluðu samþykki auðveldar það aðstandendum að segja já. Við höldum hins vegar að sjálfsögðu rétti þeirra til að segja nei,“ segir Siv.

 

Margir eiga því lífið að launa
Kjartan BirgissonKjartan Birgisson hjartaþegi skorar á þingið að styðja tillöguna.

„Við líffæraþegar vonumst eftir góðum undirtektum og að þetta gangi hratt fyrir sig. Sjálfur á ég líf mitt því að launa að fólk sé jákvætt gagnvart þessu. Við erum mörg sem værum ekki til frásagnar annars.“

 

Morgunblaðið þriðjudaginn 31. janúar 2012

 

 

http://www.althingi.is/altext/140/s/0730.html þingsályktunin um ætlað samþykki

http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVE9F90E0B-5541-487E-935E-B131D4837689

http://ruv.is/frett/allir-verdi-liffaeragjafar

Deila


Samspil bóta frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum

7.3.2012

Að gefnu tilefni er vakin athygli á að óþarft er að tilgreina sérstaklega í skattframtali bætur frá Tryggingastofnun sem hafa ekki áhrif á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum frá 1. janúar 2011. 

Eftirfarandi greiðslur frá Tryggingastofnun eru sérstaklega tilgreindar við staðgreiðsluskil: 

  • Sérstök uppbót til framfærslu (það sem vantar upp á lágmarksgreiðslur).
  • Dánarbætur
  • Uppbætur á lífeyri
  • Uppbætur vegna reksturs bifreiðar
  • Mæðra- og feðralaun
  • Maka- og umönnunarbætur

 Með þessum hætti er lífeyrissjóðum gert kleift að taka ekki ofangreindar greiðslur með sem tekjur lífeyrisþega. Þannig hafa þær ekki áhrif á lífeyrissjóðstekjur til lækkunar. 

Vinnulagi þessu var komið á í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun bóta og hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega, 3. des. 2010. Lesa um yfirlýsinguna á vef velferðarráðuneytisins (Opnast í nýjum vafraglugga).


Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband