Styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur og Hjartaheill kosta nýtt hjartaþræðingatæki

21.7.2008     http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2843   

Hjartatradingataki 

Frá vinstri: Jón Pálmason, fyrir hönd Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur, Guðmundur Bjarnason, formaður Hjartaheilla, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Linda B. Gunnlaugsdóttir frá A. Karlsson, og hjartalæknarnir Kristján Eyjólfsson og Þórarinn Guðnason.

 

Það eru Gjafa - og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur og Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, sem standa undir kostnaðinum við nýju tækin. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur leggur fram 75 milljónir króna til kaupa á hjartaþræðingartækinu. Þessi sjóður var stofnaður árið 2001 með 200 milljóna króna framlagi Jónínu í sjóð til að efla hjartalækningar á Landspítala.  Síðan hefur sjóðurinn stutt hjartalækningarnar ríkulega með fjárframlögum, þar á meðal vegna kaupa á seinna hjartaþræðingartækinu árið 2001. Framlög úr sjóðnum hafa verið ómetanleg við uppbyggingu hjartadeildarinnar. Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, eiga 25 ára afmæli á árinu og minnast tímamótanna meðal annars með því að styrkja kaup á hjartaþræðingartækinu og nauðsynlegum fylgibúnaði. Samtökin leggja fram 25 milljónir og ætla þar að auki að efna til landssöfnunar. Takmark Hjartaheilla er að safna 50 milljónum króna á afmælisárinu og rennur allt það fé sem safnast umfram áðurnefndar 25 milljónir einnig til hjartalækninga á Landspítala. 

Samningurinn um kaup á hjartaþræðingartækinu var undirritaður á hjartaþræðingardeildinni á Landspítala Hringbraut þar sem nýja hjartaþræðingarstofan verður líka. Viðstaddir voru meðal annarra Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla, Sveinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hjartaheilla og Jón Pálmason, sonur Jónínu S. Gísladóttur, en hann á sæti í stjórn sjóðsins sem við hana er kenndur. 

Hjartaþræðingartækið sjálft, sem nú er undirritaður kaupsamningur um er framleitt af bandaríska fyrirtækinu General Electric Healthcare og heitir Innova 2100 IQ en umboðsaðili GE og seljandi tækisins er fyrirtækið A. Karlsson ehf. Kaupverð tækisins er um 61 milljón króna án virðisaukaskatts.  Tækið er af nýjustu og fullkomnustu gerð og er búið stafrænum myndskynjara en með honum fást aukin myndgæði í hjartaþræðingarrannsóknum og hægt er að komast af með minni geislun á sjúklinga og starfsfólk. GE hefur langa reynslu af stafrænum myndskynjurum í röntgentækjum og hefur boðið upp á stafræn hjartaþræðingartæki um árabil.  Allur stjórnbúnaður tækisins og á þeim búnaði sem notaður er á hjartaþræðingastofunni verður sambyggður, sem einfaldar vinnuumhverfi starfsfólks við rannsóknirnar.  Fullkomin vinnustöð fyrir lækna fylgir með tækinu. Vinnustöðin er búin öllum nauðsynlegum hugbúnaði fyrir frekari skoðun, mælingar og úrvinnslu þeirra gagna sem tengjast hjartaþræðingum. 

Áætlaður heildarkostnaður við nýju hjartaþræðingarstofuna nemur um 140 milljónum króna en af þeirri upphæð greiðir Landspítali byggingarkostnað stofunnar sem er áætlaður um 40 milljónir króna. Stofan verður sambyggð núverandi tveimur hjartaþræðingarstofum á hjartaþræðingareiningu hjartadeildar Landspítala í byggingu W. Stofan er byggð inn í húsnæði sem verið hefur hluti af vörumóttöku spítalans. Eftir er að ganga frá kaupum á ýmsum tækjabúnaði sem þarf fyrir starfsemi stofunnar fyrir utan hjartaþræðingatækið en stefnt er að því að hægt verði að taka fyrsta sjúklinginn í hjartarannsókn á stofunni í fyrstu viku nóvember n.k. 

Þriðja hjartaþræðingartækið eflir enn starfsemi og afköst hjartadeildarinnar. en það hefur verið markviss stefna heilbrigðisráðherra og stjórnenda LSH og yfirmanna hjartadeildarinnar að draga úr biðtíma eftir hjartaþræðingum. Nú er staðan sú að:

  • Engin bið er eftir bráðahjartaþræðingum
  • meðalfjöldi hjartaþræðinga á mánuði hefur   aukist  úr 143 í 163 (jan-júní 2007 og      2008)
  • enginn sjúklingur hefur beðið lengur en þrjá mánuði eftir kransæðavíkkun
  • meðalbiðtími miðað við þessi auknu afköst er rúmur mánuður

 Að lokinni undirritun kynntu hlutaðeigandi sér hjartaþræðingatæki á LSH. 

 

( Undirstrikanir / innsett F.S.)

 

 

 


ESB freistar þess að auka rétt sjúklinga.

9.7.2008    http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2839   

Í júlíbyrjun samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögu sem miðar að því að auðvelda íbúum Evrópu að sækja læknisþjónustu til annarra landa innan sambandsins, auk orðsendingar um aukið samstarf aðildarríkjanna á þessu sviði.

 

Þrátt fyrir að nokkrir úrskurðir Evrópudómstólsins staðfesti að sáttmálinn um Evrópusambandið veiti einstaklingum rétt til þess að leita sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki og fá hana greidda í heimalandinu, er enn til staðar almenn óvissa um lagalegar forsendur þess að geta nýtt sér þennan rétt. Með tillögunni vill framkvæmdastjórnin skapa lagaleg skilyrði fyrir þessum rétti.

 

Framkvæmdastjórnin er með tillögunni að bregðast við ákalli Evrópuþingsins og Ráðherraráðins um að koma með tillögu um hvernig hægt væri að koma á heilbrigðisþjónustu yfir landamæri aðildarríkjanna sem tæki tillit til sérstöðu heilbrigðisgeirans. Ennfremur er tilskipunartillögunni ætlað að verða grundvöllur fyrir því að leysa úr læðingi þá miklu möguleika sem talið er evrópsk samvinna geti skilað í þeirri viðleitni að auka skilvirkni og árangur í heilbrigðiskerfum aðildarríkjanna.

 Ávinningur

Verði tilskipunin samþykkt af Ráðherraráðinu og Evrópuþinginu mun hún skapa ramma fyrir heilbrigðisþjónustu yfir landmæri á öllu EES-svæðinu. Framkvæmdastjórnin gerir ráð fyrir margvíslegum ávinningi og hefur hún sérstaklega tilgreint eftirtalda þætti:

  •  Sjúklingar munu öðlast rétt til þess að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum Evrópusambandsins og fá hana greidda í heimalandinu að því marki er sambærileg aðgerð kostar þar.
  • Aðildarríkin eru ábyrg fyrir þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er á landssvæði hvers um sig og verða að sjá til þess að hún uppfylli tilgreindar gæða- og öryggiskröfur.
  • Tilskipunin mun auðvelda samstarf Evrópuríkja á sviði heilbrigðismála. Hún mun stuðla m.a. að myndun tengslaneta og samvinnu um hagnýtingu hátækni í heilbrigðisþjónustunni og meðhöndlun sjaldgæfra sjúkdóma.
  • Sameiginlegar úttektir og mat á heilbrigðistækni munu skila ákveðnum virðisauka fyrir þátttökulöndin. Um er að ræða aðgerðir er draga væntanlega úr skörun og endurtekningum á ýmsum sviðum og stuðla þannig að betri nýtingu tækja og fjármuna.
  • Rafrænni heilbrigðisþjónustu (eHealth) verður gert hærra undir höfði en verið hefur fram til þessa. Nútíma samskipta- og upplýsingatækni mun áreiðanlega skila sér í auknum gæðum, öryggi og afköstum heilbrigðisþjónustunnar.
  Mat

Sú meginregla að “leyfa borgurunum að velja þann stað þar sem þeir leita sér lækninga” eins og gert er í tillögu framkvæmdastjórnarinnar, er að mati sérfræðinga bæði rausnarleg og flestum áreiðanlega að skapi. Texti tillögunnar þar sem þessi regla er útfærð er hins vegar flókinn og gefur takmarkaða leiðsögn um framkvæmd hennar. Jafnframt er ljóst að áfram verða vissar takmarkanir fyrir því að sækja heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og á það einkum við mjög sérhæfða og dýra sjúkrahúsþjónustu. Er þá gert ráð fyrir að leyfi þurfi fyrirfram fyrir tilgreindum aðgerðum áður en þær eru framkvæmdar utan heimalands viðkomandi sjúklings. Samt sem áður er greinilegt að réttindum sjúklinga er almennt gert hærra undir höfði en verið hefur fram að þessu í ríkjum Evrópusambandsins.

 

Þess ber að geta að heilbrigðisþjónusta var á sínum tíma undanskilin frá Tilskipun 2006/123/EC um þjónustu á innri markaði ESB. Bæði Ráðherraráðið og Evrópuþingið fólu framkvæmdastjórninni að fjalla um málið og koma með tillögur um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu á innri markaði ESB. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar verður nú til umræðu og meðhöndlunar í Ráðherraráðinu og Evrópuþinginu. Fastlega má gera ráð fyrir því að endanleg tilskipun um heilbrigðisþjónustu líti ekki dagsins ljós fyrr en eftir 2-3 ár. Kemur þar einkum til að nokkrir þættir málsins eru umdeildir og á næsta ári verður auk þess kosið til Evrópuþingsins. Það getur orðið til þess að meðferð einstakra mála getur dregist á langinn. Fyrst þegar Ráðherraráðið og Evrópuþingið hafa samþykkt tilskipunina þá hefst umfjöllun um hana á vettvangi EFTA. Þannig að hún tekur vart gildi á öllu Evrópska Efnahagssvæðinu fyrr en eftir 3 - 4 ár.

 

(Tekið af  Brusselsetri heilbrigðisráðuneytisins)

( Innsett F.S. )   


Stefna í málefnum aldraðra til næstu ára

27.6.2008      http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3862  

Frá áramótum hefur félags- og tryggingamálaráðherra farið með yfirstjórn öldrunarmála. Í því felst að annast stefnumótun og áætlanagerð fyrir landið í heild og beita sér fyrir almennri umræðu og kynningu á stöðu og valkostum aldraðra. Stefnumótun liggur nú fyrir.

Ráðgjafarhópur sem félags- og tryggingamálaráðherra fól að gera tillögur um helstu áherslur sem leggja bæri til grundvallar við mótun stefnu í málefnum aldraðra til næstu ára hefur skilað tillögum sínum. Þar eru grundvallaráherslurnar skýr réttindi, fjölbreytt úrræði, valfrelsi og einstaklingsmiðuð þjónusta.

Tillögurnar voru fengnar samstarfsnefnd um málefni aldraðra til umsagnar og tekur samstarfsnefndin undir tillögur ráðgjafarhópsins og þau markmið sem búa þar að baki og lúta að bættri þjónustu og aukinni uppbyggingu í þágu aldraðra.

Í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá maí 2007 og tillagna ráðgjafarhópsins og vinnu sem fram hefur farið í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að undanförnu hefur félags- og tryggingamálaráðherra sett fram eftirfarandi áhersluatriði sem unnið verður að á næstu misserum:

  • Aldraðir fái viðeigandi stuðning og einstaklingsmiðaða þjónustu til að geta dvalið sem lengst á eigin heimili.
  • Aldraðir og aðstandendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi og þjónustu.
  • Almannatryggingakerfið verði einfaldað og réttindi aldraðra verði betur skilgreind.
  • Réttur aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfsforræðis verði virtur.
  • Öldruðum standi til boða fjölbreytt val búsetuforma.
  • Dagvistar-, hvíldar- og skammtímarýmum verði fjölgað.
  • Gæðaviðmið um þjónustu við aldraða verði sett.
  • Eftirlit með þjónustu við aldraða verði aukið og bætt.
  • Nýjar áherslur verði teknar upp við uppbyggingu hjúkrunarheimila og endurbætur á eldra húsnæði.
  • Greiðsluþátttöku aldraðra í hjúkrunar- og dvalarrýmum verði breytt þannig að aldraðir haldi fjárhagslegu sjálfstæði og greiðslur vasapeninga lagðar af.
  • Hjúkrunarrýmum verði fjölgað til að mæta þörf.
  • Fjölbýlum á hjúkrunarheimilum verði útrýmt að mestu leyti.
  • Tryggt verði að öldrunarþjónustan hafi ávallt á að skipa hæfu og metnaðarfullu starfsfólki.
  • Heildarábyrgð á þjónustu við aldraða verði færð til sveitarfélaga eigi síðar en á árinu 2012.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur undanfarna mánuði verið unnið að gerð tímasettrar áætlunar um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og verulegri fækkun fjölbýla. Áætlunin verður kynnt innan tíðar. 

Tillögur ráðgjafarhóps til félags- og tryggingamálaráðherra um stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára (PDF, 627KB)

Umsögn samstarfsnefndar um málefni aldraðra um tillögur hópsins (PDF, 967KB) 

 

(  Öll verðum við gömul og stór hluti virkra félagsmanna Vífils eru jafnframt eldri borgarar.  Því fannst mér ástæða til að benda á þessa fréttatilkynningu Félagsmálaráðuneytisins.  Ég mæli með því að allir kynni sér plöggin tvo sem nefnd eru í fréttinni, og eru linkar inn á plöggin hér ofar.   Hvort sem við erum sammála því sem er verið að stefna að þá er alltaf betra fylgjast með stefnum og straumum, og jafnvel að senda bréf og benda á sínar hugmindir.                              Innsett+eftirmálu  F.S.  )


Fjölgun leiguíbúða

27.6.2008    http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3863  

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um að veita 5 milljarða króna lánsfjárheimild til Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða. Ákvörðunin er tekin á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði frá 19. júní síðastliðnum. Heimildin nær til leiguíbúðalána á almennum markaði vegna söluíbúða sem ekki seljast. Leiguíbúðalán verða veitt aðilum í þeim sveitarfélögum þar sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði er fyrir hendi.

Lánað verður til íbúða sem hafa náð að minnsta kosti fokheldisstigi 1. júlí 2008. Til að takmarka útlánaáhættu Íbúðalánasjóðs vegna lánanna verða ekki veitt lán til íbúða í sveitarfélögum þar sem leiguíbúðir fjármagnaðar af Íbúðalánasjóði standa auðar. Uppfylli íbúðirnar þessi skilyrði getur Íbúðalánasjóður veitt lánsvilyrði en lánin greiðast út þegar íbúðirnar eru fullbúnar og þinglýstur leigusamningur til eins árs liggur fyrir.

Félags- og tryggingamálaráðherra mun óska eftir því við stjórn Íbúðalánasjóðs að sjóðurinn hefji lánveitingar í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar

( Innsett F.S. )


Ráðgjafahópur skipaður um bólusetningar og skimanir vegna smitsjúkdóma og krabbameina

23.6.2008          http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2824    

Heilbrigðisráðherra hefur skipað ráðgjafahóp um bólusetningar og skimanir vegna smitsjúkdóma og krabbameina. 

Tilgangur vinnu ráðgjafahópsins er að fara yfir og meta forvarnir á borð við bólusetningar og skimanir í tengslum við nýja heilsustefnu. Hópurinn skal eins og kostur er leitast við að leggja mat á kostnaðarhagkvæmni bólusetninga og skimana fyrir lýðheilsu Íslendinga almennt og skilgreina betur hvernig best sé að standa að málum. Hópurinn var skipaður þann 18. júní 2008 og skal skila tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. október 2008. 

Ráðgjafahópurinn er þannig skipaður: 

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, formaður
Ásgeir Theódórs, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum
Kristján Sigurðsson, yfirlæknir leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands
Sigurður B. Þorsteinsson, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri, heilbrigðisráðuneytinu
Tinna Ásgeirsdóttir, lektor í heilsuhagfræði við viðskipta- og hagfræðideild H.Í.
Vilhjálmur Rafnsson, prófessor í heilbrigðisfræði og fyrirbyggjandi læknisfræði við læknadeild H.Í.
Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á bólusetningasviði hjá sóttvarnalækni.
 

( Innsett  F.S. )


Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband