Áskorun aðalfundar ÖBÍ 23. október 2010

 

ÁSKORUN TIL RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn í Reykjavík 23. október 2010, fer eindregið þess á leit við ríkisstjórn Íslands að sparnaður á sviði heilbrigðismála undanfarin tvö ár verði tekinn til endurskoðunar.

Sterkar vísbendingar eru til um að nokkrar þessara sparnaðaraðgerða muni ekki skila tilætluðum árangri heldur aðeins rýra lífsgæði sjúklinga og öryrkja. Ríkur skilningur er á, að nú um stund, þurfi að gæta aðhalds í útgjöldum til heilbrigðismála. Krafa okkar er þó sú að samfélagslegur ávinningur sé meiri en kostnaður.

Fundurinn leggur áherslu á að þessi endurskoðun hefjist eins fljótt og auðið er og henni verði lokið eigi síðar en 3. janúar 2011.

 

(Áskorun þessi var borin fram af SÍBS og hafði deginum áður verið samþikkt á þingi SÍBS.       Undirstrikanir og leturbreytingar  eru mínar.     Innsett FS  )

 


OPIÐ HÚS SÍBS "Töfralyfið hreyfing"

 

Mánudaginn 25. október n.k. verður að venju opið hús í SÍBS húsinu, Síðumúla 6.

 

Gígja Gunnarsdóttir, íþróttafræðingur BSc, MPH, verkefnastjóri hreyfingar hjá Lýðheilsustöð fjallar um gildi hreyfingar.

Heiti fyrirlestursins er: ,,Töfralyfið hreyfing".  

 

Fyrirlesturinn hefst kl. 16.15.

 

Allir velkomnir.

 innsett FS

 

 

 


Endalok velferðarkerfisins?


Af: http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/624

 12.10.2010

 Öryrkjar hafa fengið meira en nóg! Staða örorkulífeyrisþega hefur versnað til muna í kreppunni segir m.a. í grein formanns ÖBÍ og framkvæmdastjóra ÖBÍ sem birtist í Morgunblaðinu 11. október.

 

Öryrkjar hafa fengið meira en nóg!

 Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er mikið reiðarslag fyrir fjölda öryrkja og ellilífeyrisþega, en þar er gert ráð fyrir enn meiri skerðingum en orðið er. Slík aðgerð er ekki í anda þeirrar ríkisstjórnar sem kjörin var í síðustu kosningum með fyrirheit um að verja velferðarkerfið. Þau loforð hafa engan veginn staðist.

Staða örorkulífeyrisþega hefur versnað til muna í kreppunni. Frá því í janúar 2009 hafa umtalsverðar tekjuskerðingar átt sér stað í almannatryggingakerfinu. Breytingar hafa verið gerðar á lögum og reglugerðum ásamt túlkun og framkvæmd þeirra, sem hafa komið illa niður á öryrkjum og sjúklingum. Mörg mál sem koma inn á borð ráðgjafa Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) eru mjög erfið viðureignar, því kerfið er mun flóknara en áður og fólk nær ekki að framfleyta sér á lágum bótum, á sama tíma og útgjöld hafa aukist í heilbrigðiskerfinu. Fólk talar um verulega skert lífsgæði og vanlíðan sem þessu fylgir.

Svo virðist sem öryrkjar séu sá hópur sem eigi að rétta af gjaldþrot þjóðarbúsins, á sama tíma og milljarðar eru afskrifaðir í íslenska bankakerfinu, hjá ráðamönnum og öðrum tengdum aðilum, er njóta forgangs í íslensku samfélagi.

 

Lífsnauðsynleg leiðrétting

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum leiðréttingum á greiðslum almannatrygginga um næstu áramót annað árið í röð. Um lífsviðurværi fólks er að ræða sem þarf að treysta á velferðarkerfið vegna örorku eða langvarandi veikinda. Mikil vonbrigði eru fólgin í því að stjórnvöld brjóti lög sem sett voru til að lífeyrir fylgdi verðlagi.

ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld hækki bætur almannatrygginga um að lágmarki 18-20% en með því væri lögum framfylgt. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað frá 1. janúar 2009, þegar þær hækkuðu hjá flestum um tæplega 10% en hefðu átt að hækka um nær 20%. Þann 1. janúar sl. voru bætur frystar og í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir neinum leiðréttingum á kjörum öryrkja þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 28% frá því í janúar 2008 til ágúst 2010. Því er alveg ljóst að kjör öryrkja eru langt undir fátæktarmörkum sé miðað við skilgreiningu á hugtakinu fátækt innan Evrópusambandsins.

 

Skerðingar á bótaflokkum

Greiðslur sem lífeyrisþegar fá úr almannatryggingakerfinu eru 153.400 kr. fyrir skatt fyrir þá sem búa með öðrum og 180.000 kr. fyrir þá sem búa einir. Eins og gefur að skilja, þá duga slíkar bætur engan veginn í þeirri kreppu sem nú ríkir. Hluti af þessum greiðslum er bótaflokkur sem heitir „sérstök uppbót til framfærslu" sem er án frítekjumarks þannig að aðrar bætur skerða bótaflokkinn krónu á móti krónu. Jafnvel þeir öryrkjar sem fá bensínstyrk vegna hreyfihömlunar lenda í slíkum skerðingum. Ein undantekning er þó á þessari reglu, sem tók gildi 1. júlí sl., eftir mikinn þrýsting frá ÖBÍ, en það er sérstök uppbót vegna mikils lyfja- og lækniskostnaðar. Nauðsynlegt er að undanskilja fleiri bótaflokka sem fólk fær vegna mikils kostnaðar sem hlýst af fötlun eða sjúkdómum. ÖBÍ hefur margsinnis bent á nauðsyn þess að breyta skerðingarákvæðum bótaflokksins sem var komið á rétt fyrir bankahrun en hann heldur fólki í viðjum fátæktar.

 

Óréttlátar tekjutengingar

Vert er að minnast þess mikla áfalls þegar lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum tóku gildi þann 1. júlí 2009. Lögin höfðu víðtækar afleiðingar í för með sér fyrir fjölda öryrkja og ellilífeyrisþega sem urðu fyrir talsverðum skerðingum á bótum almannatrygginga með aðeins tveggja daga fyrirvara. Tekjutengingar jukust þannig að bætur skertust meira og fyrr en áður. Nýmæli tóku einnig gildi þegar lífeyrissjóðstekjur tóku að skerða „grunnlífeyri" og einnig bótaflokkinn „aldurstengd örorkuuppbót". Breytingin leiddi til þess að margt fólk missti ákveðin réttindi sem þeim bótaflokkum fylgdu s.s. niðurgreiðslu á sjúkraþjálfun, tannlæknakostnaði, iðjuþjálfun o.fl. ÖBÍ mótmælti harðlega þessum aðgerðum en stór hópur lífeyrisþega varð fyrir skerðingum, sem í sumum tilvikum voru hlutfallslega hærri en hátekjuskatturinn sem síðar var lagður á launþega með yfir 700.000 kr. í tekjur á mánuði.

 

Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga

Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur einnig komið niður á öryrkjum og sjúklingum. Sem dæmi þá var reglum um kostnaðarþátttöku sjúklinga í sjúkra-, iðju- og talþjálfun breytt 1. október 2009, sem jók kostnað sjúklinga enn frekar. Jafnframt eru dæmi þess að fólk geti ekki keypt nauðsynleg hjálpartæki, þar sem kostnaðarhlutdeild sjúklinga miðast við ákveðna prósentu af kaupverði sem hefur hækkað verulega vegna gengishrunsins. Í sumum tilvikum greiðir Tryggingastofnun ríkisins ákveðna upphæð í hjálpartækjum, sem hefur ekki breyst þrátt fyrir miklar verðhækkanir og eru heyrnartæki dæmi um slíkt. Hækkunin lendir á þeim sem þurfa að nota tækin.

 

Skerðingar lífeyrissjóðanna

Til viðbótar við þær skerðingar sem stjórnvöld hafa komið á hafa öryrkjar og ellilífeyrisþegar orðið fyrir skerðingum hjá mörgum lífeyrissjóðum í kjölfar kreppunnar sem eru á bilinu 7-19%. Þessu til viðbótar hafa margir lífeyrissjóðir skert bætur öryrkja sérstaklega frá árinu 2006 þrátt fyrir hörð mótmæli ÖBÍ. Þeir lífeyrissjóðir sem um ræðir tóku mið af greiðslum almannatrygginga við útreikning bóta sem hefur leitt til þess að þær hafa lækkað umtalsvert. Lægri lífeyrissjóðsgreiðslur geta leitt til þess að fólk fái hærri greiðslur úr almannatryggingakerfinu, en einungis að litlum hluta, sem síðar leiðir til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur skerðast enn frekar. Víxlverkunin hefur leitt til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur hafa fallið niður hjá mörgum. Skerðingin hefur bitnað mest á þeim öryrkjum sem hafa lægstu tekjurnar og hefur að auki haft aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Til að sporna við þessu rak ÖBÍ prófmál gegn lífeyrissjóðnum Gildi. Málið fór fyrir Héraðsdóm og vannst sigur í málinu. Gildi áfrýjaði til Hæstaréttar sem úrskurðaði lífeyrissjóðnum í vil. Það voru mikil vonbrigði, enda varðar þessi niðurstaða fjölda öryrkja sem bíða eftir því að fá leiðréttingu sinna mála. ÖBÍ hefur ákveðið að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu og hefur umsókn verið send með ósk um að málið verði tekið fyrir. ÖBÍ hefur ítrekað bent stjórnvöldum á það óréttlæti sem í þessu felst og á erfitt með að skilja ástæðu þess að ekki sé búið að setja lög sem kveða á um ólögmæti slíkra skerðinga. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir kemur fram að ráðgert er að samkomulag náist við lífeyrissjóðina um að þeir líti ekki til bóta almannatrygginga við samanburð á tekjum öryrkja. Reynslan sýnir að taka beri slíkar yfirlýsingar með fyrirvara.

 

Erfið staða öryrkja

Eins og gefur að skilja eru mál þeirra sem leita til ráðgjafa ÖBÍ mun erfiðari nú en áður. Öryrkjar, sem margir hverjir bjuggu við kröpp kjör í góðærinu, eiga ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum þegar föst gjöld eins og lán og/eða húsaleiga hefur verið greidd. Greinilegt er að stjórnvöld skortir heildarsýn og skilning á aðstæðum öryrkja.

ÖBÍ fer fram á það við stjórnvöld að breytingar verði tafarlaust gerðar á fjárlagafrumvarpinu til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið. Slíkar skerðingar á kjörum fólks koma alltaf verst niður á þeim sem síst skyldi. Það er mikil áhætta fólgin í því að hópur fólks lifi við sára fátækt sökum fötlunar eða heilsubrests. Slíkur ráðahagur getur leitt til samfélagslegs tjóns sem verður ekki bætt. Það má öllum vera ljóst að ekki hefur verið staðið vörð um kjör öryrkja á þessum erfiðu tímum. Það er spurning hvort endalok íslenska verferðarkerfisins séu runnin upp.

 

7. október 2010

 Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ.

 Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ.

 innsett FS

 


List án landamæra 2011.

 

Vilt ÞÚ vera með?

 24.9.2010

Undirbúningur er nú hafin fyrir List án landamæra 2011.

 

Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt eru hvattir til að tilkynna sig sem fyrst.

 

Hátíðin verður haldin frá lok apríl fram til miðs maí 2011.

 

Allar nánári upplýsingar á heimasíðu Listar án landamæra

 

Einnig má hafa samband við Margrét M. Norðdahl starfsmann Listar án landamæra í síma: 691-8756

innsett FS


Grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu

 

Af.  http://www.ruv.is/frettaskyringar/innlendar-frettir/grundvallarbreytingar-a-heilbrigdiskerfinu

 

12.10.2010

 

 

Bergljót Baldursdóttir | bergljotb@ruv.is

 

Grundvallarbreytingar verða á heilbrigðiskerfinu hér á landi ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar um niðurskurð ná fram að ganga. Formaður Læknafélags Íslands segir þó að læknar séu ekki alfarið á móti breytingunum.

 

Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að draga úr sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, en í staðinn efla heilsugæsluna og sjúkraflug. Ef af verður er um að ræða annars konar heilbrigðisþjónustu en Íslendingar hafa átt að venjast undanfarin ár. Niðurskurðinum var harðlega mótmælt um allt land í vikunni. Haldnir voru borgarafundir á Ísafirði, Húsavík, í Keflavík, Vestmannaeyjum og víðar.

 

Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja: Þetta myndi væntanlega þýða þá að fæðingarþjónusta legðist af sem er þó búin að vera í sérhæfðu húsnæði síðan 1850. Skurðstofa legðist af sem að þó er búin að vera hér síðan 1930. Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja: Þetta þýðir náttúrulega í stuttu máli að sjúkrahúsþjónustan leggst meira og minna af hjá okkur. Hörður Högnason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: Þó að við segðum upp öllum læknum og hjúkrunarfræðingum stofnunarinnar að þá myndum við ekki ná upp í það sem við eigum að spara. Guðrún Árný Guðmundsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga: Þetta er mjög stór biti og fyrir bæði okkur hérna starfsmennina og starfsmannahópinn og fyrir samfélagið allt. Þú sérð það að það eru 70 manns sem fara og þá fara líka makar með. Hafsteinn Sæmundsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks: Ef að þetta er niðurstaða mála að fækka hér verulega það er að minnsta kosti þriðjung starfsmanna eða allt að 40 störfum. Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands: Hvernig felst hagur í því að flytja þessi rúm frá okkur og ætla að flytja sjúklinga til þess að gera einfaldar þarfir inn á Landspítalann eða inn á Akureyri þar sem eðlilega er miklu dýrari þjónusta, hátækniþjónusta.

 

Heilsugæslan
Gert er ráð fyrir að sjúkrarýmum á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni verði fækkað um 91 þannig að þau verði 235 í stað 326. 90 milljónir á að setja í sjúkraflutninga og 480 milljónir verða settar í að efla heilsugæsluna.

 

Halldór Jónsson, formaður Félags íslenskra heilsugæslulækna: "Auðvitað er það hérna umtalsverð upphæð, en spurningin er bara hvernig hún er notuð og heilsugæslan að minnsta kosti á Stór- Reykjavíkursvæðinu og heilbrigðisþjónustan verulega á landsbyggðinni semsagt um allt land sat í annað hvort stóð í stað eða í niðurskurði allt góðærið svokallaða og og hérna ég hef oft lýst því þannig að þegar að hrunið varð að þá tóku menn þetta sem þeir voru eins og heilsugæslan í Reykjavík búin að spara og spara og spara, þeir tóku átröskunarsjúklinginn og sögðu honum að fara í megrun."

 

Hátt í 20 heilsugæslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu. Það stendur til að fækka þeim og stækka þær og ef af verður þá gæti þessi heilsugæslustöð orðið hluti af annarri stærri. Menn velta fyrir sér hvort heilsugæslan sé í stakk búin til að taka við því viðbótarálagi sem boðað er.

 

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra: "Ég held það sé nú ekki rétt að setja það þannig upp að það verði viðbótarálag. Aftur á móti er verið að reyna að styrkja heilsugæsluna sem fyrstu móttökustöð og í þessari lotu á meðan að við erum í hörðum niðurskurði þá felst það í að verja hana fyrir niðurskurðinum. Það er ekki mikið bætt í það er alveg hárrétt."

 

Skortur á læknum um allt land
Læknaskorturinn getur haft afdrifarík áhrif á hvað verður úr niðurskurðarhugmyndum því ekki er bara skortur á læknum í heilsugæslunni heldur líka í mörgum sérgreinum. Martin Grabowski er sjálfstætt starfandi taugalæknir í hálfu starfi á taugadeild Landspítalans. Hann segir að taugalæknum hafi fækkað um fjóra um á rúmu ári. Þeir voru 15 en eru nú 11.

 

Martin Grabowski, taugalæknir: "Við erum tveir taugalæknar sem vinna hér á Læknasetrinu.  Það er svona tveggja þriggja mánaða bið að komast til okkar og biðin hefur lengst síðustu eitt til tvö árin. Það sem gerist hér gerist náttúrulega svo skyndilega. Það finnst mér allavega sem utanaðkomandi að skipulagninguna vanti. Allt gerist mjög hratt og það er mikil óvissa og það er skipulagningin og planið sem vantar."

 

48 læknar útskrifast á hverju ári úr Háskóla Íslands. Flestir þeirra fara til útlanda í sérnám. Undanfarin tvö ár hefur enginn þeirra skilað sér heim og þeir sem voru á leiðinni heim fyrir hrun hættu við að koma.

 

Guðbjartur Hannesson: "Og við þurfum að sjálfsögðu að mæta þessu. Það er grafalvarlegt ef við getum ekki fengið lækna til starfa þannig að ég get ekki svarað því nákvæmlega hvernig er hægt að gera það, en við verðum að fara yfir það með meðal annars læknum og öðrum."

 

Eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum
Til stendur að minnka sjúkrahúsþjónustuna úti á landsbyggðinni og færa sumar aðgerðir inn á stærri sjúkrastofnanir. Árið 1993 kom út skýrsla þar sem fram komu svipaðar hugmyndir. Mikil andstaða við þær varð til þess að ekkert varð af þeim.

 

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands: "Það að hlutirnir færist yfir á meira þróaða staði er eðlileg þróun í læknisfræði. 21. öldin í læknisfræði er allt öðruvísi heldur en mið 20. öldin." Bergljót Baldursdóttir: "Þannig að þú eða þið í Læknafélaginu, Læknafélaginu eru ekkert alfarið á móti þessari þróun að skera niður á landsbyggðinni og færa yfir á stærri sjúkrahúsin?" Birna Jónsdóttir: "Það er eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum heldur en þær voru fyrir 40 árum. Það er ekkert við það að athuga."

 

Skoða þarf hvar er hagkvæmast að gera aðgerðir
Birna segir að ekki hafi verið haft samráð við fagfélög í heilbrigðisþjónustunni. Ekki sé heldur búið að greina hvar sé hagkvæmast að gera hverja aðgerð.

 

Bergljót: "Skiptir ekki máli að það verði ákveðin kostnaðargreining á því hvað er hagkvæmast á hverjum stað áður en að ákveðið er að skera niður eins og búið er að gera í rauninni?" Guðbjartur Hannesson: "Jú það er auðvitað búið að skoða þetta ítrekað þó að það megi alltaf gera miklu betur. En í sambandi við kostnaðargreiningu ég skal viðurkenna það að hún er ekki mjög ítarleg í kerfinu í heild þó að mikið hafi verið unnið og þá er þetta einmitt spurningin um það ef þú ert að gera fáar aðgerðir á einhverjum einum stað, en heldur úti sólarhringsvakt meira og minna allt árið þá kostar það býsna mikið."

 

Aðgengi að sjúkrahúsþjónustu gæti versnað
Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur, segir að breytingar af þessu tagi þurfi mikinn undirbúning og ætti að gera í samráði við fagfólk í heilbrigðisþjónustunni. Hætta er á því að aðgengi að sjúkrahúsþjónustu á Íslandi muni versna.

 

Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur: "Ég hef áhyggjur af því að að sókn í hana muni hugsanlega minnka og aðgengi að henni versna þegar að vegalengdir á þjónustustað aukast. Það eru til almennar viðmiðanir erlendis frá um að æskilegt sé að að ferð á þjónustustaði sjúkrahúsa sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu séu ekki nema svona hálftími eða minna. Við erum að fjölga því fólki sem fer lengri vegalengdir á sjúkrahúsin eftir sérfræðiþjónustu og þegar um er að ræða almennari sérfræðiþjónustu þá hef ég áhyggjur af því að þarna geti verið kominn upp aðgengisvandamál."

 

Ef niðurskurðarhugmyndirnar verða að veruleika verður Landspítalinn hér og sjúkrahúsið á Akureyri sérhæfð sjúkrahús sem taka við sjúklingum af öllu landinu. Það sem hins vegar getur sett strik í reikninginn er læknaskorturinn og andstaðan við hugmyndirnar.

innsett FS

 

 


Ályktun Aðalstjórnar ÖBÍ um tillögur félags- og tryggingamálaráðherra um niðurskurð í félagslega kerfinu.

 

 

Fyrirhuguðum niðurskurði mótmælt harðlega

http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/568

 18.5.2010

 

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ samþykkti samhljóða harðorða ályktun um tillögur félags- og tryggingamálaráðherra um niðurskurð í félagslega kerfinu.

Ályktun aðalstjórnar ÖBI þriðjudaginn 18. maí 2010

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir harðlega að enn á ný skuli þessi ríkisstjórn sem kennir sig við „velferð" ráðast að félagslega kerfinu með því offorsi sem félags- og tryggingamálaráðherra boðaði síðastliðinn föstudag 14. maí. Kominn er tími til að leggja af verðmætamat frjálshyggjunnar.

Allt frá janúar 2009 hafa lífeyrisþegar orðið að bera hlutfallslega mestar byrðar vegna bankahrunsins, þar sem óprúttnir fjárglæframenn mökuðu krókinn á kostnað skattborgaranna. Allt síðastliðið ár dundu skerðingar á örorku- og ellilífeyrisþegum í formi skerðinga á lífeyri eða auknum lyfjakostnaði og hækkun komugjalda.

Það er skýlaus krafa Öryrkjabandalags Íslands að ríkisstjórnin láti af þeirri aðför sem hún hefur stundað gegn lífeyrisþegum og láglaunafólki, en fari að forgangsraða að nýju með félagsleg gildi í fyrirrúmi.

 

innsett F.S.


Guðmundur Magnússon: Er ekkert að marka ráðherra?

 

Fréttablaðið, 19. maí. 2010 06:00

 

 

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ.

 

Þegar ráðist var á öryrkja og aldraða um mitt ár í fyrra fullyrti félags- og tryggingamálaráðherra að „...það væri betra að fá skellinn strax heldur en smátt og smátt". Það er ekki liðið árið þegar sami ráðherra kemur í fjölmiðla og lýsir því yfir að nú standi til að draga enn frekar úr velferðarkerfinu: "...að spara þar um 6% og fækka störfum" sem að sjálfsöðu þýðir minni þjónusta við einmitt þá er verst eru settir, þá sem erfiðast eiga með breytingar, sem eru viðkvæmastir í þjónustu o.s.frv.!

 

Árni Páll Árnason. Það er ekki nóg að tala fjálglega á fundum og lofa bættri þjónustu, tryggja öllum mannréttindi og heita því að allir fái að sitja við sama borð, hvað þjónustu varðar. Nú er, svo notaður sé orðaforði íþróttafréttamanna: rétt að þú takir þér tak og gyrðir í brók, látir hendur standa fram úr ermum og raunverulega VERJIR VELFERÐARKERFIÐ!!! Eins og þessi stjórn lofaði og hefur marg oft stagast á að hún vilji gera.

 

Um síðustu helgi var haldið málþing í þjóðfundarstíl um fátækt á íslandi að frumkvæði European Anti Poverty Network (EAPN) og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Um sama leyti kemur út skýrsla Rauða kross Íslands, „Hvar þrengir að?", en þar kennir ýmissa grasa. Þeir hópar sem verst standa eru: atvinnuleitendur með litla menntun, barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar með lágar tekjur, innflytjendur sem tala litla íslensku, öryrkjar sem eru með börn á framfæri og börn og unglingar sem skortir tækifæri, t.d. vegna fátæktar, bakgrunns og/eða stöðu forsjáraðila.

 

Lífeyrisþegar sem aldrei hafa haft mikið hafa verið skertir markvisst síðan janúar 2009 bæði í almannatryggingakerfinu sem og hjá lífeyrissjóðunum sem hafa gengið hvað harðast að láglaunafólki sem vegna veikinda eða fötlunar á rétt á greiðslum úr lífeyrissjóðum sem það hefur greitt í allan sinn vinnutíma. En með „hókus pókus" reglum hafa lífeyrissjóðirnir komist upp með að láta almannatryggingakerfið greiða sjóðunum milljarð á ári sem niðurgreiðsla, án þess að bótaþegar fái það í sinn vasa.

 

Nei, nú er komið nóg! Fyrir rúmu ári var svo kölluð búsáhaldabylting, en nú er komið að hækju- og hjólastólabyltingunni:

 

„Öryrkjar allra landa sameinist." Það er ófært að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð sjái engin önnur úrræði en ráðast á þá er erfiðast hafa það fyrir, hvort sem þeir kallast öryrkjar, atvinnuleitendur eða láglaunafólk.

 Innsett F.S.

 

 

 

 

 

 


Eigi skal aftur höggva.........

 

Er ekki komið nóg af álögum á lífeyrisþega og niðurskurði tryggingabóta og þjónustu við þá.?

Ísland er búið að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna um þjónustu við fatlaða, og það kostar peninga að laga þjónustuna að því sem þar er ætlast til.

Ljóst er að stórir hópar fatlaðra eru nú að fá minni og lakari þjónustu heldur en núgildandi lög gera ráð fyrir.    Það kostar peninga að bæta úr því.

Boðaður niðurskurður veldur því að sjúkir og fatlaðir fá ekki lögbundna þjónustu.

Biðlistar eftir lífsnauðsinlegri heilbrigðisþjónustu eru að lengjast,  líf fjölda manns er í hættu vegna þess.

Þetta er ekki ástand sem er hægt að sætta sig við.

Svo er verið að reyna að plata sveitafélögin til að taka yfir þjónustu við fatlaða !

Í mínum huga er þetta orðið spurning um að virða rétt fólks til mannsæmandi lífs og almennilegrar heilbrigðisþjónustu.  

Ísland er að fjarlægjast öll slík markmið og viðmið með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og það er ekki ásættanlegt.

 

F.S.

 

 

 


mbl.is Árás stjórnvalda á félagslega kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hafa þarf samráð fyrir niðurskurð" segir Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Landsambands fatlaðra

 

Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Landsambands fatlaðra segir að það skipti máli hvernig skorið er niður. Mikilvægt sé að haft sé samráð við samtök fatlaðs fólks ef skera á niður þjónustu við fatlaða.

 

Félagsmálaráðherra sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að óhjákvæmilegt væri að fækka starfsmönnum í velferðarkerfinu til að ná fram þeirri 40 milljarða króna hagræðingu í ríkisrekstri sem nauðsynleg er.  Störfum muni meðal annars fækka í heilbrigðisþjónustu, skólum sem og þjónustu við fatlaða og aldraða. 

 

Ragnar segir að það skipti öllu máli hvernig skorið er niður. Hafa þurfi samráð við samtök fatlaðs fólks.  Einnig verði að hafa í huga að margt af því sem kallað sé þjónusta við fatlað fólk sé grunnþjónusta sem gerir fötluðu fólki kleift að vera þátttakendur í samfélaginu.

 

Ragnar segir að sum þjónusta sé þess eðlis að ekki sé hægt að skera hana niður. Ríkisstjórnin hafi samþykkt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðannna um réttindi fatlaðs fólks. Það feli í sér að gera þurfi lagabreytingar og leggja þessa fullgildingu fyrir Alþingi. Á sama tíma ætli menn að skera niður. Erfitt sé fyrir stjórnvöld að tengja þetta tvennt saman.

 

Ragnar segir að koma verði á framfæri upplýsingum og áætlun um hvernig eigi að skera niður án þess að unnið sé gegn þeim sáttmála sem búið sé að skrifa undir og standi til að fullgilda.

af ruv.is

undirstrikanir og innsett F.S.

 

 


Enn rýrnar velferðarkerfið hjá Norrænu-velferðarstjórninni.

Niðurskurðurinn hefur bitnað þyngra á lífeyrisþegum heldur en öðrum í samfélaginu.  Líklega eru lífeyrisþegar breiðu bök samfélagsins,  að áliti ríkisstjórnarinnar.

Nú þegar hafa sparnaðaraðgerðirnar í lyfjamálum leitt til mun minni lífsgæða margra sjúklinga og er þetta einna mest áberandi með astmasjúklinga.  "Stjórnarlyfin" gætu leitt til þess að hluti þess hóps þurfi að leggjast inn á sjúkrahús til meðferðar þar sem "stjórnarlyfin" gangnast mun verr en lyfin sem fólkið var komið á eftir oft margra ára prófanir.

Biðlistar eftir aðgerðum eru að lengjast og þar með eykst hættan á að t.d. hjartasjúklingar lifi ekki af bið eftir aðgerð.  Þetta er óafsakanlegt.

Nær væri að skattleggja séreignalífeyrir strax,  og semja þá um að útgreiðsla hans muni ekki skerða greiðslur T.R. eða Lífeyrissjóðanna.

Einnig hefði mátt auka bolfiskkvótann og selja tímabundinn veiðirétt til að afla tekna í ríkissjóð.

Einnig er nýbúið að úthluta makrílkvóta, en hægt hefði verið að selja tímabundinn veiðirétt þar líka.

Þetta er ekki sú velferðarríkisstjórn sem stjórnarflokkarnir boðuðu.

F.S.

 


mbl.is Velferðarþjónustan skorin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband