Sunnudagur, 24. október 2010
Grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu
Af. http://www.ruv.is/frettaskyringar/innlendar-frettir/grundvallarbreytingar-a-heilbrigdiskerfinu
12.10.2010
Bergljót Baldursdóttir | bergljotb@ruv.is
Grundvallarbreytingar verða á heilbrigðiskerfinu hér á landi ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar um niðurskurð ná fram að ganga. Formaður Læknafélags Íslands segir þó að læknar séu ekki alfarið á móti breytingunum.
Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að draga úr sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, en í staðinn efla heilsugæsluna og sjúkraflug. Ef af verður er um að ræða annars konar heilbrigðisþjónustu en Íslendingar hafa átt að venjast undanfarin ár. Niðurskurðinum var harðlega mótmælt um allt land í vikunni. Haldnir voru borgarafundir á Ísafirði, Húsavík, í Keflavík, Vestmannaeyjum og víðar.
Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja: Þetta myndi væntanlega þýða þá að fæðingarþjónusta legðist af sem er þó búin að vera í sérhæfðu húsnæði síðan 1850. Skurðstofa legðist af sem að þó er búin að vera hér síðan 1930. Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja: Þetta þýðir náttúrulega í stuttu máli að sjúkrahúsþjónustan leggst meira og minna af hjá okkur. Hörður Högnason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: Þó að við segðum upp öllum læknum og hjúkrunarfræðingum stofnunarinnar að þá myndum við ekki ná upp í það sem við eigum að spara. Guðrún Árný Guðmundsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga: Þetta er mjög stór biti og fyrir bæði okkur hérna starfsmennina og starfsmannahópinn og fyrir samfélagið allt. Þú sérð það að það eru 70 manns sem fara og þá fara líka makar með. Hafsteinn Sæmundsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks: Ef að þetta er niðurstaða mála að fækka hér verulega það er að minnsta kosti þriðjung starfsmanna eða allt að 40 störfum. Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands: Hvernig felst hagur í því að flytja þessi rúm frá okkur og ætla að flytja sjúklinga til þess að gera einfaldar þarfir inn á Landspítalann eða inn á Akureyri þar sem eðlilega er miklu dýrari þjónusta, hátækniþjónusta.
Heilsugæslan
Gert er ráð fyrir að sjúkrarýmum á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni verði fækkað um 91 þannig að þau verði 235 í stað 326. 90 milljónir á að setja í sjúkraflutninga og 480 milljónir verða settar í að efla heilsugæsluna.
Halldór Jónsson, formaður Félags íslenskra heilsugæslulækna: "Auðvitað er það hérna umtalsverð upphæð, en spurningin er bara hvernig hún er notuð og heilsugæslan að minnsta kosti á Stór- Reykjavíkursvæðinu og heilbrigðisþjónustan verulega á landsbyggðinni semsagt um allt land sat í annað hvort stóð í stað eða í niðurskurði allt góðærið svokallaða og og hérna ég hef oft lýst því þannig að þegar að hrunið varð að þá tóku menn þetta sem þeir voru eins og heilsugæslan í Reykjavík búin að spara og spara og spara, þeir tóku átröskunarsjúklinginn og sögðu honum að fara í megrun."
Hátt í 20 heilsugæslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu. Það stendur til að fækka þeim og stækka þær og ef af verður þá gæti þessi heilsugæslustöð orðið hluti af annarri stærri. Menn velta fyrir sér hvort heilsugæslan sé í stakk búin til að taka við því viðbótarálagi sem boðað er.
Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra: "Ég held það sé nú ekki rétt að setja það þannig upp að það verði viðbótarálag. Aftur á móti er verið að reyna að styrkja heilsugæsluna sem fyrstu móttökustöð og í þessari lotu á meðan að við erum í hörðum niðurskurði þá felst það í að verja hana fyrir niðurskurðinum. Það er ekki mikið bætt í það er alveg hárrétt."
Skortur á læknum um allt land
Læknaskorturinn getur haft afdrifarík áhrif á hvað verður úr niðurskurðarhugmyndum því ekki er bara skortur á læknum í heilsugæslunni heldur líka í mörgum sérgreinum. Martin Grabowski er sjálfstætt starfandi taugalæknir í hálfu starfi á taugadeild Landspítalans. Hann segir að taugalæknum hafi fækkað um fjóra um á rúmu ári. Þeir voru 15 en eru nú 11.
Martin Grabowski, taugalæknir: "Við erum tveir taugalæknar sem vinna hér á Læknasetrinu. Það er svona tveggja þriggja mánaða bið að komast til okkar og biðin hefur lengst síðustu eitt til tvö árin. Það sem gerist hér gerist náttúrulega svo skyndilega. Það finnst mér allavega sem utanaðkomandi að skipulagninguna vanti. Allt gerist mjög hratt og það er mikil óvissa og það er skipulagningin og planið sem vantar."
48 læknar útskrifast á hverju ári úr Háskóla Íslands. Flestir þeirra fara til útlanda í sérnám. Undanfarin tvö ár hefur enginn þeirra skilað sér heim og þeir sem voru á leiðinni heim fyrir hrun hættu við að koma.
Guðbjartur Hannesson: "Og við þurfum að sjálfsögðu að mæta þessu. Það er grafalvarlegt ef við getum ekki fengið lækna til starfa þannig að ég get ekki svarað því nákvæmlega hvernig er hægt að gera það, en við verðum að fara yfir það með meðal annars læknum og öðrum."
Eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum
Til stendur að minnka sjúkrahúsþjónustuna úti á landsbyggðinni og færa sumar aðgerðir inn á stærri sjúkrastofnanir. Árið 1993 kom út skýrsla þar sem fram komu svipaðar hugmyndir. Mikil andstaða við þær varð til þess að ekkert varð af þeim.
Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands: "Það að hlutirnir færist yfir á meira þróaða staði er eðlileg þróun í læknisfræði. 21. öldin í læknisfræði er allt öðruvísi heldur en mið 20. öldin." Bergljót Baldursdóttir: "Þannig að þú eða þið í Læknafélaginu, Læknafélaginu eru ekkert alfarið á móti þessari þróun að skera niður á landsbyggðinni og færa yfir á stærri sjúkrahúsin?" Birna Jónsdóttir: "Það er eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum heldur en þær voru fyrir 40 árum. Það er ekkert við það að athuga."
Skoða þarf hvar er hagkvæmast að gera aðgerðir
Birna segir að ekki hafi verið haft samráð við fagfélög í heilbrigðisþjónustunni. Ekki sé heldur búið að greina hvar sé hagkvæmast að gera hverja aðgerð.
Bergljót: "Skiptir ekki máli að það verði ákveðin kostnaðargreining á því hvað er hagkvæmast á hverjum stað áður en að ákveðið er að skera niður eins og búið er að gera í rauninni?" Guðbjartur Hannesson: "Jú það er auðvitað búið að skoða þetta ítrekað þó að það megi alltaf gera miklu betur. En í sambandi við kostnaðargreiningu ég skal viðurkenna það að hún er ekki mjög ítarleg í kerfinu í heild þó að mikið hafi verið unnið og þá er þetta einmitt spurningin um það ef þú ert að gera fáar aðgerðir á einhverjum einum stað, en heldur úti sólarhringsvakt meira og minna allt árið þá kostar það býsna mikið."
Aðgengi að sjúkrahúsþjónustu gæti versnað
Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur, segir að breytingar af þessu tagi þurfi mikinn undirbúning og ætti að gera í samráði við fagfólk í heilbrigðisþjónustunni. Hætta er á því að aðgengi að sjúkrahúsþjónustu á Íslandi muni versna.
Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur: "Ég hef áhyggjur af því að að sókn í hana muni hugsanlega minnka og aðgengi að henni versna þegar að vegalengdir á þjónustustað aukast. Það eru til almennar viðmiðanir erlendis frá um að æskilegt sé að að ferð á þjónustustaði sjúkrahúsa sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu séu ekki nema svona hálftími eða minna. Við erum að fjölga því fólki sem fer lengri vegalengdir á sjúkrahúsin eftir sérfræðiþjónustu og þegar um er að ræða almennari sérfræðiþjónustu þá hef ég áhyggjur af því að þarna geti verið kominn upp aðgengisvandamál."
Ef niðurskurðarhugmyndirnar verða að veruleika verður Landspítalinn hér og sjúkrahúsið á Akureyri sérhæfð sjúkrahús sem taka við sjúklingum af öllu landinu. Það sem hins vegar getur sett strik í reikninginn er læknaskorturinn og andstaðan við hugmyndirnar.
innsett FS
Meginflokkur: Örorkumat og mál öryrkja | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
29 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.