Sunnudagur, 24. október 2010
Endalok velferðarkerfisins?
Af: http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/624
12.10.2010
Öryrkjar hafa fengið meira en nóg! Staða örorkulífeyrisþega hefur versnað til muna í kreppunni segir m.a. í grein formanns ÖBÍ og framkvæmdastjóra ÖBÍ sem birtist í Morgunblaðinu 11. október.
Öryrkjar hafa fengið meira en nóg!
Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er mikið reiðarslag fyrir fjölda öryrkja og ellilífeyrisþega, en þar er gert ráð fyrir enn meiri skerðingum en orðið er. Slík aðgerð er ekki í anda þeirrar ríkisstjórnar sem kjörin var í síðustu kosningum með fyrirheit um að verja velferðarkerfið. Þau loforð hafa engan veginn staðist.
Staða örorkulífeyrisþega hefur versnað til muna í kreppunni. Frá því í janúar 2009 hafa umtalsverðar tekjuskerðingar átt sér stað í almannatryggingakerfinu. Breytingar hafa verið gerðar á lögum og reglugerðum ásamt túlkun og framkvæmd þeirra, sem hafa komið illa niður á öryrkjum og sjúklingum. Mörg mál sem koma inn á borð ráðgjafa Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) eru mjög erfið viðureignar, því kerfið er mun flóknara en áður og fólk nær ekki að framfleyta sér á lágum bótum, á sama tíma og útgjöld hafa aukist í heilbrigðiskerfinu. Fólk talar um verulega skert lífsgæði og vanlíðan sem þessu fylgir.
Svo virðist sem öryrkjar séu sá hópur sem eigi að rétta af gjaldþrot þjóðarbúsins, á sama tíma og milljarðar eru afskrifaðir í íslenska bankakerfinu, hjá ráðamönnum og öðrum tengdum aðilum, er njóta forgangs í íslensku samfélagi.
Lífsnauðsynleg leiðrétting
Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum leiðréttingum á greiðslum almannatrygginga um næstu áramót annað árið í röð. Um lífsviðurværi fólks er að ræða sem þarf að treysta á velferðarkerfið vegna örorku eða langvarandi veikinda. Mikil vonbrigði eru fólgin í því að stjórnvöld brjóti lög sem sett voru til að lífeyrir fylgdi verðlagi.
ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld hækki bætur almannatrygginga um að lágmarki 18-20% en með því væri lögum framfylgt. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað frá 1. janúar 2009, þegar þær hækkuðu hjá flestum um tæplega 10% en hefðu átt að hækka um nær 20%. Þann 1. janúar sl. voru bætur frystar og í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir neinum leiðréttingum á kjörum öryrkja þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 28% frá því í janúar 2008 til ágúst 2010. Því er alveg ljóst að kjör öryrkja eru langt undir fátæktarmörkum sé miðað við skilgreiningu á hugtakinu fátækt innan Evrópusambandsins.
Skerðingar á bótaflokkum
Greiðslur sem lífeyrisþegar fá úr almannatryggingakerfinu eru 153.400 kr. fyrir skatt fyrir þá sem búa með öðrum og 180.000 kr. fyrir þá sem búa einir. Eins og gefur að skilja, þá duga slíkar bætur engan veginn í þeirri kreppu sem nú ríkir. Hluti af þessum greiðslum er bótaflokkur sem heitir sérstök uppbót til framfærslu" sem er án frítekjumarks þannig að aðrar bætur skerða bótaflokkinn krónu á móti krónu. Jafnvel þeir öryrkjar sem fá bensínstyrk vegna hreyfihömlunar lenda í slíkum skerðingum. Ein undantekning er þó á þessari reglu, sem tók gildi 1. júlí sl., eftir mikinn þrýsting frá ÖBÍ, en það er sérstök uppbót vegna mikils lyfja- og lækniskostnaðar. Nauðsynlegt er að undanskilja fleiri bótaflokka sem fólk fær vegna mikils kostnaðar sem hlýst af fötlun eða sjúkdómum. ÖBÍ hefur margsinnis bent á nauðsyn þess að breyta skerðingarákvæðum bótaflokksins sem var komið á rétt fyrir bankahrun en hann heldur fólki í viðjum fátæktar.
Óréttlátar tekjutengingar
Vert er að minnast þess mikla áfalls þegar lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum tóku gildi þann 1. júlí 2009. Lögin höfðu víðtækar afleiðingar í för með sér fyrir fjölda öryrkja og ellilífeyrisþega sem urðu fyrir talsverðum skerðingum á bótum almannatrygginga með aðeins tveggja daga fyrirvara. Tekjutengingar jukust þannig að bætur skertust meira og fyrr en áður. Nýmæli tóku einnig gildi þegar lífeyrissjóðstekjur tóku að skerða grunnlífeyri" og einnig bótaflokkinn aldurstengd örorkuuppbót". Breytingin leiddi til þess að margt fólk missti ákveðin réttindi sem þeim bótaflokkum fylgdu s.s. niðurgreiðslu á sjúkraþjálfun, tannlæknakostnaði, iðjuþjálfun o.fl. ÖBÍ mótmælti harðlega þessum aðgerðum en stór hópur lífeyrisþega varð fyrir skerðingum, sem í sumum tilvikum voru hlutfallslega hærri en hátekjuskatturinn sem síðar var lagður á launþega með yfir 700.000 kr. í tekjur á mánuði.
Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga
Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur einnig komið niður á öryrkjum og sjúklingum. Sem dæmi þá var reglum um kostnaðarþátttöku sjúklinga í sjúkra-, iðju- og talþjálfun breytt 1. október 2009, sem jók kostnað sjúklinga enn frekar. Jafnframt eru dæmi þess að fólk geti ekki keypt nauðsynleg hjálpartæki, þar sem kostnaðarhlutdeild sjúklinga miðast við ákveðna prósentu af kaupverði sem hefur hækkað verulega vegna gengishrunsins. Í sumum tilvikum greiðir Tryggingastofnun ríkisins ákveðna upphæð í hjálpartækjum, sem hefur ekki breyst þrátt fyrir miklar verðhækkanir og eru heyrnartæki dæmi um slíkt. Hækkunin lendir á þeim sem þurfa að nota tækin.
Skerðingar lífeyrissjóðanna
Til viðbótar við þær skerðingar sem stjórnvöld hafa komið á hafa öryrkjar og ellilífeyrisþegar orðið fyrir skerðingum hjá mörgum lífeyrissjóðum í kjölfar kreppunnar sem eru á bilinu 7-19%. Þessu til viðbótar hafa margir lífeyrissjóðir skert bætur öryrkja sérstaklega frá árinu 2006 þrátt fyrir hörð mótmæli ÖBÍ. Þeir lífeyrissjóðir sem um ræðir tóku mið af greiðslum almannatrygginga við útreikning bóta sem hefur leitt til þess að þær hafa lækkað umtalsvert. Lægri lífeyrissjóðsgreiðslur geta leitt til þess að fólk fái hærri greiðslur úr almannatryggingakerfinu, en einungis að litlum hluta, sem síðar leiðir til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur skerðast enn frekar. Víxlverkunin hefur leitt til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur hafa fallið niður hjá mörgum. Skerðingin hefur bitnað mest á þeim öryrkjum sem hafa lægstu tekjurnar og hefur að auki haft aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Til að sporna við þessu rak ÖBÍ prófmál gegn lífeyrissjóðnum Gildi. Málið fór fyrir Héraðsdóm og vannst sigur í málinu. Gildi áfrýjaði til Hæstaréttar sem úrskurðaði lífeyrissjóðnum í vil. Það voru mikil vonbrigði, enda varðar þessi niðurstaða fjölda öryrkja sem bíða eftir því að fá leiðréttingu sinna mála. ÖBÍ hefur ákveðið að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu og hefur umsókn verið send með ósk um að málið verði tekið fyrir. ÖBÍ hefur ítrekað bent stjórnvöldum á það óréttlæti sem í þessu felst og á erfitt með að skilja ástæðu þess að ekki sé búið að setja lög sem kveða á um ólögmæti slíkra skerðinga. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir kemur fram að ráðgert er að samkomulag náist við lífeyrissjóðina um að þeir líti ekki til bóta almannatrygginga við samanburð á tekjum öryrkja. Reynslan sýnir að taka beri slíkar yfirlýsingar með fyrirvara.
Erfið staða öryrkja
Eins og gefur að skilja eru mál þeirra sem leita til ráðgjafa ÖBÍ mun erfiðari nú en áður. Öryrkjar, sem margir hverjir bjuggu við kröpp kjör í góðærinu, eiga ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum þegar föst gjöld eins og lán og/eða húsaleiga hefur verið greidd. Greinilegt er að stjórnvöld skortir heildarsýn og skilning á aðstæðum öryrkja.
ÖBÍ fer fram á það við stjórnvöld að breytingar verði tafarlaust gerðar á fjárlagafrumvarpinu til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið. Slíkar skerðingar á kjörum fólks koma alltaf verst niður á þeim sem síst skyldi. Það er mikil áhætta fólgin í því að hópur fólks lifi við sára fátækt sökum fötlunar eða heilsubrests. Slíkur ráðahagur getur leitt til samfélagslegs tjóns sem verður ekki bætt. Það má öllum vera ljóst að ekki hefur verið staðið vörð um kjör öryrkja á þessum erfiðu tímum. Það er spurning hvort endalok íslenska verferðarkerfisins séu runnin upp.
7. október 2010
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ.
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ.
innsett FS
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Kjaramál | Breytt s.d. kl. 02:04 | Facebook
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
2 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.