Laugardagur, 20. nóvember 2010
Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar.
Af: OBI.is
Heilbrigðisráðuneytið
b.t. Ingunnar Björnsdóttur
Vegmúla 3
150 Reykjavík
Reykjavík, 12. nóvember 2010
Efni: Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur fengið til umsagnar drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar frá október 2010. Frestur til að skila umsögninni er til mánudagsins 15. nóvember.
Inngangur
ÖBÍ fagnar því að drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi séu komin út, sem boðar breytingu á núverandi kerfi. Miðað við framkomnar tillögur verður kerfið mun einfaldara en það er í dag og er von okkar að kerfisbreytingin verði sem allra fyrst. Ánægjulegt er að sjá að sérstakt viðmið verði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega eins og fram kemur í tillögum 1 og 2. Tillaga 3 kemur ekki til greina að okkar mati.
Breytingin sem boðuð er á kerfinu í heild sinni er jákvæð. Mikilvægt er að greiðsla fylgi sjúklingum en ekki lyfjum, þannig að aukið jafnræði ríki meðal fólks, óháð sjúkdómum. Einnig er mikilvægt að hámark greiðsluþátttöku einstaklinga sé skilgreint og að hægt sé að sækja um lyfjaskírteini þegar því hámarki er náð. Við fögnum því að sýklalyf verði tekin með inn í greiðsluþátttökukerfið, því sýkingar eru oft aukaverkanir ýmissa sjúkdóma. Nauðsynleg lyf vegna aukaverkana, t.d. magalyf, sem fylgja oft langvarandi notkun annarra lyfja eða notkun eldri og ódýrari lyfja þarf einnig að taka inn í kerfið.
ÖBÍ vill þó benda á að ekki er ráðgert að setja aukið fjármagn inn í nýtt kerfi heldur munu fjölmargir sjúklingar greiða meira en áður fyrir lyf sín til að fjármagna aukna niðurgreiðslu hjá öðrum sjúklingum. Slíkt fyrirkomulag kemur sér vel fyrir þá sem eru með verulegan lyfjakostnað þar sem ekkert þak er á því hversu hár lyfjakostnaður getur orðið. En fyrirhuguð breyting kemur niður á þeim sjúklingum sem í dag greiða lægra gjald.
Vert er að benda á að margir sjúklingar þurfa ýmis hjálpartæki sem fylgja lyfjatöku og kostnaði því samfara. Sá kostnaður telst ekki vera vegna lyfja heldur sem hjálpartæki. ÖBÍ leggur áherslu á að sá kostnaður verði skoðaður samhliða breytingu á kerfinu þar sem útgjöld vegna lyfja er aðeins hluti af þeim kostnaði sem sjúklingar verða fyrir. Nauðsynlegt er að fá heildarsýn yfir stöðu mála.
Athugasemdir við ýmis atriði skýrslunnar
Mjög gott er að tekið verður á fjöllyfjanotkun skv. skýrslunni. Hins vegar þarf að huga að því að þegar fólk greinist með sjúkdóma hefst, í mörgum tilvikum, leitun að rétta lyfinu þar sem að hagkvæmustu lyfin henta ekki öllum. ÖBÍ leggur áherslu á að heimild til notkunar annarra lyfja sé virt, m.a. vegna aukaverkana og öryggis, því er sveigjanleiki lyfjaskírteina nauðsynlegur. Þegar lyf eru tekin fyrirvaralaust úr greiðsluþátttöku þurfa að vera skýr og gegnsæ rök fyrir því sem öllum eru aðgengileg. Eins og áður sagði virka sum lyf betur en önnur fyrir ákveðna einstaklinga og því er það alvarlegt mál að taka lyf fyrirvaralaust út.
Í skýrslu vinnuhópsins er talað um kostnaðarvitund sjúklinga og hvatann til að velja ódýrari lyf sem getur í mörgum tilvikum verið jákvætt. En bent er á að margir sjúklingar hafa ekkert val og taka þarf sérstaklega tillit til þess hóps hvað kostnaðarþátttöku varðar við breytingu á kerfinu.
Við upphaf lyfjameðferðar hafa lyf oft verið afgreidd í mjög stórum skömmtum þrátt fyrir að ekki sé vitað hvort lyfið henti viðkomandi eða ekki. Ef í ljós kemur að viðkomandi lyf hentar ekki þá fer hugsanlega rúmlega helmingur lyfsins í ruslið. Huga ætti að því að veita meira svigrúm varðandi stærðir lyfjaskammta svo hægt sé að afgreiða minna af fyrsta skammti af nýju lyfi. Með því móti má spara töluvert fjármagn sem annars færi til spillis.
Í skýrslunni eru taldir upp þeir aðilar sem halda þarf fundi með. Ánægjulegt er að sjá Öryrkjabandalagið þar upp talið en það gleymist að félög sjúklinga hafa hagsmuna að gæta og ættu að vera sjálfsagður markhópur kynningar. Veitendur þjónustunnar eiga að upplýsa sjúklinga um fyrirhugaðar breytingar. Hingað til hefur upplýsingaflæði til sjúklinga ekki verið nógu gott og mætti bæta, m.a. er heimasíða Sjúkratrygginga helst til flókin.
Sá gagnagrunnur sem notaður verður til að halda utan um upplýsingar þarf að vera mjög vel varinn og ekki ætlaður til að setja inn aðrar upplýsingar en upphaflegur tilgangur segir til um. Fólk ætti að geta farið inn á sína eigin lyfjagátt á sama hátt og farið er inn í heimabanka eða síður ríkisskattstjóra og geta fylgst með eigin upplýsingum ásamt upplýsingum um kostnað og lyf.
Úttekt og eftirlit
Mikilvægt er að gerð verði úttekt á kerfinu svo hægt sé að gera sér grein fyrir virkni þess. Úttekt þarf að gera þegar kerfið er sett upp og aftur að ári liðnu. Sú úttekt ætti ekki að vera eingöngu á hendi landlæknisembættisins, því það embætti er fulltrúi kerfisins. Sjúklingar ættu einnig að hafa sinn fulltrúa í eftirliti með kerfinu, sbr. Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Búa þyrfti til embætti umboðsmanns sjúklinga eins og gert hefur verið á norðurlöndum.
Lokaorð
ÖBÍ lítur á þessar breytingar sem fyrsta skrefið í átt að jafnræði. Með fyrirhuguðum breytingum verður kerfið markvissara og gagnast frekar þeim sem þurfa mest á þjónustunni að halda.
ÖBÍ leggur áherslu á að í framhaldi af þessu þarf að skoða sem allra fyrst greiðsluþátttöku sjúklinga í hjálpartækjum, læknisheimsóknum, sjúkra-, iðju- og talþjálfun ásamt tannlæknakostnaði. Lyfjakostnaður er einungis hluti af þeim kostnaði sem öryrkjar og langveikir þurfa að greiða vegna sinnar fötlunar og/eða sjúkdóma.
Rétt er að ítreka það að tillögur nefndarinnar um nýtt greiðsluþátttökukerfi byggja á hagræðingu innan sjálfs kerfisins, þannig að niðurgreiðslur á lyfjum koma frá sjúklingunum sjálfum þar sem ekkert aukafjármagn kemur til af hendi ríkisins. Eðlilegra væri að laga kerfið og auka jafnræði með öðrum hætti með allt samfélagið í huga þ.e. í gegnum skattkerfið. Með því móti væri hægt að halda lyfjakostnaði sjúklinga í lágmarki.
Virðingarfyllst,
f.h. Öryrkjabandalags Íslands
________________________
Guðmundur Magnússon
formaður
innsett/F.S.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag, Örorkumat og mál öryrkja | Facebook
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
336 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.