Föstudagur, 18. mars 2011
Kjör öryrkja langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytis
Fréttablaðið, 17. mar. 2011 06:00
Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ
Lilja Þorgeirsdóttir skrifar:
Á blaðamannafundi 7. febrúar sl. kynntu fulltrúar velferðarráðuneytisins ný íslensk neysluviðmið. Gefin var út ítarleg skýrsla unnin af sérfræðingum úr háskólasamfélaginu m.a. með hliðsjón af gögnum Hagstofunnar um neyslu heimila á árunum 2003 til 2008. Fólk er hvatt til að koma með athugasemdir um efni skýrslunnar, sem er á vef ráðuneytisins, fyrir 20. mars nk. Tilgangur neysluviðmiða er að aðstoða fólk við að áætla eigin útgjöld en nýtast þau jafnframt við að finna út lágmarksframfærslu og upphæðir bóta.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur frá upphafi barist fyrir sjálfsögðum réttindum öryrkja til að lifa mannsæmandi lífi óháð því hvort fólk sé fatlað eða með skerta starfsorku vegna veikinda eða annarra ástæðna. Um sjálfsögð mannréttindi er að ræða enda kemur fram í 65. gr. stjórnarskrár Íslands að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda óháð efnahag. Þrátt fyrir það eru kjör öryrkja óásættanleg því bætur almannatrygginga eru langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Þetta á við um öll viðmiðin óháð því hvort um sé að ræða dæmigert viðmið, sem er leiðbeinandi um hóflega neyslu, grunnviðmið, er varðar lágmarksframfærslu, eða skammtímaviðmið, sem er framfærsla í hámark níu mánuði. Í töflunni hér að neðan má sjá hversu mikið ber á milli þessara viðmiða og örorkubóta sem öryrkjar fá frá Tryggingastofnun ríkisins.
Upphæðir í skammtíma- og grunnviðmiðum eru mjög lágar og ljóst að erfitt er að lifa á þeim miðað við aðstæður í þjóðfélaginu, en bætur almannatrygginga eru þó umtalsvert lægri. Það vekur einnig furðu hversu lítill munur er á framfærslu sem fólki er ætlað að lifa á annars vegar til skamms tíma og hins vegar til lengri tíma.
Heilbrigðiskostnaður stórlega vanmetinn.
Kjör öryrkja langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytis
Þegar einstakir kostnaðarliðir neysluviðmiðanna eru skoðaðir kemur í ljós að heilbrigðiskostnaður, sem snertir öryrkja og sjúklinga sérstaklega, er stórlega vanmetinn. Í rannsókn sem framkvæmd var 2006 af Rúnari Vilhjálmssyni félagsfræðingi kom fram að öryrkjar vörðu um 6% af heildartekjum heimilisins í heilbrigðismál, en í nýju neysluviðmiði velferðarráðuneytisins er hlutfallið mun lægra eða um 2,6% þrátt fyrir að kostnaðarhlutdeild sjúklinga vegna lyfja, lækniskostnaðar, þjálfunar og hjálpartækja hafi aukist umtalsvert eftir bankahrun. Almennt er talið að öryrkjar þurfi 15-30% hærri tekjur en aðrir til að njóta sömu lífskjara, þar sem heilbrigðiskostnaður er meiri hjá þeim en hjá fólki almennt séð vegna heilsubrests og kostnaðar við ýmsa aðkeypta þjónustu.
Aðrir vanmetnir kostnaðarliðir.
Gagnrýna má jafnframt að í neysluviðmiðunum er ekki gert ráð fyrir kostnaði við stofnun heimilis eða flutning í annað húsnæði. Þá eru greiðslur opinberra gjalda ekki meðtalin né nefskattar og ekki er gert ráð fyrir að fólk leggi fjármagn til hliðar til að geta mætt óvæntum útgjöldum. Ljóst er að ekkert má út af bera hjá fólki með lágar tekjur til að fjárhagurinn fari ekki enn frekar úr skorðum.
Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja.
Rannsóknin ?Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja? sem kynnt var 25. febrúar sl. sýnir að örorkubætur eru svo lágar að margir öryrkjar búa ekki við mannsæmandi kjör. Rannsóknin var unnin af Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við ÖBÍ með styrk úr sjóði sem stofnaður var í tengslum við Evrópuár 2010 sem tileinkað var baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun. Sjóðurinn var fjármagnaður af stjórnvöldum og Evrópusambandinu.
Í rannsókninni kemur fram að fjölskyldur með börn og unglinga á framfæri eru verst staddar fjárhagslega og þá sérstaklega einstæðir foreldrar. Jafnframt eru margir öryrkjar sem búa einir illa staddir. Í þessum hópum er fólk sem á ekki fyrir brýnustu nauðsynjum seinni hluta mánaðarins og allt of margir verða að leita til hjálparstofnana eftir matargjöfum og annarri aðstoð. Fólk sem býr við slíkar aðstæður upplifir mikla streitu, kvíða og áhyggjur af afkomu sinni. Þá telur fólk bótakerfið flókið og tekjutengingar hamla breytingum á fjárhagslegri stöðu þeirra sem eru einungis með bætur almannatrygginga eða lágar lífeyrissjóðssgreiðslur.
Velferðarráðherra á hrós skilið fyrir að birta niðurstöður neysluviðmiðs en hingað til hefur hvílt yfir þessum málum ákveðin leynd. Nú blasir raunveruleikinn við sem hagsmunasamtök, einstaklingar og sérfræðingar hafa ítrekað bent á. Langtímafátækt er staðreynd í okkar samfélagi. Beðið er með óþreyju eftir aðgerðum stjórnvalda sem verða að bæta kjör öryrkja í anda velferðarsamfélags sem hefur mannréttindi að leiðarljósi
innsett F.S.
Meginflokkur: Örorkumat og mál öryrkja | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Facebook
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
1 dagur til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.