Miðvikudagur, 20. júní 2012
Þarf þetta að vera svona niðurlægjandi líf?
Af:http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/akall-fra-ahyggjufullri-dottur-konu-a-sjotugsaldri-tharf-thetta-ad-vera-svona-nidurlaegjandi-lif-?pressandate=200904251+or+1%3d%40%40version+and+3%3d3%2fleggjumst-oll-a-eitt%2fleggjumst-oll-a-eitt%3fpres%2fleggj%2fleggjumst
Ákall frá áhyggjufullri dóttur konu á sjötugsaldri:
Þarf þetta að vera svona niðurlægjandi líf?
Pressphotos.biz
Í dag hringdi móðir mín í mig, reyndi að vera hress og spyrja mig hvað væri að frétta af mér og börnum mínum. Ég fann strax að aðdragandi símtalsins var annars eðlis, móðir mín var með kökkinn í hálsinum, búin að reyna að hringja í systkini mín og betla, ég var endastöð. En um 15. hvers mánaðar á móðir mín ekki fyrir mat. Hver er þessi kona?
Með þessum orðum hefst pistill ungrar konu, sem ekki vill láta nafns síns getið, en móðir hennar er öryrki á sjötugsaldri og býr við kröpp kjör í samfélaginu okkar. Hún hefur beðið Pressuna að birta greinarkorn sitt til að landsmann fái séð þær aðstæður sem tryggingakerfið okkar býður upp á, þar sem nákvæmlega er sundurliðað hver eyðsla móðurinnar er í hverjum mánuði.
Hver er þessi kona?
Ég skrifa þennan pistil til að vekja fólk til umhugsunar um í hverskonar þjóðfélagi við lifum. Í dag hringdi móðir mín í mig, reyndi að vera hress og spyrja mig hvað væri að frétta af mér og börnum mínum. Ég fann strax að aðdragandi símtalsins var annars eðlis, móðir mín var með kökkinn í hálsinum, búin að reyna að hringja í systkini mín og betla, ég var endastöð. En um 15. hvers mánaðar á móðir mín ekki fyrir mat. Hver er þessi kona?
Fædd í Reykjavík 1947. Ung að árum lauk hún Kvennaskólaprófi, eignaðist 5 börn sem hún ól upp með ást og hlýju þrátt fyrir erfitt hjónaband þar sem ofbeldi kom m.a. við sögu. Þessi kona hafði loks hugrekki til að skilja við mann sinn eftir 20 ára hjónaband árið 1988. Hún fékk alls 1 milljón útúr skilnaði sínum sem dugði skammt.
Hún var heimavinnandi mestmegnis á árunum 1967-1988, gætti barna fyrir aðra og hugsaði um okkur börnin. Hún reyndi að fara á vinnumarkaðinn en var of veikburða. Síðar kom í ljós alvarlegur hjartagalli, skortur á nauðsynlegum næringarefnum kom í ljós um fertugt en þá kom í ljós að hún vann ekki B12 úr fæðu sem hafði haft alvarlegar aukaverkanir í 20 ár, öndunarerfiðleikar með astma og bakflæði hrjá hana. Slæm sjón, skert heyrn, og taugasjúkdómur sem hefur hrjáð hana allt hennar líf í formi kvíða vegna veikinda sinna í hjarta með tilheyrandi sprengitöflum og hjartaflökti.
Réttindalaus
Þrátt fyrir þetta heldur hún höfðinu hátt og gerir það besta úr lífi sínu. Hún hefur engin réttindi í lífeyrissjóðum landsins þar sem hún var eiginkona og sjúklingur mest allt sitt líf. Hún hefur í fyrsta sinn á ævi sinni verið hjá sjúkraþjálfara í vetur sem sagðist aldrei nokkurn tímann hafa fengið konu til sín með jafn alvarlega vöðvabólgu.
Þessi kona býr í 46 fm2 íbúð í fjölbýli fyrir fatlaða. Hún er svo þakklát fyrir vini sína, þakklát fyrir guð, þakklát fyrir börnin sín og barnabörn, þakklát fyrir lífið, þakklát fyrir húsakost sinn og aðstöðu.
Hún er reglulegur gestur í bókabílnum. Fær 16 ferðir í mánuði með ferðabíl fatlaðra til að fara sín erindi eftir að henni tókst að selja 10 ára gamlan bíl sem hún átti, en á vetrum var bíllinn ónotaður því hún sér svo illa að hún var hætt að keyra. Hún nýtur tónlistar í útvarpi og á geisladiskum og kassettum frá fyrri tíð. Saumar og prjónar og reynir að sjá hið bjarta í tilveru sinni. Horfir á Eurovision eins og við hin, tárast yfir fallegum sögum og biður fyrir fólki í vanda. Hugsar vel um vini sína og gætir þess lifa í sátt við aðra.
Svöng helminginn af mánuðinum
Þessi kona er svöng frá 15. hvers mánaðar. Og fæðan sem hún kaupir inn er ekki af hæsta gæðaflokki. Hún hefur leitað eftir mataraðstoð hjálparsamtaka en þau skref eru afar þung. Hún hefur leitað allrar aðstoðar sem mögulegt er í félagslega tryggingarkerfinu sem 75% öryrki. Hún er afar þakklát fyrir það og reynir að halda sjálfstæði sínu og virðingu eins mikið og hún getur. Börnin hennar hafa reynt að styðja hana fjárhagslega eins og þau geta. Á síðustu 30 árum hefur hún ferðast tvisvar til Spánar og þar með eru hennar ferðalög erlendis upptalin.
Móðir mín hefur ekki keypt sér föt að neinu ráði í mörg ár, þau föt sem hún á eru föt sem börnin hennar kaupa með henni og fyrir hana, föt sem vinkonur hennar mega sjá af og föt frá hjálparstofnunum. Hún er löngu komin á tíma með nýjar gervitennur sem kosta fúlgu fyrir hana. En á meðan hún borgar af heyrnartækjum og gleraugum getur hún ekki leyft sér þann munað að líða vel í munninum með heilar gervitennur.
Hún biður fyrir fólki sem á bágt, sýnir mikinn samhug með samfélaginu og er með hjarta úr gulli. Hún er yndisleg amma 12 barnabarna sinna, kennir þeim að meta lestur bóka og gamlar bíómyndir, spillir þeim með ís og nammi þegar þau koma í heimsókn og óskar sér heitt að geta gefið þeim gjafir en þau eru hæstánægð með lopasokka frá ömmu sinni.
Heldur fjárútlátum til haga
Móðir mín hefur haldið fjárútlátum sínum til haga í fjölda ára. Hún er reglusöm, hefur aldrei reykt né drukkið áfengi. Svona lítur venjulegur mánuður út hjá móður minni sem fær öryrkjabætur frá íslenska ríkinu til að lifa sem manneskja.
Útgjöld í meðalmánuði
Staðan er slæm í dag hjá henni og versnar þegar greiðslur vegna sölu á bílnum hennar hætta að berast, þá getur hún ekki leyft sér þann munað að kaupa sér mat alla daga mánaðarins eða annan lúxus" eins og sjúkranudd, kaup á nauðsynlegum hjálpartækjum, fara í klippingu eða slíkt.
Föt, skór, snyrtivörur, húsgögn eða fallegir innanstokksmunir eru vörur sem öryrkjar geta ekki leyft sér nema örsjaldan að litlu leiti. Móðir mín sefur í gömlu rúmi sem er frá árinu 1988, húsgögn keypt notuð að mestu leiti. Nýlega datt hún í lukkupottinn í íbúðarmálum og fékk að flytja úr íbúð sinni í sömu stærð af íbúð, sem var með bakaraofni og viftu, en í 12 ár bjó hún í íbúð með tvær hellur til að elda.
Hvernig verða jólin?
Sjúklingar eins og mamma mín sem borga samviskusamlega húsakost sinn, öryggishnappinn, tryggingar og lyf í forgangi hafa lítið úr að spila með það sem eftir situr. Vill hún borða næringarríkan mat eða kaupa sér nærbuxur og sokka þennan mánuðinn?
Hvernig verða jólin, yfirleitt tvær ferðir í mataraðstoð í desember til að segja afgangsaurinn í jólagjafir. Hvað skyldu börnin geta lagt í púkk þennan mánuðinn? Börnin sem sitja í eignum sínum þar sem eignarhlutinn hefur fuðrað upp í verðbólgu, matarkostnaður barnafjölskyldna rokið uppúr öllu valdi, kostnaður við leikskóla drjúgur partur af tekjum.
Þarna eru uppkomin börn á aldrinum 30-40 ára sem sem hafa upplifað móður sína lifa lífi sínu eins vel og hún getur síðustu 20 árin en þó án þess að lifa því í raun eins og manneskja sem hefur rétt á tilveru sinni á Íslandi.
Móðir mín á marga vini sem eru líka sjúklingar og hafa svipaða sögu að segja. Hvar er ríkistjórnin, getum við ekki í það minnsta hugsað vel um öryrkja, ellilífeyrisþega og þá sem minna mega sín.
Þarf þetta að vera svona niðurlægjandi líf?
Ég hlýt að velta því fyrir hvað það er sem við erum að gera rangt ?
Kær kveðja,
Dóttir öryrkjamóður sem lifir með sorg hjarta yfir aðstöðu móður sinnar
Innfært F.S.
Meginflokkur: Örorkumat og mál öryrkja | Aukaflokkar: Greinar um kæfisvefn og fl., Heilbrigðismál, Kjaramál | Facebook
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
336 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.