Sunnudagur, 19. maí 2013
Sjúkratryggingar Íslands og ósannindin
Júlía Birgisdóttir, hagfræðingur (sykursýki 1). Júlía Birgisdóttir skrifar:
Framganga SÍ og velferðarráðuneytisins vegna nýrrar lagasetningar og reglugerðar um greiðsluþátttöku SÍ á lyfjum hefur verið ótrúleg, svo ekki sé meira sagt.
Framkvæmd og kynningu á breytingunum hefur ekki einungis verið verulega ábótavant heldur eru ósannindin sem þessar stofnanir segja almenningi það versta í þessu öllu saman.
Það er sorglegt í ljósi þess að margir sem nýtt kerfi hefur áhrif á hafa ekki burði til að leita sér réttra upplýsinga um málið. Ef SÍ, velferðarráðuneytið og embættismenn segja almenningi ekki sannleikann, hver gerir það þá? SÍ og velferðarráðuneytið bera fyrir sig þremur atriðum sem eru ósönn.
Í fyrsta lagi er sagt að nýja kerfið sé einfaldara. Það er óljóst fyrir hvern nýja kerfið er einfaldara. Það er svo sannarlega ekki einfaldara fyrir lyfjanotendur. Fyrsta skrefið verður stór biti á hverju ári fyrir alla sem hafa fengið niðurgreiðslu á lyfin sín, hvort sem um fulla niðurgreiðslu er að ræða eða hluta af lyfjakostnaði. Til að bregðast við þessu þá hefur SÍ brugðið á það ráð að skella sér í hlutverk lánastofnunar og ætla að bjóða fólki greiðsludreifingu á lyfin sín. (Er ekki eitthvað brenglað við að þurfa að taka lífsnauðsynleg lyf á raðgreiðslum í samfélagi sem kennir sig við velferð?)
Til þess að fá greiðsludreifingu þarf lyfjakaupandi að koma í apótekið og sækja um dreifinguna. Apótekið sér svo um að vinna umsóknina og senda til SÍ sem sér um að afgreiða umsóknina og samþykkja. Daginn eftir getur lyfjakaupandinn komið og fengið lyfin sín. Nú er mér spurn, fyrir hvern er þetta einfaldara? Þetta er ekki einfaldara fyrir lyfjakaupandann, þetta er ekki einfaldara fyrir apótekið og ekki einfaldara fyrir SÍ. Það er augljóst að þetta einfaldar hvorki ferlið fyrir lyfjakaupandann né apótekið og hvað þá SÍ á nokkurn hátt. Það er því hæpið að kalla þetta nýja kerfi einfaldara.
Til að bregðast við gagnrýni á háan kostnað í fyrsta þrepi hefur fólki verið sagt að leysa út minni skammta í einu. Í stað þess að fá þriggja mánaða skammt þá er þeim tilmælum beint til fólks, sem getur ekki lagt út háar fjárhæðir í einu, að koma mánaðarlega. Þetta er ekki hægt að kalla einföldun. Hvorki fyrir lyfjakaupendur né apótek, heldur hefur fyrirhöfnin margaukist með því að beina fólki í apótekið tólf sinnum á ári að ná í lyfin sín í stað fjögurra skipta. Í þessu samhengi er einnig vert að minnast á að kaup á stærri pakkningum eru hagkvæmari og samkvæmt reglugerðinni á að afgreiða hagkvæmustu pakkninguna.
Í nýju kerfi eiga tekjulágir rétt á endurgreiðslu. Það er að segja þeir sem eru verulega tekjulágir. Hæstu tekjur sem einstaklingur má hafa á ársgrundvelli, til að eiga rétt á endurgreiðslu, eru 3.750.000 á ári en það gerir tekjur upp á 312.500 krónur á mánuði sem er langt undir meðaltekjum. Til að fá endurgreiðslu þurfa einstaklingar að safna saman öllum kvittunum og fara með niður í TR og sækja um hana, sem svo getur tekið upp í nokkrar vikur að afgreiða. Og þetta gerist allt eftir að það hefur verið lagt út fyrir lyfjunum.
Er hægt að kalla þetta einföldun? Það held ég varla. Þetta er hvorki einfaldara fyrir TR né lyfjakaupandann. Auk þess er ólíklegt að TR og SÍ séu í stakk búin að takast á við allt aukaumfangið sem fylgir þessum breytingum.
Ég fór niður í TR/SÍ í vikunni þar sem einn ráðgjafi var að störfum og einn starfsmaður í móttöku. Það var einn einstaklingur á undan mér og ég beið í 20 mínútur eftir að tala við ráðgjafa. Að síðustu, ef lyfjakaupendur fara upp í hámarksgreiðsluþak þarf læknir að sækja um þakskírteini fyrir viðkomandi til að hann þurfi ekki að greiða fyrir lyfin sín umfram greiðsluþakið. Bið eftir að komast til læknis getur verið upp í nokkrar vikur og enn lengri bið að komast til sérfræðings, allt upp í nokkra mánuði. Þurfa lyfjakaupendur að greiða fyrir lyfin sín þrátt fyrir að vera komin upp í þak? Þessari spurningu hefur SÍ ekki svarað.
Er aukið álag á heilbrigðiskerfið og lækna það sem við þurfum á tímum niðurskurðar? Með þessu fyrirkomulagi hefur fyrirhöfn heilbrigðiskerfisins, lækna, lyfjakaupanda og SÍ verið stóraukin. Það er fráleitt að kalla þetta einföldun þegar flækjustigið hefur hækkað jafn mikið og raun ber vitni í nýju kerfi.
Í öðru lagi er sagt að nýja kerfið hafi aukinn jöfnuð í för með sér. Jöfnuður er hugtak sem á ekki við í þessum aðstæðum. Sjúkdómar eru í eðli sínu ólíkir. Í gömlu lögunum, sem ný lög leystu af hólmi, var lagagrein sem bannaði gjaldtöku á lífsnauðsynlegum lyfjum. Hvernig má það vera að þeirri lagagrein hafi verið skipt út og í hennar stað sett grein um að allir skulu greiða fyrir lyfin sín upp að sama marki? Nú eru sumir með ólæknandi sjúkdóma, sumir greinast ungir að aldri og sumir eru með sjúkdóma sem er hægt að meðhöndla með öðrum leiðum en lyfjagjöf. Og svo eru það þessir sem þurfa á lífsnauðsynlegum lyfjum að halda og ef þessir einstaklingar eru lyfjalausir þá veikjast þeir alvarlega með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið og sjúkdómurinn dregur fólk að lokum til dauða.
Hver er jöfnuðurinn við það að vera með ólæknandi sjúkdóm samanborið að vera með læknanlegan eða tímabundinn sjúkdóm? Hver er jöfnuðurinn við það að hafa engar aðrar leiðir færar en lyfjagjöf samanborið við að geta breytt um lífsstíl og losnað við lyf? Það var góð og gild ástæða fyrir því að ákveðin lyf voru gjaldfrjáls. Þetta er spurning um líf og dauða. Hvernig hugtakið jöfnuður" komst inn í þessa umræðu og frumvarp til laga hafi verið byggt á þeirri hugmyndafræði er ofar mínum skilningi.
Í þriðja lagi er það fullyrt að sparnaður sé ekki tilgangur nýja kerfisins. Eins og svo margt annað sem hefur verið fullyrt um nýtt kerfi þá er það rangt að enginn sparnaður verði við breytingarnar. Nú verða sparaðar 220 milljónir á ársgrundvelli með því að skerða greiðsluframlag Sjúkratrygginga á ADHD-lyfjum til fullorðinna. Í þingskjali um málið er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að SÍ ætli að hætta allri greiðsluþátttöku á ADHD-lyfjum til meirihluta fullorðinna. Áður voru 360 milljónir veittar í þennan lyfjaflokk, því er sparnaðurinn rúmlega 60% í þessum flokki niðurgreiddra lyfja.
Enn bætast við ósannindi frá SÍ og velferðarráðuneytinu. Er það til of mikils ætlast að opinberar stofnanir beri ekki lygar, ósannindi og hálfsannleik í almenning? Virðingarleysi SÍ, velferðarráðuneytisins, ráðherra, embættismanna og starfsmanna þessara stofnana gagnvart fólki er algjört. Nýtt lagafrumvarp hefur áhrif á um 30 þúsund einstaklinga. Það er skautað fram hjá allri réttmætri gagnrýni og hún látin standa ósvöruð. Það er gert lítið úr fólki sem hefur einlægar áhyggjur af stöðu sinni og þeim sagt að kynna sér kerfið betur. Kynningarfundur SÍ og velferðarráðuneytisins hjá Samtökum sykursjúkra
Á dögunum héldu Samtök sykursjúkra kynningarfund með fulltrúum velferðarráðuneytisins og SÍ. Þarna stóð fulltrúi velferðarráðuneytisins fyrir framan fullan sal af sykursjúku fólki og sagði blákalt að nýtt kerfi væri sanngjarnt. Þetta sagði hann þrátt fyrir að reglugerðin hefði gengið þvert á álit velferðarnefndar gagnvart sykursjúkum. Þetta sagði hann þrátt fyrir að sykursjúkir séu sá hópur sem kemur einna verst út í nýju kerfi. Þetta sagði hann þrátt fyrir að sykursjúkir þurfi nú að greiða tugi þúsunda á ári fyrir insúlín sem er þeim lífsnauðsynlegt. Þetta sagði hann þrátt fyrir að velferðarráðherra hefði farið fram á endurskoðun framkvæmdarinnar gagnvart sykursjúkum.
Það er augljóst að þessi embættismaður skilur ekki meiningu orðsins réttlæti". Í fyrsta lagi er vafasamt að segja nýtt kerfi auka jöfnuð en að kalla það réttlátt er hreint út sagt ósvífið. Ef kerfið væri réttlátt þá væri tekið tillit til ólíks eðlis sjúkdóma og þess að þeir eru misalvarlegir og lyf eru fólki misnauðsynleg. Sama greiðsluþak fyrir alla, óháð aðstæðum, er ekki réttlæti. Fulltrúar SÍ og velferðarráðuneytisins sögðu að afgreiðsla lagafrumvarpsins hefði ekki mætt neinni andstöðu í þinginu og almenn sátt ríkti um það. Þetta er eins fjarri sannleikanum og hægt er. Þau sögðu að enginn þingmaður hefði greitt atkvæði gegn málinu.
Staðreyndin er sú að þingmenn Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar auk nokkra þingmanna Sjálfstæðisflokks sátu hjá og nokkrir hafa lýst opinberlega yfir vanþóknun sinni á lögunum og útfærslu reglugerðarinnar. Læknar, heilbrigðisstarfsfólk, lyfsalar, lyfjanotendur, aðstandendur þeirra, kjararáð eldri borgara, hópur fólks með sykursýki 1, foreldrar barna á lyfjum og fjöldi annarra hagsmunaaðila sem sjá óréttlætið í kerfinu hafa lýst yfir miklum áhyggjum og efasemdum um meingallaða reglugerð. Það ríkir engin sátt um breytingar á kerfinu. Þessir sömu fulltrúar héldu því fram að nýtt kerfi væri betra. Til þess að geta tekið afstöðu til þess, þá þurfa að vera upplýsingar um fjölda þeirra sem greiða minna í nýju kerfi og fjölda þeirra sem greiða meira. Aðspurð gátu þau ekki svarað því vegna þess að, að þeirra sögn, eru þessar tölur ekki tiltækar. Ef þessar tölur eru ekki fyrir hendi hvernig er hægt að fullyrða að nýtt kerfi sé betra?
Núna er enginn munur gerður á því hvort lyf séu lífsnauðsynleg eða ekki. Allir skulu sitja við sama borð. Í því sambandi er samanburður við hin Norðurlöndin vinsæll. En því miður stenst sá samanburður enga skoðun. Sykursjúkir þurfa ekki að greiða fyrir insúlín í Noregi og Svíþjóð. Í Finnlandi þurfa þeir að greiða 3 evrur á þriggja mánaða fresti og í Danmörku þá er kostnaðurinn mun lægri, það er að segja þegar búið er að taka launamun á milli landanna í reikninginn. Ég bíð eftir nýjum stjórnvöldum. Það hefur þegar sýnt sig að nýtt kerfi er meingallað og þarf á alvarlegri og ítarlegri endurskoðun að halda. Ég vona að tilvonandi stjórnvöld hafi kjarkinn sem þarf til að takast á við það verkefn
Innsett: F.S.
Meginflokkur: Örorkumat og mál öryrkja | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
336 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hverjum dettur í hug að svokölluð norræna velferðarstjórn hafi haft einhvern vilja til að gera þeim veikburðari lífið auðveldara það er nefnilega eitt að segja og annað að framkvæma !!! ekkert nema lygar sem hafa komið frá fráfarandi stjórn og geta þeir sem eru að taka út lyfin sín núna best borið um það !!!!
Sæmundur Friðriksson (IP-tala skráð) 19.5.2013 kl. 04:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.