Sykurfíkn: Er viljastyrkur nóg ?

 

 

Vísir Skoðun 24. október 2013 06:00

Esther Helga Guðmundsdóttir MSc.,
framkvæmdastjóri og matarfíknarráðgjafi hjá MFM-miðstöðinni og formaður Matarheilla.

 

Esther Helga Guðmundsdóttir MSc., framkvæmdastjóri og matarfíknarráðgjafi hjá MFM-miðstöðinni og formaður Matarheilla.

Esther Helga Guðmundsdóttir skrifar: Það var frábær þáttur á RÚV 14. október sl. um sykur sem nautnafíkn.
Í þættinum var m.a. fjallað um hvaða áhrif sykur hefur á líkama okkar og heilastarfsemi og hvernig hann getur orðið ávanabindandi fyrir okkur. Því er einnig haldið fram að við getum breytt um lífsstíl og hætt neyslu sykurs - bara ef við ákveðum það og höfum nógu mikinn viljastyrk.

Þessu er enn og aftur haldið fram þrátt fyrir að mjög stór hópur fólks hafi látið reyna á allar mögulegar og ómögulegar leiðir til að hætta þessari neyslu og sé stöðugt að berjast við að hætta henni. Sumir hafa jafnvel náð því um tíma, en svo kemur aftur og aftur sú stund þegar viðkomandi „ákveður" að fá sér aftur, þrátt fyrir þær afleiðingar sem neyslan hefur bæði líkamlega og andlega!

Rannsóknir sýna að sykur getur verið meira ávanabindandi en kókaín. Samt eigum við bara að nota hin fleygu orð Nancy Reagan: „Just say no" gagnvart sykurneyslu.

Sífellt er verið að segja við okkur: „Þú hefur valið! Og ef þú hefur ekki getað haldið þér frá sykrinum þá hefur þú bara ekki viljað það nógu mikið eða lagt nógu hart að þér." En af hverju eru þá ekki allir grannir sem hafa mikinn viljastyrk og hefur t.d. vegnað vel í námi og starfi? Er það kannski af því að þá einstaklinga langar að vera feitir? Og ef þetta er svona einfalt af hverju erum við þá ein feitasta þjóð í heimi?
Hér kemur í ljós þessi einkennilega afneitun á eðli fíknar. Það er búið að viðurkenna að áfengis- og vímuefnafíklar þurfi meira en viljastyrkinn, þeir þurfi að fara í meðferð, þeir þurfi 12 spora vinnu og annað sem virkar til að halda þeirri fíkn niðri.

Hér á landi eru tvenn 12 spora samtök fyrir þá sem eiga við matar- og/eða sykurfíkn að stríða, GSA (GreySheeters Anonymous) og OA (Overeaters Anonymous). Auk þess stendur matarfíklum til boða meðferð hjá MFM-miðstöðinni en hún hefur verið starfrækt síðan 2006. Þar hefur batinn og árangur verið mjög góður og erlendir sérfræðingar í fíknifræðum hafa gert sér ferðir til Íslands til að kynna sér starfsemi MFM-miðstöðvarinnar og hennar er getið í fyrstu kennslubók fyrir fagfólk um matarfíkn sem var gefin út á síðasta ári (Food and Addiction, a comprehensive handbook, höfundar; Kelly D. Brownell og Mark S. Gold).

Ég hef nú unnið með yfir 2.000 einstaklingum, bæði hér heima og erlendis, sem hafa fengið skimun á að þeir geti verið haldnir matar- eða sykurfíkn.

Stór hópur þessa fólks hefur, þegar hann fékk loks að vita hvað væri að og hvernig hægt er að halda þessum fíknisjúkdómi niðri, náð árangri í þessari baráttu í fyrsta skipti. Þessir einstaklingar hafa öðlast frelsi frá löngun í efnið og fengið stuðning til að viðhalda þessu frelsi. Þeir eru ekki lengur daginn út og inn í baráttu við sjálfa sig um hvort þeir eigi að fá sér ostakökuna eða ekki.

Það sem virkar fyrir þennan hóp er að nota sömu og/eða svipaðar aðferðir og þegar unnið er með aðrar fíknir. Í því felst að fræðast um sjúkdóminn, hvernig hann hefur áhrif á viðkomandi, átta sig á vangetunni til að hætta varanlega án stuðnings og síðan fá leiðbeiningar til að taka fíkniefnið út ásamt því að læra hvað viðheldur getunni til að segja „nei, takk".

Í fyrsta lagi þarf að taka út fíkniefnið og aðstoða viðkomandi við að taka þau matvæli út úr fæðunni sem hafa þessi ávanabindandi áhrif á líkamann og heilann.

Í öðru lagi þarf að skilja hinn hlutann, þ.e. hugann og tilfinningarnar, og vinna með þá þætti, því að líkamlega löngunin er aðeins hluti af vanlíðaninni sem okkur „finnst" að aðeins sykur eða önnur kolvetni geti lagað. Það er sá þáttur sjúkdómsins sem kemur yfir okkur og er svo lúmskur, þessi einkennilega fullvissa um að núna verði þetta öðruvísi, þrátt fyrir að við höfum verið hætt að borða sykur og unnin kolvetni og löngunin sem fylgir neyslunni sé farin. Við teljum okkur trú um að nú getum við alveg fengið okkur aðeins einn bita, þegar reynslan hefur kennt okkur að á eftir fyrsta bitanum fylgir alltaf annar biti og svo annar og annar þar til átkastið gengur yfir.

Eru þá allir sem eru feitir sykur- eða matarfíklar? Nei, við vitum að svo er ekki, margir þurfa einfaldlega að læra að borða hollari fæðu, sleppa ýmsum matartegundum, láta af óhollum matarvenjum, hreyfa sig eðlilega og málið er dautt.

En það er allt of stór hópur sem er að berjast í vandanum ár eftir ár og fær ekki hjálp við hæfi.

Á meðan stjórnvöld og heilbrigðisstarfsfólk lokar augunum fyrir þessu og afneitar þessum heilbrigðisvanda þá stækkar hann stöðugt og kostnaður af honum vex í sömu hlutföllum. Talað er um að ef ekki fæst einhver lausn á offituvandanum muni kostnaðurinn sem af honum hlýst sliga heilu þjóðfélögin.

Á þeim stofnunum hér á landi þar sem unnið er með offitu og átraskanir er því alfarið hafnað að um matarfíkn geti verið að ræða. Unnið er eftir sömu vinnureglum ár eftir ár þrátt fyrir að árangur sé lítill hjá þeim hópum sem vinna með offitusjúklinga (sbr. skýrslur offituteyma settar fram á ráðstefnu Félags fagfólks um offituvandann 2012. Þar er talað um að meðaltali 5-10 kg þyngdartap á ári hjá hverjum skjólstæðingi).

Magaminnkunaraðgerðir bera árangur í einhverjum tilfellum. Vandinn við þær er hins vegar sá að þær eru gríðarlegt inngrip í líkama viðkomandi og hann verður aldrei samur. Aukaverkanir af aðgerðunum eru ekki afturkræfar og stór hópur nær aldrei kjörþyngd og/eða þyngist aftur eftir einhvern tíma. Þá eru þeir ótaldir sem í kjölfar aðgerðanna þróa með sér aðrar fíknir, t.d. í áfengi og önnur vímuefni eða spila- og eyðslufíkn svo að eitthvað sé nefnt. Þetta er fyrir utan kostnaðinn sem heilbrigðiskerfið þarf að bera af hverri aðgerð.

Síðastliðið vor voru samtökin Matarheill stofnuð. Samtökin eru réttinda- og baráttusamtök fyrir þá sem eiga við matarfíkn að stríða. Nú þegar eru yfir 100 meðlimir skráðir félagsmenn. Við í samtökunum Matarheill horfum til þess að farið verði að viðurkenna matarfíkn eins og aðra fíknisjúkdóma og tekið sé á málum á sama hátt og gert er með alkóhólisma. Mikilvægt er að stjórnvöld átti sig á vandanum, breyti stefnu sinni og viðurkenni vandann sem blasir við. Þær aðferðir sem hafa verið við lýði árum saman skila ekki tilætluðum árangri og gera þarf bragarbót á því.

Það sem þarf að koma til er algjör hugarfarsbreyting, samvinna fagstétta og vilji stjórnvalda til að styðja við bakið á meðferðarúrræðum sem taka á þessum vanda sem fíknivanda. Ef það gerist ekki höldum við áfram að vera ein feitasta þjóð í heimi. Er það það sem við viljum?

 

 Innsett F.S.

(ÞAÐ ER MIKIL TENGING Á MILLI OFFITU OG KÆFISVEFNS,  HVORT SEM KEMUR Á UNDAN.  ÞESSI GREIN ER MJÖG ATHYGLISVERÐ FYRIR OKKAR HÓP OG ALLA AÐRA.   F.S.)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband