Fimmtudagur, 10. apríl 2014
Birgitta um almannatryggingakerfið: "Það er ekkert kjöt á þessum beinum."
10. April 2014.
Birgitta Jónsdóttir var málshefjandi í sérstökum umræðum um almannatryggingar og stöðu öryrkja, á Alþingi í gær. Birgittu var sérstaklega umhugað um stöðu öryrkja og lífsgæði þeirra almennt:
Forseti. Staðreyndirnar tala sínu máli. Risastór hópur fólks á Íslandi á ekki fyrir mat um miðjan mánuð í hverjum mánuði, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Þessi hópur þarf að neita sér um að fara til læknis, veikt fólk þarf að neita sér um að leysa út lyfin sín, allt of margir bíða með kvíðahnút í maganum í hvert einasta skipti sem það þarf að sanna veikindi sín til að fá lögbundna aðstoð og telur niður krónurnar sem eiga að endast út mánuðinn. Ekkert má fara úrskeiðis, ekkert má bila og engin óhöpp mega verða. Risastór hópur fólks á ekki öruggt skjól, býr við þannig aðstæður að launin, bæturnar, lífeyririnn hækkar ekki í takt við verðið á grunnneysluvörum. Lífið er nú þannig að það er ófyrirséð og eitthvað fer alltaf úrskeiðis. Það kemur alltaf eitthvað upp á og þá verður eitthvað að láta undan. Það er ekki hægt að ná heilsu ef maður er stöðugt þjakaður af áhyggjum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem þjást þurfi líka að vera kerfissérfræðingar í kerfi sem ekki einu sinni þeir sem smíðuðu kerfið vita hvernig virkar. Ef svo væri væri næsta víst að ekki væru alltaf að koma upp kringumstæður í kerfinu þar sem búbót þýðir í næstu andrá kjaraskerðing. Það er ekkert kjöt á þessum beinum. Það er búið að sjúga merginn úr beinunum og tafarlausu úrbæturnar og leiðréttingarnar fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja verða að gerast núna.
Undir lok ræðu sinnar skoraði Birgitta á ráðherra og alla þingmenn að bæta og standa vörð um lífsgæði öryrkja.
Ég veit að hæstv. ráðherra vill standa vörð um þennan hóp. Það hefur ítrekað komið fram í ræðum. Ég vil því skora á hæstv. ráðherra að gera það og þingmenn allra flokka að standa með ráðherranum í því og greiða leiðina fyrir slíkar leiðréttingar í gegnum þingið þó að við séum komin fram yfir síðustu forvöð að leggja mál fram á Alþingi fyrir sumarhlé. Forseti. Til mín hafa leitað svo margir með sögur sem nísta hjarta mitt og með raunir sem við getum ekki sem samfélag horft undan og varpað ábyrgðinni á aðra. Við hljótum að geta sammælst um að þeir sem eru veikir eða gamlir treysti á okkur, treysti á að kerfið grípi sig í þeirra erfiðleikum. Við erum öll meðvituð um að kerfið virkar ekki. Það þarf að setja saman aðgerðaáætlun í skrefum sem útlistar hvernig kjör öryrkja og aldraðra verða bætt í kjölfar hrunsins og þeirrar skerðingar sem þá var farið í. Ég vona að hæstv. ráðherra útlisti slíka aðgerðaáætlun í þessari sérstöku umræðu og ég veit að fjölmargir binda miklar vonir við að ráðherrann sinni þessum málaflokki af djörfung.
Helgi Hrafn Gunnarsson tók líka til máls og honum var sérstaklega tíðrætt um Tryggingastofnun og það traust eða öllu heldur vantraust sem skjólstæðingar þeirrar stofnunar bera til hennar. Um þetta efni sagði Helgi Hrafn meðal annars:
Það kom mjög skýrt í ljós eftir að Alþingi hafði samþykkt almannatryggingalögin í janúar á þessu ári að notendur Tryggingastofnunar ríkisins, og þetta kemur fram í samtölum mínum við öryrkja og vissulega bara í fjaðrafokinu sem átti sér stað í kjölfarið, treysta stofnuninni yfirleitt ekki fyrir persónuupplýsingum. Mér finnst það svolítið alvarlegt.
Auðvitað var lögunum ætlað að auðvelda upplýsingameðferð til þess meðal annars að gera hlutina betri fyrir öryrkja. Gott og vel, en öryrkjar treysta ekki stofnuninni fyrir persónuupplýsingum. Það er mjög mikilvægt að við tökum mark á þeim ótta og reynum að búa þannig um hnútana að notendur stofnunarinnar treysti henni fyrir persónuupplýsingum, að allt ferlið sé gegnsætt og auðskiljanlegt.
Hér má sjá umræðurnar í heild, en ásamt þeim Birgittu og Helga Hrafni tóku til máls; Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, Helgi Hjörvar, Pétur H. Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon, Björt Ólafsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Edward H. Huijbens og Unnur Brá Konráðsdóttir.
http://blog.piratar.is/thingflokkur/2014/04/10/birgitta-um-almannatryggingakerfid-thad-er-ekkert-kjot-a-thessum-beinum
Innsett: F.S.
Meginflokkur: Kjaramál | Aukaflokkar: Greinar um kæfisvefn og fl., Stjórnmál og samfélag, Örorkumat og mál öryrkja | Facebook
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
19 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.12.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.