Langvinn lungnateppa hrjáir 18 prósent fertugra og eldri.

11.04 2014

 http://www.frettatiminn.is/frettir/langvinn_lungnateppa_hrjair_18_prosent_fertugra_og_eldri  

 

Helga Jónsdóttir, Þorbjörg S. Ingadóttir og Bryndís Halldórsdóttir hjá hjúkrunarþjónustu á göngudeild fyrir fólk með langvinna lungnateppu.

 

Helga Jónsdóttir, Þorbjörg S. Ingadóttir og Bryndís Halldórsdóttir hjá hjúkrunarþjónustu á göngudeild fyrir fólk með langvinna lungnateppu.

Rannsóknir sýna að um 18 prósent Íslendinga 40 ára og eldri eru með langvinna lungnateppu. Sjúkdómurinn er vangreindur og stór hluti þeirra sem er með sjúkdóminn veit ekki af því. Á Landspítala er starfrækt hjúkrunarþjónusta á göngudeild fyrir fólk með langvinna lungnateppu sem starfar eftir hugmyndafræði um samráð við sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Eftir að þjónustan hófst hefur innlögnum fólks með sjúkdóminn stórlega fækkað. 

Langvinn lungnateppa er sjúkdómur sem í flestum tilvikum má rekja til reykinga. Oft kemur hann fram um miðjan aldur og er ekki læknanlegur. Með réttri meðferð er þó hægt að gera líf með sjúkdómnum betra og lengra. Rannsóknir sýna að um 18 prósent Íslendinga yfir fertugt, eða tæplega 23.000 manns, séu með langvinna lungnateppu. Í hjúkrunarþjónustu á göngudeild Landspítala vinna þrír hjúkrunarfræðingar að því að veita fólki með sjúkdóminn á síðari stigum stuðning og meðferð með aðferðum sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Blaðamaður settist niður með hjúkrunarfræðingunum Helgu Jónsdóttur, sem unnið hefur að fræðilegum bakgrunni þjónustunnar, Þorbjörgu Sóleyju Ingadóttur, Bryndísi S. Halldórsdóttur og Guðrúnu Hlín Bragadóttur sem veita þjónustuna og ræddi við þær um alvarleika og afleiðingar sjúkdómsins og aðferðirnar sem þær hafa þróað. Hjúkrunardeildarstjóri göngudeildarinnar er Guðrún Magney Halldórsdóttir.

Þögul einkenni
„Langvinn lungnateppa þróast á mörgum árum sem gerir það að verkum að fólk áttar sig oft ekki á sjúkdómnum fyrr en hann er langt genginn. Einkennin eru þögul í fyrstu þó breytingar í lungum séu byrjaðar," segir Þorbjörg Sóley. Langvinn lungateppa er sambland tveggja sjúkdóma, annars vegar langvinnrar berkjubólgu og hins vegar lungnaþembu. „Algengt er að í stað þess að fólk átti sig á því að það hefur langvinna lungnateppu telji það að langvarandi mæði og hósti stafi af reykingum, hreyfingarleysi og hækkandi aldri," bætir Helga við.

Blástursmæling á heilsugæslustöð
Eins og áður segir er algengt að reykingafólk fái langvinna lungnateppu um miðjan aldur. Oft byrjar sjúkdómurinn með þrálátum hósta, mæði og slímuppgangi. Síðar fer að bera á andþyngslum við hreyfingu, til dæmis við það ganga upp stiga eða brekku og fólk hættir smám saman að gera hluti sem það var áður vant að gera. Helga segir vanta upp á markvissa þjónustu fyrir fólk með sjúkdóminn á fyrri stigum. „Það þyrfti að vera til staðar þjónusta til að hjálpa fólki á uppbyggilegan hátt við að hætta að reykja og takast á við breytingar. Fólk í þessum sporum þarf aðstoð og rétt lyf. Það er til mikils að vinna að hætta að reykja áður en sjúkdómurinn verður alvarlegur." Bryndís bendir á að mikilvægt sé að styðja við heilsugæsluna til að auka þjónustu við þennan hóp.

Með einfaldri öndunarmælingu er hægt að greina langvinna lungnateppu og segir Bryndís ráðlegt að öndunarmæling sé gerð hjá öllu reykingafólki yfir fertugt. Mælitækin eru til á öllum heilsugæslustöðvum.

Guðrún Hlín stundar meistaranám í hjúkrunarfræði og vinnur nú að verkefni tengdu náminu sem felst í stuðningi við fólk með sjúkdóminn á fyrri stigum. Hún segir að í sumum tilfellum sé fólk búið að leita oft til heilsugæslunnar vegna vandamála í öndunarfærum en fái ekki sjúkdómsgreiningu. „Ef hægt væri að grípa inn í fyrr myndi fólk eiga betra líf með sjúkdómnum og því mikilvægt að sinna þeim hópi betur," segir hún. Þorbjörg Sóley bætir við að algengt sé að fólk fái fyrst meðferð við sjúkdómnum þegar hann sé langt genginn og jafnvel á lokastigi og fólk orðið aldrað en að þannig þurfi það alls ekki að vera.

Stórir árgangar sem reykja
Þrátt fyrir að reykingar yngra fólks séu sjaldgæfari nú en á árum áður fer fólki með langvinna lungnateppu fjölgandi. Nú er kynslóðin sem byrjaði að reykja um miðbik síðustu aldar komin vel yfir miðjan aldur og margir úr þeim hópi því með langt gengna lungnateppu. „Áður voru reykingar á heimilum algengari en nú er og voru börn oft útsett fyrir óbeinum reykingum. Það eykur enn á áhættuna að þróa með sér sjúkdóminn ef viðkomandi reykir síðar á ævinni. Til okkar kemur fólk jafnvel um fimmtugt sem var fórnarlömb óbeinna reykinga sem börn," segir Sóley og Helga bætir við að skaðsemi óbeinna reykinga komi alltaf betur og betur í ljós.

Þjónusta byggð á samráði
Frá árinu 2005 hefur hjúkrunarþjónustan á göngudeild fyrir fólk með langvinna lungnateppu verið starfrækt á Landspítala í Fossvogi. Starfsemin hefur vaxið og dafnað og frá og með 1. maí starfa hjúkrunarfræðingar þar í tveimur og hálfu stöðugildi. Helga hefur um áraraðir unnið að rannsóknum á lungnasjúkdómum og skrifaði á sínum tíma skýrslu og færði rök fyrir þörfinni á slíkri þjónustu. Hugmyndafræðin sem unnið er eftir hefur vakið athygli og er notuð sem fyrirmynd fyrir aðra hópa með langvinna sjúkdóma, eins og Parkinson og nýrnabilun.

„Þjónustan er persónuleg sem gerir starfið mjög ánægjulegt. Við nálgumst sjúklingana og fjölskyldur á þeirra forsendum eða þar sem þau eru stödd," segir Þorbjörg Sóley. Helga segir rannsóknir hafa sýnt að algengt sé að reykingafólk upplifi það að heilbrigðisstarfsfólk tali niður til þeirra og skipi því til dæmis að hætta að reykja. „Það samræmist ekki okkar aðferðum, heldur er rætt við fólk á meðvitaðan og markvissan hátt og þannig næst góður árangur."

Meðferðin byggist á gagnkvæmu trausti og virðingu. „Veitt er fræðsla um sjúkdóminn, einkenni og meðferðin er hluti af því. Þannig öðlast sjúklingurinn smám saman meiri skilning og lærir að þekkja einkenni til að geta brugðist við í samræmi við alvarleika þeirra. Það er þessi gagnkvæma virðing og stuðningur sem er svo mikilvægur til að ná árangri," segir Bryndís.

Skömmin algengur fylgifiskur
Eins og áður segir eru reykingar nær alltaf orsök langvinnrar lungnateppu og eru hjúkrunarfræðingarnir sammála um að sektarkennd sé algeng. Þess vegna gera sjúklingarnir oft litlar kröfur um þjónustu sér til handa og eru þjakaðir af hugsunum um að sjúkdómurinn sé þeim sjálfum að kenna. Þær leggja áherslu á að vinna með slíkar tilfinningar á uppbyggilegan hátt.

Langvinnri lungnateppu er skipt í fjögur stig og misjafnt er á hvaða stigi sjúkdómsins fólk er þegar það kemur inn í þjónustuna en algengast er að það sé á þriðja til fjórða stigi. „Þegar sjúkdómurinn er kominn á alvarlegt stig er súrefnisupptaka orðin mjög léleg og þá þarf oft að gefa súrefni. Á síðari stigum sjúkdómsins eru einkenni orðin mikil og erfið. Einkennameðferð er einstaklingsbundin og stöðugt þarf að endurmeta meðferðina. Það er gert í þverfaglegu samráði við lækna og aðrar fagstéttir eftir þörfum hverju sinni. Helstu einkenni eru mæði, hósti, slímuppgangur, þreyta, orkuleysi, þyngdartap og kvíði. Einkennin hafa veruleg áhrif á athafnir daglegs lífs. Það að fara úr húsi, klæða sig og hátta reynist mörgum verulega erfitt, bara það að anda krefst mikillar orku," segir Þorbjörg Sóley.

Mikil fækkun legudaga 

Fjölskyldur sjúklinga með langvinna lungnateppu fá mikinn stuðning á göngudeildinni og er þeim hjálpað að verða öruggari við að aðstoða sitt fólk. „Þegar fólk er öruggt þarf það minna á kerfinu að halda og áttar sig á því hvað það getur gert sjálft og þarf því minni meðferð," segir Helga. 

Þær hafa rannsakað aðkomu fjölskyldunnar og komist að því að mikilvægt sé að veita henni athygli og tækifæri til að tjá þarfir sínar og áhyggjur og að finna fyrir stuðningi. 

Samfella er í þjónustu við fólk með langvinna lungnateppu og eiga hjúkrunarfræðingarnir í víðtæku þverfaglegu samstarfi við ýmsar aðrar stéttir innan heilbrigðiskerfisins. Rannsóknir hafa sýnt að legudögum sjúklinga með langvinna lungnateppu hefur fækkað verulega frá því göngudeildin tók til starfa. „Við leggjum áherslu á að ef fólk finnur fyrir breytingum á einkennum þá veiti það þeim athygli og leiti aðstoðar ef þörf krefur. Við leggjum áherslu á að koma snemma að málum ef einkenni vaxa og líðan breytist og gera ráðstafanir. Þannig er mögulegt að fækka ótímabærum innlögnum og auka öryggi fólks. Aðgengið skiptir miklu máli og að fólk viti að það sé alltaf hægt að hringja og fá leiðsögn á dagvinnutíma," segir Helga. 

dagnyhulda@frettatiminn.is

 Innsett F.S.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband