Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ályktun Öryrkjabandalags Íslands.

Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 23. nóvember 2011, mótmælir harðlega þeim alvarlegu skerðingum á kjörum öryrkja sem fyrirhugaðar eru af hálfu Ríkisstjórnar Íslands og birtast m.a. í frumvarpsdrögum Velferðarráðuneytisins. Öryrkjabandalagið krefst þess að ríkisstjórnin hverfi þegar í stað frá áformum sínum um enn frekari árásir á lífskjör öryrkja fjórða árið í röð.

Örykjabandalagið hvetur öryrkja og aðra landsmenn til að fylgjast grannt með framvindu mála næstu daga og vikur.  

Nánari upplýsingar veitir Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjórir ÖBÍ í gsm. 869 0224.

innsett: FS


Eru leiðtogar ASÍ að berjast fyrir eigin kjarabótum eða kjaraskerðingu fyrir aðra launamenn ??

 

Ég held að ASÍ verði að fara að skoða eigin vinnubrögð í kjarabaráttunni.   Það þarf að auka greiðslur í lífeyrissjóði ASÍ til að bæta lífeyrisréttindi þeirra fólks. 

Svo er stóra málið að það þarf að koma í veg fyrir að ríkið ræni lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóðanna.

Nú skerða greiðslur lífeyrissjóðanna bætur Tryggingastofnunar Ríkisins svo að áunnin lífeyrisréttindi ganga, að stórum hluta, til ríkisins í gegnum þessar skerðingar.

Verkalíðsfélögin öll verða að vinna betur að réttindum lífeyrisþega og koma í veg fyrir þessar skerðingar.

ASÍ á ekki að öfundast út í lífeyrisréttindi annarra heldur vinna að því að bæta lífeyrisréttindi sinna félagsmanna.

Til þess eiga þeir að nota kjarasamningana.

F.S.

 


mbl.is Vilja afnema ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að leysa rekstrarvanda verndaðra vinnustaða ?

 

Nú er blindravinnustofan í vanda og niðurskurður á framlagi ríkisins er að gera þeim erfitt fyrir. 

Á samdráttartímum eru vinnustaðir að fækka fólki og þá missa fatlaðir oft frekar vinnuna en aðrir.  Því er enn mikilvægara að tryggja rekstur verndaðra vinnustaða og atvinnu þeirra fötluðu einstaklinga sem vinna þar.  

Ríkið fær virðisaukaskatt af seldum vörum og svo skatta af 30 einstaklingum sem vinna þar.

  Stjórnvöld verða að huga betur að þessum vinnustöðum og tryggja vinnu og velferð fötluðu einstaklinganna sem vinna þar.

F.S.


mbl.is Blindravinnustofan í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

Frétt af:   http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33060 

24/10/2011 

Í byrjun næsta árs verða lágmarksbætur lífeyrisþega 203.000 krónur og hafa þá hækkað um 61% frá árinu 2007. Þá hafa útgjöld almannatrygginga sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs farið úr 9,5% árið 2006 í 13,1% árið 2012 miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands síðastliðinn laugardag. 

Velferðarráðherra kom víða við í ávarpi sínu. Hann sagði mikilvægt mál hafa verið lögfest á Alþingi nú í haust þegar samþykkt voru lög sem koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum. „Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna.“ 

„Í þrengingum okkar frá hruni hafa stjórnvöld alltaf lagt áherslu á að útfærslur aðhaldsaðgerða og niðurskurðar útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Grunnþjónustan hefur verið varin eins og kostur er og þau verkefni sem samstaða er um að ríkið sinni í þágu samfélagsins. 

Það hefur líka sýnt sig að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum og þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu hafa dregið úr álögum á þá tekjulægstu en fært skattbyrðina í auknum mæli á herðar þeim sem hærri tekjur hafa.“

 Ráðherra ræddi einnig um endurskoðun almannatryggingakerfisins, stefnumótun í húsnæðismálum og fyrirhugaða upptöku húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Þá talaði hann um frumvarp til breytinga á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sem verður lagt fram á Alþingi á næstunni: 

„Ég er sannfærður um að fólk muni fljótt sjá að þetta kerfi er bæði einfaldara og réttlátara en það sem við búum við núna, af því að það mismunar ekki sjúklingum eftir því hvers eðlis veikindi þeirra eru og af því að það er byggt upp til þess að draga úr kostnaði hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda vegna veikinda sinna. Sambærilegar breytingar tel ég nauðsynlegt að gera varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllu, einfaldlega af því að gildandi kerfi styður ekki nógu vel við bakið á þeim sem helst þurfa á því að halda.“ 

     innsett F.S.


Guðmundur Magnússon endurkjörinn formaður ÖBÍ.

http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/941 

22.10.2011  

Á aðalfundi ÖBÍ sem var haldinn á Grand hóteli Reykjavík í dag, 22. október 2011. Á fundinum var Guðmundur Magnússon endurkjörinn formaður bandalagsins til tveggja ára. 

Grétar Pétur Geirsson var endurkjörinn gjaldkeri ÖBÍ til tveggja ára.  

Kosning var um 2 meðstjórnendur til tveggja ára, þar sem þau Sigríður Jóhannsdóttir og Sigurður Þór Sigurðsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa.  Fjórir gáfu kost á sér til þessara embætta, þær Ellen Calmon  frá ADHD samtökunum og Klara Geirsdóttir frá Félagi CP á Íslandi og fengu yfirburðar kosningu.

Þrír varamenn til eins árs voru kjörnir þau Jórunn Sörensen frá Félagi nýrnasjúkra, Guðmundur S. Johnsen frá Félagi lesblindra og Frímann Sigurnýasson frá SÍBS. Fimm einstaklingar buðu sig fram í varamannskjörinu. 

Í 5 manna kjörnefnd gaf Guðný Guðnadóttir ekki kost á sér til áframhaldandi starfa og Guðjón Sigurðsson hafði sagt sig áður úr kjörnefnd. Þrír fulltrúa í nefndinni gáfu kost á sér til endurkjörs. Þau Gísli Helgason, Sigurður Rúnar Sigursjónsson og Sigurbjörg Ármannsdóttir. Ný í kjörnefnd eru Dagný Erna Lárusdóttir frá SÍBS og Jón Þorkelsson frá Stómasamtökunum. 

Í 5 manna laganefnd höfðu 2 nefndarmenn sagt sig úr nefndinni og að auki gaf Sigríður Jóhannsdóttir ekki kost á sér til endurkjörs. Tvei fulltrúar gáfu kost á sér til endurkjörs þeir Guðmundu S. Johnsen, Félagi lesblindra og Björn Hallgrímsson frá SÍBS.   Nýir í laganefnd eru Gísli Helgason frá Blindarvinafélagi Íslands, Örn Ólafsson frá Félagi CP á Íslandi og Guðbjörn Jónsson frá Parkinsonsamtökunum. Tvær ályktanir voru samþykktar á fundinum. 

  • Ályktun um yfirfærslu þjónustu fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga.
  • Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar til fjárlaga íslenska ríkisins fyrir árið 2012.

 Innsett F.S.


Ályktun um yfirfærslu þjónustu fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga.

 

samþykkt á aðalfundi ÖBÍ í dag, 22. október.

 

http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/942

 

22.10.2011

 

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn á Grand hóteli, Reykjavík, laugardaginn 22. október 2011 ályktar um yfirfærslu á þjónustu fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga sem átti sér stað 1. janúar 2011.

 

Ljóst er að þeir fyrirvarar sem Öryrkjabandalag Íslands hafði uppi um yfirfærsluna voru allir á rökum reistir. Þrátt fyrir undirritun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir fjórum árum er langt í land að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem því ber samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að.

 

Nægilegt fé hefur ekki fylgt málaflokknum, svo hið svokallaða SIS mat virðist ekki hafa  þjónað þeim tilgangi sem því var ætlað, búsetumál hluta fatlaðs fólks eru enn í ólestri, húsaleigubætur hafa ekki fylgt verðlagi um nokkurra ára skeið og verða ráðstöfunartekjur því sífellt minni hjá fólki sem nú þegar hefur lítið handa í millum. Ekki hefur verið mótaður farvegur fyrir þá aðstoð sem framkvæmdasjóður fatlaðra sinnti og kemur það sér meðal annars mjög illa fyrir hagsmunasamtök og félög fatlaðs fólks.

 

Öryrkjabandalagið hefur staðið fyrir fundaröð þetta ár og náð þannig að kynnast stöðu mála um allt land. Ljóst er að vilji er fyrir hendi hjá sveitarfélögunum að gera betur í þessum málaflokki og er bandalagið tilbúið að taka þátt í þeirri uppbyggingu á grundvelli mannréttinda og jafnræðis.

 

Ekkert um okkur án okkar!

Innsett  F.S.

 

 

 

 


Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar til fjárlaga íslenska ríkisins fyrir árið 2012

http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/943 

22.10.2011

Samþykkt á aðalfundi ÖBÍ, 22 október.

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn á Grand hóteli, Reykjavík, laugardaginn 22. október 2011 ályktar um frumvarp til fjárlaga íslenska ríkisins fyrir árið 2012.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 ber með sér að þær réttindaskerðingar og sá niðurskurður sem hófst í janúar 2009, í því velferðarkerfi sem við búum við, verður ekki bættur að sinni.

Samkvæmt 76. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og með hliðsjón af þeim alþjóðlegu mannréttindasamningum og sáttmálum sem Ísland er aðili að er kveðið á um að tryggja skuli fólki viðeigandi lífsafkomu, þannig að hægt sé að lifa með reisn. Ekki verður séð að gert sé ráð fyrir því í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og skorar ÖBÍ á alþingismenn að endurskoða frumvarpið í ljósi þess. Þrátt fyrir verðlagshækkanir og aukna greiðsluþátttöku fólks í lyfja- og lækniskostnaði, sjúkraþjálfun, hjálpartækjum o.fl. hefur öllum viðmiðunartölum í félagslega stuðningskerfinu verið haldið óbreyttum frá 2008. Er þar með enn þrengt að öryrkjum og sjúklingum.Samkvæmt 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkenna aðildarríkin „rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar“.

Viðunandi lífskjör eru sjálfsögð mannréttindi. Við hvetjum  ríkisstjórn sem vill kenna sig við velferð að vinna að samfélagi fyrir alla, með mannréttindi og jafnræði að leiðarljósi.

Ekkert um okkur án okkar!

Innsett F.S.

 


Hækkanir bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga

6/6/2011

Velferðarráðherra hefur kynnt hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum.

Bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækka frá 1. júní síðastliðnum þannig að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur njóti hliðstæðra kjarabóta og samið var um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Markmiðið er ekki síst að bæta hag þeirra sem lökust kjörin hafa og draga úr fátækt.

Almannatryggingar

Bætur hækka um 8,1%

Bætur almannatrygginga hækka um 8,1% og er þar með tryggt að lífeyrisþegar með óskertar bætur njóta 12.000 kr. hækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þannig munu lífeyrisþega njóta hækkunarinnar og þá einnig þeir sem hafa aðrar tekjur, til dæmis frá lífeyrissjóðum eða atvinnutekjur.

Eftirtaldir bótaflokkar almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar hækka um 8,1%:

  • Elli- og örorkulífeyrir.
  • Tekjutrygging.
  • Heimilisuppbót.
  • Aldurstengd örorkuuppbót.
  • Endurhæfingarlífeyrir.
  • Barnalífeyrir.
  • Barnalífeyrir vegna menntunar.
  • Dánarbætur.
  • Maka- og umönnunargreiðslur.
  • Mæðra- og feðralaun.
  • Sérstök uppbót til framfærslu.
  • Sjúkra- og slysadagpeningar.
  • Uppbætur vegna kostnaðar.
  • Umönnunargreiðslur.
  • Vasapeningar.
  • Örorkustyrkur.

Viðmið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkar.

Enn fremur er viðmiðið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkað um 12.000 kr. þannig að lágmarkstrygging einstaklinga verður 196.140 kr. og 169.030 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Með þessu er verið að tryggja að þeir sem minnst hafa njóti einnig þeirra hækkana sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um.

Jafnframt er gerð sú breyting frá og með 1. júní síðastliðnum verður ekki tekið tillit til uppbótar vegna reksturs bifreiðar (bensínstyrkur) við útreikning framfærsluuppbótar. Uppbót vegna reksturs bifreiðar hækkar jafnframt um 8,1% og verður 11.705 kr.

Eingreiðsla

Þeir sem hafa fengið greiddan lífeyri innan almannatryggingakerfisins á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 eiga rétt á eingreiðslu að fjárhæð 50.000 kr. Þeir sem eiga rétt á fullum lífeyri fá því óskerta eingreiðslu án tillits til lækkunar vegna annarra tekna. Tryggingastofnun greiðir eingreiðsluna til lífeyrisþega 15. júní næstkomandi.

Desember- og orlofsuppbætur hækka

Orlofsuppbót verður 28,3% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 20% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 10.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Desemberuppbót verður 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 30% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 15.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Atvinnuleysistryggingar

Grunnatvinnuleysisbætur hækka

Grunnatvinnuleysisbætur hækka um 12.000 kr. sem svarar til krónutöluhækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og verða því 161.523 kr. á mánuði frá og með 1. júní síðastliðnum.

Eingreiðsla

Atvinnuleitendur sem eru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá 50.000 kr. eingreiðslu sem greidd verður út 10. júní næstkomandi.

Atvinnuleitendur sem eru hlutfallslega tryggðir eða hafa ekki staðfest atvinnuleit á öllu tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá greidda hlutfallslega eingreiðslu. Biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikninga enda hafi atvinnuleitandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma. Eingreiðslan verður aldrei lægri en 12.500 kr. miðað við að atvinnuleitandi hafi verið að fullu tryggður.

Desemberuppbót

Enn fremur hefur verið ákveðið að atvinnuleitendur njóti desemberuppbóta sem reiknast sem 30% af grunnatvinnuleysisbótum. Er jafnframt gert ráð fyrir að greitt verði álag að fjárhæð 15.000 kr. í desember 2011 í samræmi við álag á desemberuppbót launafólks á almennum vinnumarkaði. Desemberuppbótin í desember 2011 til atvinnuleitenda verður því 63.457 kr.

Aðrar greiðslur

Jafnframt verða greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hækkaðar um 8,1% sem og fæðingarstyrkur til foreldra og ættleiðingarstyrkir.


22 smituðust af berklum í fyrra: Sprenging miðað við fyrri ár - Flestir smitaðra útlendingar

 

 

 

02. apr. 2011 - 20:20

 

Ástæða er til að hafa áhyggjur að verulegri fjölgun berklatilfella meðal barna í Evrópu. 22 einstaklingar greindust með berkla á Íslandi á síðasta ári. Tilfellin eru óvenjumörg miðað við fyrri ár.

 

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Læknablaðsins. Samkvæmt nýrri skýrslu um útbreiðslu berkla í Evrópu kemur fram að heildartala þeirra sem smitast af berklum fer lækkandi, en berklasmit á meðal barna hefur aukist nokkuð.

 

Alls  greindust  22 einstaklingar hafi greinst með berkla í fyrra sem er óvenju mikið miðað við fyrri ár. Til samanburðar voru tilfellin 9 árið 2009. Af þeim sem greindust með berkla voru 16 af erlendu bergi brotnir.

 

Um miðjan 9. áratug síðust aldar greindust nánast engin börn á skólaaldri með berkla og því var almennum berklahúðprófum í skólum hætt.

 

    "Á undanförnum áratugum hefur hlutur innflytjenda til landsins meðal berklaveikra farið vaxandi. Nú sem fyrr eru Asíubúar hlutfallslega flestir meðal berklaveikra, en tíðni jákvæðra berklaprófa meðal íbúa frá Afríku, Asíu og Austur-Evrópu er einnig há. Það er ljóst að ekki næst til allra innflytjenda í læknisskoðun við komu til landsins. Því er afar brýnt að heilsugæslustöðvar hafi í huga berkla þegar fólk sækir læknisþjónustu vegna einkenna sem bent gætu til berkla",

 

er haft eftir Haraldi Briem, sóttvarnarlækni,  í Læknablaðinu. Árlega látast 1.300 manns úr berklum í heiminum öllum, en sjúkdómurinn  er vel læknanlegur ef hann er greindur nógu fljótt. talið er að 25 til 30 prósent af fólki séu sýkt af berklabakteríunni þótt aðeins 10 prósent af þeim taka sjúkdóminn. 

----    ----    ----    ----    ----    ----  

Greinina má finna hér:

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/04/nr/4183  

 innsett: F.S.

 


Fundaröð ÖBÍ á Austurlandi 30. mars

 

Fundaröð Öryrkjabandalags Íslands

Fatlað fólk á tímamótum

Eru mannréttindi virt?

Fundir á Austurlandi miðvikudaginn 30. mars 2011

Reyðarfirði kl. 11.00

Egilsstöðum kl. 16.00

 

Yfirfærsla á þjónustu fyrir fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga fór fram um síðustu áramót. Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) heldur af því tilefni fræðslu- og umræðufundi víðs vegar um landið. Næstu fundir verða í safnaðarheimili Reyðarfjarðar kl. 11.00 - 13.30 og á Hlymsdölum á Egilsstöðum kl. 16.00 - 18.30.

 

Efni funda:

  1. Ný hugmyndafræði um fötlun og Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Helga Baldvinsd. Bjargardóttir - Fötlunarfræði HÍ
  2. Þekkir þú réttindi þín? Hrefna K. Óskarsdóttir - ÖBÍ
  3. Viðbrögð ÖBÍ vegna yfirfærslunnar. Guðmundur Magnússon - formaður ÖBÍ
  4. Notendastýrð persónuleg aðstoð. Freyja Haraldsdóttir og Embla Ágústsdóttir- NPA miðstöðin
  5. Fyrirhuguð Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar. Ingibjörg Loftsdóttir- Sjálfsbjörg
  6. Umræður og fyrirspurnir.

 

Fatlað fólk, aðstandendur, starfsfólk og stjórnendur sem vinna að málefnum fatlaðs fólks og aðrir sem áhuga hafa á málefninu eru velkomnir.

 

Mætum öll                                   Ekkert um okkur án okkar

 

innfært F.S.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband