Færsluflokkur: Örorkumat og mál öryrkja
Fimmtudagur, 10. nóvember 2011
Eru leiðtogar ASÍ að berjast fyrir eigin kjarabótum eða kjaraskerðingu fyrir aðra launamenn ??
Ég held að ASÍ verði að fara að skoða eigin vinnubrögð í kjarabaráttunni. Það þarf að auka greiðslur í lífeyrissjóði ASÍ til að bæta lífeyrisréttindi þeirra fólks.
Svo er stóra málið að það þarf að koma í veg fyrir að ríkið ræni lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóðanna.
Nú skerða greiðslur lífeyrissjóðanna bætur Tryggingastofnunar Ríkisins svo að áunnin lífeyrisréttindi ganga, að stórum hluta, til ríkisins í gegnum þessar skerðingar.
Verkalíðsfélögin öll verða að vinna betur að réttindum lífeyrisþega og koma í veg fyrir þessar skerðingar.
ASÍ á ekki að öfundast út í lífeyrisréttindi annarra heldur vinna að því að bæta lífeyrisréttindi sinna félagsmanna.
Til þess eiga þeir að nota kjarasamningana.
F.S.
Vilja afnema ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 10. nóvember 2011
Hvernig á að leysa rekstrarvanda verndaðra vinnustaða ?
Nú er blindravinnustofan í vanda og niðurskurður á framlagi ríkisins er að gera þeim erfitt fyrir.
Á samdráttartímum eru vinnustaðir að fækka fólki og þá missa fatlaðir oft frekar vinnuna en aðrir. Því er enn mikilvægara að tryggja rekstur verndaðra vinnustaða og atvinnu þeirra fötluðu einstaklinga sem vinna þar.
Ríkið fær virðisaukaskatt af seldum vörum og svo skatta af 30 einstaklingum sem vinna þar.
Stjórnvöld verða að huga betur að þessum vinnustöðum og tryggja vinnu og velferð fötluðu einstaklinganna sem vinna þar.
F.S.
Blindravinnustofan í uppnámi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Örorkumat og mál öryrkja | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. júní 2011
Hækkanir bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga
6/6/2011
Velferðarráðherra hefur kynnt hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum.
Bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækka frá 1. júní síðastliðnum þannig að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur njóti hliðstæðra kjarabóta og samið var um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Markmiðið er ekki síst að bæta hag þeirra sem lökust kjörin hafa og draga úr fátækt.
Almannatryggingar
Bætur hækka um 8,1%
Bætur almannatrygginga hækka um 8,1% og er þar með tryggt að lífeyrisþegar með óskertar bætur njóta 12.000 kr. hækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þannig munu lífeyrisþega njóta hækkunarinnar og þá einnig þeir sem hafa aðrar tekjur, til dæmis frá lífeyrissjóðum eða atvinnutekjur.
Eftirtaldir bótaflokkar almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar hækka um 8,1%:
- Elli- og örorkulífeyrir.
- Tekjutrygging.
- Heimilisuppbót.
- Aldurstengd örorkuuppbót.
- Endurhæfingarlífeyrir.
- Barnalífeyrir.
- Barnalífeyrir vegna menntunar.
- Dánarbætur.
- Maka- og umönnunargreiðslur.
- Mæðra- og feðralaun.
- Sérstök uppbót til framfærslu.
- Sjúkra- og slysadagpeningar.
- Uppbætur vegna kostnaðar.
- Umönnunargreiðslur.
- Vasapeningar.
- Örorkustyrkur.
Viðmið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkar.
Enn fremur er viðmiðið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkað um 12.000 kr. þannig að lágmarkstrygging einstaklinga verður 196.140 kr. og 169.030 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Með þessu er verið að tryggja að þeir sem minnst hafa njóti einnig þeirra hækkana sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um.
Jafnframt er gerð sú breyting frá og með 1. júní síðastliðnum verður ekki tekið tillit til uppbótar vegna reksturs bifreiðar (bensínstyrkur) við útreikning framfærsluuppbótar. Uppbót vegna reksturs bifreiðar hækkar jafnframt um 8,1% og verður 11.705 kr.
Eingreiðsla
Þeir sem hafa fengið greiddan lífeyri innan almannatryggingakerfisins á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 eiga rétt á eingreiðslu að fjárhæð 50.000 kr. Þeir sem eiga rétt á fullum lífeyri fá því óskerta eingreiðslu án tillits til lækkunar vegna annarra tekna. Tryggingastofnun greiðir eingreiðsluna til lífeyrisþega 15. júní næstkomandi.
Desember- og orlofsuppbætur hækka
Orlofsuppbót verður 28,3% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 20% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 10.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Desemberuppbót verður 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 30% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 15.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Atvinnuleysistryggingar
Grunnatvinnuleysisbætur hækka
Grunnatvinnuleysisbætur hækka um 12.000 kr. sem svarar til krónutöluhækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og verða því 161.523 kr. á mánuði frá og með 1. júní síðastliðnum.
Eingreiðsla
Atvinnuleitendur sem eru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá 50.000 kr. eingreiðslu sem greidd verður út 10. júní næstkomandi.
Atvinnuleitendur sem eru hlutfallslega tryggðir eða hafa ekki staðfest atvinnuleit á öllu tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá greidda hlutfallslega eingreiðslu. Biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikninga enda hafi atvinnuleitandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma. Eingreiðslan verður aldrei lægri en 12.500 kr. miðað við að atvinnuleitandi hafi verið að fullu tryggður.
Desemberuppbót
Enn fremur hefur verið ákveðið að atvinnuleitendur njóti desemberuppbóta sem reiknast sem 30% af grunnatvinnuleysisbótum. Er jafnframt gert ráð fyrir að greitt verði álag að fjárhæð 15.000 kr. í desember 2011 í samræmi við álag á desemberuppbót launafólks á almennum vinnumarkaði. Desemberuppbótin í desember 2011 til atvinnuleitenda verður því 63.457 kr.
Aðrar greiðslur
Jafnframt verða greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hækkaðar um 8,1% sem og fæðingarstyrkur til foreldra og ættleiðingarstyrkir.
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. mars 2011
Fundaröð ÖBÍ á Austurlandi 30. mars
Fundaröð Öryrkjabandalags Íslands
Fatlað fólk á tímamótum
Eru mannréttindi virt?
Fundir á Austurlandi miðvikudaginn 30. mars 2011
Reyðarfirði kl. 11.00
Egilsstöðum kl. 16.00
Yfirfærsla á þjónustu fyrir fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga fór fram um síðustu áramót. Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) heldur af því tilefni fræðslu- og umræðufundi víðs vegar um landið. Næstu fundir verða í safnaðarheimili Reyðarfjarðar kl. 11.00 - 13.30 og á Hlymsdölum á Egilsstöðum kl. 16.00 - 18.30.
Efni funda:
- Ný hugmyndafræði um fötlun og Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Helga Baldvinsd. Bjargardóttir - Fötlunarfræði HÍ
- Þekkir þú réttindi þín? Hrefna K. Óskarsdóttir - ÖBÍ
- Viðbrögð ÖBÍ vegna yfirfærslunnar. Guðmundur Magnússon - formaður ÖBÍ
- Notendastýrð persónuleg aðstoð. Freyja Haraldsdóttir og Embla Ágústsdóttir- NPA miðstöðin
- Fyrirhuguð Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar. Ingibjörg Loftsdóttir- Sjálfsbjörg
- Umræður og fyrirspurnir.
Fatlað fólk, aðstandendur, starfsfólk og stjórnendur sem vinna að málefnum fatlaðs fólks og aðrir sem áhuga hafa á málefninu eru velkomnir.
Mætum öll Ekkert um okkur án okkar
innfært F.S.
Örorkumat og mál öryrkja | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. mars 2011
Vilt þú vera trúnaðarmaður fatlaðs fólks?
http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/874
11.3.2011
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) og Landssamtökin Þroskahjálp auglýsa eftir fólki sem er áhugasamt um að sinna verkefnum trúnaðarmanns fatlaðs fólks. Umsóknarfrestur er til 22. mars nk.
Samkvæmt 37. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 (Opnast í nýjum vafraglugga), skal velferðarráðherra skipa fötluðu fólki trúnaðarmenn eftir tilnefningum frá heildarsamtökum fatlaðs fólks.
Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um trúnaðarmenn fatlaðs fólks nr. 172/2011 (Opnast í nýjum vafraglugga) skulu þeir vera átta talsins og skiptast þeir milli landshluta með eftirfarandi hætti:
- Á þjónustusvæði Reykjavíkur og Seltjarnarness starfi tveir trúnaðarmenn.
- Kópavogur, Garðabær, Álftanes, Mosfellsbær og Kjós hafi einn trúnaðarmann.
- Hafnarfjörður og Suðurnes hafi einn trúnaðarmann.
- Vesturland og Vestfirðir hafi einn trúnaðarmann.
- Norðurland vestra, Akureyri og Norðurþing hafi einn trúnaðarmann.
- Austurland og Hornafjörður hafi einn trúnaðarmann.
- Vestmannaeyjar og Suðurland hafi einn trúnaðarmann.
Helstu verkefni:
Trúnaðarmenn skulu fylgjast með högum fatlaðs fólks og vera því innan handar við réttindagæslu hvers konar. Trúnaðarmaður skal vera sýnilegur í störfum sínum, halda reglulega fundi með fötluðu fólki á sínu svæði og standa fyrir fræðslu fyrir fatlaða einstaklinga og þá sem veita þeim þjónustu. Um frekari verkefni trúnaðarmanna fatlaðs fólks vísast til reglugerðar um trúnaðarmenn fatlaðs fólks nr. 172/2011. (Opnast í nýjum vafraglugga)
Hæfniskröfur:
- Reynsla og þekking á málefnum fatlaðs fólks er nauðsynleg.
- Menntun sem nýtist í starfi er æskileg.
- Leitað er eftir einstaklingum sem eru liprir í mannlegum samskiptum, taka frumkvæði og geta unnið sjálfstætt.
Ráðgert er að skipa trúnaðarmenn til eins árs til að byrja með meðan unnið er að lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
Velferðaráðherra ákvarðar vinnuskyldu og þóknun trúnaðarmanna.
Nánari upplýsingar veita:
Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ, sími 530-6700 / 869-0224, netfang lilja@obi.is
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, sími 588-9390 / 861-2752, netfang fridrik@throskahjalp.is
Þeir sem hafa áhuga á ofangreindum störfum skili umsóknum, rafrænt á ofangreind netföng fyrir 22. mars merkt Trúnaðarmaður eða bréfleiðis til ÖBÍ, Hátúni 10, 105 Reykjavík eða til Landssamtakanna Þroskahjálpar, Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík.
innsett F.S.
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. mars 2011
Kjör öryrkja langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytis
Fréttablaðið, 17. mar. 2011 06:00
Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ
Lilja Þorgeirsdóttir skrifar:
Á blaðamannafundi 7. febrúar sl. kynntu fulltrúar velferðarráðuneytisins ný íslensk neysluviðmið. Gefin var út ítarleg skýrsla unnin af sérfræðingum úr háskólasamfélaginu m.a. með hliðsjón af gögnum Hagstofunnar um neyslu heimila á árunum 2003 til 2008. Fólk er hvatt til að koma með athugasemdir um efni skýrslunnar, sem er á vef ráðuneytisins, fyrir 20. mars nk. Tilgangur neysluviðmiða er að aðstoða fólk við að áætla eigin útgjöld en nýtast þau jafnframt við að finna út lágmarksframfærslu og upphæðir bóta.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur frá upphafi barist fyrir sjálfsögðum réttindum öryrkja til að lifa mannsæmandi lífi óháð því hvort fólk sé fatlað eða með skerta starfsorku vegna veikinda eða annarra ástæðna. Um sjálfsögð mannréttindi er að ræða enda kemur fram í 65. gr. stjórnarskrár Íslands að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda óháð efnahag. Þrátt fyrir það eru kjör öryrkja óásættanleg því bætur almannatrygginga eru langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Þetta á við um öll viðmiðin óháð því hvort um sé að ræða dæmigert viðmið, sem er leiðbeinandi um hóflega neyslu, grunnviðmið, er varðar lágmarksframfærslu, eða skammtímaviðmið, sem er framfærsla í hámark níu mánuði. Í töflunni hér að neðan má sjá hversu mikið ber á milli þessara viðmiða og örorkubóta sem öryrkjar fá frá Tryggingastofnun ríkisins.
Upphæðir í skammtíma- og grunnviðmiðum eru mjög lágar og ljóst að erfitt er að lifa á þeim miðað við aðstæður í þjóðfélaginu, en bætur almannatrygginga eru þó umtalsvert lægri. Það vekur einnig furðu hversu lítill munur er á framfærslu sem fólki er ætlað að lifa á annars vegar til skamms tíma og hins vegar til lengri tíma.
Heilbrigðiskostnaður stórlega vanmetinn.
Kjör öryrkja langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytis
Þegar einstakir kostnaðarliðir neysluviðmiðanna eru skoðaðir kemur í ljós að heilbrigðiskostnaður, sem snertir öryrkja og sjúklinga sérstaklega, er stórlega vanmetinn. Í rannsókn sem framkvæmd var 2006 af Rúnari Vilhjálmssyni félagsfræðingi kom fram að öryrkjar vörðu um 6% af heildartekjum heimilisins í heilbrigðismál, en í nýju neysluviðmiði velferðarráðuneytisins er hlutfallið mun lægra eða um 2,6% þrátt fyrir að kostnaðarhlutdeild sjúklinga vegna lyfja, lækniskostnaðar, þjálfunar og hjálpartækja hafi aukist umtalsvert eftir bankahrun. Almennt er talið að öryrkjar þurfi 15-30% hærri tekjur en aðrir til að njóta sömu lífskjara, þar sem heilbrigðiskostnaður er meiri hjá þeim en hjá fólki almennt séð vegna heilsubrests og kostnaðar við ýmsa aðkeypta þjónustu.
Aðrir vanmetnir kostnaðarliðir.
Gagnrýna má jafnframt að í neysluviðmiðunum er ekki gert ráð fyrir kostnaði við stofnun heimilis eða flutning í annað húsnæði. Þá eru greiðslur opinberra gjalda ekki meðtalin né nefskattar og ekki er gert ráð fyrir að fólk leggi fjármagn til hliðar til að geta mætt óvæntum útgjöldum. Ljóst er að ekkert má út af bera hjá fólki með lágar tekjur til að fjárhagurinn fari ekki enn frekar úr skorðum.
Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja.
Rannsóknin ?Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja? sem kynnt var 25. febrúar sl. sýnir að örorkubætur eru svo lágar að margir öryrkjar búa ekki við mannsæmandi kjör. Rannsóknin var unnin af Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við ÖBÍ með styrk úr sjóði sem stofnaður var í tengslum við Evrópuár 2010 sem tileinkað var baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun. Sjóðurinn var fjármagnaður af stjórnvöldum og Evrópusambandinu.
Í rannsókninni kemur fram að fjölskyldur með börn og unglinga á framfæri eru verst staddar fjárhagslega og þá sérstaklega einstæðir foreldrar. Jafnframt eru margir öryrkjar sem búa einir illa staddir. Í þessum hópum er fólk sem á ekki fyrir brýnustu nauðsynjum seinni hluta mánaðarins og allt of margir verða að leita til hjálparstofnana eftir matargjöfum og annarri aðstoð. Fólk sem býr við slíkar aðstæður upplifir mikla streitu, kvíða og áhyggjur af afkomu sinni. Þá telur fólk bótakerfið flókið og tekjutengingar hamla breytingum á fjárhagslegri stöðu þeirra sem eru einungis með bætur almannatrygginga eða lágar lífeyrissjóðssgreiðslur.
Velferðarráðherra á hrós skilið fyrir að birta niðurstöður neysluviðmiðs en hingað til hefur hvílt yfir þessum málum ákveðin leynd. Nú blasir raunveruleikinn við sem hagsmunasamtök, einstaklingar og sérfræðingar hafa ítrekað bent á. Langtímafátækt er staðreynd í okkar samfélagi. Beðið er með óþreyju eftir aðgerðum stjórnvalda sem verða að bæta kjör öryrkja í anda velferðarsamfélags sem hefur mannréttindi að leiðarljósi
innsett F.S.
Örorkumat og mál öryrkja | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Um 62% fólks með örorkumat hefur innan við 200 þúsund krónur á mánuði til ráðstöfunar.
22.12.2010
Stöð2 sýndi í gær, 21. desember, nýja hlið á kjörum öryrkja, sem er að hluta nær staðreyndum, enn er þó framsetningin villandi.Í frétt þeirra segir meðal annars að tölurnar sýni það sem menn fá í vasann, ?eina sem getur bæst við eru húsaleiga, barna- og vaxtabætur, rétt eins og hjá fólki á vinnu markaði."
ÖBÍ hefur áræðanlegar upplýsingar um að inn í þeim uppgefnum tölum frá TR sem Stöð2 styðst við, séu einnig meðtaldar greiðslur meðlags, mæðralauna, dánarbóta, umönnunarbóta og annarra uppbóta sem fámennur hópur einstaklinga á rétt á vegna sérstakra aðstæðna.
Meðlag, mæðralaun, umönnunarbætur og dánarbætur er greiðslur sem allir almennir launamenn eiga rétt á ef þeir eru í slíkri stöðu. Þessar tölur þyrfti því að aðgreina í umræddu dæmi Stöðvar2.
Í frétt Stöðvar2 er þess einnig getið að 757 öryrkjar fari yfir 350 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuð (þ.e. tekjur eftir skatta). ÖBÍ vill benda á að allir þeir öryrkjar sem hafa í launa-, lífeyris- eða fjármagnstekjur kr. 331.778 (fyrir skatta) eða hærri, fá enga bætur almannatrygginga frá TR þar sem tekjutengingaráhrif hafa þá skert bætur lífeyrisþegans niður í núll. Þeir 757 öryrkjar sem tilgreindir eru í fréttinni sem hátekjumenn greiða því skatta og skyldur jafnt á við aðra launamenn í landinu. Sá fjöldi sem er í þessari stöðu mun vera hærri eða um 900 manns, samkvæmt nýlegum upplýsingum TR til ÖBÍ.
TR skjal -skerðingaráhrif tekna á bætur (opnast í nýjum vafra)
Fjármagnstekjur og skerðingar.
Loks má geta þess að allir öryrkjar sem fá fjármagnstekjur (vexti, verðbætur) af sínum bankareikningi greiða sömu skatta og aðrir þegnar þessa lands. Einnig eru bætur þeirra skertar vegna þessara tekna krónu á móti krónu, ef þeir fá uppbót á framfærslu (á við þá sem lægstu bæturnar hafa). Launamenn verða hinsvegar ekki fyrir því að laun þeirra séu skert þó nokkrar krónur fáist í vexti á ári.
Reiknivél TR fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málin betur. (opnast í nýjum vafra)
Frétt Stöðvar2 þann 21. desember.
Innsett F.S.
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. desember 2010
Notendastýrð persónuleg aðstoð og kostnaður við þjónustu við aldraða og fatlaða
10.12.2010
http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/660
Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, unnin fyrir ViVe-Virkari velferð.
Í þessrai skýrslu er fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð og tiltekin nokkur dæmi um kostnað við núverandi þjónustu við aldraða og fatlaða á Íslandi. Að skýrslunni unnu Dr. Sveinn Aganrsson frostöðumaður Hagfræðistonfunar HÍ og Þorvarður Atli Þórsson hagfræðingu.
Vive er vinnuhópur sem hefur tekið saman áætlun fyrir íslens stjornvöld um hvernig hægt er að breyta velferðarkerfi þannig ða fatlaðir og aldraðir geti lifað sjálfstæðu lífi utan stofnana.
Skýrslan í heild (767kb)
innsett F.S.
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. desember 2010
Viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja.
Víxlverkanir stöðvaðar
http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/657
8.12.2010
Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu 3. desember sl., viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja.
Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja. Fyrir hönd lífeyrissjóðanna er viljayfirlýsingin undirrituð með fyrirvara. Á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða er á það bent að hver og einn lífeyrissjóður eigi að sjálfsögðu síðasta orðið um aðild sína að samkomulaginu. Einnig segir að formsatriðum samkomulagsins skuli ljúka fyrir miðjan desember og að því búnu taki hver lífeyrissjóður afstöðu til málsins.
Víxlverkanirnar hafa ítrekað skert bætur öryrkja.
Á vef ráðuneytisins er viðurkennt að víxlverkanirnar hafa komið öryrkjum illa og staðið í vegi fyrir kjarabótum þeim til handa. Lífeyrissjóðirnir hafa síðustu misserin miðað greiðslur sínar til öryrkja við tekjur þeirra áður en þeir urðu fyrir örorku. Þetta hefur leitt til þess að þegar stjórnvöld hafa hækkað bætur til öryrkja hafa greiðslur lífeyrissjóðanna lækkað að sama skapi. Tekjutengingin milli almannatrygginga og lífeyrissjóða er gagnkvæm. Aðgerðir stjórnvalda til að bæta kjör öryrkja hafa því litlu skilað til þessa hóps og sömuleiðis hafa hærri greiðslur úr lífeyrissjóðum leitt til lækkunar örorkubóta.
Aftenging víxlverkunarinnar mun gilda í 3 ár.
Viljayfirlýsingin felur í sér að víxlverkanir milli örorkubóta almannatrygginga og lífeyrissjóðstekna verða aftengdar í þrjú ár (árin 2011, 2012, 2013). Áhrif atvinnutekna öryrkja á bætur og greiðslur úr lífeyrissjóðum verða hins vegar óbreytt. Aðilar eru sammála um að nota þennan tíma til að finna lausn á fyrirkomulagi þessara mála til framtíðar. Samhliða mun fara fram endurskoðun á tekjutengingu ýmissa bótaflokka almannatrygginga.
Viljayfirlýsingin (opnast á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða)
Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnará heimasíðu Landssambands lífeyrisjóða
Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnar á heimasíðu félags og tryggingamálaráðuneytis
innsett F:S:
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 2. desember 2010
Umsögn ÖBÍ um frumvarp um breytingar á lögum um málefni fatlaðra.........
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 2. desember 2010
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.
Eins og aðalstjórn ÖBÍ ályktaði 22. júní 2010 telur ÖBÍ að til að yfirfærslan geti farið fram svo sómi sé að verði lagaumhverfi að vera komið á hreint. Íslendingar skrifuðu undir Samning Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fólks með fötlun 30. mars 2007 og ætti að vera búið að innleiða samninginn nú þegar. Ljóst er að endurskoðun þeirra laga sem hér eru til umfjöllunar var framkvæmd til að hægt væri að færa málefni fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga, það er að færa málaflokkinn á milli stjórnsýslustiga. Ekki er um heildarendurskoðun að ræða og Samningur SÞ er ekki hafður að leiðarljósi. Hefja þarf því tafarlaust vinnu við að semja ný lög um réttindi fatlaðs fólks sem byggja meðal annars á þörfum einstaklingsins og rétti hans til fullrar samfélagsþátttöku.
Athugasemdir við einstakar greinar
Samráð við hagsmunasamtök
ÖBÍ leggur áherslu á að leggja þurfi ríkari áherslu á samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks í frumvarpinu. Sem dæmi kemur fram í 2. gr. laganna, 1. mgr.: Ráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðra sem skal gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga." Hér þarf að bæta inn í lok setningarinnar orðin: og hagsmunasamtök fatlaðs fólks."
Trúnaðarmenn, réttindagæsla og samráð við notendur
Í 26. gr. frumvarpsins er fjallað um trúnaðarmenn fatlaðra. ÖBÍ telur að hér þurfi að koma fram fjöldi trúnaðarmanna og að haft verði samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks um það atriði. ÖBÍ telur að lágmark einn trúnaðarmaður verði að vera starfandi í hverri þjónustumiðstöð til að tryggja nærþjónustu við fatlað fólk.
Fjallað er um ferli mála sem koma til trúnaðarmanns í 26. gr. lið b. Kemur þar fram að trúnaðarmaður aðstoði hinn fatlaða við að kæra mál til úrskurðarnefndar um félagsþjónustu og húsnæðismál þegar það á við, sbr. 3. mgr. 5. gr. og meti hvort hann tilkynni um málið til velferðarráðuneytis. ÖBÍ vill benda á að hér ætti að breyta lok setningarinnar þannig að trúnaðarmaður meti í samráði við hinn fatlaða hvort málið verði tilkynnt til velferðarráðuneytis.
Í 8. gr. frumvarpsins lið b. kemur fram að sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem starfa saman á þjónustusvæði sé heimilt að bæta við þjónustustofnunum, sameina þær eða fella niður starfsemi þeirra. Þarna eru sveitarfélögin í mikilli valdastöðu og geta fellt niður þjónustu án þess að hafa samráð við hlutaðeigendur. ÖBÍ telur þetta ákvæði of einhliða og að bæta þurfi við að sveitarfélögin verði að hafa fullt samráð við notendur þjónustunnar í tilvikum sem þessum.
Réttindagæslu fatlaðs fólks er ekki getið í frumvarpinu og finnst ÖBÍ það miður í ljósi nýútkominnar skýrslu frá Ríkisendurskoðun um þjónustu við fatlaða þar sem fram kemur að eftirlit með þjónustu við fatlaða sé óviðunandi. ÖBÍ telur nauðsynlegt að endurskoðuð lög um réttindagæslu líti dagsins ljós áður en málaflokkurinn færist yfir.
Eftirlit og gæðakröfur
Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins er sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa saman að þjónustusvæði heimilt að veita starfsleyfi til handa félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum einkaaðilum sem vilja hefja eða taka við rekstri þjónustustofnunar. Hvergi kemur fram hvaða kröfur ætti að gera til slíkra aðila og hvernig eftirliti með þeim skuli háttað. Í 2. og 3. gr. kemur fram að ráðherra skuli hafa eftirlit með framkvæmd laganna og þar með talið þjónustu og starfsemi innan málaflokksins og að sveitarfélög skuli hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar. ÖBÍ telur að kveða þurfi nánar á um þessi atriði í frumvarpinu. Innra eftirlit gengur ekki upp nema með sterku ytra eftirliti. Einnig gerir ÖBÍ kröfu um að áætlað eftirlit velferðarráðuneytisins með þjónustu sveitarfélaganna verði virkt og að fram komi í frumvarpinu hvernig standa eigi að því.
Aðstoð við fatlað fólk
Í 9. gr. frumvarpsins segir að fatlaðir skuli eiga kost á þeirri félagslegu þjónustu sem gerir þeim kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þeirra og óskir eftir því sem kostur er. Hér er eingöngu verið að fjalla um þjónustu á eigin heimili en ekkert er kveðið á um aðstoð til samfélagsþátttöku. ÖBÍ telur nauðsynlegt að víkka þessa grein út þannig að fatlað fólk geti fengið aðstoð á öllum sviðum samfélagsins, sem dæmi má nefna í skóla, vinnu, frítíma, sem er í anda hugmyndafræði notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, sem nánar er fjallað um í næsta kafla.
Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins á að hafa samráð við hinn fatlaða og væntanlegt sambýlisfólk hans óski hann eftir þjónustu sem rekin er af öðrum en sveitarfélögum. Hér ætti að bæta við að það sé gert þegar það á við. Það býr ekki allt fatlað fólk á sambýlum.
Í frumvarpinu er hvergi getið um lengda viðveru fyrir fatlað fólk á grunn- og framhaldsskólaaldri. ÖBÍ vill benda á að taka þurfi tillit til sérþarfa þess hóps barna og ungmenna sem geta í mörgum tilvikum ekki verið ein heima eftir að skóla lýkur þar sem þau þurfa á mikilli aðstoð að halda, vegna fötlunar sinnar, hreyfihömlunar, blindu, heyrnarskerðingar og börn sem eru með langvarandi veikindi.
ÖBÍ telur að þess þurfi að geta í frumvarpinu að fjármagn skuli fylgja einstaklingnum við flutning á milli sveitarfélaga og að hann fái þjónustu frá fyrsta degi. Jöfnunarsjóður á að sjá um að svo sé en að mati ÖBÍ er nauðsynlegt að lögfesta þetta atriði.
Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA)
Í 33. gr. frumvarpsins er fjallað um NPA og að koma skuli á sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks í þessu sambandi. Í fyrri drögum frumvarpsins var tekið fram að verkefnið ætti að hefjast við gildistöku laganna, en þessi setning hefur nú verið felld niður. ÖBÍ fer fram á að sett verði aftur inn ákvæði í lögin um tímasetningu verkefnisins.
Samkvæmt 4. málsgrein sömu greinar er fjallað um verðmat og notendasamninga í tengslum við NPA. ÖBÍ telur að hér ætti að koma fram að tryggja verði að notandi lendi ekki í aukakostnaði vegna þess að verðmat á aðstoð sé of lágt eða þörf á þjónustu vanmetin.
Kærufrestur vegna ákvarðana um þjónustu
Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins er fötluðu fólki heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar séu á grundvelli laga þessa til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Fram kemur að kærufrestur sé fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðunina. Í stjórnsýslulögum nr. 37 frá 30. apríl 1993 í 27. gr. kemur fram að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Nauðsynlegt er að taka tillit til þess að fólk þarf undirbúning til að leggja fram kæru, sérstaklega þegar haft er í huga að sumir þurfa að leita sér aðstoðar við það. ÖBÍ telur að í frumvarpi þessu ætti að taka mið af ákvæðum í stjórnsýslulögum og lengja kærufrestinn í þrjá mánuði að lágmarki.
Ferðaþjónusta fatlaðra
Í 24. gr. frumvarpsins er fjallað um ferðaþjónustu fatlaðra en þeirri þjónustu hefur að mati notenda í mörgu verið ábótavant. Samræming hefur ekki verið á milli sveitarfélaga, dæmi eru um að notendur hafi ekki getað ferðast á milli sveitarfélaga með ferðaþjónustunni, sem er mjög bagalegt. Einnig hefur fólk ekki getað nýtt sér þessa þjónustu í öðrum sveitarfélögum en þar sem það hefur lögheimili. ÖBÍ telur að taka þurfi tillit til þessa þegar ráðherra gefur út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.
Samkvæmt 24. gr. er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. ÖBÍ vill benda á að þar sem það á við ætti gjald ekki að vera hærra en það sem ófatlað fólk greiðir fyrir almennings samgöngur á viðkomandi svæði.
Samráðsnefnd
Samkvæmt 34. gr. frumvarpsins skal velferðarráðherra skipa átta manna samráðsnefnd um málefni fatlaðra. Þar kemur meðal annars fram að Öryrkjabandalag Íslands skuli tilnefna einn fulltrúa. Þar sem ÖBÍ er hagsmunafélag margra stórra fötlunarhópa, eins og til dæmis hreyfihamlaðra, fólks með þroskahömlun, blindra, sjónskertra, geðfatlaðra, heyrnarskertra, heyrnarlausra og langveikra fer ÖBÍ fram á að það fái að skipa að minnsta kosti tvo fulltrúa í samráðsnefndina.
Framkvæmdasjóður fatlaðra
Samkvæmt 34. gr. frumvarpsins skal leggja framkvæmdasjóð fatlaðra niður 1. janúar 2011 og frá þeim tíma tekur fasteignasjóður innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við réttindum og skyldum sjóðsins í tengslum við fasteignir sem nýttar eru í þágu þjónustu við fatlaða við yfirfærsluna.
Í frumvarpinu er hvergi tekið fram hver á að taka við öðrum hlutverkum sjóðsins en þeim sem tengjast fasteignum. Í reglugerð um stjórnarnefnd málefna fatlaðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra II. kafla 8. gr. kemur fram að hlutverk sjóðsins sé meðal annars eftirfarandi:
- Veita styrki til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, til stofnana og heimila fatlaðra, meiri háttar viðhaldsframkvæmda o.fl.
- Veita styrki til framkvæmdaaðila félagslegra íbúða sem ætlaðar eru til leigu.
- Verja allt að 10% af ráðstöfunarfé til að bæta aðgengi opinberra stofnana.
- Veita fé til breytinga á almennum vinnustöðum.
- Veita fé til kannana og áætlana í málefnum fatlaðra.
- Veita fé til annarra framkvæmda sem nauðsynlegar eru taldar í þágu fatlaðra.
Þessi atriði hafa haft mikla þýðingu fyrir fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra sem hafa getað sótt í þennan sjóð til að viðhalda húsnæði og vinna að bættu aðgengi fyrir fatlað fólk. ÖBÍ telur nauðsynlegt að fram komi í frumvarpinu hver tekur við þessum hlutverkum eftir yfirfærsluna.
Lokaorð
Eins og fram kemur í umsögn ÖBÍ þá eru mörg atriði í frumvarpinu sem þarf að endurskoða. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að taka tillit til þeirra við setningu laganna með hliðsjón af Samningi SÞ um réttindi fólks með fötlun.
Virðingarfyllst,
f.h. Öryrkjabandalags Íslands
____________________________ _______________________
Guðmundur Magnússon Lilja Þorgeirsdóttir
formaður ÖBÍ framkvæmdastjóri ÖBÍ
innsett: F.S.
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
2 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar