Færsluflokkur: Örorkumat og mál öryrkja

Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar.

 Af:  OBI.is

 

 

Heilbrigðisráðuneytið

b.t. Ingunnar Björnsdóttur

Vegmúla 3

150 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 12. nóvember 2010

 

 

Efni: Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar. 

 

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur fengið til umsagnar drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar frá október 2010. Frestur til að skila umsögninni er til mánudagsins 15. nóvember.

 

Inngangur

ÖBÍ fagnar því að drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi séu komin út, sem boðar breytingu á núverandi kerfi. Miðað við framkomnar tillögur verður kerfið mun einfaldara en það er í dag og er von okkar að kerfisbreytingin verði sem allra fyrst. Ánægjulegt er að sjá að sérstakt viðmið verði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega eins og fram kemur í tillögum 1 og 2. Tillaga 3 kemur ekki til greina að okkar mati.

 

Breytingin sem boðuð er á kerfinu í heild sinni er jákvæð. Mikilvægt er að greiðsla fylgi sjúklingum en ekki lyfjum, þannig að aukið jafnræði ríki meðal fólks, óháð sjúkdómum. Einnig er mikilvægt að hámark greiðsluþátttöku einstaklinga sé skilgreint og að hægt sé að sækja um lyfjaskírteini þegar því hámarki er náð. Við fögnum því að sýklalyf verði tekin með inn í greiðsluþátttökukerfið, því sýkingar eru oft aukaverkanir ýmissa sjúkdóma. Nauðsynleg lyf vegna aukaverkana, t.d. magalyf, sem fylgja oft langvarandi notkun annarra lyfja eða notkun eldri og ódýrari lyfja þarf einnig að taka inn í kerfið.

 

ÖBÍ vill þó benda á að ekki er ráðgert að setja aukið fjármagn inn í nýtt kerfi heldur munu fjölmargir sjúklingar greiða meira en áður fyrir lyf sín til að fjármagna aukna niðurgreiðslu hjá öðrum sjúklingum. Slíkt fyrirkomulag kemur sér vel fyrir þá sem eru með verulegan lyfjakostnað þar sem ekkert þak er á því hversu hár lyfjakostnaður getur orðið. En fyrirhuguð breyting kemur niður á þeim sjúklingum sem í dag greiða lægra gjald.

 

Vert er að benda á að margir sjúklingar þurfa ýmis hjálpartæki sem fylgja lyfjatöku og kostnaði því samfara. Sá kostnaður telst ekki vera vegna lyfja heldur sem hjálpartæki. ÖBÍ leggur áherslu á að sá kostnaður verði skoðaður samhliða breytingu á kerfinu þar sem útgjöld vegna lyfja er aðeins hluti af þeim kostnaði sem sjúklingar verða fyrir. Nauðsynlegt er að fá heildarsýn yfir stöðu mála. 

 

 

Athugasemdir við ýmis atriði skýrslunnar

Mjög gott er að tekið verður á fjöllyfjanotkun skv. skýrslunni. Hins vegar þarf að huga að því að þegar fólk greinist með sjúkdóma hefst, í mörgum tilvikum, leitun að rétta lyfinu þar sem að hagkvæmustu lyfin henta ekki öllum. ÖBÍ leggur áherslu á að heimild til notkunar annarra lyfja sé virt, m.a. vegna aukaverkana og öryggis, því er sveigjanleiki lyfjaskírteina nauðsynlegur. Þegar lyf eru tekin fyrirvaralaust úr greiðsluþátttöku þurfa að vera skýr og gegnsæ rök fyrir því sem öllum eru aðgengileg. Eins og áður sagði virka sum lyf betur en önnur fyrir ákveðna einstaklinga og því er það alvarlegt mál að taka lyf fyrirvaralaust út.

 

Í skýrslu vinnuhópsins er talað um kostnaðarvitund sjúklinga og hvatann til að velja ódýrari lyf sem getur í mörgum tilvikum verið jákvætt. En bent er á að margir sjúklingar hafa ekkert val og taka þarf sérstaklega tillit til þess hóps hvað kostnaðarþátttöku varðar við breytingu á kerfinu.

 

Við upphaf lyfjameðferðar hafa lyf oft verið afgreidd í mjög stórum skömmtum þrátt fyrir að ekki sé vitað hvort lyfið henti viðkomandi eða ekki. Ef í ljós kemur að viðkomandi lyf hentar ekki þá fer hugsanlega rúmlega helmingur lyfsins í ruslið. Huga ætti að því að veita meira svigrúm varðandi stærðir lyfjaskammta svo hægt sé að afgreiða minna af fyrsta skammti af nýju lyfi. Með því móti má spara töluvert fjármagn sem annars færi til spillis.

 

Í skýrslunni eru taldir upp þeir aðilar sem halda þarf fundi með. Ánægjulegt er að sjá Öryrkjabandalagið þar upp talið en það gleymist að félög sjúklinga hafa hagsmuna að gæta og ættu að vera sjálfsagður markhópur kynningar. Veitendur þjónustunnar eiga að upplýsa sjúklinga um fyrirhugaðar breytingar. Hingað til hefur upplýsingaflæði til sjúklinga ekki verið nógu gott og mætti bæta, m.a. er heimasíða Sjúkratrygginga helst til flókin.

 

Sá gagnagrunnur sem notaður verður til að halda utan um upplýsingar þarf að vera mjög vel varinn og ekki ætlaður til að setja inn aðrar upplýsingar en upphaflegur tilgangur segir til um. Fólk ætti að geta farið inn á sína eigin lyfjagátt á sama hátt og farið er inn í heimabanka eða síður ríkisskattstjóra og geta fylgst með eigin upplýsingum ásamt upplýsingum um kostnað og lyf.

 

Úttekt og eftirlit

Mikilvægt er að gerð verði úttekt á kerfinu svo hægt sé að gera sér grein fyrir virkni þess. Úttekt þarf að gera þegar kerfið er sett upp og aftur að ári liðnu. Sú úttekt ætti ekki að vera eingöngu á hendi landlæknisembættisins, því það embætti er fulltrúi kerfisins. Sjúklingar ættu einnig að hafa sinn fulltrúa í eftirliti með kerfinu, sbr. Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Búa þyrfti til embætti umboðsmanns sjúklinga eins og gert hefur verið á norðurlöndum.

 

Lokaorð

ÖBÍ lítur á þessar breytingar sem fyrsta skrefið í átt að jafnræði. Með fyrirhuguðum breytingum verður kerfið markvissara og gagnast frekar þeim sem þurfa mest á þjónustunni að halda.

 

ÖBÍ leggur áherslu á að í framhaldi af þessu þarf að skoða sem allra fyrst greiðsluþátttöku sjúklinga í hjálpartækjum, læknisheimsóknum, sjúkra-, iðju- og talþjálfun ásamt tannlæknakostnaði. Lyfjakostnaður er einungis hluti af þeim kostnaði sem öryrkjar og langveikir þurfa að greiða vegna sinnar fötlunar og/eða sjúkdóma.

 

Rétt er að ítreka það að tillögur nefndarinnar um nýtt greiðsluþátttökukerfi byggja á hagræðingu innan sjálfs kerfisins, þannig að niðurgreiðslur á lyfjum koma frá sjúklingunum sjálfum þar sem ekkert aukafjármagn kemur til af hendi ríkisins. Eðlilegra væri að laga kerfið og auka jafnræði með öðrum hætti með allt samfélagið í huga þ.e. í gegnum skattkerfið. Með því móti væri hægt að halda lyfjakostnaði sjúklinga í lágmarki.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Öryrkjabandalags Íslands

 

________________________

Guðmundur Magnússon

formaður

 

 innsett/F.S.

 


Grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu

 

Af.  http://www.ruv.is/frettaskyringar/innlendar-frettir/grundvallarbreytingar-a-heilbrigdiskerfinu

 

12.10.2010

 

 

Bergljót Baldursdóttir | bergljotb@ruv.is

 

Grundvallarbreytingar verða á heilbrigðiskerfinu hér á landi ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar um niðurskurð ná fram að ganga. Formaður Læknafélags Íslands segir þó að læknar séu ekki alfarið á móti breytingunum.

 

Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að draga úr sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, en í staðinn efla heilsugæsluna og sjúkraflug. Ef af verður er um að ræða annars konar heilbrigðisþjónustu en Íslendingar hafa átt að venjast undanfarin ár. Niðurskurðinum var harðlega mótmælt um allt land í vikunni. Haldnir voru borgarafundir á Ísafirði, Húsavík, í Keflavík, Vestmannaeyjum og víðar.

 

Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja: Þetta myndi væntanlega þýða þá að fæðingarþjónusta legðist af sem er þó búin að vera í sérhæfðu húsnæði síðan 1850. Skurðstofa legðist af sem að þó er búin að vera hér síðan 1930. Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja: Þetta þýðir náttúrulega í stuttu máli að sjúkrahúsþjónustan leggst meira og minna af hjá okkur. Hörður Högnason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: Þó að við segðum upp öllum læknum og hjúkrunarfræðingum stofnunarinnar að þá myndum við ekki ná upp í það sem við eigum að spara. Guðrún Árný Guðmundsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga: Þetta er mjög stór biti og fyrir bæði okkur hérna starfsmennina og starfsmannahópinn og fyrir samfélagið allt. Þú sérð það að það eru 70 manns sem fara og þá fara líka makar með. Hafsteinn Sæmundsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks: Ef að þetta er niðurstaða mála að fækka hér verulega það er að minnsta kosti þriðjung starfsmanna eða allt að 40 störfum. Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands: Hvernig felst hagur í því að flytja þessi rúm frá okkur og ætla að flytja sjúklinga til þess að gera einfaldar þarfir inn á Landspítalann eða inn á Akureyri þar sem eðlilega er miklu dýrari þjónusta, hátækniþjónusta.

 

Heilsugæslan
Gert er ráð fyrir að sjúkrarýmum á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni verði fækkað um 91 þannig að þau verði 235 í stað 326. 90 milljónir á að setja í sjúkraflutninga og 480 milljónir verða settar í að efla heilsugæsluna.

 

Halldór Jónsson, formaður Félags íslenskra heilsugæslulækna: "Auðvitað er það hérna umtalsverð upphæð, en spurningin er bara hvernig hún er notuð og heilsugæslan að minnsta kosti á Stór- Reykjavíkursvæðinu og heilbrigðisþjónustan verulega á landsbyggðinni semsagt um allt land sat í annað hvort stóð í stað eða í niðurskurði allt góðærið svokallaða og og hérna ég hef oft lýst því þannig að þegar að hrunið varð að þá tóku menn þetta sem þeir voru eins og heilsugæslan í Reykjavík búin að spara og spara og spara, þeir tóku átröskunarsjúklinginn og sögðu honum að fara í megrun."

 

Hátt í 20 heilsugæslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu. Það stendur til að fækka þeim og stækka þær og ef af verður þá gæti þessi heilsugæslustöð orðið hluti af annarri stærri. Menn velta fyrir sér hvort heilsugæslan sé í stakk búin til að taka við því viðbótarálagi sem boðað er.

 

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra: "Ég held það sé nú ekki rétt að setja það þannig upp að það verði viðbótarálag. Aftur á móti er verið að reyna að styrkja heilsugæsluna sem fyrstu móttökustöð og í þessari lotu á meðan að við erum í hörðum niðurskurði þá felst það í að verja hana fyrir niðurskurðinum. Það er ekki mikið bætt í það er alveg hárrétt."

 

Skortur á læknum um allt land
Læknaskorturinn getur haft afdrifarík áhrif á hvað verður úr niðurskurðarhugmyndum því ekki er bara skortur á læknum í heilsugæslunni heldur líka í mörgum sérgreinum. Martin Grabowski er sjálfstætt starfandi taugalæknir í hálfu starfi á taugadeild Landspítalans. Hann segir að taugalæknum hafi fækkað um fjóra um á rúmu ári. Þeir voru 15 en eru nú 11.

 

Martin Grabowski, taugalæknir: "Við erum tveir taugalæknar sem vinna hér á Læknasetrinu.  Það er svona tveggja þriggja mánaða bið að komast til okkar og biðin hefur lengst síðustu eitt til tvö árin. Það sem gerist hér gerist náttúrulega svo skyndilega. Það finnst mér allavega sem utanaðkomandi að skipulagninguna vanti. Allt gerist mjög hratt og það er mikil óvissa og það er skipulagningin og planið sem vantar."

 

48 læknar útskrifast á hverju ári úr Háskóla Íslands. Flestir þeirra fara til útlanda í sérnám. Undanfarin tvö ár hefur enginn þeirra skilað sér heim og þeir sem voru á leiðinni heim fyrir hrun hættu við að koma.

 

Guðbjartur Hannesson: "Og við þurfum að sjálfsögðu að mæta þessu. Það er grafalvarlegt ef við getum ekki fengið lækna til starfa þannig að ég get ekki svarað því nákvæmlega hvernig er hægt að gera það, en við verðum að fara yfir það með meðal annars læknum og öðrum."

 

Eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum
Til stendur að minnka sjúkrahúsþjónustuna úti á landsbyggðinni og færa sumar aðgerðir inn á stærri sjúkrastofnanir. Árið 1993 kom út skýrsla þar sem fram komu svipaðar hugmyndir. Mikil andstaða við þær varð til þess að ekkert varð af þeim.

 

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands: "Það að hlutirnir færist yfir á meira þróaða staði er eðlileg þróun í læknisfræði. 21. öldin í læknisfræði er allt öðruvísi heldur en mið 20. öldin." Bergljót Baldursdóttir: "Þannig að þú eða þið í Læknafélaginu, Læknafélaginu eru ekkert alfarið á móti þessari þróun að skera niður á landsbyggðinni og færa yfir á stærri sjúkrahúsin?" Birna Jónsdóttir: "Það er eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum heldur en þær voru fyrir 40 árum. Það er ekkert við það að athuga."

 

Skoða þarf hvar er hagkvæmast að gera aðgerðir
Birna segir að ekki hafi verið haft samráð við fagfélög í heilbrigðisþjónustunni. Ekki sé heldur búið að greina hvar sé hagkvæmast að gera hverja aðgerð.

 

Bergljót: "Skiptir ekki máli að það verði ákveðin kostnaðargreining á því hvað er hagkvæmast á hverjum stað áður en að ákveðið er að skera niður eins og búið er að gera í rauninni?" Guðbjartur Hannesson: "Jú það er auðvitað búið að skoða þetta ítrekað þó að það megi alltaf gera miklu betur. En í sambandi við kostnaðargreiningu ég skal viðurkenna það að hún er ekki mjög ítarleg í kerfinu í heild þó að mikið hafi verið unnið og þá er þetta einmitt spurningin um það ef þú ert að gera fáar aðgerðir á einhverjum einum stað, en heldur úti sólarhringsvakt meira og minna allt árið þá kostar það býsna mikið."

 

Aðgengi að sjúkrahúsþjónustu gæti versnað
Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur, segir að breytingar af þessu tagi þurfi mikinn undirbúning og ætti að gera í samráði við fagfólk í heilbrigðisþjónustunni. Hætta er á því að aðgengi að sjúkrahúsþjónustu á Íslandi muni versna.

 

Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur: "Ég hef áhyggjur af því að að sókn í hana muni hugsanlega minnka og aðgengi að henni versna þegar að vegalengdir á þjónustustað aukast. Það eru til almennar viðmiðanir erlendis frá um að æskilegt sé að að ferð á þjónustustaði sjúkrahúsa sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu séu ekki nema svona hálftími eða minna. Við erum að fjölga því fólki sem fer lengri vegalengdir á sjúkrahúsin eftir sérfræðiþjónustu og þegar um er að ræða almennari sérfræðiþjónustu þá hef ég áhyggjur af því að þarna geti verið kominn upp aðgengisvandamál."

 

Ef niðurskurðarhugmyndirnar verða að veruleika verður Landspítalinn hér og sjúkrahúsið á Akureyri sérhæfð sjúkrahús sem taka við sjúklingum af öllu landinu. Það sem hins vegar getur sett strik í reikninginn er læknaskorturinn og andstaðan við hugmyndirnar.

innsett FS

 

 


Eigi skal aftur höggva.........

 

Er ekki komið nóg af álögum á lífeyrisþega og niðurskurði tryggingabóta og þjónustu við þá.?

Ísland er búið að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna um þjónustu við fatlaða, og það kostar peninga að laga þjónustuna að því sem þar er ætlast til.

Ljóst er að stórir hópar fatlaðra eru nú að fá minni og lakari þjónustu heldur en núgildandi lög gera ráð fyrir.    Það kostar peninga að bæta úr því.

Boðaður niðurskurður veldur því að sjúkir og fatlaðir fá ekki lögbundna þjónustu.

Biðlistar eftir lífsnauðsinlegri heilbrigðisþjónustu eru að lengjast,  líf fjölda manns er í hættu vegna þess.

Þetta er ekki ástand sem er hægt að sætta sig við.

Svo er verið að reyna að plata sveitafélögin til að taka yfir þjónustu við fatlaða !

Í mínum huga er þetta orðið spurning um að virða rétt fólks til mannsæmandi lífs og almennilegrar heilbrigðisþjónustu.  

Ísland er að fjarlægjast öll slík markmið og viðmið með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og það er ekki ásættanlegt.

 

F.S.

 

 

 


mbl.is Árás stjórnvalda á félagslega kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hafa þarf samráð fyrir niðurskurð" segir Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Landsambands fatlaðra

 

Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Landsambands fatlaðra segir að það skipti máli hvernig skorið er niður. Mikilvægt sé að haft sé samráð við samtök fatlaðs fólks ef skera á niður þjónustu við fatlaða.

 

Félagsmálaráðherra sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að óhjákvæmilegt væri að fækka starfsmönnum í velferðarkerfinu til að ná fram þeirri 40 milljarða króna hagræðingu í ríkisrekstri sem nauðsynleg er.  Störfum muni meðal annars fækka í heilbrigðisþjónustu, skólum sem og þjónustu við fatlaða og aldraða. 

 

Ragnar segir að það skipti öllu máli hvernig skorið er niður. Hafa þurfi samráð við samtök fatlaðs fólks.  Einnig verði að hafa í huga að margt af því sem kallað sé þjónusta við fatlað fólk sé grunnþjónusta sem gerir fötluðu fólki kleift að vera þátttakendur í samfélaginu.

 

Ragnar segir að sum þjónusta sé þess eðlis að ekki sé hægt að skera hana niður. Ríkisstjórnin hafi samþykkt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðannna um réttindi fatlaðs fólks. Það feli í sér að gera þurfi lagabreytingar og leggja þessa fullgildingu fyrir Alþingi. Á sama tíma ætli menn að skera niður. Erfitt sé fyrir stjórnvöld að tengja þetta tvennt saman.

 

Ragnar segir að koma verði á framfæri upplýsingum og áætlun um hvernig eigi að skera niður án þess að unnið sé gegn þeim sáttmála sem búið sé að skrifa undir og standi til að fullgilda.

af ruv.is

undirstrikanir og innsett F.S.

 

 


Nýr formaður ÖBÍ, Guðmundur Magnússon.

 

24.10.2009    http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/488  

Guðmundur Guðmundur Magnússon  DSCN6972Magnússon var í dag kjörinn formaður Öryrkjabandalags Íslands, á aðalfundi þess.  

Tvei voru í kjöri Guðmundur sem hlaut 43 atkvæði og Sigursteinn R. Másson sem hlaut 30 atkvæði. 

Guðmundur er fulltrúi SEM – samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra í stjórn ÖBÍ og var varaformaður ÖBÍ.

Í hans stað var kjörin til varaformanns í eitt ár, Hjördís Anna Haraldsdóttir frá Félagi heyrnarlausra. 

Aðrir sem kjörnir voru í framkvæmdastjórn ÖBÍ að þessu sinni voru Grétar Pétur Geirsson, til gjaldkera.

Tveir meðstjórnendur þau Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra og Sigurður Þór Sigurðsson frá Ás styrktarfélagi. 

  

Þrír varamenn voru kjörnir þau Frímann Sigurnýasson frá SÍBS, Halla B. Þorkelsson frá Heyrnahjálp og Sigrún Gunnarsdóttir Tourette samtökunum á Íslandi.

Innsett:  F.S. 

 


Ályktun aðalfundar ÖBÍ - 24. október 2009

24.10.2009    af:   http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/489 


Ályktun aðalfundar ÖBÍ

 

Alvarlegt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur lagst mjög þungt á öryrkja. Þeir hafa orðið að þola skerðingar á framfærslulífeyri umfram aðra þegna þessa lands. Um áramótin síðustu voru bætur almannatrygginga hjá meirihluta lífeyrisþega skertar um allt að 10% og 1. júlí síðastliðinn voru greiðslur til fjölmargra skertar ennfrekar með nær engum fyrirvara. Þar að auki var þátttaka ríkisins í kostnaði við sjúkra-, iðju- og talþjálfun skert til muna nú 1. október.

 

Öryrkjar nutu ekki góðærisins og eiga því sérstaklega erfitt með að takast á við kreppu og kjaraskerðingar. Aðalfundur ÖBÍ skorar á ríkisstjórn vinstri grænna og samfylkingar að bæta öryrkjum þær skerðingar sem þeir hafa orðið fyrir sem fyrst.

 

ÖBÍ bindur vonir við að hugmyndir nefndar sem unnið hefur að breytingum á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu nái fram að ganga. Þær gera ráð fyrir því að landsmenn borgi aldrei meira en ákveðna upphæð á ári fyrir lyf og aðra heilbrigðisþjónustu.

 

ÖBÍ treystir því að nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins komi fram með tillögur sem einfalda kerfið, geri það sanngjarnara og bæti hag öryrkja og sjúklinga til muna. Mikilvægt er að bótaflokkurinn aldurstengd örorka verði áfram í gildi og önnur sértæk úrræði, s.s. umönnunarbætur, uppbót vegna mikils lyfjakostnaðar og bensínstyrkur. Draga þarf verulega úr tekjuskerðingum á ný. Víxlverkunum á milli almannatrygginga og lífeyrissjóðakerfisins til öryrkja verður að linna. Það er ótækt að lífeyrissjóðir skerði réttindi fólks vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu.

 

Notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) er brýnt að koma á sem fyrst. Stór hópur fatlaðra þarf að vera heima í dag þar sem félagsþjónusta fer einungis fram á heimilum fólks. NPA er úrræði fyrir þennan hóp, auk þess að vera atvinnuskapandi, fyrir fjölbreyttan hóp, um allt land. NPA gerir fötluðum kleift að vera virkir samfélagsþegnar á eigin forsendum, frjálsir og ábyrgir. Við leggjum til að þjónustan verði veitt þar sem fólk kýs.

 
Ekkert um okkur, án okkar!

 

Innsett F.S. 

 


Öryrkja vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála 2006.

6.10.2009      Af http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/482 

 

Bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála jukust að raungildi um 29% á tímabilinu frá 1998 til 2006.

Rúnar Vilhjálmsson, félagsfræðingur birtir niðurstöður sínar úr rannsókn sem hann hefur gert um, „Bein útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðismála”, í Læknablaðinu 10 tbl. 95. árg. 2009.

Rannsókn sína byggir Rúnar m.a. á tveimur heilbrigðiskönnunum sem fram fóru 1998 og 2006. Meðalútgjöld heimila vegna heilbrigðismála og kostnaðarbyrði (hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum) voru borin saman milli hópa og ára. Hér verður stiklað á stóru í niðurstöðum Rúnars.

Bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála árið 2006 voru mjög breytileg. Lægst voru þau 0 krónur, en hæst rúmar 402.000 krónur (staðalfrávik: 67.600).

Útgjöldin jukust að raungildi um 29% á tímabilinu frá 1998 til 2006, úr tæpum 82.000 að meðaltali í tæp 106.000. Jafnframt hækkaði kostnaðarbyrði heimila (heilbrigðisútgjöld í hlutfalli við heildartekjur heimilis) úr 1,82% að meðaltali árið 1998 í 2,52% árið 2006.

Heimilisútgjöld langveikra (3,07%) voru hærri en annarra, en þó sérstaklega öryrkja sem vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála.

Stærstu útgjaldaliðir 2006 voru lyf, tannlæknisþjónusta, tæki og lyfjabúðarvörur, og læknisþjónusta (í þessari röð).

Færa má rök fyrir því að gjöld sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu séu komin á varasamt stig með hliðsjón af markmiðinu um jafnt aðgengi. Nýlegar rannsóknir hérlendis sýna að þeir sem hafa hærri krónutöluútgjöld vegna heilbrigðismála, og þó einkum þeir sem hafa hærra hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum, fresta frekar en aðrir læknisþjónustu þó þeir telji sig hafa þörf fyrir þjónustuna.

Stjórnvaldsákvarðanir er varða hækkanir á komugjöldum og öðrum þjónustukostnaði sjúklinga og takmarkanir á endurgreiðslu vegna lyfja eru iðulega teknar án þess að fram fari greining á áhrifum breyttrar skipanar, meðal annars með tilliti til kostnaðar sjúklinga og aðgengis að þjónustu.

Þörf virðist á heildstæðari tryggingaverndarstefnu. Þannig virðist sem tryggingavernd öryrkja sé alls ófullnægjandi (þrátt fyrir gildandi almennar reglur) og ástæða til að auka enn frekar vernd þessa hóps.

Loks er full ástæða til að endurskoða gildandi reglur og framkvæmd varðandi endurgreiðslur samanlagðra heilbrigðisútgjalda heimila, en mjög fá heimili sækja um og fá slíkar endurgreiðslur.

Greinin í heild sinni á heimasíðu Læknablaðsins (opnast í nýjum glugga)

 

Innsett  F.S.


Skerðingar á kjörum öryrkja

Fréttablaðið, 03. okt. 2009 06:

http://www.visir.is/article/20091003/SKODANIR03/517700326

Lilja Þorgeirsdóttir skrifar um velferðarmál

 

Lilja Þorgeirsdóttir

 

Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum voru samþykkt á Alþingi þann 29. júní sl. Breytingarnar voru framkvæmdar til að ná fram sparnaði í ríkisfjármálum á methraða. Tveir dagar liðu frá því að lögin voru samþykkt þar til fjöldi öryrkja og ellilífeyrisþega varð fyrir skerðingum á bótum almannatrygginga.

 

Lögin fólu m.a. í sér að tekjutengingar jukust þannig að bætur almannatrygginga skertust meira og fyrr en áður. Þá var einnig brotið blað í sögunni þegar lífeyrissjóðstekjur tóku að skerða „grunnlífeyri" og einnig bótaflokkinn „aldurstengd örorkuuppbót". Breytingin gat jafnframt leitt til þess að fólk missti ákveðin réttindi sem þeim fylgdu s.s. niðurgreiðslu á sjúkraþjálfun, tannlæknakostnað, iðjuþjálfun o.fl.
ÖBÍ mótmælti því harðlega að ráðist væri á almannatryggingakerfið með þessum hætti en stór hópur örorkulífeyrisþega varð fyrir talsverðum skerðingum á tekjum með nánast engum fyrirvara. Dæmi voru um að skerðingarnar væru hlutfallslega meiri en hátekjuskatturinn sem lagður var á launþega með yfir 700.000 kr. í launatekjur á mánuði.

 

Það er öllum ljóst að erfiðleikar blasa við þjóðinni í kjölfar bankahrunsins. Forsætisráðherra tilkynnti að skera þyrfti niður í ríkisútgjöldum með því að lækka hæstu launin, setja á hátekjuskatt og endurskoða fastlaunasamninga hjá ríkisstarfsmönnum. En tekið var sérstaklega fram að ekki yrði hreyft við launum undir 400.000 kr. á mánuði. Sú ákvörðun er skiljanleg, enda hafa þeir sem eru með hærri tekjur að öllum líkindum meira svigrúm til að taka á sig þyngri byrðar en hinir. Því kom það á óvart þegar bætur örorkulífeyrisþega voru skertar, þar sem tekjur flestra þeirra eru vel undir þessum mörkum.

 

Skerðingin á bótum almannatrygginga hófst hjá örorkulífeyrisþegum sem búa með öðrum við tæpar 160.000 kr. í heildartekjur á mánuði fyrir skatt og hjá þeim sem búa einir hófst skerðingin við rúmar 180.000 kr. á mánuði. Í dæmum sem starfsfólk ÖBÍ reiknaði út voru skerðingar af heildartekjum öryrkja, þ.e. bætur almannatrygginga og greiðslur úr lífeyrissjóði, í prósentum talið á bilinu 0,1-7,7%.

 

Þessar skerðingar koma sérstaklega illa við þennan hóp sem hefur litla sem enga möguleika á að auka tekjur sínar sökum fötlunar eða sjúkdóma. Hafa ber í huga að bætur lífeyrisþega eru framfærsla, oft á tíðum, til langs tíma, hjá mörgum allt lífið. Einnig er fólk með örorkumat að jafnaði með hærri útgjöld en aðrir vegna lyfja- og lækniskostnaðar, sjúkra- og iðjuþjálfunar o.fl. en þessi útgjöld hafa hækkað verulega undanfarið. Jafnframt hefur fjöldi lífeyrissjóða lækkað greiðslur til öryrkja um 7-10% í kjölfar bankahrunsins. Þá varð meirihluti lífeyrisþega fyrir allt að 10% skerðingu á bótum almannatrygginga 1. janúar sl. vegna bráðabirgðaákvæðis í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

 

Slíkar skerðingar eru ómannúðlegar. Það er sérstaklega mikilvægt á tímum kreppu og niðurskurðar að standa vörð um þá sem standa höllum fæti í samfélaginu og hafa lægstu tekjurnar. Langtímafátækt hefur slæm áhrif á heilsu fólks, sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og eykur kostnað ríkisins til lengri tíma litið. Því er það óásættanlegt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar taki á sig hlutfallslega meiri byrðar en aðrir. „Skjaldborgin" um heimilin í landinu virðist ekki eiga að ná til lífeyrisþega þrátt fyrir að þeir séu, eins og aðrir, með heimili, börn á sínu framfæri og aðrar skuldbindingar eins og aðrir

Starfsfólk skrifstofu ÖBÍ fær reglulega símtöl frá öryrkjum sem eru ósáttir við sitt hlutskipti. Margir hverjir hafa búið við kröpp kjör í mörg ár og eiga sérstaklega erfitt með að láta enda ná saman í kreppunni. Lífeyrisþegar urðu líka fyrir áföllum í hruninu. Margir hafa tapað sparifé og hlutabréf urðu að engu. Húsnæðis- og bílalán þeirra hafa líka hækkað.
Þeir stjórnmálaflokkar sem nú eru við völd lýstu því yfir fyrir síðustu kosningar að þeir ætluðu að verja velferðarkerfið. Þau loforð hafa ekki staðist nema síður sé. ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld afturkalli þær skerðingar sem lífeyrisþegar urðu fyrir á þessu ári. Fjármálakreppan er því miður staðreynd og spara þarf í ríkisfjármálum, en það er ekki sanngjarnt að öryrkjar taki á sig hlutfallslega þyngri byrðar en aðrir, nú þegar síst skyldi. Það er hvorki stjórnvöldum né þjóðinni til sóma.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands.

innsett F.S. 

 

 

 

 


Lagt til að lágmarkslífeyrir verði 186 þúsund á mánuði

 

 

 

Vísir, 18. ágú. 2009 05:15

http://www.visir.is/article/20090818/FRETTIR01/557249197/-1

Huga skal að „lífskjaratryggingu", þannig að enginn fái lægri upphæð en lágmarksupphæð lífeyris til framfærslu, 186.000 krónur. Auka þarf fjárhagsaðstoð sveitarfélaga svo þetta geti orðið.

 

Einnig ættu atvinnulausir að greiða það sama fyrir heilbrigðis­þjónustu og aldraðir og öryrkjar greiða. Þeir ættu að fá ókeypis í sund, og frían aðgang að listasöfnum og íþróttaviðburðum.

 

Svo segir í skýrslu sem nefnd um sálfélagsleg viðbrögð við kreppunni skilaði nýlega af sér til heilbrigðisráðherra.

 

Ráðherrann, Ögmundur Jónasson, er ánægður með skýrsluna, sem miðar við reynslu Finna af síðustu kreppu þeirra.
„Lærdómur þeirra var að þeir hefðu gengið of langt í að draga úr útgjöldum til velferðarmála og það hefði í sjálfu sér framlengt krísuna," segir Ögmundur. Skýrslan sé því brýning fyrir okkur um að gæta hagsmuna þeirra sem lakast standi.

 

Spurður hvort farið verði eftir ábendingunum, segir hann: „Auðvitað eigum við að taka þessi varnaðarorð alvarlega og setja okkur að markmiði að hlíta þeim."

 

Í skýrslunni segir að nauðsynlegt sé að nýta strax allar leiðir til að vinna gegn neikvæðum afleiðingum kreppunnar á heilsu og félagslega stöðu fólks, til að forðast heilsubrest og hamla þannig gegn auknum útgjöldum á sviði heilbrigðis- og félagsmála.

 

„Íslendingar fá ekki annað tækifæri til að kanna hvort skynsamlegra hefði verið að bregðast öðruvísi við hér á landi eftir fimm ár. Það verður of seint," segir í niður­stöðum nefndarinnar.

 

Í skýrslunni er lýst yfir ánægju með stofnun Velferðarvaktar, til að fylgjast með afleiðingum hrunsins á einstaklinga og fjölskyldur.
Mikilvægt sé að tryggja sterka heilsugæslu, þótt minna fé sé til reiðu. Þá skal efla mæðra- og ungbarnavernd og setja á fót „virknimiðstöðvar" þar sem fólk getur komið til að „halda festu í daglegu lífi".
Hún telur að finnsk stjórnvöld hafi í sinni kreppu vanmetið síðari „sálfélagsleg eftirköst" hennar.
Finnskir sérfræðingar bentu nefndinni á að það sé ekki aðeins mannúðlegt að grípa til slíkra aðgerða, það sé einnig ódýrara en að gera það ekki.
Nefndin var skipuð af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. klemens@frettabladid.is

 

 

 

 

 

 

 


Góðar ábendingar hjá siðmennt.

 

Nú þegar fólk hefur minni ráðstöfunartekjur þá er orðið mjög erfitt fyrir efnaminna fólk að gæta réttar síns, vegna kostnaðar við lögfræðiaðstoð.

Það er ógnun við réttarríkið og réttlætið í þjóðfélaginu þegar alltaf er verið að þrengja möguleika fólks á að fá gjafsókn.   Það gerir það að fórréttindum hinna efnameiri að  fara í málarekstur til að verja eða sækja sín lögbundnu réttindi.

Við sem sjúklingasamtök þekkjum þetta vandamál vel því að réttindi okkar félaga þarf stundum að verja og/eða leita réttinda sem okkar félagar telja að þeim beri, að lögum.

Við höfum verið að reyna að fá efnismeðferð í máli sem snýst um gjaldtöku fyrir fylgihluti og þjónustu tilheyrandi CPAP-öndunarvélum sem fólk með kæfisvefn þarf að nota.  Við teljum það vera brot á lögum um almannatryggingar að rukka sjúklingana fyrir þessu.   

Þetta er kostnaðarsamt og nú hafa allir nema 2 gert upp sína meintu skuld til að losna við vesenið og kostnaðinn við að láta reyna á réttindi sín.

Er þetta framtíðin sem við viljum ?

Á réttarríkið nýja Ísland bara að vera fyrir ríka fólkið ?

F.S.

 


mbl.is Telur mannréttindi skert í nýjum lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband