Færsluflokkur: Mannréttindi

Segja kosningarnar sannanlega ógildar

http://www.visir.is/segja-kosningarnar-sannanlega-ogildar-/article/2012120719084  

Vísir Innlent 18. júlí 2012 17:15
Guðmundur Magnússon er formaður Öryrkjabandalagsins.
Guðmundur Magnússon er formaður Öryrkjabandalagsins.
Sá hópur kjósenda, sem gert var að kjósa með aðstoð kjörstjórnarfulltrúa, tók ekki þátt í leynilegum kosningum, segir í kæru sem öryrkjar sendu í dag Hæstarétti vegna forsetakosninganna. Í kærunni segir að kjósendur hafi ekki haft ástæðu til að bera trúnað til umræddra kjörstjórnarfulltrúa og hann hafi að auki verið fulltrúi stjórnvalda.

„Kjósandi, sem ekki gat kosið eigin hendi, átti aðeins tveggja kosta völ. Annað hvort beygja sig undir þá framkvæmd, að aðstoðarmaður hans kæmi úr röðum kjörstjórnarmanna eða víkja af kjörstað án þess að taka þátt í kjöri forseta," segir í kærunni. Þá segir að sannanlega hafi verið dregið úr leynd kosninganna. Afgerandi munur sé á framkvæmd kosninganna til stjórnlagaþings og forsetakjöinu. „Í hinum fyrri kann að vera að áliti Hæstaréttar að leynd kosninga hafi verið rofin, en í þeim síðari var hún sannanlega og án nokkurs vafa rofin. Hinar fyrri voru dæmdar ógildar og hinar síðari eru óhjákvæmilega ógildar með verulega þungvægari rökum," segir í kærunni.

Þrír eru skrifaðir fyrir kærunni. Það eru þau Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, Guðmundur Magnússon og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson.

 

 Innsett:  F.S.

 


Tekjur fyrir lífstíð

Tekið af:  http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/1160 

6.7.2012

Hilmar Guðmundsson skrifar á visir.is um kjör öryrkja og afkomu annarra hópa.

Hilmar-Gudmundsson

Þegar skoðaðar eru launatölur kemur margt skrýtið í ljós. Samkvæmt kjarasamningi ASÍ og SA eru lágmarkstekjur fyrir fullt starf kr. 193.000 fyrir 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Á árinu 2011 voru meðaltekjur hins vegar kr. 400.000 fyrir skatt samkvæmt vef Hagstofu Íslands og miðast það við heildartekjur, það er að segja með yfirvinnu og bónus ef hann er í boði.

Tekjur öryrkja sem býr með öðrum fullorðnum einstaklingi eru kr. 156.153 eftir skatt. Hér er átt við öryrkja sem hefur litlar sem engar aðrar tekjur en bætur TR. Fyrir flesta öryrkja eru örorkugreiðslur tekjur fyrir lífstíð þar sem að þeir hafa ekki möguleika á að auka sínar tekjur á neinn hátt.

Fólk á atvinnumarkaði hefur fleiri möguleika á að auka sínar tekjur með betri samningum eða nýrri vinnu, en það stendur öryrkjum yfirleitt ekki til boða. Þeir hafa eingöngu þá innkomu sem ríkisstjórnin skammtar þeim þrátt fyrir lög um að bætur skuli hækka samkvæmt neysluvísitölu og/eða launavísitölu. Síðan 2008 hafa bætur ekki hækkað samkvæmt framangreindum vísitölum.

Í júní á þessu ári var í fréttum að laun forsætisráðherra hefðu hækkað um kr. 257.000 síðan 2009. Og hvað með það spyrja sumir, já hvað með það?

Þessi launahækkun (fyrir skatt) er ekki nema kr. 100.847 hærri en örorkubætur sem öryrki er að fá sem býr með öðrum fullorðnum.

Er ekkert skrýtið við það þegar laun þeirra sem eru meðal allra lægstu hækka lítið sem ekkert á meðan laun ráðherra eru hækkuð langt umfram það sem við erum með á mánuði? Við sem erum í þeirri stöðu að þurfa að lifa á þessum bótum eigum ekki verkfallsrétt eða rétt til þess að gera nokkurn hlut til þess að bæta stöðu okkar.

Aðilar vinnumarkaðarins eru allt of linir að semja fyrir okkar hönd eða krefjast þess að við fáum þá lögbundnu hækkun sem við eigum að fá, hvað þá að við fengjum kr. 257.000 hækkun á mánuði, það yrði þá ljúft líf.

EKKERT UM OKKUR ÁN OKKAR.

 

Innsett: F.S.

 


Nauðung er vandmeðfarin þar sem hennar er þörf.

" Í greinargerðinni segir einnig að umræða síðustu ára um mannréttindi og réttindi fatlaðs fólks hafi dregið beitingu nauðungar fram í dagsljósið og að krafan um samræmdar og skýrar reglur um beitingu nauðungar hafi orðið háværari.

Annars vegar hefur verið bent á hve afdrifaríkt það getur reynst ef starfsfólk í þjónustu við fatlað fólk virðir ekki eðlileg mörk í samskiptum og hins vegar að skortur á skýrum viðmiðum og óvissa um hvar mörkin liggi geti haft slæm áhrif á þjónustu við fatlað fólk og leitt til þess að starfsfólk beiti sér ekki sem skyldi þar sem ástæða og tilefni er til inngrips".

Eins og hér er bent á þá getur skortur á viðmiðunum hindrað að sterfsfólk sinni sínu hlutverki þegar nauðsin er á valdbeitingu.


Svo er aðal málið að tryggja þarf ÖLLUM FÖTLUÐUM full  mannréttindi og þar með að taka eigin ákvarðanir um sitt líf.

Þetta eru mikilvæg lög og líka þarf að tryggja fé til að tryggja úrræði og viðeigandi þjónustu fyrir fatlaða.

Innsett:  F.S.


mbl.is Bannað að beita fatlað fólk nauðung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál öryrkja á Norðurlöndum

 

 http://www.visir.is/vandamal-oryrkja-a-nordurlondum/article/2012704219993 

Fréttablaðið Aðsendar greinar 21. apríl 2012 06:00

Lilja Þorgeirsdóttir
framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands

Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands
Lilja Þorgeirsdóttir skrifar:
Sífellt fleiri öryrkjar sem hafa búið í öðru norrænu ríki leita til ráðgjafa ÖBÍ vegna þess að þeir fá ekki örorkulífeyrisgreiðslur frá almannatryggingakerfinu frá því landi sem þeir bjuggu í. Meginástæðan er sú að mismunandi lög og reglur gilda í hverju landi og ólík túlkun og framkvæmd þeirra. Þá getur fólk verið með örorkumat í einu norrænu landi á sama tíma og það fær ekki mat í öðru. Mismunandi matsaðferðum er beitt og ekki er tekið tillit til örorkumats í öðrum löndum. Vandamálum hefur fjölgað á síðustu árum meðal annars vegna kreppunnar og breytts pólitísks landslags. Þeir sem fá ekki greiðslur erlendis frá eiga í erfiðleikum með að framfleyta sér hér á landi.

Tvö dæmi um öryrkja sem búa á Íslandi:
Kona, um fimmtugt, fær ekki greiðslur frá Danmörku þar sem hún bjó í 20 ár. Á Íslandi veikist hún og verður óvinnufær. Tryggingastofnun ríkisins (TR) samþykkir að hún fái tímabundið örorkumat. Hún fær 52% af þeim örorkulífeyrisgreiðslum sem hún á rétt á frá Íslandi. Það sem upp á vantar á hún að fá frá Danmörku. Pensionsstyrelsen í Danmörku metur að hún eigi ekki rétt á greiðslum þar sem starfsgeta hennar sé ekki varanlega skert og að hún geti, eftir mikla endurhæfingu, hugsanlega unnið í hlutastarfi og fengið aðstoð samkvæmt dönskum lögum sem nefnist „fleksjob“. Vandamálið er að á Íslandi fær fólk sjaldnast varanlegt örorkumat og úrlausnin „fleksjob“ er ekki til á Íslandi. Konan fær því aðeins 52% af örorkulífeyrisgreiðslum sem hún á rétt á og engin lausn í sjónmáli fyrr en hún kemst á eftirlaun því þá fær hún það sem upp á vantar frá Danmörku.

Karlmaður, rúmlega fertugur, fær ekki greiðslur frá Svíþjóð þar sem hann bjó í 20 ár. Þegar hann bjó í Svíþjóð fékk hann tímabundið örorkumat. Hann flutti síðan til Íslands og fékk örorkumat. Þegar sænska örorkumatið rann út sótti hann um aftur en var synjað. Ísland greiðir nú aðeins hluta þeirra örorkulífeyrisgreiðslna sem hann á rétt á eða um 30% þar sem hann hafði ekki búið lengi hérlendis þegar hann varð öryrki. Það sem upp á vantar á hann að sækja til Svíþjóðar. Försäkringskassan í Svíþjóð mat hann þannig að starfsgeta hans væri ekki skert um að minnsta kosti fjórðung hvað snertir öll störf á vinnumarkaðnum, þar með talin störf á vernduðum vinnustöðum og önnur vernduð störf. Til að fá örorkumat í Svíþjóð yrði skerðingin að vera varanleg um fyrirsjáanlega framtíð og allir möguleikar á endurhæfingu að fullu nýttir. Ljóst er að hann getur ekki framfleytt sér þrátt fyrir að hann fái fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sem er neyðaraðstoð til skamms tíma.

Reglur á Íslandi
Réttur til örorkulífeyris á Íslandi myndast á aldrinum 16-67 ára og miðast við að viðkomandi búi í 40 ár hérlendis. Örorkulífeyrisgreiðslur eru uppreiknaðar eftir ákveðinni reiknireglu og skiptir ekki máli hvort viðkomandi sé með íslenskan ríkisborgararétt. Vert er að benda á að frá 1. janúar 2010 lýtur endurhæfingarlífeyrir sömu reglum um búsetuhlutfallsútreikning og örorkulífeyrir. Eftir breytinguna geta þeir, sem búið hafa erlendis, lent í þeirri stöðu að fá skertan endurhæfingarlífeyri á Íslandi og engar greiðslur erlendis frá þar sem hann er ekki greiddur úr landi. Því er fólki bent á að sækja um örorkulífeyri en sú leið getur leitt til þess að fólk fái synjun á örorkumati erlendis á þeim forsendum að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Skortur á aðstoð
Starfsfólk TR aðstoðar fólk við að sækja um örorkulífeyri í öðrum löndum. Ef umsókn er synjað fær fólk ekki aðstoð við að kæra. Hver og einn þarf sjálfur að leita réttar síns sem getur reynst erfitt fyrir fólk með fötlun eða alvarlegan sjúkdóm.

Brýnt að leysa sem fyrst
Umsóknarferlið um örorkulífeyri erlendis frá getur tekið nokkur ár. Á meðan lifir fólk á tekjum undir lágmarksframfærslu. Rétt er að öryrkjar fái óskertar greiðslur í sínu landi á meðan beðið er eftir niðurstöðu erlendis frá og að Norðurlöndin skipti kostnaði á milli sín eftir ákveðnum reglum. Þá þarf að leysa mál þeirra sem fá synjun erlendis þrátt fyrir gilt örorkumat á Íslandi. Mögulega þarf að setja reglur um að örorkumat í einu Norðurlandanna gildi í öðru.

ÖBÍ hefur unnið markvisst að því að koma þessum málum á framfæri á norrænum vettvangi og hér innanlands en ljóst er að betur má ef duga skal. Mál þessi þarf að leysa sem allra fyrst. Samræma þarf lög og reglur um örorkumat milli norrænu landanna. Einnig er nauðsynlegt að fólk fái aðstoð við að leita réttar síns hjá opinberum aðilum. Málum á eftir að fjölga á næstu árum vegna aukins flutnings fólks á milli landa. Stjórnmálamenn ættu að láta sér þessi mál varða til að þeir öryrkjar, sem hafa búið í fleiri en einu Norðurlandanna, getið notið sjálfsagðra mannréttinda í norræna velferðarkerfinu sem við viljum kenna okkur við.

Innsett: F.S.


Hvað vill Lilja Mósesdóttir með lífeyriskerfi þjóðarinnar ?


Nú eru pólitíkusar farnir að vinna að sínum framboðsmálum.  Samstaða hennar Lilju og félaga er að brjóta utan af sér eggjaskurnina og á leið inn á hinn pólitíska vígvöll.   Ég hef oft dáðst af baráttuhug hennar innan og utan ríkisstjórnar.  Nú fer í hönd tími „drotningarviðtala“ þar sem meðvirkir fréttamenn fá stjórnmálamenn í átakalítil viðtöl og krefja stjórnmálamanninn ekki um upplýsandi svör.  

Hér http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/02/07/lifeyrissjodir_eitrud_blanda  er Lilja Mósesdóttir í sínu drottningarviðtali og lætur gamminn geysa um lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið. 

Þó svo Samstaða sé að skríða úr egginu þá á það ekki við Lilju sjálfa.  Hún hefur verið hluti af núverandi ríkisstjór, Norrænu velferðarstjórninni. 

Tryggingastofnun Ríkisins (TR) er gegnumstreymis tryggingakerfi og í upphafi borguðu launamenn ákveðinn hluta af launum sínum til TR gegn því að þeir ættu rétt á lífeyrir frá TR, yrðu þeir fyrir heilsutjóni,  yrðu öryrkjar  og  þegar þeir næðu eftirlaunaaldri,  þ.e. fengju Ellilífeyri.  Því er hér um að ræða réttindi sem fólk er að ávinna sér alla ævi eða fram að starfslokum.  Þeir sem fæddust fatlaðir fengu líka lífeyri frá TR og var það hugsað sem samtryggingaþáttur TR. 

Frá stofnun Tryggingastofnunar Ríkisins hafa ríkisstjórnir hvers tíma verið að grauta í reglum og réttindum fólks hjá TR.   Þrátt fyrir að hér hafi löngum setið hægrisinnaðar ríkisstjórnir þá hefur grunnlífeyririnn verið látinn ósnertur þó svo að allskonar skerðingar og launatengingar hafi itnað á öðrum lífeyrisgreiðslum.  Í öryrkjadóminum var um það fjallað að líta bæri á ákveðinn grunn lífeyri sem mannréttindi lífeyrisþegans.  Einnig eru grunnlífeyrisréttindi tryggð í alþjóðasamningum/sáttmálum sem Ísland er aðili að en virðir lítt. 

Eitt af afrekum þessarar ríkisstjórnar (Norrænu Velferðarstjórnarinnar) var að heimila skerðingu  grunnlífeyris alveg niður í 0.kr. 

Þegar ég les þetta viðtal við  Lilju Mósesdóttir þá rifjast upp fyrir mér að hún var hluti ríkisstjórnarinnar og er alveg jafn ábyrg fyrir þessari réttindaskerðingu lífeyrisþega og aðrir í ríkisstjórninni.Því er stór hópur lífeyrisþega sem fær í dag ekki neinn lífeyrir frá TR, þrátt fyrir að hafa greitt til TR frá stofnun TR.  ÞETTA ER RÁN og þeir sem stóðu að þessari réttindaskerðingu eru ræningjarnir. 

     (L M)  „Ég hef velt mikið fyrir mér lífeyriskerfinu í kjölfar hrunsins og komist að þeirri niðurstöðu að það sé eitruð blanda að vera með þessa vinnumarkaðssjóði sem fólk er skyldugt til að greiða í,“ segir Lilja Mósesdóttir þingmaður.                (Undirstrikanir eru mínar FS) 

Það kemur ekki nægilega fram hvað er átt við hér. Eitruð blanda. 

Það sem hefur farið verst með lífeyrisgreiðslur TR eru stjórnmálamenn sem hafa rænt fólk marglofuðum réttindum sínum.  Alþingi velur ráðherrann,  ráðherrann skipar stjórn TR sem vinnur svo undir hæl ráðherrans.  Ef lífeyrisþegi kærir svo ákvarðanir TR þá fer kæran til ÚRA (úrskurðarnefnd almannatrygginga) sem sami ráðherra skipar.   Þessu kerfi hefur diggilega verið viðhaldið í tíð Velferðarstjórnarinnar. 

Þessi ríkisstjórn skipaði svo nefnd til að endurskoða Lög um almannatryggingar,  sem m.a. TR starfar eftir. Það hafa ótal ríkisstjórnir gert en tryggja alltaf að við stjórnarskipti og jafnvel við ráðherraskipti þá er vinnu nefndarinnar ítt út af borðinu og byrjað upp á nýtt.  Með þessu hefur verið tryggt að engar breytingar yrðu gerðar.  

Velferðar-ráðuneytið hélt núverandi nefnd upptekinni við að skoða endalausa útreikninga, frá ráðuneytinu, um einhverjar tilfærslur innan kerfisins og allt út frá NÚLL-LAUSN.  þetta átti ekki að kosta neitt og væri tilfærsla frá einum lífeyrisþega til annars.  Nánast ekkert var rætt þar um breytingar á lögunum sjálfum.  Allir stjórnmálaflokkarnir áttu fulltrúa í þessari nefnd. 

Þarna átti t.d. að ræða skerðingareglur TR sem fela í sér að TR (ríkið)  skerðir greiðslur TR til lífeyrisþega ef lífeyrisþegi fær greiðslur frá sínum lífeyrissjóði.  Þannig hirðir ríkið mestallan ávinning launamanna af að greiða í lífeyrissjóð.  Lífeyrissjóðirnir áttu að koma sem viðbót við greiðslur TR til að bæta efnahag og lífsgæði lífeyrisþegans.    

ÞETTA ER RÁN, samkvæmt mínum skilningi. 

Mikið hefði verið gott að eiga VIRKAN BARÁTTUJAXL  innan ríkisstjórnarinnar sem hefði gefið sér tíma til að vinna að þessum málum.     Ég tel að svo hafi ekki verið. 

Víkjum aftur að orðum Lilju Mósesdóttur.

      „Almannatryggingakerfið þarf að geta borgað lífeyri sem dugar til framfærslu. Það kostar auðvitað skattgreiðendur“  

     „Ef þessir vinnumarkaðssjóðir lækka lífeyrisgreiðslur, þá er fólk neytt til að leita á náðir   hjálparsamtaka.“ 

     „Það er búið að hola almannakerfið, sem á að vera samtryggingarkerfi, alveg að innan,“ segir Lilja. 

Það hefði bætt stöðu lífeyrisþega mikið ef TR/Alþingi  hefði „leyft“ lífeyrisþegum að halda greiðslum lífeyrissjóðanna án þess að þær skertu TR greiðslurnar.   Það var hægt að ganga frá þessu með einföldum hætti, ef Velferðarstjórnin hefði fengist til þess og t.d. Lilja hefði barist fyrir því innan stjórnarinnar. 

   (L M)  „Mér dugar ekki eitthvert aukið sjóðsfélagalýðræði þegar peningarnir sem eru inni í þessum sjóðum eru ekkert bara þeirra eign, heldur líka eign ríkisins. 

   (L M)  „Þeir eru jafnframt með þessa samtryggingu sem felst í því að þeir lofa að tryggja sjóðsfélögum a.m.k. 56% af meðallaunum yfir starfsævina. Til þess að geta staðið við þetta hefur m.a. þurft styrk ríkisins við þessa sjóði. Styrkurinn hefur birst í því að skattur er ekki tekinn af iðgjaldagreiðslum áður en þær fara inn í sjóðinn, heldur á eftir.“ 

(Undirstrikanir eru mínar FS) 

Þetta eru ótrúleg viðhorf hjá Lilju hagfræðingi.  Það getur ekki talist styrkur að skattur sé tekinn af útgreiðslum úr lífeyrissjóðum, en ekki inngreiðslum.   Ætla má að greiddur lífeyrir lífeyrissjóðanna sé 70-80% tilkominn vegna fjármagnstekna og ætti því að skattleggjast samkvæmt því.  Það er ekki gert heldur eru útgreiðslur lífeyrissjóðanna skattlagður sem launatekjur, sem eru mun hærri skattur.  Ríkið tryggir sér auka tekjur með þessu fyrirkomulagi og fær tekjurnar þegar lífeyrirþeginn fær greiðslurnar og þarf þjónustuna sem lífeyrisgreiðslan og skatturinn eiga að standa undir. 

Ríkið á ekki neitt í almennu lífeyrissjóðunum vegna þessarar skattafrestunar. Skattafrestun er víðar en í þessu dæmi.   T.d.  má fresta sköttun söluhagnaðar í nokkur ár.  Lífeyrissjóðirnir eru alfarið eign launþeganna sem greiða í lífeyrissjóðina. 

   (L M)  „Það er ljóst að það þarf uppstokkun á lífeyrissjóðakerfinu, það er allt of stórt fyrir íslenskt efnahagslíf. Ef við ætlum að taka á skuldavanda heimilanna og væntanlegu gengisfalli við afnám gjaldeyrishafta, þá verðum við að taka á lífeyrisjóðakerfinu og stokka það upp. .“

(Undirstrikanir eru mínar FS) 

Nú þegar þjóðin er með áhyggjur af hve stór hluti fjár lífeyrissjóðanna hefur tapast í bankahruninu þá hefur Lilja áhyggjur af að lífeyrissjóðirnir séu of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf og vill stokka upp lífeyrissjóðakerfið.   

   (L M)  „Almannatryggingakerfið þarf að geta borgað lífeyri sem dugar til framfærslu. Það kostar auðvitað skattgreiðendur, en í stað þess að hækka skatta, þá tökum við skattinn af þessum lífeyrissjóðum sem þeir hafa verið að sýsla með inni í fjárfestingarsjóðunum og tapað.“

(Undirstrikanir eru mínar FS) 

Hér fer að sjást til botns.   Lilja vill fara í kjölfar annarra ræningja og ræna, með sérsköttum, fé lífeyrissjóðanna til að laga stöðu almannatryggingakerfisins Í DAG og hugsa ekki neitt til framtíðarinnar.  Lífeyrissjóðakerfið er hugsað til að hver kynslóð fólks geti framfleitt sér og greitt fyrir þjónustu samfélagsins sem þeir þurfa síðar sem lífeyrisþegar.   

Það tókst illa að vernda lífeyrissjóðakerfið í bankahruninu.  Alþingismenn kepptust við að auka aðgengi fjárglæframanna að fé lífeyrissjóðakerfisins og þátt Alþingis þarf að skoða betur, tel ég. 

Verið var að vinna að því að lífeyrissjóðirnir fengju leyfi til að „lána“ t.d. fjármálagjörninga til fjármálafyrirtækja til skortsölu,  sem er bara veðmálastarfsemi. 

Sem betur fer þá var þetta ekki gert. Mér finnst þetta viðtal vond kynning á Lilju Mósesdóttur og hennar baráttumálum á fyrstu dögum Samstöðu í kosningabaráttu.  

Hvað Lilju varðar og lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingar,  þá var mér brugðið við lestur viðtalsins og mér fannst Lilja tala að mikilli léttúð um þessi kerfi og mér finnst að hún beri enga virðingu fyrir því fólki sem hefur látið hluta launa sinna inn í lífeyrissjóðina.  Þetta er fólkið sem á lífeyrissjóðina sem Lilja talar um að hirða.   RÁN á RÁN ofan segi ég og mótmæli öllum slíkum hugmyndum.   

Frímann Sigurnýasson


mbl.is Lífeyrissjóðir eitruð blanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókun 13. janúar rædd á aðalstjórnarfundi ÖBÍ.

af obi.is

24.1.2012

Ásamt samantekt um starf starfshópsins

Á aðalstjórnarfund i ÖBÍ 19. janúar 2012 fjallaði Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, um bókun ÖBÍ á fundi starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga 13. janúar sl. og vinnu starfshópsins, og lagði eftirfarndi texta þar fram:

„Á fundi starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga þann 13. janúar sl. lögðu fulltrúar ÖBÍ fram bókun þess efnis að ÖBÍ muni ekki taka þátt í þeirri vinnu sem fram fer í starfshópnum á meðan ekki sé tekið tillit til sjónarmiða bandalagsins. Ekki er um formlega úrsögn að ræða og munu fulltrúar ÖBÍ áfram fá fundarboð með dagskrá og fundargerðir til að geta fylgst með og metið framvindu mála.

Bókun ÖBÍ

Markmið Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) er að bæta lífskjör öryrkja. Í því sambandi skiptir meginmáli sú fjárhæð sem kemur í hlut öryrkja, en ekki hvort hún er greidd úr einum bótaflokki eða fleirum.

Fjórða árið í röð, allt frá 1. janúar 2009, hækka ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar sem eiga að vernda afkomu lífeyrisþega.

Lífeyrisgreiðslur ná því hvorki að halda í við verðlagshækkanir né launaþróun síðustu ára. Þessu til viðbótar jukust tekjutengingar verulega þann 1. júlí 2009.

Af þeim sökum hafa margir lífeyrisþegar orðið fyrir enn frekari skerðingum.Lífeyrisþegar urðu fyrstir fyrir skerðingum strax í upphafi kreppunnar og þá með sérstöku loforði um að kjör þeirra yrðu leiðrétt um leið og land færi að rísa á ný. Þá var talað um 3ja ára tímabil sem nú er liðið. Nú eru horfur í efnahagsmálum jákvæðar og tími til kominn að leiðrétta kjör öryrkja.

Í ljósi þessa er það lágmarkskrafa ÖBÍ að stjórnvöld skili öryrkjum sem fyrst því sem þeim ber skv. lögum um almannatryggingar áður en hugað verður að uppstokkun á núverandi bótakerfi. Þessu til viðbótar þarf að leiðrétta frítekjumörk og tekjuviðmið og draga til baka þær skerðingar sem settar voru um mitt ár 2009.

Án leiðréttinga í þá veru sem að framan eru raktar er ábyrgðarlaust af hálfu ÖBÍ að taka frekari þátt í vinnu við svonefnda endurskoðun almannatryggingalaga, enda sé henni þá augljóslega ætlað að festa í sessi þær alvarlegu skerðingar sem stjórnvöld hafa kosið að láta öryrkja bera.

Um vinnu starfshópsins

Endurskoðunin hefur tekið langan tíma en starfshópurinn hóf störf í maí í fyrra. Fulltrúi ÖBÍ hefur tekið virkan þátt í starfi nefndarinnar, mótmælt þegar það á við og lagt fram bókanir með sjónarmiðum ÖBÍ. Þrátt fyrir það er talið fullreynt að okkar sjónarmið náist í gegn.

Markmið með endurskoðun laganna er að bæta rétt lífeyrisþega en þær tillögur sem lagðar hafa verið fram varðandi ellilífeyrisþega eru ekki til þess fallnar að gera það. Þar var lagt til að sameina þrjá bótaflokka (grunnlífeyrir, tekjutryggingu og heimilisuppbót), minnka lítillega jaðaráhrif annarra skattskyldra tekna á sérstakri framfærsluuppbót og fella niður frítekjumörk sem setur fólk í enn meiri fátæktargildru.

Starfshópnum er gert að vinna með tillögur að breytingum á almannatryggingakerfinu með 0 lausn í huga sem þýðir tilfærslu á fjármunum milli lífeyrisþega, þ.e. greiðslur eru lækkaðar hjá einum ellilífeyrisþega til að hækka lítillega hjá öðrum.

Eftir mikla andstöðu við þá leið sem fundin var fyrir ellilífeyrisþega var lögð fram tillaga með viðbótarfjármagni, samtals 2,3 milljarðar. Síðar kom í ljós að um er að ræða fjármagn sem ætlað var að nota til að uppfylla samkomulag stjórnvalda og lífeyrissjóðanna um hækkun frítekjumarks á tekjutryggingu vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega. Til að ná fram auknum sparnaði var lagt til að afnema öll frítekjumörk. Þessi leið stangast á við áðurnefnt samkomulag. Tillagan var samþykkt innan starfshópsins með meirihluta atkvæða en fulltrúi ÖBÍ greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Það er okkar mat að 0 lausn, miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag, sé ekki forsvaranleg með það í huga að bætur lífeyrisþega hafa ítrekað verið skertar frá bankahruni. Þau vinnubrögð sem viðhöfð eru geta leitt til þess að festa í sessi þær alvarlegu og margvíslegu skerðingar sem öryrkjar hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Það er krafa okkar að sett verði aukið fjármagn inn í kerfið við endurskoðun laganna.

Um starfshópinn.

Í starfshópnum eru fulltrúar allra þingflokka, samtals 7 manns, en Vinstri hreyfingin grænt framboð og Samfylkingin eru með tvo fulltrúa hvor. Tveir fulltrúar eru frá ÖBÍ (var einn fram að áramótum), einn fulltrúi Landssambands eldri borgara og einn fulltrúi Þroskahjálpar. Formaður starfshópsins er Árni Gunnarsson, fyrrum alþingismaður.

ÖBÍ fór fram á það að fjölga fulltrúum bandalagsins í starfshópnum og fékk að bæta við einum fulltrúa um síðustu áramót.

Fulltrúar ÖBÍ:
Aðalmenn: Sigríður Hanna Ingólfsdóttir og Garðar Sverrisson.
Varamenn: Sigurjón Sveinsson og Guðrún Hannesdóttir.

17. janúar 2012
Lilja Þorgeirsdóttir
 

innsett:  F.S. 


Ályktun Öryrkjabandalags Íslands.

Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 23. nóvember 2011, mótmælir harðlega þeim alvarlegu skerðingum á kjörum öryrkja sem fyrirhugaðar eru af hálfu Ríkisstjórnar Íslands og birtast m.a. í frumvarpsdrögum Velferðarráðuneytisins. Öryrkjabandalagið krefst þess að ríkisstjórnin hverfi þegar í stað frá áformum sínum um enn frekari árásir á lífskjör öryrkja fjórða árið í röð.

Örykjabandalagið hvetur öryrkja og aðra landsmenn til að fylgjast grannt með framvindu mála næstu daga og vikur.  

Nánari upplýsingar veitir Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjórir ÖBÍ í gsm. 869 0224.

innsett: FS


Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

Frétt af:   http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33060 

24/10/2011 

Í byrjun næsta árs verða lágmarksbætur lífeyrisþega 203.000 krónur og hafa þá hækkað um 61% frá árinu 2007. Þá hafa útgjöld almannatrygginga sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs farið úr 9,5% árið 2006 í 13,1% árið 2012 miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands síðastliðinn laugardag. 

Velferðarráðherra kom víða við í ávarpi sínu. Hann sagði mikilvægt mál hafa verið lögfest á Alþingi nú í haust þegar samþykkt voru lög sem koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum. „Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna.“ 

„Í þrengingum okkar frá hruni hafa stjórnvöld alltaf lagt áherslu á að útfærslur aðhaldsaðgerða og niðurskurðar útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Grunnþjónustan hefur verið varin eins og kostur er og þau verkefni sem samstaða er um að ríkið sinni í þágu samfélagsins. 

Það hefur líka sýnt sig að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum og þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu hafa dregið úr álögum á þá tekjulægstu en fært skattbyrðina í auknum mæli á herðar þeim sem hærri tekjur hafa.“

 Ráðherra ræddi einnig um endurskoðun almannatryggingakerfisins, stefnumótun í húsnæðismálum og fyrirhugaða upptöku húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Þá talaði hann um frumvarp til breytinga á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sem verður lagt fram á Alþingi á næstunni: 

„Ég er sannfærður um að fólk muni fljótt sjá að þetta kerfi er bæði einfaldara og réttlátara en það sem við búum við núna, af því að það mismunar ekki sjúklingum eftir því hvers eðlis veikindi þeirra eru og af því að það er byggt upp til þess að draga úr kostnaði hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda vegna veikinda sinna. Sambærilegar breytingar tel ég nauðsynlegt að gera varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllu, einfaldlega af því að gildandi kerfi styður ekki nógu vel við bakið á þeim sem helst þurfa á því að halda.“ 

     innsett F.S.


Fundaröð ÖBÍ á Austurlandi 30. mars

 

Fundaröð Öryrkjabandalags Íslands

Fatlað fólk á tímamótum

Eru mannréttindi virt?

Fundir á Austurlandi miðvikudaginn 30. mars 2011

Reyðarfirði kl. 11.00

Egilsstöðum kl. 16.00

 

Yfirfærsla á þjónustu fyrir fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga fór fram um síðustu áramót. Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) heldur af því tilefni fræðslu- og umræðufundi víðs vegar um landið. Næstu fundir verða í safnaðarheimili Reyðarfjarðar kl. 11.00 - 13.30 og á Hlymsdölum á Egilsstöðum kl. 16.00 - 18.30.

 

Efni funda:

  1. Ný hugmyndafræði um fötlun og Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Helga Baldvinsd. Bjargardóttir - Fötlunarfræði HÍ
  2. Þekkir þú réttindi þín? Hrefna K. Óskarsdóttir - ÖBÍ
  3. Viðbrögð ÖBÍ vegna yfirfærslunnar. Guðmundur Magnússon - formaður ÖBÍ
  4. Notendastýrð persónuleg aðstoð. Freyja Haraldsdóttir og Embla Ágústsdóttir- NPA miðstöðin
  5. Fyrirhuguð Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar. Ingibjörg Loftsdóttir- Sjálfsbjörg
  6. Umræður og fyrirspurnir.

 

Fatlað fólk, aðstandendur, starfsfólk og stjórnendur sem vinna að málefnum fatlaðs fólks og aðrir sem áhuga hafa á málefninu eru velkomnir.

 

Mætum öll                                   Ekkert um okkur án okkar

 

innfært F.S.


LÍF MEÐ LYFJUM

 

Málþing í boði SÍBS, þriðjudaginn 22. mars kl. 16:00

í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.

 

Fjallað verður um reynsluna af breyttri og minni greiðsluþátttöku

ríkisins á lyfjum. Hverju þarf að breyta? Hvað má bæta?

 

 

DAGSKRÁ

Setning

                            Dagný Erna Lárusdóttir, formaður SÍBS.

 

Öndunarfæralyf, sparnaður og lífsgæði.

                            Hjörleifur Þórarinsson lyfjafræðingur.

 

,,Er ríkið okkar gæfusmiður?

                            Salome Arnardóttir, heimilislæknir.

 

Reynslusaga sjúklings.

                            Haraldur Haraldsson.

 

Blóðfitumeðferð, forvarnir og framtíðin.

                            Dr. Karl Andersen, dósent í hjartalækningum.

 

Pallborðsumræður

 

 

Fundarstjóri Guðmundur Bjarnason, formaður Hjartaheilla.

 

Málþingið er öllum opið.

 

 

sibs.is

Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga

innsett F.S.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband