Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

Frétt af:   http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33060 

24/10/2011 

Í byrjun næsta árs verða lágmarksbætur lífeyrisþega 203.000 krónur og hafa þá hækkað um 61% frá árinu 2007. Þá hafa útgjöld almannatrygginga sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs farið úr 9,5% árið 2006 í 13,1% árið 2012 miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands síðastliðinn laugardag. 

Velferðarráðherra kom víða við í ávarpi sínu. Hann sagði mikilvægt mál hafa verið lögfest á Alþingi nú í haust þegar samþykkt voru lög sem koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum. „Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna.“ 

„Í þrengingum okkar frá hruni hafa stjórnvöld alltaf lagt áherslu á að útfærslur aðhaldsaðgerða og niðurskurðar útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Grunnþjónustan hefur verið varin eins og kostur er og þau verkefni sem samstaða er um að ríkið sinni í þágu samfélagsins. 

Það hefur líka sýnt sig að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum og þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu hafa dregið úr álögum á þá tekjulægstu en fært skattbyrðina í auknum mæli á herðar þeim sem hærri tekjur hafa.“

 Ráðherra ræddi einnig um endurskoðun almannatryggingakerfisins, stefnumótun í húsnæðismálum og fyrirhugaða upptöku húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Þá talaði hann um frumvarp til breytinga á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sem verður lagt fram á Alþingi á næstunni: 

„Ég er sannfærður um að fólk muni fljótt sjá að þetta kerfi er bæði einfaldara og réttlátara en það sem við búum við núna, af því að það mismunar ekki sjúklingum eftir því hvers eðlis veikindi þeirra eru og af því að það er byggt upp til þess að draga úr kostnaði hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda vegna veikinda sinna. Sambærilegar breytingar tel ég nauðsynlegt að gera varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllu, einfaldlega af því að gildandi kerfi styður ekki nógu vel við bakið á þeim sem helst þurfa á því að halda.“ 

     innsett F.S.


Um hrotur. Hér er vitaskuld ekki átt við þá sem glíma við kæfisvefn.

 

Af http://www.ruv.is/pistlar/gudmundur-palsson/hrotur

30.03.2011 Senda

Hrotur

Allir sem hafa heyrt aðra manneskju sofa þekkja óhljóðin sem oft fylgja sofandi fólki. Hroturnar. Þennan hvimleiða fylgifisk alsælunnar sem oft fylgir - eða á að fylgja, svefninum. Þessu dásamlega og bráðnauðsynlega ástandi sem langflest dýr fara í. Þegar við sofum hlöðum við batteríin fyrir næsta dag, hvílum okkur og endurnærumst. Og auðvitað getur það verið erfitt og dálítið leiðinlegt að vakna upp við hroturnar í næsta manni. Kannski um miðja nótt. Ef til vill þegar maður er nýdottinn inn í draumalandið og þann furðuheim sem opnast manni í svefni.

En afhverju í ósköpunum hrýtur fólk? Þegar við sofum slaknar á vöðvum líkamans. Líka þeim sem eru í munni og koki. Þeir síga því inn á við og geta valdið fyrirstöðu þegar loftið sem við öndum að okkur þröngvar sér framhjá gómfillunni og úfnum. Úfurinn er semsagt dinglumdanglið við op koksins á okkur. Þá titrar þessi skemmtilegi og kannski pínulítið furðulegi húðflipi, úfurinn, aftast í munninum á okkur, sem og gómfillan og þá myndast þetta brak og þessir brestir sem eru hrotur. Og ekki má gleyma blessaðri tungunni sem lekur niður þegar menn sofa með opinn munninn og ýtir úfnum aftur í kok. Þá heyrast jafnvel enn hærri hrotur.

Og hrotur eru mismunandi. Allt frá nokkuð sakleysislegu og ef til vill dálítið róandi og notalegu suði til ærandi hávaða. Tæpur helmingur fólks hrýtur af og til og fjórðungur hrýtur nær alltaf þegar hann sefur. Karlar hrjóta frekar en konur og gamlir karlar frekar en ungir. Það er vegna þess að með aldrinum slaknar á vöðvum líkamans. Svo er þyngra fólki hættara til að hrjóta en þeim sem eru léttari.


Ýmislegt fleira getur valdið því að fólk hrýtur. Áfengi og sljóvgandi lyf slaka á vöðvunum. Kvef getur valdið fyrirstöðu, ofnæmi og reykingar geta líka valdið hrotum.


En er eitthvað hægt að gera til að losna við þessa óspennandi hliðarverkun svefnsins? Jú, það er víst ýmislegt, en fer að sjálfsögðu eftir ástandi fólks. Þeir sem eru of þungir gætu létt sig um nokkur kíló, það getur verið gott að sofa á hliðinni til að tungan renni ekki aftur í kok - þar kemur þyngdaraflið til sögunnar - svo er líka hægt að prófa að sofa með hátt undir höfðinu, þeir sem eru með stíflað nef geta úðað nefúða í nasirnar og losað þannig um stíflu og svo getur verið gott að sleppa því að drekka áfengi eða taka inn sljóvgandi lyf. Að maður tali ekki um reykingar, sem allir eiga auðvitað að hætta hvort sem er. Hér er vitaskuld ekki átt við þá sem glíma við kæfisvefn, sem þarfnast læknisfræðilegrar meðferðar af allt öðru tagi.


Svo er náttúrulega hægt að stinga bara töppum í eyrun á þeim sem deila með manni rúmi eða herbergi. Góða nótt.

 

innsett: F.S.



 


22 smituðust af berklum í fyrra: Sprenging miðað við fyrri ár - Flestir smitaðra útlendingar

 

 

 

02. apr. 2011 - 20:20

 

Ástæða er til að hafa áhyggjur að verulegri fjölgun berklatilfella meðal barna í Evrópu. 22 einstaklingar greindust með berkla á Íslandi á síðasta ári. Tilfellin eru óvenjumörg miðað við fyrri ár.

 

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Læknablaðsins. Samkvæmt nýrri skýrslu um útbreiðslu berkla í Evrópu kemur fram að heildartala þeirra sem smitast af berklum fer lækkandi, en berklasmit á meðal barna hefur aukist nokkuð.

 

Alls  greindust  22 einstaklingar hafi greinst með berkla í fyrra sem er óvenju mikið miðað við fyrri ár. Til samanburðar voru tilfellin 9 árið 2009. Af þeim sem greindust með berkla voru 16 af erlendu bergi brotnir.

 

Um miðjan 9. áratug síðust aldar greindust nánast engin börn á skólaaldri með berkla og því var almennum berklahúðprófum í skólum hætt.

 

    "Á undanförnum áratugum hefur hlutur innflytjenda til landsins meðal berklaveikra farið vaxandi. Nú sem fyrr eru Asíubúar hlutfallslega flestir meðal berklaveikra, en tíðni jákvæðra berklaprófa meðal íbúa frá Afríku, Asíu og Austur-Evrópu er einnig há. Það er ljóst að ekki næst til allra innflytjenda í læknisskoðun við komu til landsins. Því er afar brýnt að heilsugæslustöðvar hafi í huga berkla þegar fólk sækir læknisþjónustu vegna einkenna sem bent gætu til berkla",

 

er haft eftir Haraldi Briem, sóttvarnarlækni,  í Læknablaðinu. Árlega látast 1.300 manns úr berklum í heiminum öllum, en sjúkdómurinn  er vel læknanlegur ef hann er greindur nógu fljótt. talið er að 25 til 30 prósent af fólki séu sýkt af berklabakteríunni þótt aðeins 10 prósent af þeim taka sjúkdóminn. 

----    ----    ----    ----    ----    ----  

Greinina má finna hér:

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/04/nr/4183  

 innsett: F.S.

 


LÍF MEÐ LYFJUM

 

Málþing í boði SÍBS, þriðjudaginn 22. mars kl. 16:00

í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.

 

Fjallað verður um reynsluna af breyttri og minni greiðsluþátttöku

ríkisins á lyfjum. Hverju þarf að breyta? Hvað má bæta?

 

 

DAGSKRÁ

Setning

                            Dagný Erna Lárusdóttir, formaður SÍBS.

 

Öndunarfæralyf, sparnaður og lífsgæði.

                            Hjörleifur Þórarinsson lyfjafræðingur.

 

,,Er ríkið okkar gæfusmiður?

                            Salome Arnardóttir, heimilislæknir.

 

Reynslusaga sjúklings.

                            Haraldur Haraldsson.

 

Blóðfitumeðferð, forvarnir og framtíðin.

                            Dr. Karl Andersen, dósent í hjartalækningum.

 

Pallborðsumræður

 

 

Fundarstjóri Guðmundur Bjarnason, formaður Hjartaheilla.

 

Málþingið er öllum opið.

 

 

sibs.is

Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga

innsett F.S.

 


Vilt þú vera trúnaðarmaður fatlaðs fólks?

http://www.obi.is/utgafa/frettir/nr/874

11.3.2011

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) og Landssamtökin Þroskahjálp auglýsa eftir fólki sem er áhugasamt um að sinna verkefnum trúnaðarmanns fatlaðs fólks. Umsóknarfrestur er til 22. mars nk.

Samkvæmt 37. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 (Opnast í nýjum vafraglugga), skal velferðarráðherra skipa fötluðu fólki trúnaðarmenn eftir tilnefningum frá heildarsamtökum fatlaðs fólks.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um trúnaðarmenn fatlaðs fólks nr. 172/2011 (Opnast í nýjum vafraglugga) skulu þeir vera átta talsins og skiptast þeir milli landshluta með eftirfarandi hætti:

  1. Á þjónustusvæði Reykjavíkur og Seltjarnarness starfi tveir trúnaðarmenn.
  2. Kópavogur, Garðabær, Álftanes, Mosfellsbær og Kjós hafi einn trúnaðarmann.
  3. Hafnarfjörður og Suðurnes hafi einn trúnaðarmann.
  4. Vesturland og Vestfirðir hafi einn trúnaðarmann.
  5. Norðurland vestra, Akureyri og Norðurþing hafi einn trúnaðarmann.
  6. Austurland og Hornafjörður hafi einn trúnaðarmann.
  7. Vestmannaeyjar og Suðurland hafi einn trúnaðarmann.

Helstu verkefni:

Trúnaðarmenn skulu fylgjast með högum fatlaðs fólks og vera því innan handar við réttindagæslu hvers konar. Trúnaðarmaður skal vera sýnilegur í störfum sínum, halda reglulega fundi með fötluðu fólki á sínu svæði og standa fyrir fræðslu fyrir fatlaða einstaklinga og þá sem veita þeim þjónustu. Um frekari verkefni trúnaðarmanna fatlaðs fólks vísast til reglugerðar um trúnaðarmenn fatlaðs fólks nr. 172/2011. (Opnast í nýjum vafraglugga)

Hæfniskröfur:

  • Reynsla og þekking á málefnum fatlaðs fólks er nauðsynleg.
  • Menntun sem nýtist í starfi er æskileg.
  • Leitað er eftir einstaklingum sem eru liprir í mannlegum samskiptum, taka frumkvæði og geta unnið sjálfstætt.

Ráðgert er að skipa trúnaðarmenn til eins árs til að byrja með meðan unnið er að lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Velferðaráðherra ákvarðar vinnuskyldu og þóknun trúnaðarmanna.

Nánari upplýsingar veita:

Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ, sími 530-6700 / 869-0224, netfang lilja@obi.is

Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, sími 588-9390 / 861-2752, netfang fridrik@throskahjalp.is 

Þeir sem hafa áhuga á ofangreindum störfum skili umsóknum, rafrænt á ofangreind netföng fyrir 22. mars merkt Trúnaðarmaður eða bréfleiðis til ÖBÍ, Hátúni 10, 105 Reykjavík eða til Landssamtakanna Þroskahjálpar, Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík.

innsett F.S.          

 


Kjör öryrkja langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytis

Fréttablaðið, 17. mar. 2011 06:00

 

 lilja_orgeirsdottir_framkvaemdastjori_b.jpg

Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ

 

Lilja Þorgeirsdóttir skrifar:

 Á blaðamannafundi 7. febrúar sl. kynntu fulltrúar velferðarráðuneytisins ný íslensk neysluviðmið. Gefin var út ítarleg skýrsla unnin af sérfræðingum úr háskólasamfélaginu m.a. með hliðsjón af gögnum Hagstofunnar um neyslu heimila á árunum 2003 til 2008. Fólk er hvatt til að koma með athugasemdir um efni skýrslunnar, sem er á vef ráðuneytisins, fyrir 20. mars nk. Tilgangur neysluviðmiða er að aðstoða fólk við að áætla eigin útgjöld en nýtast þau jafnframt við að finna út lágmarksframfærslu og upphæðir bóta.

 

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur frá upphafi barist fyrir sjálfsögðum réttindum öryrkja til að lifa mannsæmandi lífi óháð því hvort fólk sé fatlað eða með skerta starfsorku vegna veikinda eða annarra ástæðna. Um sjálfsögð mannréttindi er að ræða enda kemur fram í 65. gr. stjórnarskrár Íslands að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda óháð efnahag. Þrátt fyrir það eru kjör öryrkja óásættanleg því bætur almannatrygginga eru langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Þetta á við um öll viðmiðin óháð því hvort um sé að ræða dæmigert viðmið, sem er leiðbeinandi um hóflega neyslu, grunnviðmið, er varðar lágmarksframfærslu, eða skammtímaviðmið, sem er framfærsla í hámark níu mánuði. Í töflunni hér að neðan má sjá hversu mikið ber á milli þessara viðmiða og örorkubóta sem öryrkjar fá frá Tryggingastofnun ríkisins.

 

Upphæðir í skammtíma- og grunnviðmiðum eru mjög lágar og ljóst að erfitt er að lifa á þeim miðað við aðstæður í þjóðfélaginu, en bætur almannatrygginga eru þó umtalsvert lægri. Það vekur einnig furðu hversu lítill munur er á framfærslu sem fólki er ætlað að lifa á annars vegar til skamms tíma og hins vegar til lengri tíma.

Heilbrigðiskostnaður stórlega vanmetinn.

neysluvi_mi_1070570.jpg

 

Kjör öryrkja langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytis

Þegar einstakir kostnaðarliðir neysluviðmiðanna eru skoðaðir kemur í ljós að heilbrigðiskostnaður, sem snertir öryrkja og sjúklinga sérstaklega, er stórlega vanmetinn. Í rannsókn sem framkvæmd var 2006 af Rúnari Vilhjálmssyni félagsfræðingi kom fram að öryrkjar vörðu um 6% af heildartekjum heimilisins í heilbrigðismál, en í nýju neysluviðmiði velferðarráðuneytisins er hlutfallið mun lægra eða um 2,6% þrátt fyrir að kostnaðarhlutdeild sjúklinga vegna lyfja, lækniskostnaðar, þjálfunar og hjálpartækja hafi aukist umtalsvert eftir bankahrun. Almennt er talið að öryrkjar þurfi 15-30% hærri tekjur en aðrir til að njóta sömu lífskjara, þar sem heilbrigðiskostnaður er meiri hjá þeim en hjá fólki almennt séð vegna heilsubrests og kostnaðar við ýmsa aðkeypta þjónustu.

 

Aðrir vanmetnir kostnaðarliðir.

 Gagnrýna má jafnframt að í neysluviðmiðunum er ekki gert ráð fyrir kostnaði við stofnun heimilis eða flutning í annað húsnæði. Þá eru greiðslur opinberra gjalda ekki meðtalin né nefskattar og ekki er gert ráð fyrir að fólk leggi fjármagn til hliðar til að geta mætt óvæntum útgjöldum. Ljóst er að ekkert má út af bera hjá fólki með lágar tekjur til að fjárhagurinn fari ekki enn frekar úr skorðum.

 

Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja.

 Rannsóknin ?Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja? sem kynnt var 25. febrúar sl. sýnir að örorkubætur eru svo lágar að margir öryrkjar búa ekki við mannsæmandi kjör. Rannsóknin var unnin af Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við ÖBÍ með styrk úr sjóði sem stofnaður var í tengslum við Evrópuár 2010 sem tileinkað var baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun. Sjóðurinn var fjármagnaður af stjórnvöldum og Evrópusambandinu.

Í rannsókninni kemur fram að fjölskyldur með börn og unglinga á framfæri eru verst staddar fjárhagslega og þá sérstaklega einstæðir foreldrar. Jafnframt eru margir öryrkjar sem búa einir illa staddir. Í þessum hópum er fólk sem á ekki fyrir brýnustu nauðsynjum seinni hluta mánaðarins og allt of margir verða að leita til hjálparstofnana eftir matargjöfum og annarri aðstoð. Fólk sem býr við slíkar aðstæður upplifir mikla streitu, kvíða og áhyggjur af afkomu sinni. Þá telur fólk bótakerfið flókið og tekjutengingar hamla breytingum á fjárhagslegri stöðu þeirra sem eru einungis með bætur almannatrygginga eða lágar lífeyrissjóðssgreiðslur.

 Velferðarráðherra á hrós skilið fyrir að birta niðurstöður neysluviðmiðs en hingað til hefur hvílt yfir þessum málum ákveðin leynd. Nú blasir raunveruleikinn við sem hagsmunasamtök, einstaklingar og sérfræðingar hafa ítrekað bent á. Langtímafátækt er staðreynd í okkar samfélagi. Beðið er með óþreyju eftir aðgerðum stjórnvalda sem verða að bæta kjör öryrkja í anda velferðarsamfélags sem hefur mannréttindi að leiðarljósi

 

innsett F.S.


Ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu í SÍBS húsinu, Síðumúla 6, kl. 16:00-19:00, í dag

 

SÍBS og Hjartaheill bjóða  almenningi ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu í SÍBS húsinu, Síðumúla 6, kl. 16:00-19:00, í dag,  mánudag 7. febrúar.

Gengið er inn að austanverðu og mælingarnar verða á annari hæð.

Sem fyrr segir verður mælt á tímabilinu 16:00-19:00 en skráningu lýkur kl. 18:00.

innsett: F.S.


Notendastýrð persónuleg aðstoð og kostnaður við þjónustu við aldraða og fatlaða

 

10.12.2010

http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/660

 

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, unnin fyrir ViVe-Virkari velferð.

Í þessrai skýrslu er fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð og tiltekin nokkur dæmi um kostnað við núverandi þjónustu við aldraða og fatlaða á Íslandi. Að skýrslunni unnu Dr. Sveinn Aganrsson frostöðumaður Hagfræðistonfunar HÍ og Þorvarður Atli Þórsson hagfræðingu.

Vive er vinnuhópur sem hefur tekið saman áætlun fyrir íslens stjornvöld um hvernig hægt er að breyta velferðarkerfi þannig ða fatlaðir og aldraðir geti lifað sjálfstæðu lífi utan stofnana.


Skýrslan í heild (767kb)

 

 innsett F.S.

 


Viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja.

 

 

Víxlverkanir stöðvaðar   

http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/657

8.12.2010

 

Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu 3. desember sl., viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja.

Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja. Fyrir hönd lífeyrissjóðanna er viljayfirlýsingin undirrituð með fyrirvara. Á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða er á það bent að hver og einn lífeyrissjóður eigi að sjálfsögðu síðasta orðið um aðild sína að samkomulaginu. Einnig segir að formsatriðum samkomulagsins skuli ljúka fyrir miðjan desember og að því búnu taki hver lífeyrissjóður afstöðu til málsins.

 

Víxlverkanirnar hafa ítrekað skert bætur öryrkja.

Á vef ráðuneytisins er viðurkennt að víxlverkanirnar hafa komið öryrkjum illa og staðið í vegi fyrir kjarabótum þeim til handa. Lífeyrissjóðirnir hafa síðustu misserin miðað greiðslur sínar til öryrkja við tekjur þeirra áður en þeir urðu fyrir örorku. Þetta hefur leitt til þess að þegar stjórnvöld hafa hækkað bætur til öryrkja hafa greiðslur lífeyrissjóðanna lækkað að sama skapi. Tekjutengingin milli almannatrygginga og lífeyrissjóða er gagnkvæm. Aðgerðir stjórnvalda til að bæta kjör öryrkja hafa því litlu skilað til þessa hóps og sömuleiðis hafa hærri greiðslur úr lífeyrissjóðum leitt til lækkunar örorkubóta.

 

Aftenging víxlverkunarinnar mun gilda í 3 ár.

Viljayfirlýsingin felur í sér að víxlverkanir milli örorkubóta almannatrygginga og lífeyrissjóðstekna verða aftengdar í þrjú ár (árin 2011, 2012, 2013). Áhrif atvinnutekna öryrkja á bætur og greiðslur úr lífeyrissjóðum verða hins vegar óbreytt. Aðilar eru sammála um að nota þennan tíma til að finna lausn á fyrirkomulagi þessara mála til framtíðar. Samhliða mun fara fram endurskoðun á tekjutengingu ýmissa bótaflokka almannatrygginga.

 

Viljayfirlýsingin (opnast á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða)

 

Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnará heimasíðu Landssambands lífeyrisjóða 

 

Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnar á heimasíðu félags og tryggingamálaráðuneytis

 

innsett F:S:


Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar.

 Af:  OBI.is

 

 

Heilbrigðisráðuneytið

b.t. Ingunnar Björnsdóttur

Vegmúla 3

150 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 12. nóvember 2010

 

 

Efni: Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar. 

 

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur fengið til umsagnar drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar frá október 2010. Frestur til að skila umsögninni er til mánudagsins 15. nóvember.

 

Inngangur

ÖBÍ fagnar því að drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi séu komin út, sem boðar breytingu á núverandi kerfi. Miðað við framkomnar tillögur verður kerfið mun einfaldara en það er í dag og er von okkar að kerfisbreytingin verði sem allra fyrst. Ánægjulegt er að sjá að sérstakt viðmið verði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega eins og fram kemur í tillögum 1 og 2. Tillaga 3 kemur ekki til greina að okkar mati.

 

Breytingin sem boðuð er á kerfinu í heild sinni er jákvæð. Mikilvægt er að greiðsla fylgi sjúklingum en ekki lyfjum, þannig að aukið jafnræði ríki meðal fólks, óháð sjúkdómum. Einnig er mikilvægt að hámark greiðsluþátttöku einstaklinga sé skilgreint og að hægt sé að sækja um lyfjaskírteini þegar því hámarki er náð. Við fögnum því að sýklalyf verði tekin með inn í greiðsluþátttökukerfið, því sýkingar eru oft aukaverkanir ýmissa sjúkdóma. Nauðsynleg lyf vegna aukaverkana, t.d. magalyf, sem fylgja oft langvarandi notkun annarra lyfja eða notkun eldri og ódýrari lyfja þarf einnig að taka inn í kerfið.

 

ÖBÍ vill þó benda á að ekki er ráðgert að setja aukið fjármagn inn í nýtt kerfi heldur munu fjölmargir sjúklingar greiða meira en áður fyrir lyf sín til að fjármagna aukna niðurgreiðslu hjá öðrum sjúklingum. Slíkt fyrirkomulag kemur sér vel fyrir þá sem eru með verulegan lyfjakostnað þar sem ekkert þak er á því hversu hár lyfjakostnaður getur orðið. En fyrirhuguð breyting kemur niður á þeim sjúklingum sem í dag greiða lægra gjald.

 

Vert er að benda á að margir sjúklingar þurfa ýmis hjálpartæki sem fylgja lyfjatöku og kostnaði því samfara. Sá kostnaður telst ekki vera vegna lyfja heldur sem hjálpartæki. ÖBÍ leggur áherslu á að sá kostnaður verði skoðaður samhliða breytingu á kerfinu þar sem útgjöld vegna lyfja er aðeins hluti af þeim kostnaði sem sjúklingar verða fyrir. Nauðsynlegt er að fá heildarsýn yfir stöðu mála. 

 

 

Athugasemdir við ýmis atriði skýrslunnar

Mjög gott er að tekið verður á fjöllyfjanotkun skv. skýrslunni. Hins vegar þarf að huga að því að þegar fólk greinist með sjúkdóma hefst, í mörgum tilvikum, leitun að rétta lyfinu þar sem að hagkvæmustu lyfin henta ekki öllum. ÖBÍ leggur áherslu á að heimild til notkunar annarra lyfja sé virt, m.a. vegna aukaverkana og öryggis, því er sveigjanleiki lyfjaskírteina nauðsynlegur. Þegar lyf eru tekin fyrirvaralaust úr greiðsluþátttöku þurfa að vera skýr og gegnsæ rök fyrir því sem öllum eru aðgengileg. Eins og áður sagði virka sum lyf betur en önnur fyrir ákveðna einstaklinga og því er það alvarlegt mál að taka lyf fyrirvaralaust út.

 

Í skýrslu vinnuhópsins er talað um kostnaðarvitund sjúklinga og hvatann til að velja ódýrari lyf sem getur í mörgum tilvikum verið jákvætt. En bent er á að margir sjúklingar hafa ekkert val og taka þarf sérstaklega tillit til þess hóps hvað kostnaðarþátttöku varðar við breytingu á kerfinu.

 

Við upphaf lyfjameðferðar hafa lyf oft verið afgreidd í mjög stórum skömmtum þrátt fyrir að ekki sé vitað hvort lyfið henti viðkomandi eða ekki. Ef í ljós kemur að viðkomandi lyf hentar ekki þá fer hugsanlega rúmlega helmingur lyfsins í ruslið. Huga ætti að því að veita meira svigrúm varðandi stærðir lyfjaskammta svo hægt sé að afgreiða minna af fyrsta skammti af nýju lyfi. Með því móti má spara töluvert fjármagn sem annars færi til spillis.

 

Í skýrslunni eru taldir upp þeir aðilar sem halda þarf fundi með. Ánægjulegt er að sjá Öryrkjabandalagið þar upp talið en það gleymist að félög sjúklinga hafa hagsmuna að gæta og ættu að vera sjálfsagður markhópur kynningar. Veitendur þjónustunnar eiga að upplýsa sjúklinga um fyrirhugaðar breytingar. Hingað til hefur upplýsingaflæði til sjúklinga ekki verið nógu gott og mætti bæta, m.a. er heimasíða Sjúkratrygginga helst til flókin.

 

Sá gagnagrunnur sem notaður verður til að halda utan um upplýsingar þarf að vera mjög vel varinn og ekki ætlaður til að setja inn aðrar upplýsingar en upphaflegur tilgangur segir til um. Fólk ætti að geta farið inn á sína eigin lyfjagátt á sama hátt og farið er inn í heimabanka eða síður ríkisskattstjóra og geta fylgst með eigin upplýsingum ásamt upplýsingum um kostnað og lyf.

 

Úttekt og eftirlit

Mikilvægt er að gerð verði úttekt á kerfinu svo hægt sé að gera sér grein fyrir virkni þess. Úttekt þarf að gera þegar kerfið er sett upp og aftur að ári liðnu. Sú úttekt ætti ekki að vera eingöngu á hendi landlæknisembættisins, því það embætti er fulltrúi kerfisins. Sjúklingar ættu einnig að hafa sinn fulltrúa í eftirliti með kerfinu, sbr. Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Búa þyrfti til embætti umboðsmanns sjúklinga eins og gert hefur verið á norðurlöndum.

 

Lokaorð

ÖBÍ lítur á þessar breytingar sem fyrsta skrefið í átt að jafnræði. Með fyrirhuguðum breytingum verður kerfið markvissara og gagnast frekar þeim sem þurfa mest á þjónustunni að halda.

 

ÖBÍ leggur áherslu á að í framhaldi af þessu þarf að skoða sem allra fyrst greiðsluþátttöku sjúklinga í hjálpartækjum, læknisheimsóknum, sjúkra-, iðju- og talþjálfun ásamt tannlæknakostnaði. Lyfjakostnaður er einungis hluti af þeim kostnaði sem öryrkjar og langveikir þurfa að greiða vegna sinnar fötlunar og/eða sjúkdóma.

 

Rétt er að ítreka það að tillögur nefndarinnar um nýtt greiðsluþátttökukerfi byggja á hagræðingu innan sjálfs kerfisins, þannig að niðurgreiðslur á lyfjum koma frá sjúklingunum sjálfum þar sem ekkert aukafjármagn kemur til af hendi ríkisins. Eðlilegra væri að laga kerfið og auka jafnræði með öðrum hætti með allt samfélagið í huga þ.e. í gegnum skattkerfið. Með því móti væri hægt að halda lyfjakostnaði sjúklinga í lágmarki.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Öryrkjabandalags Íslands

 

________________________

Guðmundur Magnússon

formaður

 

 innsett/F.S.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband