Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Greytt fyrir táknmálstúlkun viðskiptavina Tryggin

 

 

Oft er spurt til hvers eru öll þessi sjúklingafélög?? Þau gera ekki neitt hvort sem er.

Hér hefur Félag heirnarlausra náð að tryggja heyrnarlausu fólki ókeypis táknmálstúlk þegar það fer í viðtal í TR.

Öll réttindi sem fólk hefur eru tilkomin vegna baráttu og réttindunum verður einungis viðhaldið með því að vera á var...ðbergi og berjast fyrir réttindunum þegar þess þarf.

Sjúklingafélög eru nauðsinleg m.a. til svona réttindagæslu.

 Ég óska Félagi Heyrnarlausra til hamingju með árangurinn.

Ritað/Innsett  F.S.


mbl.is Greitt fyrir táknmálstúlkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OPIÐ HÚS SÍBS "Töfralyfið hreyfing"

 

Mánudaginn 25. október n.k. verður að venju opið hús í SÍBS húsinu, Síðumúla 6.

 

Gígja Gunnarsdóttir, íþróttafræðingur BSc, MPH, verkefnastjóri hreyfingar hjá Lýðheilsustöð fjallar um gildi hreyfingar.

Heiti fyrirlestursins er: ,,Töfralyfið hreyfing".  

 

Fyrirlesturinn hefst kl. 16.15.

 

Allir velkomnir.

 innsett FS

 

 

 


Grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu

 

Af.  http://www.ruv.is/frettaskyringar/innlendar-frettir/grundvallarbreytingar-a-heilbrigdiskerfinu

 

12.10.2010

 

 

Bergljót Baldursdóttir | bergljotb@ruv.is

 

Grundvallarbreytingar verða á heilbrigðiskerfinu hér á landi ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar um niðurskurð ná fram að ganga. Formaður Læknafélags Íslands segir þó að læknar séu ekki alfarið á móti breytingunum.

 

Lagt er til í fjárlagafrumvarpinu að draga úr sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, en í staðinn efla heilsugæsluna og sjúkraflug. Ef af verður er um að ræða annars konar heilbrigðisþjónustu en Íslendingar hafa átt að venjast undanfarin ár. Niðurskurðinum var harðlega mótmælt um allt land í vikunni. Haldnir voru borgarafundir á Ísafirði, Húsavík, í Keflavík, Vestmannaeyjum og víðar.

 

Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja: Þetta myndi væntanlega þýða þá að fæðingarþjónusta legðist af sem er þó búin að vera í sérhæfðu húsnæði síðan 1850. Skurðstofa legðist af sem að þó er búin að vera hér síðan 1930. Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja: Þetta þýðir náttúrulega í stuttu máli að sjúkrahúsþjónustan leggst meira og minna af hjá okkur. Hörður Högnason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: Þó að við segðum upp öllum læknum og hjúkrunarfræðingum stofnunarinnar að þá myndum við ekki ná upp í það sem við eigum að spara. Guðrún Árný Guðmundsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga: Þetta er mjög stór biti og fyrir bæði okkur hérna starfsmennina og starfsmannahópinn og fyrir samfélagið allt. Þú sérð það að það eru 70 manns sem fara og þá fara líka makar með. Hafsteinn Sæmundsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks: Ef að þetta er niðurstaða mála að fækka hér verulega það er að minnsta kosti þriðjung starfsmanna eða allt að 40 störfum. Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands: Hvernig felst hagur í því að flytja þessi rúm frá okkur og ætla að flytja sjúklinga til þess að gera einfaldar þarfir inn á Landspítalann eða inn á Akureyri þar sem eðlilega er miklu dýrari þjónusta, hátækniþjónusta.

 

Heilsugæslan
Gert er ráð fyrir að sjúkrarýmum á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni verði fækkað um 91 þannig að þau verði 235 í stað 326. 90 milljónir á að setja í sjúkraflutninga og 480 milljónir verða settar í að efla heilsugæsluna.

 

Halldór Jónsson, formaður Félags íslenskra heilsugæslulækna: "Auðvitað er það hérna umtalsverð upphæð, en spurningin er bara hvernig hún er notuð og heilsugæslan að minnsta kosti á Stór- Reykjavíkursvæðinu og heilbrigðisþjónustan verulega á landsbyggðinni semsagt um allt land sat í annað hvort stóð í stað eða í niðurskurði allt góðærið svokallaða og og hérna ég hef oft lýst því þannig að þegar að hrunið varð að þá tóku menn þetta sem þeir voru eins og heilsugæslan í Reykjavík búin að spara og spara og spara, þeir tóku átröskunarsjúklinginn og sögðu honum að fara í megrun."

 

Hátt í 20 heilsugæslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu. Það stendur til að fækka þeim og stækka þær og ef af verður þá gæti þessi heilsugæslustöð orðið hluti af annarri stærri. Menn velta fyrir sér hvort heilsugæslan sé í stakk búin til að taka við því viðbótarálagi sem boðað er.

 

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra: "Ég held það sé nú ekki rétt að setja það þannig upp að það verði viðbótarálag. Aftur á móti er verið að reyna að styrkja heilsugæsluna sem fyrstu móttökustöð og í þessari lotu á meðan að við erum í hörðum niðurskurði þá felst það í að verja hana fyrir niðurskurðinum. Það er ekki mikið bætt í það er alveg hárrétt."

 

Skortur á læknum um allt land
Læknaskorturinn getur haft afdrifarík áhrif á hvað verður úr niðurskurðarhugmyndum því ekki er bara skortur á læknum í heilsugæslunni heldur líka í mörgum sérgreinum. Martin Grabowski er sjálfstætt starfandi taugalæknir í hálfu starfi á taugadeild Landspítalans. Hann segir að taugalæknum hafi fækkað um fjóra um á rúmu ári. Þeir voru 15 en eru nú 11.

 

Martin Grabowski, taugalæknir: "Við erum tveir taugalæknar sem vinna hér á Læknasetrinu.  Það er svona tveggja þriggja mánaða bið að komast til okkar og biðin hefur lengst síðustu eitt til tvö árin. Það sem gerist hér gerist náttúrulega svo skyndilega. Það finnst mér allavega sem utanaðkomandi að skipulagninguna vanti. Allt gerist mjög hratt og það er mikil óvissa og það er skipulagningin og planið sem vantar."

 

48 læknar útskrifast á hverju ári úr Háskóla Íslands. Flestir þeirra fara til útlanda í sérnám. Undanfarin tvö ár hefur enginn þeirra skilað sér heim og þeir sem voru á leiðinni heim fyrir hrun hættu við að koma.

 

Guðbjartur Hannesson: "Og við þurfum að sjálfsögðu að mæta þessu. Það er grafalvarlegt ef við getum ekki fengið lækna til starfa þannig að ég get ekki svarað því nákvæmlega hvernig er hægt að gera það, en við verðum að fara yfir það með meðal annars læknum og öðrum."

 

Eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum
Til stendur að minnka sjúkrahúsþjónustuna úti á landsbyggðinni og færa sumar aðgerðir inn á stærri sjúkrastofnanir. Árið 1993 kom út skýrsla þar sem fram komu svipaðar hugmyndir. Mikil andstaða við þær varð til þess að ekkert varð af þeim.

 

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands: "Það að hlutirnir færist yfir á meira þróaða staði er eðlileg þróun í læknisfræði. 21. öldin í læknisfræði er allt öðruvísi heldur en mið 20. öldin." Bergljót Baldursdóttir: "Þannig að þú eða þið í Læknafélaginu, Læknafélaginu eru ekkert alfarið á móti þessari þróun að skera niður á landsbyggðinni og færa yfir á stærri sjúkrahúsin?" Birna Jónsdóttir: "Það er eðlilegt að skurðstofur séu á færri stöðum heldur en þær voru fyrir 40 árum. Það er ekkert við það að athuga."

 

Skoða þarf hvar er hagkvæmast að gera aðgerðir
Birna segir að ekki hafi verið haft samráð við fagfélög í heilbrigðisþjónustunni. Ekki sé heldur búið að greina hvar sé hagkvæmast að gera hverja aðgerð.

 

Bergljót: "Skiptir ekki máli að það verði ákveðin kostnaðargreining á því hvað er hagkvæmast á hverjum stað áður en að ákveðið er að skera niður eins og búið er að gera í rauninni?" Guðbjartur Hannesson: "Jú það er auðvitað búið að skoða þetta ítrekað þó að það megi alltaf gera miklu betur. En í sambandi við kostnaðargreiningu ég skal viðurkenna það að hún er ekki mjög ítarleg í kerfinu í heild þó að mikið hafi verið unnið og þá er þetta einmitt spurningin um það ef þú ert að gera fáar aðgerðir á einhverjum einum stað, en heldur úti sólarhringsvakt meira og minna allt árið þá kostar það býsna mikið."

 

Aðgengi að sjúkrahúsþjónustu gæti versnað
Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur, segir að breytingar af þessu tagi þurfi mikinn undirbúning og ætti að gera í samráði við fagfólk í heilbrigðisþjónustunni. Hætta er á því að aðgengi að sjúkrahúsþjónustu á Íslandi muni versna.

 

Rúnar Vilhjálmsson, heilsufélagsfræðingur: "Ég hef áhyggjur af því að að sókn í hana muni hugsanlega minnka og aðgengi að henni versna þegar að vegalengdir á þjónustustað aukast. Það eru til almennar viðmiðanir erlendis frá um að æskilegt sé að að ferð á þjónustustaði sjúkrahúsa sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu séu ekki nema svona hálftími eða minna. Við erum að fjölga því fólki sem fer lengri vegalengdir á sjúkrahúsin eftir sérfræðiþjónustu og þegar um er að ræða almennari sérfræðiþjónustu þá hef ég áhyggjur af því að þarna geti verið kominn upp aðgengisvandamál."

 

Ef niðurskurðarhugmyndirnar verða að veruleika verður Landspítalinn hér og sjúkrahúsið á Akureyri sérhæfð sjúkrahús sem taka við sjúklingum af öllu landinu. Það sem hins vegar getur sett strik í reikninginn er læknaskorturinn og andstaðan við hugmyndirnar.

innsett FS

 

 


Eigi skal aftur höggva.........

 

Er ekki komið nóg af álögum á lífeyrisþega og niðurskurði tryggingabóta og þjónustu við þá.?

Ísland er búið að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna um þjónustu við fatlaða, og það kostar peninga að laga þjónustuna að því sem þar er ætlast til.

Ljóst er að stórir hópar fatlaðra eru nú að fá minni og lakari þjónustu heldur en núgildandi lög gera ráð fyrir.    Það kostar peninga að bæta úr því.

Boðaður niðurskurður veldur því að sjúkir og fatlaðir fá ekki lögbundna þjónustu.

Biðlistar eftir lífsnauðsinlegri heilbrigðisþjónustu eru að lengjast,  líf fjölda manns er í hættu vegna þess.

Þetta er ekki ástand sem er hægt að sætta sig við.

Svo er verið að reyna að plata sveitafélögin til að taka yfir þjónustu við fatlaða !

Í mínum huga er þetta orðið spurning um að virða rétt fólks til mannsæmandi lífs og almennilegrar heilbrigðisþjónustu.  

Ísland er að fjarlægjast öll slík markmið og viðmið með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og það er ekki ásættanlegt.

 

F.S.

 

 

 


mbl.is Árás stjórnvalda á félagslega kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott fjör í æðum? Sunnudaginn 10. janúar verður opið hús kl. 13 - 16 í SÍBS húsinu, Síðumúla 6.

 

8. janúar 2010 18:00

Gott fjör í æðum?

Opið hús og mælingar á sunnudag

Sunnudaginn 10. janúar verður opið hús kl. 13 - 16 í SÍBS húsinu, Síðumúla 6.

Kynning á Happdrætti SÍBS

Þar gefst kostur á að fá ókeypis mælingar á blóðþrýstingi, blóðfitu og súrefnismettun.

Allir eru velkomnir og þeir sérstaklega sem ekki þekkja gildi sín hvað þessa þætti varðar.

Einnig gefst kostur á fræðslu um starfsemi SÍBS og aðildarfélaganna.

Sjá nánar með því að smella hér. 


Öryrkja vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála 2006.

6.10.2009      Af http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/482 

 

Bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála jukust að raungildi um 29% á tímabilinu frá 1998 til 2006.

Rúnar Vilhjálmsson, félagsfræðingur birtir niðurstöður sínar úr rannsókn sem hann hefur gert um, „Bein útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðismála”, í Læknablaðinu 10 tbl. 95. árg. 2009.

Rannsókn sína byggir Rúnar m.a. á tveimur heilbrigðiskönnunum sem fram fóru 1998 og 2006. Meðalútgjöld heimila vegna heilbrigðismála og kostnaðarbyrði (hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum) voru borin saman milli hópa og ára. Hér verður stiklað á stóru í niðurstöðum Rúnars.

Bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála árið 2006 voru mjög breytileg. Lægst voru þau 0 krónur, en hæst rúmar 402.000 krónur (staðalfrávik: 67.600).

Útgjöldin jukust að raungildi um 29% á tímabilinu frá 1998 til 2006, úr tæpum 82.000 að meðaltali í tæp 106.000. Jafnframt hækkaði kostnaðarbyrði heimila (heilbrigðisútgjöld í hlutfalli við heildartekjur heimilis) úr 1,82% að meðaltali árið 1998 í 2,52% árið 2006.

Heimilisútgjöld langveikra (3,07%) voru hærri en annarra, en þó sérstaklega öryrkja sem vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála.

Stærstu útgjaldaliðir 2006 voru lyf, tannlæknisþjónusta, tæki og lyfjabúðarvörur, og læknisþjónusta (í þessari röð).

Færa má rök fyrir því að gjöld sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu séu komin á varasamt stig með hliðsjón af markmiðinu um jafnt aðgengi. Nýlegar rannsóknir hérlendis sýna að þeir sem hafa hærri krónutöluútgjöld vegna heilbrigðismála, og þó einkum þeir sem hafa hærra hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum, fresta frekar en aðrir læknisþjónustu þó þeir telji sig hafa þörf fyrir þjónustuna.

Stjórnvaldsákvarðanir er varða hækkanir á komugjöldum og öðrum þjónustukostnaði sjúklinga og takmarkanir á endurgreiðslu vegna lyfja eru iðulega teknar án þess að fram fari greining á áhrifum breyttrar skipanar, meðal annars með tilliti til kostnaðar sjúklinga og aðgengis að þjónustu.

Þörf virðist á heildstæðari tryggingaverndarstefnu. Þannig virðist sem tryggingavernd öryrkja sé alls ófullnægjandi (þrátt fyrir gildandi almennar reglur) og ástæða til að auka enn frekar vernd þessa hóps.

Loks er full ástæða til að endurskoða gildandi reglur og framkvæmd varðandi endurgreiðslur samanlagðra heilbrigðisútgjalda heimila, en mjög fá heimili sækja um og fá slíkar endurgreiðslur.

Greinin í heild sinni á heimasíðu Læknablaðsins (opnast í nýjum glugga)

 

Innsett  F.S.


Kæfisvefn veldur hjarta- og æðasjúkdómum - segir doktorsnemi í líffræði. Viðtal við Ernu Sif Arnardóttur

http://www.laeknabladid.is/2009/07/nr/3574

07. tbl 95. árg. 2009

 „Rannsóknin tengist fyrst og fremst kæfisvefni þar sem við erum að leggja áherslu á að skilja betur hvernig kæfisvefn veldur hjarta- og æðasjúkdómum en við erum líka að skoða hvað gerist í svefnleysi; hvers vegna sumir þola svefnleysi betur en aðrir og hvort hægt sé að finna á því beinar líkamlegar skýringar,“ segir Erna Sif Arnardóttir, doktorsnemi í líffræði, sem útnefnd var Ungur vísindamaður ársins á Vísindadögum Landspítala í byrjun maí. 

u03-fig1_opt

Erna Sif Arnardóttir sem fékk verðlaun á Vísindadögum Landspítala er glaðvakandi og einbeitt yfir svefnrannsóknum sínum. 

„Þetta er doktorsverkefnið mitt við læknadeild Háskóla Íslands og leiðbeinendur mínir eru Þórarinn Gíslason, yfirlæknir á lungnadeild Landspítala, og Allan I. Pack, prófessor við University of Pennsylvania,“ segir Erna Sif. Hún bætir við til nánari skýringar að rannsókn sín sé að miklu leyti byggð á Íslensku kæfisvefnsrannsókninni sem staðið hefur yfir um nokkurra ára skeið undir stjórn Þórarins Gíslasonar og er ein stærsta rannsókn í heiminum á því sviði, að sögn Ernu Sifjar. „Sú rannsókn beinist fyrst og fremst að því að rannsaka hvaða gen valda kæfisvefni og er samstarfsverkefni Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar og styrkt af NIH (National Institute of Health) í Bandaríkjunum. Það segir reyndar talsvert um alþjóðlegt mikilvægi rannsóknarinnar því sjaldgæft er að NIH styrki rannsóknir sem fara fram algerlega utan Bandaríkjanna.“ 

Hvað er kæfisvefn?

„Kæfisvefn er sjúkdómsástand sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni og fylgir yfirleitt hrotur og mikil dagsyfja,“ segir Erna Sif. „Truflanirnar stafa af því að öndunarvegurinn lokast endurtekið í svefni í 10 sekúndur eða lengur, getur varað allt að tvær mínútur. Öndunin stöðvast algerlega í þennan tíma, eða grynnist verulega, og þessu fylgir verulegt súrefnisfall í blóði sjúklingsins. Súrefnisfallið er talið aðalorsökin fyrir flestum fylgikvillum og slæmum afleiðingum kæfisvefns. Kæfisvefninn veldur einnig verulegri truflun á svefni og dregur úr svefngæðum, einstaklingurinn fær ekki jafn mikinn djúpsvefn og ekki jafnmikla hvíld og heilbrigðir einstaklingar. Kæfisvefnssjúklingar þjást því gjarnan af dagssyfju, sofna undir stýri eða við störf sín yfir daginn og eru með skert lífsgæði. Kæfisvefn er um helmingi algengari hjá körlum en konum, alþjóðlegar rannsóknartölur segja 4% karla á miðjum aldri með kæfisvefn en um 2% kvenna. Hér á Íslandi meðhöndlum við nú þegar þennan fjölda þannig að tölurnar eru eflaust nokkuð hærri og stöðugt koma nýir sjúklingar með alvarlegan kæfisvefn svo sjúkdómurinn er raunverulegt vandamál hjá talsvert stórum hópi fólks.“ 

Umfangsmiklar mælingar

„Fjöldi kæfisvefnssjúklinga í þessari rannsókn er um 2000 auk ættingja og ég nýti mér þennan mikla efnivið í rannsóknina mína sem tekur til mun afmarkaðri þátta kæfisvefns en stóra rannsóknin gerir. Við mína rannsókn voru allir nýir sjúklingar sem komu til kæfisvefnsrannsóknar teknir í ítarlegri rannsókn. Tekið var blóðsýni og fita var mæld yfir allan kviðinn með segulómun, bæði iðrafita (visceral fat) og fita undir húð (subcutaneous fat). Það er talið að iðrafita sé hættulegri hvað varðar kæfisvefn en önnur líkamsfita og við gerðum því nákvæmar mælingar á fitudreifingu allra nýrra sjúklinga. Síðan bætast við niðurstöður úr svefnmælingum, hversu alvarlegan kæfisvefn hver og einn er með og ítarlegur spurningalisti um heilsu, dagsyfju og fleira.“

Úr blóðsýninu eru mældir bólguþættir en Erna Sif segir að vitað sé að bólga valdi aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. „Við vitum einnig að 60% íslenskra kæfisvefnssjúklinga eru með háþrýsting og að hluti af þeim þjáist einnig af hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki. Kæfisvefn eykur mjög líkurnar á þessum sjúkdómum. Bólguboðefnin sem við mælum í blóðinu eru C-reactive protein (CRP) og Interleukin-6 (IL-6). Þessi efni fara út í blóðið frá ýmsum líkamssvæðum, meðal annars fer IL-6 úr fitunni sjálfri og sérstaklega virðist sem iðrafitan setji mikið af bólguboðefnunum frá sér. Þeir sem eru í yfirþyngd eru yfirleitt með mjög aukin bólguboðefni í blóðinu. Við erum að reyna skilja betur sambandið á milli kæfisvefns og sjúkdómanna sem ég nefndi. Hvernig kæfisvefninn veldur þeim. Er það kæfisvefninn sjálfur? Eru það tengslin milli kæfisvefns og offitu? Hefur það áhrif á líkur á hjarta- og æðasjúkdómum hvort einstaklingur með kæfisvefn er grannur eða í yfirþyngd? Það sem við sjáum er að á milli kæfisvefns og offitu er einhvers konar víxlverkun þannig að jafnalvarlegur kæfisvefn hjá grönnum einstaklingi og einstaklingi með offitu hefur meiri áhrif á bólguþætti hjá þeim sem er í offitu. Þeir sem eru grannir en þjást af kæfisvefni virðast því vera í minni áhættu með hjarta- og æðasjúkdóma þó áhættan sé ennþá til staðar.“

 Erna Sif segir að sambandið milli kæfisvefns og offitu sé flókið og erfitt að draga saman í eina setningu. „Það er engu að síður þannig að því þyngri sem maður er því meiri líkur eru á að hann sé með kæfisvefn. Grannir geta einnig þjáðst af kæfisvefni en ástæðurnar eru aðrar en hjá þeim sem þyngri eru. Grannur maður með kæfisvefn er líklega með litla höku, stóran úf, stóra tungu, eitthvað sem veldur því að öndunarvegurinn þrengist. Hins vegar gerist það hjá þeim sem þyngjast að öndunarvegurinn þrengist vegna þess að fita safnast inn á öndunarveginn, tungan stækkar og aukin kviðfita dregur úr öndunargetu. Það hefur verið sýnt fram á að allt að 97% þeirra sem eru með alvarlega offitu eru með kæfisvefn. Tengslin þarna á milli eru augljós en þó eru allar offiturannsóknir litaðar af því að kæfisvefn er yfirleitt ekki rannsakaður. Faraldsfræðilegar rannsóknir staðfesta að kæfisvefn veldur há-þrýstingi og einnig hefur verið staðfest að hjá þeim sem eru með ómeðhöndlaðan kæfisvefn er mikil aukning dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig er talið að kæfisvefn valdi sykursýki þó orsakatengslin séu ekki jafn ítarlega rannsökuð og hitt sem ég nefndi.“ 

Viðbrögð við svefnleysi

Annar hluti rannsóknar Ernu Sifjar beinist að líkamlegum áhrifum svefnleysis. „Það er vitað að magn bólguboðefna eins og CRP og IL-6 eykst í blóði þeirra sem missa svefn heila nótt eða sofa skemur en fjóra tíma á sólarhring. Einnig hefur komið fram í nýlegum rannsóknum að matarlyst eykst við svefnleysi þar sem brenglun verður á hormónunum ghrelin og leptin sem stjórna svengd; einstaklingurinn sækir þá sérstaklega í kolvetnaríka fæðu. Einnig verður skerðing á sykurþoli við svefnleysi sem eykur áhættu á sykursýki af gerð II. Í nýlegri rannsókn sem stóð yfir í tvær vikur þyngdust þeir þátttakendur sem fengu ekki að sofa lengur en fjóra klukkutíma á sólarhring. Einnig er vitað að fólk með skertan svefn er með verulega skerta athygli og einbeitingu og kemur kannski ekki sérstaklega á óvart.

 

Í rannsókninni völdum við tvo hópa til samanburðar, annars vegar fólk sem við vissum af fyrri mælingum að þoldi svefnleysi vel í athyglisprófum og hins vegar fólk sem við vissum að þoldi svefnleysi illa og stóð sig verr í sömu prófum. Öllum var síðan haldið vakandi í 38 tíma og líkamlegt ástand rannsakað nákvæmlega um leið og einstaklingarnir leystu athyglispróf. Við höfum áhuga á að vita hvort sykurþolið er betra og bólguviðbrögðin minni hjá þeim sem þola svefnleysið vel en hjá þeim sem þola það illa? Tengslin þarna á milli eru ekki þekkt. Við gerðum einnig mjög umfangsmiklar mælingar meðan á rannsóknartímanum stóð, tókum blóð á fjögurra tíma fresti bæði við eðlilegan svefn fyrir vökutímabilið, á meðan á því stóð og svo fyrstu nóttina eftir svefnleysi í lok rannsóknartímans. Við erum núna að gera mælingar á breytingunum sem verða í genatjáningu í 39 þúsund genum við svefnleysi í samanburði við eðlilegan svefn og vöku. Þessar mælingar eru gerðar með örflögutækni (microarray) sem gerir okkur kleift að skoða allar breytingar sem verða á frumustarfsemi en ekki bara einangruð boðefni.“ Erna Sif segir niðurstöður ekki liggja fyrir ennþá en tilgáta hennar er sú að þeir sem upplifi svefnleysi sem lítið mál verði fyrir minni líkamlegum áhrifum en hinir. „Reyndar eru til tvær gerðir af fólki sem sefur lítið að jafnaði. Annars vegar eru þeir sem sofa alltaf 4-6 tíma og hins vegar eru þeir sem sofa 4-6 tíma á virkum dögum og bæta sér síðan upp svefnleysið með miklum svefni um helgar. Seinni hópurinn er líklega að valda sér einhverjum skaða en mögulegt er að hinir þurfi hreinlega ekki meiri svefn.“

 

Hún segir að upplýsingar um áhrif svefnleysis geti komið sér mjög vel fyrir fólk sem er að velta fyrir sér hvort óreglulegur vinnutími og/eða vaktavinna henti því. „Ég tel að fólk vilji vita hvort það sé að valda sér heilsufarslegum skaða með því að vinna þannig að það dragi verulega úr svefni, jafnvel þótt það upplifi líðan sína ágætlega og geti haldið athyglinni. Læknar eru einmitt gott dæmi um stétt sem vinnur mikið og til skamms tíma hafa vaktir verið mjög langar hjá læknum. Mér finnst í rauninni stórmerkilegt hvað læknar hafa unnið langan vinnudag og langar vaktir miðað við hvað vitað er um áhrif svefnleysis á frammistöðu og athyglisgáfu. Margar rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að læknar og aðrar stéttir gera meiri mistök eftir að hafa staðið langar vaktir. Svo þegar líkur benda til að svefnleysið hafi áhrif á heilsufar læknisins sjálfs spyr maður sig hvort ekki eiga að leggja miklu meiri áherslu á að draga úr vinnu- og vaktaálagi.“

 

Fyrstu niðurstöður úr kæfisvefnshluta rannsóknar Ernu Sifjar voru kynntar innan Landspítala á Vísindadögum og á stórri ráðstefnu í Seattle. Reikna má með birtingu í tímariti í lok sumars. „Niðurstöður úr svefnleysisrannsókninni verða væntanlega birtar í haust eða fyrri part næsta vetrar. Ég stefni svo að því að ljúka doktorsnáminu í lok næsta árs,“ segir Erna Sif Arnardóttir að lokum

Innsett: F.S.

 

 

 

 

 


ÖBÍ mótmælir aðför að velferðarkerfinu!

Af:   http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/397

21.1.2009


Ályktun fundar aðalstjórnar ÖBÍ 21. janúar 2009

 


Í desember síðastliðnum ákvað ríkisstjórn Íslands að ganga gegn lögum um verðbætur á greiðslur almannatrygginga til yfirgnæfandi meirihluta elli- og örorkulífeyrisþega þann 1. janúar síðastliðinn. Í stað þess að forgangsraða í anda velferðarþjóðfélags var ákveðið að taka með þessum hætti um 2,5 milljarða (netto) af lögvernduðum lífeyri landsmanna.

 

Ennfremur hefur ríkisstjórnin stóraukið greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og innleitt þar nýja og áður óþekkta gjaldaliði sem bitna harðar á öryrkjum, langveikum og öðrum þeim sem mest þurfa á þessari þjónustu að halda. Þetta er gert þrátt fyrir að ekki hafi verið settar reglur um hámark á greiðsluþátttöku sjúklinga.

 

Skyndiatlaga að velferðarkerfinu mun koma harðar niður á samfélaginu og auka kostnað þess þegar til lengri tíma er litið.

 

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir þessari aðför að lífeyrisþegum og langveikum harðlega og fer fram á að stjórnvöld grípi til annarra og réttlátari aðgerða í þeim efnahagsvanda sem við er að glíma. Verði landslög ekki virt mun bandalagið fela lögmönnum sínum að kanna lagalegan rétt félagsmanna sinna.


Aðalstjórn ÖBÍ 21. janúar 2009
 

 

Í skjóli kreppuástands í þjóðfélaginu hefur ríkisstjórnin sett lög (svokallaðan bandorm) á ýmis lögvarin réttindi almennings þar á meðal á bætur almannatrygginga.

 

Í lögum um almannatryggingar 100/2007, 69. gr. segir m.a. að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög, „?þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.”

 

Hækkun bóta nú um áramótin hefði í réttu samkvæmt lögum átt að vera um 19% vegna þróunar vísitölu neysluverðs á árinu 2008. Hækkun til lífeyrisþegar er þó aðeins 9,6% samkvæmt lagaákvæði bandormsins. Breyting á sjúkratryggingalögum

 

Í lögum um sjúkratryggingar 112/2008, 18. gr. segir að: „Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum ?”

 

Sett hefur verið á 6.000 kr. innlagnargjald við vistun á sjúkrahús fyrir almenning og kr. 3.000 fyrir lífeyrisþega. Getur slíkt verið verulega íþyngjandi ofan á annan kostnað sem lífeyrisþegar hafa af sínum veikindum.

 

Athygli skal vakin á að í bandorminum, Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum 173/2008,  16. gr. er ekki tilgreint að um bráðarbyrgðaákvæði sé að ræða varðandi innlagnargjaldið eins og tilgreint er við flestar aðrar breytingar sem gerðar eru á lögum.

 ( innsett F.S. )   

 


« Fyrri síða

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband