Ný lög um bætt kjör aldraðra og öryrkja samþykkt á Alþingi.

FEL - Fréttir frá félagsmálaráðuneyti     2008-03-13

    http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3723  

Í dag voru samþykkt á Alþingi ný lög um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Hér er um að ræða fyrsta frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra á þessu sviði en málefni aldraðra og almannatryggingar fluttust frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins um síðustu áramót.

  

„Með frumvarpinu eru stigin afar mikilvæg skref sem munu bæta stöðu fjölda einstaklinga og fjölskyldna þeirra“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, þegar lögin höfðu verið samþykkt í dag. „Ég legg hins vegar áherslu á að hér er um að ræða skref á lengri leið. Gert var ráð fyrir í greinargerð með frumvarpinu að lagðar yrðu fram tillögur sem tryggðu örorkulífeyrisþegum sama frítekjumark og ellilífeyrisþegum eða ígildi þess. Gengið er út frá því að tillögur berist frá örorkumatsnefnd forsætisráðherra nú á vorþinginu þannig að hægt verði að afgreiða þá lagasetningu fyrir gildistöku 1. júlí næstkomandi. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja er jafnframt kveðið á um að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði eða sambærilega réttarbót með öðrum hætti fyrir 1. júlí næstkomandi. Mikilvægt er að vinnu á vegum fjármálaráðuneytisins við útfærslu á því verði hraðað svo bæta megi stöðu tekjulægstu hópa ellilífeyrisþega í landinu.“

  

Lagabreytingarnar eru byggðar á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 og byggjast á niðurstöðum verkefnisstjórnar félagsmálaráðherra frá 30. nóvember 2007 og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. desember síðastliðinn. Breytingarnar munu taka gildi í þremur áföngum. Helstu nýmæli í lögunum eru eftirfarandi:

  
  • Skerðing bóta vegna tekna maka verður að fullu afnumin frá og með 1. apríl.
  • Sett verður 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur elli- og örorkulífeyrisþega frá 1. apríl, meðal annars í þeim tilgangi að draga úr ofgreiðslum bóta.
  • Vasapeningar til einstaklinga á dvalar- og hjúkrunarheimilum munu hækka frá 1. apríl 2008.
  • Skerðingarhlutfall ellilífeyris verður lækkað úr 30% í 25% frá 1. apríl og frítekjumark hækkað frá sama tíma.
  • Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 67–70 ára verður hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí.
  • Sett verður 300.000 króna frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur örorkulífeyrisþega frá 1. júlí.
  • Aldurstengd örorkuuppbót hækkar frá 1. júlí.
  • Loks verður skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar afnumin frá og með 1. janúar 2009.
 

Verkefnisstjórn félags- og tryggingamálaráðherra mun áfram vinna að endurskoðun og einföldun almannatryggingakerfisins og hefur henni verið falið að skila ráðherra heildstæðum tillögum þar að lútandi fyrir 1. nóvember 2008.

  ( Innsett F.S. ) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband