Lungun okkar og súrefnið Pálmi Stefánsson skrifar um mannslíkamann og súrefni

Miðvikudaginn 27. ágúst, 2008 - Aðsent efni http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?grein_id=1238473  

 

 MANNSLÍKAMINN er afarflókinn og gerður úr tugum billjóna frumna sem vinna saman. Tvennt er sameiginlegt frumum líkamans:   allar þurfa þær næringu og    svo eru boðskipti milli þeirra.    Þetta síðara er ekki eins vel vitað og hið fyrra. Í einni frumu er talið að allt að 150.000 efnahvörf geti átt sér stað á sekúndu hverri!   

Heilinn okkar er gerður af billjónum frumna og er gífurlega orkufrekur og þarf aðallega sykurinn glúkósa (sem er kolvatn) og súrefni úr loftinu til orkuframleiðslu og starfsemi.    Vanti súrefni í fáar mínútur deyja frumurnar og leysast upp.    Talið er að fimmtungur súrefnisþarfar líkamans sé eingöngu vegna heila okkar. Ekki er vitað nema heilabilunarsjúkdómar séu að einverju leyti vegna skorts á nægjanlegu súrefni til heilans. Öll líkamsþjálfun miðar að því að styrkja hjartað og æðakerfið til að flytja nægjanlegt súrefni til frumnanna auk næringar.  

Þar sem um 21% andrúmloftsins er súrefni þarf lungun til að koma því yfir í blóðið, en þar flytur blóðrauðinn það til frumnanna og tekur koldíoxíð frá bruna sykursins til baka.    Sé nú CO (kolmónoxíð) í loftinu þá binst það blóðrauðanum í stað súrefnisins og blóðið flytur minna súrefni.    Hjá reykingafólki getur þetta orðið allt að 15% minni súrefnisupptaka.   Sama á við um H²S (brennisteinsvetni).   Þá má nefna, að ég hef unnið með mönnum sem hættu ekki að reykja fyrr en stórir tjörublettir voru komnir framan á brjóstið og aftan á bakið.     Tjara telst til kolvetna 

Lungun eru með í kringum 300–400 milljónir viðkvæmra lungnablaðra, sem smá-skemmast yfir ævina, þótt líkaminn sé duglegur við að gera við skemmdir á frumunum.   Til að mynda getur H²S og SO² (brennisteinsdíoxíð) myndað sýrur sem skemma þær varanlega, auk skemmda vegna ýmissa sýkinga af völdum gerla eða vírusa. Séu lungun orðin illa farin þurfa sumir aldraðir í dag að draga á eftir sér súrefnisflöskur til að geta andað.  

Sum efni í loftinu valda krabbameini, sé ertingin eða viðveran við efnið næg, styrkur skiptir litlu máli. Þetta á við um kolvetnin (olíuvörur) en þau telja yfir 700 efni.     Má hér t.d. nefna benzól í olíu, en í bensín er oft sett 1% í stað „blýsins“ áður til að auka oktanið. Benzólið sest í fituvef og veldur lungnakrabbameini. Önnur heilsuskaðleg efni í lofti undir iðnaðarmarkgildum eiga að skila einstaklingum í gegnum starfsævina í t.d. iðnaði. En samt fylgjast sumir atvinnuveitendur grannt með lungnaheilsu starfsliðsins!   Í áliðnaði eru lungun t.d. skoðuð tvisvar á ári.   Sé hins vegar mengun loftsins há og yfir markgildum veldur hún eitrunum. Heilinn fær einfaldlega ekki nóg súrefni og fólk fær að lokum yfirlið. Sé ekkert að gert þarf ekki margar mínútur til þess að einstaklingurinn deyi úr eitrun eða súrefnisskorti.  

Það verður því aldrei ofmetið hvað hreint ómengað loft er mikilvægt heilsu okkar. Að leyfa að hreinsa ekki brennisteinsdíoxíð úr útblæstri stóriðjunnar og brennisteinsvetni frá varmaaflsvirkjunum er glapræði.    Þá er t.d. rafbílavæðing lausn á mengun bílanna í þéttbýli.     Fólk ætti að hafa í huga, að mengunin getur orðið 4–6 sinnum meiri inni í bíl í dag á fjölfarinni götu en á gangi meðfram götunni. Þá eru öll bílagöng með mjög slæmt loft.     Það er hægt að læra ýmislegt af Norðmönnum sem hafa m.a. losnað við brennisteinsdíoxíð-mengun að kalla í þéttbýli með markvissum aðgerðum síðustu tuttugu árin.  

Flestir deyja nú til dags úr lungnasjúkdómum,   þar á meðal krabbameinssjúklingar.    Það eru því einhver bestu lífsgæðin að stuðla að hreinu lofti fyrir landsmenn.   En langtímamarkmið með úrræðum sem framkvæmd verða þarf til. Lýðheilsan mun bara versna verði ekkert að gert.    Það þarf að huga að heilsuþættinum líka      samhliða öllum stóriðju- og varmaaflsvirkjunaráformunum.  

 Höfundur er efnaverkfræðingur.

( innsett, undirstrikanir og leturbreytingar F.S. ) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband