Laugardagur, 29. nóvember 2008
Þjóðargjöf á þrautartíð Nýja hjartaþræðingatækið tekið í notkun
Guðmundur Bjarnason fyrrverandi heilbrigðisráðherra flutti ávarp
en hann er formaður Hjartaheilla.
Núverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, við hlið hans en lengst til hægri eru Kristján Eyjólfsson yfirlæknir hjartaþræðinga og Hulda Gunnlaugsdóttir forstjóri Landspítala
Þriðja hjartaþræðingartækið hefur verið tekið í notkun á hjartaþræðingarstofu Landspítala. Brýn þörf hefur verið á þessu tæki bæði vegna nauðsynlegrar endurnýjunar og sívaxandi starfsemi. Nú standa vonir til að biðlistar eftir hjartaþræðingum og kransæðavíkkunum heyri brátt sögunni til.
Árið 2007 voru tæplega 1800 þræðingar og tæplega 700 víkkanir á hjartaþræðingarstofu Landspítala. Nærri lætur að þeim fjölda sé þegar náð fyrir þetta ár. Hjartaþræðingar eru nú á tveimur stofum og sú þriðja er aðallega notuð fyrir raflífeðlisfræðilegar rannsóknir og meðferð, ígræðslur gangráða o.fl.
Byrjað var að nota nýju hjartaþræðingarstofuna snemma í nóvember og hefur á fimmta tug sjúklinga verið þræddur þar. Stofan er sambyggð núverandi tveimur hjartaþræðingarstofum á hjartaþræðingareiningu hjartadeildar á jarðhæð á Landspítala Hringbraut, byggð inn í húsnæði sem verið hefur hluti af vörumóttöku spítalans. Aðstaða rýmkar með nýju stofunni og tækjabúnaður batnar til að sinna hjartaþræðingum en margvíslegur búnaður var keyptur fyrir utan hjartaþræðingartækið sjálft. Gæði rannsókna aukast vegna betri mynda og annarra upplýsinga og samhæfing alls búnaðar gerir vinnu mun léttari en áður var.
Kostnaður og fjármögnun tækjabúnaðar:
Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga og Gjafa- og styrktarsjóði Jónínu S. Gísladóttur má öðrum fremur þakka að þriðja hjartaþræðingarstofan er komin í notkun, ríkulega búin nýjustu og bestu tækjum. Framlög samtakanna og sjóðsins skipta þar sköpum. Áætlaður heildarkostnaður við nýju hjartaþræðingarstofuna nemur nú um 220 milljónum króna (miðað við gengi í dag) en af þeirri upphæð greiðir Landspítali kostnað við breytingu á húsnæði sem er áætlaður um 5 milljónir króna. Tækjabúnaðurinn er að langmestu leyti keyptur fyrir gjafafé og má að sönnu telja það þjóðargjöf á þrautartíð.
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur var stofnaður árið 2001 með 200 milljóna króna framlagi Jónínu í sjóð til að efla hjartalækningar á Landspítala. Síðan hefur sjóðurinn stutt hjartalækningarnar ríkulega með fjárframlögum, þar á meðal vegna kaupa á hjartaþræðingartæki árið 2001.
Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga eiga 25 ára afmæli á þessu ári og minnast tímamótanna meðal annars með því að styrkja kaup á hjartaþræðingartækinu og nauðsynlegum fylgibúnaði. Samtökin leggja fram 25 milljónir og ætla þar að auki að efna til landssöfnunar snemma á næsta ári fyrir átak til stuðnings hjartalækningum. Takmark Hjartaheilla hefur verið að safna 50 milljónum króna á afmælisárinu og rennur allt það fé sem safnast umfram áðurnefndar 25 milljónir einnig til hjartalækninga á Landspítala. Átakið felst í endurnýjun búnaðar og kerfis fyrir hjartalækningar og hefur kostnaður verið metinn um 300 milljónir króna. Búið er að safna fyrir um það bil helmingi þeirrar upphæðar.
Sjá nánar: http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/index.html
Og( Innsett og undirstrikað F.S.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 28. nóvember 2008
Ekki hætta með morgunleikfimina. Áskorun SL til Páls Magnússonar útvarpsstjóra
Samtök Lungnasjúklinga sendu útvarpsstjóra svohljóðandi bréf:
Hr. Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Samtök lungnasjúklinga fara þess á leit að þú endurskoðir þá ákvörðun þína að hefja sparnað RÚV á því að hætta með morgunleikfimina.
Hjá mjög mörgum öryrkjum og öldruðum er þetta eina hreyfingin sem það hefur kost á.
Það eru ekki allir sem eiga bíla né hafa efni á því að fara í ræktina og eiga því mjög erfitt með að nýta sér þjónustu líkamsræktarstöðva.
Í gegn um árin teljum við að morgunleikfimi RÚV hafi sparað þjóðfélaginu miklar fjárhæðir í lyfjakostnað og einnig innlagnir á sjúkrahús. Á mörgum stofnunum safnast fólk saman fyrir framan útvarpið og allir taka þátt í leikfiminni.
Vonum við að þú ígrundir vel þörf þessa fólks.
Fyrir hönd Samtaka lungnasjúklinga
Jóhanna Pálsdóttir, formaður
( innsett F.S.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Verjum velferðina Útifundur á Ingólfstorgi á mánudag kl.16:30
Af: BSRB.is
BSRB, Félag eldri borgara í Reykjavík, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands standa fyrir útifundi á Ingólfstorgi mánudaginn 24. nóvember nk. kl. 16:30. Tilefni fundarins er óvissuástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar, kjaraskerðing sem nú þegar blasir við mörgum og síðast en ekki síst hugmyndir stjórnvalda um stórkostlegan niðurskurð á útgjöldum til velferðar.
Óvissa um þróun mála á næstu mánuðum og misserum leggst þungt á þjóðina. Verst er óvissan fyrir þá sem mega alls ekki við kjaraskerðingu, þ.e.a.s. almennt launafólk, fólk sem þarf að framfleyta sér af lífeyri eingöngu eða af atvinnuleysisbótum. Leggja verður sérstaka áherslu á að verja kjör hinna verst settu. Þá er það eindregin krafa að staðinn verði vörður um velferðarkerfið, þ.e.a.s. félagsþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna, almannatryggingar og loks skólakerfið. Þjónustu þessara mikilvægu grunnstofnana má ekki skerða - þvert á móti ber að efla hana og stuðla að jöfnuði.
Brýnt er að þeir sem höllustum fæti standa njóti öflugrar þjónustu og verndar samfélagsins. Þjónusta sem stuðlar að samfélagslegri þátttöku og eðlilegu lífi má ekki skera niður. Þá eru það grundvallar mannréttindi að fólki sé tryggð sómasamleg framfærsla. Því kemur ekki til greina að greiðslur almannatryggingakerfisins verði skertar. Stjórnvöld verða að grípa strax til raunverulegra aðgerða til bjargar heimilunum - aðgerða sem fela ekki einungis í sér bakreikninga sem fólk þarf að standa skil á síðar.
Íslenskt samfélag stendur nú á krossgötum. Við teljum að grundvöllur hins nýja Íslands verði að byggjast á samkennd og sameiginlegri ábyrgð okkar hvert á öðru. Það að vega að núverandi velferðarkerfi er ekki fyrsta skref á þeirri leið. Verjum því velferðina sem fyrsta áfanga að bættri framtíð. Við krefjumst síðan lýðræðislegra vinnubragða stjórnvalda, opinnar stjórnsýslu og upprætingu spillingar.
Ræðumenn á fundinum verða Gerður A. Árnadóttir formaður Þroskahjálpar, Árni Stefán Jónsson varaformaður BSRB, Halldór Sævar Guðbergsson formaður Öryrkjabandalagsins og Margrét Margeirsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Fundarstjóri verður Björg Eva Erlendsdóttir. Í lok fundarins verður borin upp ályktun.
BSRB, Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands
innsett FS
Tilkynningar til félagsmanna | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Hvað er kæfisvefn.
Í tvo til þrjá áratugi hefur verið vitað að til eru öndunartruflanir sem eingöngu koma fram í svefni.(Svefnháðar öndunartruflanir) Kæfisvefn er hluti þeirra.
Tala má um þrjár tegundir kæfisvefns, 1. hindrun á loftflæði um kverkar og barka (Obstructivur), 2. truflun á stjórnun öndunar í heilanum(Central) og 3. blöndu af þessu tvennu.
Hindrun á loftflæði um kverkar og barka er lang algengasta orsök kæfisvefns og það sem ég ætla að ræða um hér.
Kæfisvefn (sleep apnea syndrome) er ástandið kallað, þegar öndunarhlé eru fleiri en 30 yfir nóttina (5 eða fleiri á klukkustund ) og þeim fylgir hrotur með ýmsum öðrum einkennum svo sem óværum svefni, miklum byltum í svefni og mikilli svitamyndun að næturlagi.
Við endurtekin öndunarhlé fellur súrefnismettunin í blóði, hlutþrýstingur koltvísýrlings í blóði hækkar, blóðþrýstingurinn hækkar og hjartsláttartíðnin eykst. Segja má að þá sé komið tress ástand sem magnast og endar í að viðkomandi vaknar eða losar svefn. Viðkomandi nær þá sjaldan eða aldrei á REM svefnstigið sem er hinn eiginlegi hvíldarsvefn
Fólk vaknar svo að morgni án þess að vera vel úthvílt þrátt fyrir að það fái að því er sýnist eðlilegan nætursvefn og finni fyrir syfju og þreytu á daginn.Hjá fullorðnum telst það öndunarhlé ef öndunin hættir alfarið í 10 sekúndur eða lengur.
Offita getur verið sjálfstæð orsök kæfisvefns og einnig samverkandi með öðrum þáttum, svo sem nefskekkju (skekkja á miðsnesi), sepamyndun, stórum hálskirtlum og lítilli höku.
Hrotur einar sér eru því ekki fullnægjandi vísbending um kæfisvefn, heldur þurfa fleyri einkenni að fylgja með .
Ef ómeðhöndlaður kæfisvefn er á háu stigi eru slíkir sjúklingar í margfalt meiri hættu að lenda í umferðar- eða vinnuslysum. Einnig er meðal þeirra aukin dánartíðni, fyrst og fremst vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Það er því ljóst að ómeðhöndlaður kæfisvefn er daunans alvara.
Veruleg tenging virðist á milli þess að vera með sýrubakflæði að næturlagi og öndunarfæraeinkenni og svo milli sýrubakflæðis og astma. Þegar kokið er lokað eru sífellt gerðar öflugri og öflugri tilraunir til að ná niður lofti - sá neikvæði þrýstingur virðist verða til þess að fólk sogar sýru upp úr maganum. Sjúklingurinn hóstar og þetta virðast vera astmaeinkenni - en þegar betur er skoðað þá er þetta ekkert sem líkist venjulegum astma, heldur er sýruerting í berkjunum og svarar ekki venjulegri astmameðferð. Við kæfisvefnsmeðferð ganga þá þessi einkenni til baka.Ekki er enn ljóst hve stóran þátt kæfisvefn á í öndunarfæraeinkennum en rannsóknir fara fram á því sviði, m.a. hérlendis.
Samkvæmt rannsóknum er talið að 4% karla og 2% kvenna þjáist af kæfisvefni, sem þýðir að kæfisvefn er einn af algengustu langvinnum sjúkdómum.
Algengasta og árangursríkasta meðferðin við alvarlegum kæfisvefni felst í daglegri notkun CPAP(Continuous Positive Airway Pressure)-öndunarvéla í svefni. (Önnur meðferðarúrræði ekki nefnd hér) Þetta er einföld öndunarvél þar sem, með aðstoð loftblásara, er aukinn þrýstingur á innöndunarlofti. Sjúklingur sefur þá með grímu tengda við öndunarvélina.
Með CPAP-öndunarvélinni er komið í veg fyrir öndunarhlé, sjúklingurinn sefur eðlilega, hvílist og finnur ekki fyrir dagsyfju.
Filgikvillar kæfisvefns, s.s. háþrýstingur, verða þá yfirleitt viðráðanlegri.
Til að fækka dýrum legudögum hafa sjúklingar grunaðir um kæfisvefn verið skimaðir í heimahúsi fremur en að þeir séu lagðir inn næturlangt á sjúkrahús til slíkrar rannsóknar.
Hægt er að komast í skimun fyrir kæfisvefni á eftirtöldum stöðum: Landspítala - háskólasjúkrahúsi Fossvogi, Læknasetrinu Þönglabakka 6, Fjórðungssjúkrahúsinu Akureyri, .Heilbrigðisstofnun Austurlands, Neskaupstað og á Reykjalundi fyrir inniliggjandi sjúklinga.
Mátun og prófun á öndunarvélum er eingöngu á Landspitali Háskólasjúkrahús (LHS) Fossvogi lungnadeild og eru sjúklingar innileggjandi á meðan.
Ef þú er með grun um að þú gætir verið með kæfisvefn, þá er best að leita til heimilislæknis með áhyggjur sínar og þeir senda beiðni áfram til réttra aðila.
Frímann Sigurnýasson formaður Vífils
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Kynning á HL-stöðinni
Opið hús SÍBS verður næst Mánudaginn 10. nóvember 2008 kl. 16:30
Þá kemur Sólrún H. Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri
HL stöðvarinnar og kynnir fyrir okkur starfsemi stöðvarinnar.
Kaffiveitingar og góður félagsskapur.
Mætum öll og tökum með okkur gesti.
Vífill.
Innsett: F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. nóvember 2008
Fundur um myglusveppi í húsum og áhrif þeirra á heilsufar íbúanna, einkum á astma og ofnæmi.
Astma- og ofnæmisfélagið efnir til fundar þriðjudaginn 11. nóv. n.k. í Gerðubergi kl. 20:00.
Fjallað verður um myglusveppi í húsum og áhrif þeirra á heilsufar íbúanna, einkum á astma og ofnæmi.
Erindi halda:
Dr. Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur: Orsök myglusveppa í húsum
Dr. María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir, lungnalæknir: Valda myglusveppir í húsum astma og ofnæmi?
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur: Myglusveppir - hvað, hvar, af hverju og hvernig skal bregðast við
Fundurinn er öllum opinn. Kaffiveitingar í boði félagsins.
Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins http://ao.is/
Innsett F S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
78 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.10.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar