Færsluflokkur: Greinar um kæfisvefn og fl.
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Þetta eru ekki ný tíðindi......
Þetta er enn ein rannsóknin sem bendir til tengsl séu á milli offita og ófullkomins svefns.
Áður hefur verið bent á þessi tengs vegna virkni hormóna sem eingöngu virka þegar einstaklingurinn sefur.
Svefninn er merkilegt fyrirbæri og mikið rannsakaður erlendis og hér á Íslandi.
Í fyrra var 20ára afmæli svefnrannsókna á Íslandi. Um það ékkert fjallað í fjölmiðlum.
Þórarinn Gíslason læknir á Lungnadeild LHS í Fossvogi ( áður á Vífilsstöðum ) og hanns samstarfsfólk hefur verið í fararbroddi þessara rannsókna hérlendis. Með starfi sínu hefur það fólk stórbætt lífsgæði mörg þúsund Íslendinga.
F.S.
Tengsl milli offitu og svefns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
Meiri slysahætta vegna kæfisvefns en skertrar sjónar eða heyrnar
1.2.2008 http://www.samgonguraduneyti.is/malaflokkar/umferdamal/frettir/nr/1434
Syfja getur sótt að ökumönnum á langkeyrslu og er þá mikilvægt að taka hlé.
Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur í lungnalækningum, sagði íhugunarefni á málþingi um syfju og akstur hvort krefja ætti ökumenn læknisvottorðs um hvort þeir þjáðust af kæfisvefni rétt eins og krafist væri vottorðs um sjón ökumanna áður en ökuskírteini er gefið út.
Gunnar var meðal fyrirlesara á málþingi Umferðarstofu í gær um syfju og akstur og sagði hann norskar rannsóknir sýna að ekki væri mikil hætta á slysum þótt ökumenn hefðu skerta sjón, heyrn eða hreyfigetu eða byggju við hjarta- og æðasjúkdóma. Mikil áhætta væri hjá ökumönnum sem þjáðust af áfengissýki, taugasjúkdómum, geðsjúkdómum og lyfjanotkun og mjög mikil áhætta fylgdi kæfisvefni.
Af þeim sökum mætti íhuga að á vottorði vegna ökuskírteinis kæmi fram hvort viðkomandi þjáðist af kæfisvefni.
Akstur er flókið verkefni
Læknirinn benti á að akstur væri flókið verkefni, ökumenn vinni stöðugt úr upplýsingum og áreitum og frammistaða færi versnandi eftir því sem liði á daginn og þreyta sækti á. Hann sagði ýmsar orsakir geta verið fyrir þreytu og syfju, langan vinnudag, vaktavinnu, hávaða í daglegu umhverfi, síaukna og lengri afþreyingu og of lítinn svefn. Allt þetta gæti haft áhrif á frammistöðu ökumanna og versnandi frammistaða fæli í sér lengri viðbragðstíma og fleiri villur. Hann sagði um 2000 manns njóta í dag meðferðar við kæfisvefni en ljóst væri að mun fleiri þyrftu hennar við. Hann sagði dagsyfju meðal afleiðinga kæfisvefns sem fram kæmi meðal annars í óþolinmæði og einbeitingarskorti. Talið væri að kæfisvefn ylli milli 5 og 10% slysa.
Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, greindi frá banaslysum árin 1998 til 2006 sem rekja mætti til svefns og þreytu. Ágúst sagði að 68% banaslysa á áðurnefndu tímabili mætti rekja til 10 þátta. Sagði hann svefn fjórðu algengustu orsök næst á eftir hraða, ölvunarakstri og því að bílbelti væru ekki notuð. Hann sagði svefn ökumanna hafa orsakað 10 slys á tímabilinu og að svefn væri meðorsök í 11 slysum til viðbótar. Fjöldi látinna væri alls 27 í þessum slysum.
Upplýsingar fengnar víða
Erfitt gæti verið að ákvarða hvort svefn væri augljós orsök. Þegar ljóst væri af vettvangi að engin sýnileg viðbrögð væru, til dæmis engin hemlaför en hemlar samt sem áður í lagi, eða af upplýsingum frá farþegum, vitnum eða heilbrigðisstarfsmönnum, svo og upplýsingum um lengd ökuferðar, svefn eða athafnir ökumanns áður en ferð hófst, væri unnt að meta slíkt með nokkurri vissu.
Þá sagði Ágúst að sá sem vakað hefði í 18 klukkustundir hefði álíka skerta hæfni og sá sem hefði 0,5 prómill áfengis í blóðinu.
Einnig sagði hann rannsóknir hafa sýnt að einstaklingur sem þjáðist af vægum eða miðlungs alvarlegum einkennum kæfisvefns án meðhöndlunar sýndi minni hæfni en einstaklingur sem hefði 0,6 prómill áfengis í blóðinu.
Ágúst minnti á að vegtæknilegar aðgerðir gætu dregið úr slysaáhættu af völdum syfju. Hann sagði ljóst að margir ökumenn könnuðust við þennan vanda og væru áreiðanlega tilbúnir að þiggja ráð og ábendingar.
Syfjaðir ökumenn glaðvakna
Erna Hreinsdóttir, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni, greindi frá tilraunum Vegagerðarinnar með svonefndar vegrifflur. Rifflur í vegum eru skilgreindar sem umferðartæknileg aðgerð til að vekja athygli ökumanna á að þeir séu í þann veginn að keyra út af vegi eða yfir á akrein með umferð á móti.
Fræstar eru öldur í vegkanta og við miðlínu á malbikuðum vegum og sagði Erna slíka kafla nú á Grindavíkurvegi og á Hringveginum á Kjalarnesi og við vegkanta í Svínahrauni. Verður ökumaður strax var við ef hann ekur óvart yfir rifflurnar og glaðvaknar ef hann hefur dottað. Vegrifllur koma ekki í stað vegriða en þær væru ódýr kostur, kostuðu innan við 400 þúsund krónur á hvern kílómetra.
Sagði hún tölur frá Bandaríkjunum sýna að vegrifflur í vegköntum fækkuðu slysum vegna útafaksturs um 31-70%.
Sagðist hún hafa fengið jákvæð viðbrögð við þessum aðgerðum, meðal annars frá ökumönnum sem þökkuðu fyrir að rifflurnar hefðu vakið sig. Lagði hún til að rifflur verði íhugaðar gaumgæfilega sem ódýr og áhrifamikill kostur til að fækka slysum og bjarga þannig mannslífum, koma í veg fyrir meiðsl og örorku og draga úr eignatjóni.
Tæknibúnaður í bílum
Ágúst Hallvarðsson, sölustjóri hjá Brimborg, greindi frá nýjungum sem Volvo hefur sett í bíla og hafa þann tilgang að vekja ökumann ef bíll hans tekur að rása óeðlilega eða leitar út af vegi. Skynjarar nema línumerkingar á vegum og gefur búnaðurinn frá sér hljóð til að vekja athygli ökumanns. Á sama hátt er athygli ökumanns vakin ef bíllinn tekur að rása, þá bendir búnaðurinn á að nú sé mál að taka hlé frá akstrinum og hvílast eða nærast.
Umferðarstofa hefur gefið út bækling um syfju og akstur.
Kemur þar meðal annars fram að syfja sé talin jafn hættuleg ökumönnum og ölvun við akstur, syfja ökumanns sé orsök fyrir um 13% framanáárekstra og útafakstur megi í 12% tilvika rekja til syfju.
Sjá má ýmsar gagnlegar upplýsingar um syfju og akstur á vefsíðunni 15.is.
( undirstrikanir/ uppsetning FS)
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt s.d. kl. 02:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
Fimmtán mínútna svefn getur skipt sköpum
Opnuð hefur verið vefsíða um syfju og akstur 15.is en þar er að finna ýmsar ábendingar vegna áhættu sem syfjaðir ökumenn skapa í umferðinni. Einnig eru þar ýmis heilræði sem unnt er að grípa til þegar syfja sækir að ökumönnum.
Kristján L. Möller samgönguráðherra opnaði vefsíðuna formlega í dag á málþingi Umferðarstofu um syfju og akstur. Fram kom hjá Karli Ragnars, forstjóra Umferðarstofu, að síðan er liður í átaki Umferðasrstofu sem gengur undir nafninu 15 og vísar til þess að ekki þurfi nema 15 mínútna svefn til að koma hugsanlega í veg fyrir slys sem kunna að verða vegna syfjaðra ökumanna. Er hvatt til þess að ökumenn stöðvi og blundi í 15 mínútur í stað þess að streitast við að halda sér vakandi við stýrið með tilheyrandi hættu á að sofna.
Meðal atriða sem rædd eru á síðunni eru þessi:
- 15 mínútur geta gert kraftaverk.
- Hættan á sofna undir stýri eykst síðdegis.
- Geispi og flöktandi augu benda til þreytu.
- Hvernig komumst við hjá þreytu?
- Það er bannað að keyra þegar við erum þreytt.
- Mörg slys verða vegna þess að menn sofna undir stýri.
Á málþinginu flutti Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur í lungnalækningum, erindi um kæfisvefn og einkenni hans, flutt var erindi frá Birni Mikaelssyni, yfirlögregluþjóni á Sauðárkróki, um hverju meðferð við kæfisvefni hefði breytt fyrir hann, Erna Hreinsdóttir, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni, sagði frá vegrifflum, Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, greindi frá banaslysum á undanförnum árum, sem rekja mætti til syfju og Ágúst Hallvarðsson, sölustjóri hjá Brimborg, kynnti nokkrar tækninýjungar frá Volvo sem vekja athygli ökumanns ef bíll hans ætlar að leita út fyrir veg.
Í ávarpi sínu við upphaf málþingsins sagði Kristján L. Möller meðal annars:,,Hann er nú alveg sofandi í umferðinni þessi!
Hversu oft segjum við ekki eitthvað á þessa leið þegar okkur finnst einhver úti á þekju í umferðinni. Og tilfellið er að mjög oft er eitthvað til í þessu.
Annars vegar eru menn sofandi í umferðinni á þann hátt að þeir eru algjörlega annars hugar og gera tóma vitleysu en sleppa kannski með skekkinn. Hins vegar eru til þeir sem hreinlega sofna við stýrið. Reynslan hefur sýnt okkur að það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Ég hugsa að við höfum öll upplifað það að vera syfjuð við stýrið. Og ég hugsa að við höfum flest líka upplifað það að hafa sofnað við stýrið andartak. Hrokkið upp við það að bíllinn stefndi kannski útaf eða alla vega hrokkið upp og vonandi í tíma áður en nokkuð alvarlegt gerðist. Þá er ég vitanlega ekki að tala um að menn sofi lengi, heldur bara örsvefn, þegar augun lokast í sekúndu, kannski eina, kannski tvær.
Þegar svo er komið er aðeins eitt til ráða, það er að hvíla sig. Fá annan til að keyra ef það er hægt. Annars að stöðva á góðum stað og leggja sig í nokkrar mínútur. Að því loknu er hægt að halda áfram. Ég hef reynslu fyrir því að leggja sig á þennan hátt í 10 til 15 mínútur þegar syfjan hefur sótt á við akstur á ferðum mínum milli Reykjavíkur og Siglufjarðar. Þegar maður finnur að athyglin er ekki til staðar og augun þyngjast er eina vitið að hvílast. Aðeins þannig kemur maður í veg fyrir þá áhættu að valda sjálfum sér eða öðrum skaða eða tjóni.
Samgönguráðherra nefndi einnig dæmi um reynslu sína af því að aka þreyttur og dottaði við stýrið en það hefði þó allt farið vel. Hann sagði málþingið þarft framtak og brýndi þátttakendur til að taka boðskap þess með sér og úthýsa syfju úr akstri.
Vefsíðuna 15.is má skoða hér.
(undirstrikanir/ uppsetning FS )
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt s.d. kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 17. október 2007
Svefnvandamál og hjartasjúkdómar....
Þriðjudaginn 16. október, 2007 - Daglegt líf
Svefnvandamál og hjartasjúkdómar
EF þú sefur í fimm tíma eða skemur á nóttunni til lengri tíma er dauðdagi um aldur fram 1,7 sinnum líklegri en hjá þeim sem sefur í sjö tíma. Vefmiðill Berlingske Tidende segir frá nýrri umsvifamikilli enskri rannsókn sem athugaði svefnvenjur og heilsu 10.308 manns á 20 ára tímabili.
Ónægur svefn er lífshættulegur því tvöfalt meiri hætta er á dauða vegna hjartasjúkdóma.
"Sjö tíma svefn er ákjósanlegur en síðasta áratuginn hefur það orðið sífellt algengara að fólk sofi í færri tíma og margir þjást af svefnvandamálum. Rannsóknin sýnir að slíkt hefur margvíslegar heilsufarslegar afleiðingar," segir Francesco Cappuccio, prófessor í Warwick-háskóla.
Jon Ovesen, danskur sérfræðingur í svefnrannsóknum, segir að fimmti hver fullorðinn Dani glími við svefnvandamál og telur það allt of mikið. "Fólk ætti að virða betur mikilvægi svefnsins. Við erum beinlínis nauðbeygð til að ætla okkur tíma í góðan nætursvefn og það á hverri nóttu!" segir hann.
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. júní 2007
Nýjungar í notkun stofnfrumna...af mbl.is
Það verður hægt að gera við næstum hvað sem er Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is
NÝJUNGAR á sviði stofnfrumna voru kynntar á fundi í Blóðbankanum í gær en þá var fjallað um notkun stofnfrumna í vefjaverkfræði og frumumeðferð á Íslandi. Að fundinum stóðu Blóðbankinn, verkfræði- og læknadeildir Háskóla Íslands, Össur hf. og University of California í San Diego. Að sögn Bernhards Ö. Pálssonar, prófessors við University of California, sameinar vefjaverkfræði líffræði, verkfræði og læknisfræði.
Nær endalausir möguleikar
Stofnfrumur eru ósérhæfðar, frumstæðar frumur sem finnast m.a. í beinmerg. Þegar þær skipta sér geta þær annað hvort haldið sér sem stofnfrumur eða breyst í ákveðna, sérhæfða vefjategund. Bernhard segir blóðbanka hingað til hafa einbeitt sér að merg og stofnfrumum í honum til að búa til blóðfrumur. Nú sé hins vegar stefnt að útvíkkun starfseminnar í meðhöndlun og rannsóknum á stofnfrumum sem geti framleitt aðra vefi, svo sem brjósk, bein og sinar og í framhaldi af því væri hugsanlega hægt að skoða taugafrumur. Í framtíðinni sé stefnt að því að framleiða vefi til að endurnýja hjartavöðva eftir hjartadrep. "Möguleikarnir eru næstum því ótakmarkaðir, það verður hægt að gera við næstum hvað sem er," segir Sigurður Brynjólfsson, forseti verkfræðideildar Háskóla Íslands. Sigurður segir verkfræðina vera á hraðri leið inn í þessa veröld heilbrigðisvísinda. Yfirleitt byggist verkfræði á mikilli stærðfræði og eðlisfræði en þessi nýja lífverkfræði byggist meira á líffræðilegum grunni og hvernig nota eigi líffræði við hönnun. Það sé þó ekki nýtt að verkfræði tengist læknavísindum því finna má mikið af verkfræði á spítölum í kringum tækin sem þar er að finna.
Taugar skipi gervilimum fyrir
Dr. Hilmar B. Janusson, framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarsviðs Össurar hf., segir það hafa legið beinast við að fara í samstarf með Blóðbankanum því þar sé að finna mikla hæfni til að framkvæma hlutina. "Þeir eru komnir langlengst í meðferðarúrræðum og eru holdgervingur þessara breytinga. Þar er fólk sem kann að taka þetta frá byrjun til enda." Hilmar segir þátt Össurar í þessu vera að hafa augun opin fyrir þeim möguleikum sem bjóðast til að þróa tækni eða tækjabúnað sjúklinga þeirra. Þeir sjúkdómar sem þeir séu að fást við, t.d. sykursýki, slitgigt eða krabbamein, séu sjúkdómar sem verið er að þróa frumumeðferðarúrræði við.
Bernhard bætir við að í framtíðinni væri jafnvel hægt að tengja gervilimi, sem Össur framleiðir ásamt öðru, inn í taugakerfi þannig að taugar geti gefið gervilimunum skipun. Það yrði gert með vefjaverkfræði í kringum taugakerfið og gæfi sjúklingum beint vald á gervilimunum.
Nýr valkostur fyrir sjúklinga
Ýmsar breytingar felast í nýjum frumumeðferðum. "Venjulega hugsum við um að sprauta lyfjum í fólk en með þessu yrðu það frumurnar, sem fara inn í sjúklinginn, sem skapa lækninguna," segir Bernhard. Að auki séu þessar frumumeðferðir staðbundnari, t.d. yrði sprautað beint inn í hné eða hjarta. Þar myndi fruman strax virkja af stað ákveðið ferli, renna saman við vefinn og byrja að endurnýja hann. Það tæki eflaust nokkrar vikur. Með frumumeðferðum byðist sjúklingum nýr valkostur fyrir meðferð.
Að sögn Bernhards eru svona rannsóknir mjög dýrar og á tækjakosturinn stærstan þátt. Grunnrannsóknir fara yfirleitt allar fram í gegnum opinber styrkjakerfi og segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, þegar byrjað að sækja um úr mismunandi sjóðum. Hvað siðferðilegar hliðar málsins varðar segir Sveinn að í þessu tilviki sé sneitt framhjá siðferðilegum vandamálum þar sem um sé að ræða stofnfrumur úr fullorðnum einstaklingum en ekki úr fósturvísum.
Í hnotskurn
» Stofnfrumur eru ósérhæfðar, frumstæðar frumur sem geta sérhæfst í ákveðnar frumur.» Blóðbankinn hefur hingað til einbeitt sér að blóðfrumum en í framtíðinni er mögulegt að framleiða m.a. brjósk og bein.
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. maí 2007
Hænufet fram á við.....
Það er alltaf ánægjulegt að sjá að rannsóknir eru að vísa okkur fram á veg, með meðhöndlun sjúkdóma. Einnig hvað ber aðvarast.
Það er enn meira gaman að sjá að Íslendingur skuli vera að fá viðurkenningu fyrir sínar rannsóknir á hjartasjúkdómum. F.S.
Íslenskur læknir heiðraður af Bandarísku hjartasamtökunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
350 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar