Færsluflokkur: Greinar um kæfisvefn og fl.
Mánudagur, 17. ágúst 2009
Kæfisvefn veldur hjarta- og æðasjúkdómum - segir doktorsnemi í líffræði. Viðtal við Ernu Sif Arnardóttur
http://www.laeknabladid.is/2009/07/nr/3574
07. tbl 95. árg. 2009
Rannsóknin tengist fyrst og fremst kæfisvefni þar sem við erum að leggja áherslu á að skilja betur hvernig kæfisvefn veldur hjarta- og æðasjúkdómum en við erum líka að skoða hvað gerist í svefnleysi; hvers vegna sumir þola svefnleysi betur en aðrir og hvort hægt sé að finna á því beinar líkamlegar skýringar, segir Erna Sif Arnardóttir, doktorsnemi í líffræði, sem útnefnd var Ungur vísindamaður ársins á Vísindadögum Landspítala í byrjun maí.
Erna Sif Arnardóttir sem fékk verðlaun á Vísindadögum Landspítala er glaðvakandi og einbeitt yfir svefnrannsóknum sínum.
Þetta er doktorsverkefnið mitt við læknadeild Háskóla Íslands og leiðbeinendur mínir eru Þórarinn Gíslason, yfirlæknir á lungnadeild Landspítala, og Allan I. Pack, prófessor við University of Pennsylvania, segir Erna Sif. Hún bætir við til nánari skýringar að rannsókn sín sé að miklu leyti byggð á Íslensku kæfisvefnsrannsókninni sem staðið hefur yfir um nokkurra ára skeið undir stjórn Þórarins Gíslasonar og er ein stærsta rannsókn í heiminum á því sviði, að sögn Ernu Sifjar. Sú rannsókn beinist fyrst og fremst að því að rannsaka hvaða gen valda kæfisvefni og er samstarfsverkefni Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar og styrkt af NIH (National Institute of Health) í Bandaríkjunum. Það segir reyndar talsvert um alþjóðlegt mikilvægi rannsóknarinnar því sjaldgæft er að NIH styrki rannsóknir sem fara fram algerlega utan Bandaríkjanna.
Hvað er kæfisvefn?
Kæfisvefn er sjúkdómsástand sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni og fylgir yfirleitt hrotur og mikil dagsyfja, segir Erna Sif. Truflanirnar stafa af því að öndunarvegurinn lokast endurtekið í svefni í 10 sekúndur eða lengur, getur varað allt að tvær mínútur. Öndunin stöðvast algerlega í þennan tíma, eða grynnist verulega, og þessu fylgir verulegt súrefnisfall í blóði sjúklingsins. Súrefnisfallið er talið aðalorsökin fyrir flestum fylgikvillum og slæmum afleiðingum kæfisvefns. Kæfisvefninn veldur einnig verulegri truflun á svefni og dregur úr svefngæðum, einstaklingurinn fær ekki jafn mikinn djúpsvefn og ekki jafnmikla hvíld og heilbrigðir einstaklingar. Kæfisvefnssjúklingar þjást því gjarnan af dagssyfju, sofna undir stýri eða við störf sín yfir daginn og eru með skert lífsgæði. Kæfisvefn er um helmingi algengari hjá körlum en konum, alþjóðlegar rannsóknartölur segja 4% karla á miðjum aldri með kæfisvefn en um 2% kvenna. Hér á Íslandi meðhöndlum við nú þegar þennan fjölda þannig að tölurnar eru eflaust nokkuð hærri og stöðugt koma nýir sjúklingar með alvarlegan kæfisvefn svo sjúkdómurinn er raunverulegt vandamál hjá talsvert stórum hópi fólks.
Umfangsmiklar mælingar
Fjöldi kæfisvefnssjúklinga í þessari rannsókn er um 2000 auk ættingja og ég nýti mér þennan mikla efnivið í rannsóknina mína sem tekur til mun afmarkaðri þátta kæfisvefns en stóra rannsóknin gerir. Við mína rannsókn voru allir nýir sjúklingar sem komu til kæfisvefnsrannsóknar teknir í ítarlegri rannsókn. Tekið var blóðsýni og fita var mæld yfir allan kviðinn með segulómun, bæði iðrafita (visceral fat) og fita undir húð (subcutaneous fat). Það er talið að iðrafita sé hættulegri hvað varðar kæfisvefn en önnur líkamsfita og við gerðum því nákvæmar mælingar á fitudreifingu allra nýrra sjúklinga. Síðan bætast við niðurstöður úr svefnmælingum, hversu alvarlegan kæfisvefn hver og einn er með og ítarlegur spurningalisti um heilsu, dagsyfju og fleira.
Úr blóðsýninu eru mældir bólguþættir en Erna Sif segir að vitað sé að bólga valdi aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Við vitum einnig að 60% íslenskra kæfisvefnssjúklinga eru með háþrýsting og að hluti af þeim þjáist einnig af hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki. Kæfisvefn eykur mjög líkurnar á þessum sjúkdómum. Bólguboðefnin sem við mælum í blóðinu eru C-reactive protein (CRP) og Interleukin-6 (IL-6). Þessi efni fara út í blóðið frá ýmsum líkamssvæðum, meðal annars fer IL-6 úr fitunni sjálfri og sérstaklega virðist sem iðrafitan setji mikið af bólguboðefnunum frá sér. Þeir sem eru í yfirþyngd eru yfirleitt með mjög aukin bólguboðefni í blóðinu. Við erum að reyna skilja betur sambandið á milli kæfisvefns og sjúkdómanna sem ég nefndi. Hvernig kæfisvefninn veldur þeim. Er það kæfisvefninn sjálfur? Eru það tengslin milli kæfisvefns og offitu? Hefur það áhrif á líkur á hjarta- og æðasjúkdómum hvort einstaklingur með kæfisvefn er grannur eða í yfirþyngd? Það sem við sjáum er að á milli kæfisvefns og offitu er einhvers konar víxlverkun þannig að jafnalvarlegur kæfisvefn hjá grönnum einstaklingi og einstaklingi með offitu hefur meiri áhrif á bólguþætti hjá þeim sem er í offitu. Þeir sem eru grannir en þjást af kæfisvefni virðast því vera í minni áhættu með hjarta- og æðasjúkdóma þó áhættan sé ennþá til staðar.
Erna Sif segir að sambandið milli kæfisvefns og offitu sé flókið og erfitt að draga saman í eina setningu. Það er engu að síður þannig að því þyngri sem maður er því meiri líkur eru á að hann sé með kæfisvefn. Grannir geta einnig þjáðst af kæfisvefni en ástæðurnar eru aðrar en hjá þeim sem þyngri eru. Grannur maður með kæfisvefn er líklega með litla höku, stóran úf, stóra tungu, eitthvað sem veldur því að öndunarvegurinn þrengist. Hins vegar gerist það hjá þeim sem þyngjast að öndunarvegurinn þrengist vegna þess að fita safnast inn á öndunarveginn, tungan stækkar og aukin kviðfita dregur úr öndunargetu. Það hefur verið sýnt fram á að allt að 97% þeirra sem eru með alvarlega offitu eru með kæfisvefn. Tengslin þarna á milli eru augljós en þó eru allar offiturannsóknir litaðar af því að kæfisvefn er yfirleitt ekki rannsakaður. Faraldsfræðilegar rannsóknir staðfesta að kæfisvefn veldur há-þrýstingi og einnig hefur verið staðfest að hjá þeim sem eru með ómeðhöndlaðan kæfisvefn er mikil aukning dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig er talið að kæfisvefn valdi sykursýki þó orsakatengslin séu ekki jafn ítarlega rannsökuð og hitt sem ég nefndi.
Viðbrögð við svefnleysi
Annar hluti rannsóknar Ernu Sifjar beinist að líkamlegum áhrifum svefnleysis. Það er vitað að magn bólguboðefna eins og CRP og IL-6 eykst í blóði þeirra sem missa svefn heila nótt eða sofa skemur en fjóra tíma á sólarhring. Einnig hefur komið fram í nýlegum rannsóknum að matarlyst eykst við svefnleysi þar sem brenglun verður á hormónunum ghrelin og leptin sem stjórna svengd; einstaklingurinn sækir þá sérstaklega í kolvetnaríka fæðu. Einnig verður skerðing á sykurþoli við svefnleysi sem eykur áhættu á sykursýki af gerð II. Í nýlegri rannsókn sem stóð yfir í tvær vikur þyngdust þeir þátttakendur sem fengu ekki að sofa lengur en fjóra klukkutíma á sólarhring. Einnig er vitað að fólk með skertan svefn er með verulega skerta athygli og einbeitingu og kemur kannski ekki sérstaklega á óvart.
Í rannsókninni völdum við tvo hópa til samanburðar, annars vegar fólk sem við vissum af fyrri mælingum að þoldi svefnleysi vel í athyglisprófum og hins vegar fólk sem við vissum að þoldi svefnleysi illa og stóð sig verr í sömu prófum. Öllum var síðan haldið vakandi í 38 tíma og líkamlegt ástand rannsakað nákvæmlega um leið og einstaklingarnir leystu athyglispróf. Við höfum áhuga á að vita hvort sykurþolið er betra og bólguviðbrögðin minni hjá þeim sem þola svefnleysið vel en hjá þeim sem þola það illa? Tengslin þarna á milli eru ekki þekkt. Við gerðum einnig mjög umfangsmiklar mælingar meðan á rannsóknartímanum stóð, tókum blóð á fjögurra tíma fresti bæði við eðlilegan svefn fyrir vökutímabilið, á meðan á því stóð og svo fyrstu nóttina eftir svefnleysi í lok rannsóknartímans. Við erum núna að gera mælingar á breytingunum sem verða í genatjáningu í 39 þúsund genum við svefnleysi í samanburði við eðlilegan svefn og vöku. Þessar mælingar eru gerðar með örflögutækni (microarray) sem gerir okkur kleift að skoða allar breytingar sem verða á frumustarfsemi en ekki bara einangruð boðefni. Erna Sif segir niðurstöður ekki liggja fyrir ennþá en tilgáta hennar er sú að þeir sem upplifi svefnleysi sem lítið mál verði fyrir minni líkamlegum áhrifum en hinir. Reyndar eru til tvær gerðir af fólki sem sefur lítið að jafnaði. Annars vegar eru þeir sem sofa alltaf 4-6 tíma og hins vegar eru þeir sem sofa 4-6 tíma á virkum dögum og bæta sér síðan upp svefnleysið með miklum svefni um helgar. Seinni hópurinn er líklega að valda sér einhverjum skaða en mögulegt er að hinir þurfi hreinlega ekki meiri svefn.
Hún segir að upplýsingar um áhrif svefnleysis geti komið sér mjög vel fyrir fólk sem er að velta fyrir sér hvort óreglulegur vinnutími og/eða vaktavinna henti því. Ég tel að fólk vilji vita hvort það sé að valda sér heilsufarslegum skaða með því að vinna þannig að það dragi verulega úr svefni, jafnvel þótt það upplifi líðan sína ágætlega og geti haldið athyglinni. Læknar eru einmitt gott dæmi um stétt sem vinnur mikið og til skamms tíma hafa vaktir verið mjög langar hjá læknum. Mér finnst í rauninni stórmerkilegt hvað læknar hafa unnið langan vinnudag og langar vaktir miðað við hvað vitað er um áhrif svefnleysis á frammistöðu og athyglisgáfu. Margar rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að læknar og aðrar stéttir gera meiri mistök eftir að hafa staðið langar vaktir. Svo þegar líkur benda til að svefnleysið hafi áhrif á heilsufar læknisins sjálfs spyr maður sig hvort ekki eiga að leggja miklu meiri áherslu á að draga úr vinnu- og vaktaálagi.
Fyrstu niðurstöður úr kæfisvefnshluta rannsóknar Ernu Sifjar voru kynntar innan Landspítala á Vísindadögum og á stórri ráðstefnu í Seattle. Reikna má með birtingu í tímariti í lok sumars. Niðurstöður úr svefnleysisrannsókninni verða væntanlega birtar í haust eða fyrri part næsta vetrar. Ég stefni svo að því að ljúka doktorsnáminu í lok næsta árs, segir Erna Sif Arnardóttir að lokum
Innsett: F.S.
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt 7.2.2010 kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. janúar 2009
SÍBS í þágu landsmanna Helgi Hróðmarsson fjallar um sögu og starf SÍBS
Helgi Hróðmarsson.
Fréttablaðið, 27. des. 2008 06:00
SÍBS í þágu landsmanna
Hinn 24. október 1938 komu berklasjúklingar saman á Vífilsstaðahæli til að stofna Samband íslenskra berklasjúklinga. Tilgangurinn var að hjálpa útskrifuðum berklasjúklingum að ná fótfestu í lífinu, eftir ára eða áratuga dvöl á heilsuhælum. Þörfin var brýn og aðstæðum berklasjúklinga á þessum tíma er vel lýst með orðum Kristmanns Guðmundssonar rithöfundar í grein sem hann skrifaði í blaðið Berklavörn 1940: Eftir að ég kom af hælinu allslaus og linur til heilsu, að hírast í kjallarakompum, sem ekki líktust neinum mannabústöðum, fékk sjaldan nægju mína að éta og aldrei holla fæðu, skjólföt sæmileg átti ég engin."
Stofnendur SÍBS hófust strax handa um stofnun deilda um allt land, undir nafninu Berklavörn. Fjársöfnun var undirbúin og 6. október 1939 voru seld merki SÍBS og blaðið Berklavörn og dagurinn nefndur Berklavarnardagur". Það var gengið nánast í hvert hús á landinu og viðtökur voru slíkar að unnt var að byggja Reykjalund og hefja starf sem löngu er landsþekkt. SÍBS hefur frá þeim tíma átt" fyrsta sunnudag í október og sá dagur m.a. verið nýttur til fjáröflunar og kynningar. Síðustu áratugi hefur dagurinn verið nefndur SÍBS dagurinn.Ráðist var í kaup á landi af Reykjabændum í Mosfellssveit. Á því landi var jarðhiti og braggar eftir herinn, sem síðar voru notaðir fyrir eldhús, borðstofu og verkstæði. Bygging 10 smáhýsa hófst 1944 og voru 5 þeirra tilbúin 1. febrúar 1945 en þá tók vinnuheimilið til starfa undir nafninu Reykjalundur. Þessi ár og næstu var safnað fé og áfram var byggt og aðalbygging Reykjalundar tekin í notkun 1. febrúar 1950. Þá fjölgaði vistmönnum úr 40 í 90.
Markmið SÍBS
Markmið SÍBS er að styðja sjúka til sjálfsbjargar með forvörnum, endurhæfingu og félagslegri uppbyggingu. SÍBS sameinar innan vébanda sinna fólk með berkla, hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, astma og ofnæmi og svefnháðar öndunartruflanir og vinnur að því að heilbrigðisþjónusta og félagsleg aðstaða þess fólks sé sem fullkomnust.
Aðildarfélög og starfsemi
Með tilkomu berklalyfjanna um miðja síðustu öld fór berklasjúklingum fækkandi. Með fækkun þeirra var talið rétt að fá aðra brjóstholssjúklinga til liðs við SÍBS. Astma- og ofnæmisfélagið gerðist aðili að SÍBS árið 1974. Það ár var nafni samtakanna breytt í Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. Landssamtök hjartasjúklinga - nú Hjartaheill - urðu svo aðilar að samtökunum árið 1992. Vífilstaðadeild SÍBS - Nú Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir, gengu í samtökin árið 1994 og Samtök lungnasjúklinga árið 1998.
Auk Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar starfrækir SÍBS Múlalund, vinnustofu fyrir öryrkja og Happdrætti SÍBS sem er kjölfesta alls starfs SÍBS. Í samstarfi við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni rekur SÍBS Múlabæ, dagvistun fyrir aldraða og Hlíðabæ, dagvistun fyrir minnissjúka. HL- stöðvar voru stofnaðar af SÍBS, Landssamtökum hjartasjúklinga og Hjartavernd. Þar er veitt endurhæfing eftir veikindi og aðgerðir auk viðhaldsþjálfunar.
SÍBS blaðið er gefið út í 8-10 þúsund eintökum og dreift til allra félagsmanna SÍBS, á sjúkrahús, þjálfunarstaði og aðrar sjúkrastofnanir. Heimasíða SÍBS er sibs.is. Þar er að finna upplýsingar um SÍBS, Happdrætti SÍBS og aðildarfélög samtakanna.
Skrifstofur SÍBS eru í Síðumúla 6 í Reykjavík. Þar er aðalumboð og höfuðstöðvar Happdrættis SÍBS. Starfsmenn SÍBS og Happdrættis SÍBS starfa þar ásamt starfsmönnum Hjartaheilla, Astma- og ofnæmisfélagsins og Samtaka lungnasjúklinga. Skrifstofan er opin 8.45 til 16.00.
Endurhæfing á Reykjalundi
Á Reykjalundi eru eftirtalin endurhæfingarsvið: svið fyrir gigtarsjúka, fyrir geðsjúka, fyrir þá sem hafa orðið fyrir áfalli í miðtaugakerfi, fyrir fólk sem á við langvinn verkjavandamál að stríða, fólk sem glímir við ofþyngd, börn og ungmenni sem ekki hafa náð eðlilegum þroska, auk sérstakra endurhæfingarsviða fyrir annars vegar hjartasjúklinga og hins vegar lungnasjúklinga. Þá er starfandi sérstakt svið atvinnuendurhæfingar.
Á hverju sviði er starfsmannateymi og hafa þau náð að þróa með ágætum aðferðir og tækni í endurhæfingu innan hvers sviðs. Starfsfólk Reykjalundar hefur leitast við að fylgjast vel með breyttum lifnaðarháttum landsmanna og svara breyttum þörfum sem skapast hafa m.a. með svokölluðum lífsstílssjúkdómum". Þetta hlýtur að teljast afar mikilvægt á tímum örra breytinga sem m.a. koma til vegna hreyfingarleysis og breytts mataræðis.
Í janúar 2002 var tekin í notkun á Reykjalundi 2.700 fermetra þjálfunarhús með sundlaug og þjálfunarlaug, pottum, stórum þjálfunarsölum og margvíslegri annarri aðstöðu. Hluti byggingarkostnaðar var fjármagnaður með landssöfnun 1998 og hægt var að hefja byggingu þessa glæsilega húss. Byggingin hefur þegar sannað ríkulega gildi sitt og stórbætt aðstöðu til endurhæfingar. En þörfin fyrir endurhæfingu er mikil og biðlisti sjúklinga langur.
Happdrætti SÍBS stuðningur landsmanna
Landsmenn hafa í gegnum tíðina haldið tryggð við starfsemi SÍBS og í samstarfi við þjóðina hefur SÍBS tekist að byggja upp og bjóða upp á þjónustu á heimsmælikvarða sem opin er öllum landsmönnum. Um þessar mundir er sérstaklega brýn þörf fyrir forvarnir og endurhæfingu og aðra þá þjónustu sem SÍBS veitir og þá uppbyggingu sem á sér stað á vegum samtakanna.
Auðveldasta leiðin til þess að styðja við starfsemi SÍBS er að kaupa miða í Happdrætti SÍBS. Þannig er hægt að aðstoða SÍBS við að ná fram markmiðum sínum og renna þannig enn frekari stoðum undir þá mikilvægu starfsemi sem unnið er að hjá SÍBS - á Reykjalundi og í öðrum rekstrareiningum á vegum samtakanna.
Tugir þúsunda einstaklinga hafa notið endurhæfingar á Reykjalundi og annarrar þjónustu á vegum SÍBS og áfram munu samtökin vinna í þágu landsmanna undir kjörorðum SÍBS: Styðjum sjúka til sjálfsbjargar".
Höfundur er framkvæmdastjóri hjá SÍBS.
Innsett F.S.
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 30. desember 2008
Svefnleysi getur leitt til vænisýki
Af: Vísir, 30. des. 2008 08:10
Ertu þá ei annað en knífur hugans, helber sjónhverfing, sem slæðist fram úr hitaþrungnum heila?" spurði Macbeth hershöfðingi eftir að hafa myrt Duncan Skotlandskonung í svefni.
Samkvæmt dr. Daniel Freeman og samstarfsfólki hans við Sálfræðistofnun King´s College í London getur svefn einmitt leikið stórt hlutverk í geðslagi fólks, einkum svefnleysi en það er einmitt kvilli sem Macbeth þjáðist af samkvæmt leikriti Shakespeares.
Rannsókn Freemans og félaga leiddi í ljós að 70 prósent fólks í hópi sem tekinn var til rannsóknar þjáðist af svefnleysi og sýndi um leið sterk einkenni vænisýki sem margir þekkja betur sem paranoju. Freeman bendir á að fátt komi í staðinn fyrir góðan nætursvefn og svefninn hafi betri áhrif á andlega heilsu fólks en margan gruni.
Ekki er nóg með þetta heldur er góður svefn einnig forvörn gegn hjartasjúkdómum og skapar hreinlega bara betri almenna líðan, segir Freeman. Með von um góðan svefn á árinu 2009
Innsett F.S.
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Hvað er kæfisvefn.
Í tvo til þrjá áratugi hefur verið vitað að til eru öndunartruflanir sem eingöngu koma fram í svefni.(Svefnháðar öndunartruflanir) Kæfisvefn er hluti þeirra.
Tala má um þrjár tegundir kæfisvefns, 1. hindrun á loftflæði um kverkar og barka (Obstructivur), 2. truflun á stjórnun öndunar í heilanum(Central) og 3. blöndu af þessu tvennu.
Hindrun á loftflæði um kverkar og barka er lang algengasta orsök kæfisvefns og það sem ég ætla að ræða um hér.
Kæfisvefn (sleep apnea syndrome) er ástandið kallað, þegar öndunarhlé eru fleiri en 30 yfir nóttina (5 eða fleiri á klukkustund ) og þeim fylgir hrotur með ýmsum öðrum einkennum svo sem óværum svefni, miklum byltum í svefni og mikilli svitamyndun að næturlagi.
Við endurtekin öndunarhlé fellur súrefnismettunin í blóði, hlutþrýstingur koltvísýrlings í blóði hækkar, blóðþrýstingurinn hækkar og hjartsláttartíðnin eykst. Segja má að þá sé komið tress ástand sem magnast og endar í að viðkomandi vaknar eða losar svefn. Viðkomandi nær þá sjaldan eða aldrei á REM svefnstigið sem er hinn eiginlegi hvíldarsvefn
Fólk vaknar svo að morgni án þess að vera vel úthvílt þrátt fyrir að það fái að því er sýnist eðlilegan nætursvefn og finni fyrir syfju og þreytu á daginn.Hjá fullorðnum telst það öndunarhlé ef öndunin hættir alfarið í 10 sekúndur eða lengur.
Offita getur verið sjálfstæð orsök kæfisvefns og einnig samverkandi með öðrum þáttum, svo sem nefskekkju (skekkja á miðsnesi), sepamyndun, stórum hálskirtlum og lítilli höku.
Hrotur einar sér eru því ekki fullnægjandi vísbending um kæfisvefn, heldur þurfa fleyri einkenni að fylgja með .
Ef ómeðhöndlaður kæfisvefn er á háu stigi eru slíkir sjúklingar í margfalt meiri hættu að lenda í umferðar- eða vinnuslysum. Einnig er meðal þeirra aukin dánartíðni, fyrst og fremst vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Það er því ljóst að ómeðhöndlaður kæfisvefn er daunans alvara.
Veruleg tenging virðist á milli þess að vera með sýrubakflæði að næturlagi og öndunarfæraeinkenni og svo milli sýrubakflæðis og astma. Þegar kokið er lokað eru sífellt gerðar öflugri og öflugri tilraunir til að ná niður lofti - sá neikvæði þrýstingur virðist verða til þess að fólk sogar sýru upp úr maganum. Sjúklingurinn hóstar og þetta virðast vera astmaeinkenni - en þegar betur er skoðað þá er þetta ekkert sem líkist venjulegum astma, heldur er sýruerting í berkjunum og svarar ekki venjulegri astmameðferð. Við kæfisvefnsmeðferð ganga þá þessi einkenni til baka.Ekki er enn ljóst hve stóran þátt kæfisvefn á í öndunarfæraeinkennum en rannsóknir fara fram á því sviði, m.a. hérlendis.
Samkvæmt rannsóknum er talið að 4% karla og 2% kvenna þjáist af kæfisvefni, sem þýðir að kæfisvefn er einn af algengustu langvinnum sjúkdómum.
Algengasta og árangursríkasta meðferðin við alvarlegum kæfisvefni felst í daglegri notkun CPAP(Continuous Positive Airway Pressure)-öndunarvéla í svefni. (Önnur meðferðarúrræði ekki nefnd hér) Þetta er einföld öndunarvél þar sem, með aðstoð loftblásara, er aukinn þrýstingur á innöndunarlofti. Sjúklingur sefur þá með grímu tengda við öndunarvélina.
Með CPAP-öndunarvélinni er komið í veg fyrir öndunarhlé, sjúklingurinn sefur eðlilega, hvílist og finnur ekki fyrir dagsyfju.
Filgikvillar kæfisvefns, s.s. háþrýstingur, verða þá yfirleitt viðráðanlegri.
Til að fækka dýrum legudögum hafa sjúklingar grunaðir um kæfisvefn verið skimaðir í heimahúsi fremur en að þeir séu lagðir inn næturlangt á sjúkrahús til slíkrar rannsóknar.
Hægt er að komast í skimun fyrir kæfisvefni á eftirtöldum stöðum: Landspítala - háskólasjúkrahúsi Fossvogi, Læknasetrinu Þönglabakka 6, Fjórðungssjúkrahúsinu Akureyri, .Heilbrigðisstofnun Austurlands, Neskaupstað og á Reykjalundi fyrir inniliggjandi sjúklinga.
Mátun og prófun á öndunarvélum er eingöngu á Landspitali Háskólasjúkrahús (LHS) Fossvogi lungnadeild og eru sjúklingar innileggjandi á meðan.
Ef þú er með grun um að þú gætir verið með kæfisvefn, þá er best að leita til heimilislæknis með áhyggjur sínar og þeir senda beiðni áfram til réttra aðila.
Frímann Sigurnýasson formaður Vífils
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. október 2008
Innheimta gjalds vegan notkunar á CPAPöndunarvélum
Frá 2004 hefur verið innheimt gjald fyrir notkun á CPAP-öndunarvélum, og er það gert með tilvísun í REGLUGERÐ Nr 972 12 desember 2003.
Innheimta er gjald vegan fylgihluta og þjónustu, sem er Kr 250,oo pr mánuð fyrir örirkja en Kr.1.500,oo pr mánuð fyrir aðra (Kr.18.000,oo pr ár).
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir, hefur barist gegn þessari innheimtu og telur að hún standist ekki samkvæmt lögum og reglugerðum sem við eiga.
Ekki hefur félaginu orðið ágengt við að fá þessari innheimtu hætt, en félagið treysti sér ekki fjárhagslega til að fara í mál vegan þessa eða kosta málarekstur annarra vegan málsins.
Samkvæmt REGLUGERÐ Nr 972 12 desember 2003 þá er tiltekið gjald fyrir skiptanlega fylgihluti og rekstrarvörur fyrir CPAP-öndunarvéla ásamt þjónustu biggt á óskilgreindum mánaðarlegum meðalkostnaði.
Landspítali LSH sendir okkur svo rukkun og er þá að innheimta komugjöld á LSH.
Jón Egilsson hdl., hefur fyrir hönd LHS stefnt nokkrum notendum CPAP-öndunarvéla vegan meintrar vangoldinnar leigu fyrir öndunarvélarnar.
Þetta er einkennilegt misræmi á milli þessarra þriggja aðila, og alltaf fjarlægist þetta reglugerðina.
Komin er úrskurður í fyrsta dómsmálinu, en þar var fallist á frávísunarkröfu stefnda.
Hér er um að ræða dómsmálið: Landspítali gegn Gunnari Svavarssyni í héraðsdómsmálinu nr. E-2642/2007:Stefnt vegan meintrar vangoldinnar leigu fyrir CPAP-öndunarvélar.Málið var rekið fyrir héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfyrði.
Niðurstaðan var sú að málinu var vísað frá dómi vegan vanreifunnar.
Frávísunin felur ekki í sér neinn dóm um það hvort reglugerðin um innheimtuna sé í samræmi við lög, ekki heldur hvort með innheimtunni sé verið að mismuna sjúklingahópum, ekki heldur hvort lögmætt hafi verið að innheimta frá 1.Jan þó svo að reglugerðin hafi ekki verið kynnt notendum fyrr en 14. Mai. Né neitt annað það sem Vífill hefur verið að reina að fá úrskurð um.
Annað dómsmál er í farvatninu.
Jón Egilsson hdl. hefur stefnt mér (Frímann Sigurnýasson) vegan meintrar vangoldinnar leigu á CPAP-öndunarvél.Ég var veikur þegar taka átti málið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur (HR) 8.Apríl síðastliðinn, en ég sendi veikindavottorð til HR. Því hefði átt að fresta málinu.Vottorðið glataðist í HR og þess vegna var stefnan ranglega árituð, og síðar gert lögtak hjá mér, þrátt fyrir rökstudd mótmæli mín.
Ég er búin að sækja um endurupptöku málsins , hjá HR, þar að ég var veikur, og telst því hafa LÖGMÆT FORFÖLL. Málið verður því væntanlega endurupptekið og aftur tekið fyrir í HR. Ég mun ekki fara fram á frávísun heldur mun ég fara fram á að ég verði sýknaður og að fá innheimtuákvæði reglugerðar Nr 972 12 desember 2003 dæmd ólögleg og alla innheimtu samkvæmt þeim dæmda ólöglega.
Verði reglugerðarbreytingin 12 desember 2003 dæmd ólögmæt gæti það þítt að allir þeir sem hafi greitt leigu fyrir CPAP-öndunarvélar ættu rétt á að fá allt sitt endurgreitt.
Ég tel að niðurstaðan í máli Gunnars létti mér þá baráttu.
Fyrir okkur þá er þetta ekki spurning um þessa peningaupphæð heldur um það prinsip hvort gjaldtakan er réttmæt og sanngjörn. Því er þetta ákveðið prófmál fyrir stórann sjúklingahóp.
Þetta er ekki eins einfalt mál og ætla mætti. Fram til 2004 var ekki tekið gjald fyrir afnot af CPAP-öndunarvélum eða fylgihlutum þeirra.. Við sem fengum tækin fyrir þann tíma teljum mörg að við höfum haft munnlegt samkomulag/samning um gjaldfrjáls afnot af tækjunum. Sá munnlegi samningur var við Lungnadeild LHS Vífilstöðum/Fossvogi fyrir hönd Tryggingastofnunar Ríkisins (TR). Við teljum líka að þeim samningum hafi ekki ennþá verið sagt upp né aðrir samningar gerðir síðan.
Innheimta gjalds vegan þjónustu á CPAP-öndunarvélum og fyrir fylgihluti við vélarnar er gerð það með tilvísun í REGLUGERÐ Nr 972 12 desember 2003.
Allt byggist þetta svo á Lögum um almannatryggingar nr100 frá 11 maí 2007.
V. KAFLI Sjúkratryggingar. A. Almenn ákvæði.
37. gr.
Sjúkratryggður er sá sem hefur verið búsettur á Íslandi, sbr. II. kafla, a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta skv. 1. mgr. 48. gr. er óskað úr sjúkratryggingum, sbr. 3. mgr., nema annað leiði af milliríkjasamningum. Heimilt er að greiða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum fyrir þá sem flutt hafa búsetu sína til Íslands þótt sex mánaða búsetuskilyrðinu sé ekki fullnægt.
Börn yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.
Sjúkratrygging samkvæmt lögum þessum tekur til heilbrigðisþjónustu, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem ákveðið hefur verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins.
Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.
B. Bætur.
38. gr.
Sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 37. gr., tekur til eftirfarandi styrkja: a. Styrks til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.
Það telst hömluð líkamsstarfsemi að vera með kæfisvefn
Þessi klausa er ástæða þess að við eigum rétt á styrk til að afla CPAP öndunarvélarnar og fylgihluta fyrir okkur sem þurfum þeirra með vegna kæfisvefns og annarra svefnháðra öndunartruflana
Þeir sem fá styrki til bílakaupa, eiga svo bílana. Það hefur aldrei verið deilt um það. Í 38.gr er talað um styrk til öflunar hjálpartækja og bifreiða, og því væri rökrétt að halda að sama gilti um hjálpartækin og bílinn.
Eins og sjá má í 37. gr.laganna er heimilt að setja reglugerð um framkvæmt greinarinnar. Það sem að okkur snýr eru REGLUGERÐ Nr 972 12 desember 2003, sem er breyting á fylgiskjali við reglugerð nr. 460/16 júní 2003 um styrki Tryggingastofnunar ríkisins (TR) vegna hjálpartækja.
Innheimta gjalds fyrir afnot af CPAP-öndunarvélum eða fylgihlutum þeirra er gerð með tilvísun í REGLUGERÐ Nr 972 12 desember 2003, en það segir beinlínis í 1. gr reglugerðarinnar að CPAP öndunarvélarnar séu greiddar að fullu af TR. Því er lagalega ekki tekin leiga fyrir afnot af CPAP öndunarvélunum.
Okkur er hinsvegar ætlað að greiða fast gjald fyrir skiptanlega fylgihluti og rekstrarvörur fyrir vélarnar ásamt þjónustu. Óháð þeirri þjónustu sem við fáum.
Ákvæði um þessa gjaldtöku er ekki í reglugerðinni sjálfri heldur í fylgiskjali með reglugerðinni.
Í fylgiskjalinu er hjálpartækjunum raðað eftir flokkunarkerfi hjálpartækja EN ISO9999:2002. og það er ekki í samræmi við fyrirmæli reglugerðarinnar sjálfrar að setja ákvæði um gjaldtöku inn í fylgiskjalið og ákvæðið stenst ekki fyrirmæli reglugerðarinnar um hvernig eigi að veita styrki til kaupa á hjálpartækjum (CPAP-öndunarvélum) . Þar er talað um styrki til að kaupa tækin. Styrkirnir geti verið með tvennum hætti, sem hlutfall af verði hjálpartækis og sem ákveðin fjárhæð til kaupa á tækinu.
Kíkjum nánar á ATRIÐI ÚR REGLUGERÐ Nr 460 16 júní 2003 sem er meginreglugerðin í þessu máli. Þar segir m.a. í 4. gr.
4. gr. Hjálpartæki frá Tryggingastofnun ríkisins.
Styrkir frá Tryggingastofnun ríkisins eru eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerð þessari enda sé réttur fyrir hendi skv. 3. gr. Í fylgiskjalinu er hjálpartækjunum raðað eftir flokkunarkerfi hjálpartækja EN ISO9999:2002.
Getur styrkur Tryggingastofnunar ríkisins ýmist verið greiddur sem
ákveðið hlutfall af verði hjálpartækis og/eða
ákveðin fjárhæð til kaupa á hjálpartæki.
---- ----- ----- ----- ----- ----- ------ ------ ------ ------
Skal stofnunin sjá um endurnýtingu þeirra hjálpartækja sem við á.
Jafnframt skal stofnunin annast uppsetningu, breytingar, sérsmíði og aðstoð við aðlögun hjálpartækja fyrir notendur eða sjá um að aðrir aðilar annist þessa þjónustu. Tryggingastofnun ríkisins skal annast nauðsynlegt viðhald og viðgerðir á hjálpartækjum í eigu stofnunarinnar eftir að ábyrgð seljenda er útrunnin.
9. gr. Skilaskylda.
Að notkun lokinni ber að skila hjálpartækjum sem hægt er að endurnýta.
Tækin eru í eigu stofnunarinnar og ber að fara vel með þau.
Hér eru tækin allt í einu orðin eign TR, en í 4.gr. var talað um styrk til sjúklinganna til kaupa á hjálpartækjum. Þetta finnst mér vera ótrúlegar mótsagnir í reglugerðinni og algerlega á skjön við lögin sem tala um styrk til að afla hjálpartækja.....og bíla.
Varðandi CPAP öndunarvélarnar er tilgreint í Fylgiskjali reglugerðarinnar um Hjálpartæki frá Tryggingastofnun ríkisins. ,
Skiptanlegir fylgihlutir og rekstrarvörur fyrir vélarnar ásamt þjónustu er einnig greidd að fullu nema fyrir notendur CPAP-öndunarvéla, en þar er kostnaður greiddur fyrir lífeyrisþega og börn/unglinga umfram kr. 250 af mánaðarlegum meðalkostnaði og fyrir aðra umfram kr. 1.500.
Þessar reglur ( í fylgiskjali reglugerðarinnar) eru ekki í samræmi við fyrirmæli 4.gr. reglugerðarinnar, eins og fyrr segir.
Getur styrkur Tryggingastofnunar ríkisins ýmist verið greiddur sem ákveðið hlutfall af verði hjálpartækis og/eða ákveðin fjárhæð til kaupa á hjálpartæki.
Ég get ekki séð að þjónustugjald, óháð fenginni þjónustu, geti samrýmst lögum um Almannatryggingar, né ofangreinda reglugerðarákvæðinu , og það sé svona framsett SKATTUR en ekki þjónustugjald .Skatta skal einungis setja með lögum en ekki í fylgiskjali reglugerðar um styrki Tryggingastofnunar ríkisins (TR) vegna hjálpartækja.
Þjónustugjald á að taka mið af þeirri þjónustu sem veitt er og greiðist því aðeins að þjónustan se innt af hendi.
Í reglugerðinni er sett sú skylda á TR að hún annist viðhald hjálpartækjanna.
Tryggingastofnun ríkisins skal annast nauðsynlegt viðhald og viðgerðir á hjálpartækjum í eigu stofnunarinnar eftir að ábyrgð seljenda er útrunnin. (sjá ofar í 4.grein)
Því til viðbótar finnst mér það mjög einkennileg siðfræði að skylda notendur hjálpartækja til að kaupa hjálpartækin , að hluta, á móti TR, en tækin verði þó alfarið eign TR.
Með því er í raun verið að setja kvöð á notendur hjálpartækja um að þeir styrki TR til tækjakaupa úr því að TR verður eigandi tækjanna.
Þetta er þveröfugt við tilgang laga um almannatryggingar og reglugerðanna sem ég hef vitnað til hér að ofan.
Lög um almannatryggingar frá 2007 nr100 11 maí eru mjög skír um það að Tryggingastofnun annast framkvæmd almannatrygginga samkvæmt lögum þessum að undanskilinni 39. gr.
Reglugerð nr. 460/16 júní 2003um styrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna hjálpartækja, og REGLUGERÐ Nr 972 12 desember 2003, ( er bara breyting á fyrri reglugerðinni), eru settar fyrir Tryggingastofnun ríkisins til að starfa eftir og öll mál vegan þessara reglugerða þarf TR að höfða sjálf og í eigin nafni.
Þó svo að Landspítali-Háskólasjúkrahús taki að sér, með þjónustusamningi, umsjón með tilteknum hjálpartækjum, eða einhver innheimtustörf, fyrir hönd TR þá verður LH ekki annað en undir verktaki og bundið af lögum og reglum um TR.
Ég tel að Lögfræðistofa Jóns Egilssonar f.h. Landspítala-Háskólasjúkrahúss, geti því ekki staðið að málarekstri á grundvelli þessara tveggja tilgreindu reglugerða enda, heldur beri TR að stefna vegan þessarra reglugerða.
Landspítali Háskólasjúkrahús getur ekki verið lögformlegur aðila að málum byggðum á þeim.
Þetta kemur til viðbótar því sem ég hef tilgreint hér ofar, að breyting sú sem gerð var 12 desember 2003 (_REGLUGERÐ Nr 972_) á fylgiskjali reglugerðar nr. 460/16 júní er ekki í samræmi við reglugerðina sjálfa né lögin sem reglugerðin byggr á. (Lög um almannatryggingar frá 2007 nr100 11 maí).
Því tel ég að innheimtan eigi ekki lagastoð og beri að dæma ólöglega.
Ég vona að þetta mál fái efnismeðferð svo að úr þessu verði skorið.
Það er hægt að sjá úrskurð Ú R S K U R Ð U R Héraðsdóms Reykjaness frá 14 júlí 2008 í málinu:
Landspítali gegn Gunnari Svavarssyni í héraðsdómsmálinu nr. E-2642/2007: Stefnt vegan meintrar vangoldinnar leigu fyrir CPAP-öndunarvélar, á vefnum áhttp://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200702642&Domur=3&type=2&Serial=1
Ég hvet ykkur til að skoða úrskurðinn.
Í rökstuðningi sínum segir Jón Egilsson m.a.að: Öndunarvélar séu þannig úr garði gerðar að ekki sé unnt að nota þær án fylgihluta svo sem barka og grímu.
Ef þetta er rétt hjá Jóni lögmanni þá er ekki hægt að aðgreina vél og fylgihluti, og þá hlýtur þetta allt að vera flokkað sem vélin og ætti því að vera gjaldfrítt. Það er ekki oft sem lögmenn færa hinum stefnda svona gullkorn
Í úrskurðinum segir dómarinn m.a. í niðurlagi: Í kafla stefnu um málsatvik og málsástæður er þó ekki vísað til neins samnings sem gæti verið grundvöllur leigunnar heldur er þar vísað til þess að meint leiga byggist á lagastoð. Þó er ekki gerð grein fyrir lagastoðinni að öðru leyti en því að vísað er til reglugerðarákvæðis. Þegar reglugerðarákvæðið er lesið er ljóst að það getur ekki verið lagastoð meintrar leigukröfu, enda er þar einungis greint frá gildissviði reglugerðarinnar.
Úrskurðinn kvað upp Ingiríður Lúðvíksdóttir settur héraðsdómari Héraðsdómi Reykjaness.
Ég held að þetta segi allt sem segja þarf um málatilbúninginn í málinu gegn Gunnari Svavarssyni.
Ég vonast eftir efnismeðferð, í mínu máli, svo að úr því verði skorið hvort gjaldtakan fyrir skiptanlega fylgihluti og rekstrarvörur fyrir CPAP-öndunarvélarnar ásamt þjónustu við þær, standist lög og reglugerðir.
Ég vonast eftir niðurstöðu í mínu máli sem fyrst og munum við þá greina frá niðurstöðunni hér.
Kv. Frímann Sigurnýasson
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. september 2008
Lungun okkar og súrefnið Pálmi Stefánsson skrifar um mannslíkamann og súrefni
MANNSLÍKAMINN er afarflókinn og gerður úr tugum billjóna frumna sem vinna saman. Tvennt er sameiginlegt frumum líkamans: allar þurfa þær næringu og svo eru boðskipti milli þeirra. Þetta síðara er ekki eins vel vitað og hið fyrra. Í einni frumu er talið að allt að 150.000 efnahvörf geti átt sér stað á sekúndu hverri!
Heilinn okkar er gerður af billjónum frumna og er gífurlega orkufrekur og þarf aðallega sykurinn glúkósa (sem er kolvatn) og súrefni úr loftinu til orkuframleiðslu og starfsemi. Vanti súrefni í fáar mínútur deyja frumurnar og leysast upp. Talið er að fimmtungur súrefnisþarfar líkamans sé eingöngu vegna heila okkar. Ekki er vitað nema heilabilunarsjúkdómar séu að einverju leyti vegna skorts á nægjanlegu súrefni til heilans. Öll líkamsþjálfun miðar að því að styrkja hjartað og æðakerfið til að flytja nægjanlegt súrefni til frumnanna auk næringar.
Þar sem um 21% andrúmloftsins er súrefni þarf lungun til að koma því yfir í blóðið, en þar flytur blóðrauðinn það til frumnanna og tekur koldíoxíð frá bruna sykursins til baka. Sé nú CO (kolmónoxíð) í loftinu þá binst það blóðrauðanum í stað súrefnisins og blóðið flytur minna súrefni. Hjá reykingafólki getur þetta orðið allt að 15% minni súrefnisupptaka. Sama á við um H²S (brennisteinsvetni). Þá má nefna, að ég hef unnið með mönnum sem hættu ekki að reykja fyrr en stórir tjörublettir voru komnir framan á brjóstið og aftan á bakið. Tjara telst til kolvetna.
Lungun eru með í kringum 300400 milljónir viðkvæmra lungnablaðra, sem smá-skemmast yfir ævina, þótt líkaminn sé duglegur við að gera við skemmdir á frumunum. Til að mynda getur H²S og SO² (brennisteinsdíoxíð) myndað sýrur sem skemma þær varanlega, auk skemmda vegna ýmissa sýkinga af völdum gerla eða vírusa. Séu lungun orðin illa farin þurfa sumir aldraðir í dag að draga á eftir sér súrefnisflöskur til að geta andað.
Sum efni í loftinu valda krabbameini, sé ertingin eða viðveran við efnið næg, styrkur skiptir litlu máli. Þetta á við um kolvetnin (olíuvörur) en þau telja yfir 700 efni. Má hér t.d. nefna benzól í olíu, en í bensín er oft sett 1% í stað blýsins áður til að auka oktanið. Benzólið sest í fituvef og veldur lungnakrabbameini. Önnur heilsuskaðleg efni í lofti undir iðnaðarmarkgildum eiga að skila einstaklingum í gegnum starfsævina í t.d. iðnaði. En samt fylgjast sumir atvinnuveitendur grannt með lungnaheilsu starfsliðsins! Í áliðnaði eru lungun t.d. skoðuð tvisvar á ári. Sé hins vegar mengun loftsins há og yfir markgildum veldur hún eitrunum. Heilinn fær einfaldlega ekki nóg súrefni og fólk fær að lokum yfirlið. Sé ekkert að gert þarf ekki margar mínútur til þess að einstaklingurinn deyi úr eitrun eða súrefnisskorti.
Það verður því aldrei ofmetið hvað hreint ómengað loft er mikilvægt heilsu okkar. Að leyfa að hreinsa ekki brennisteinsdíoxíð úr útblæstri stóriðjunnar og brennisteinsvetni frá varmaaflsvirkjunum er glapræði. Þá er t.d. rafbílavæðing lausn á mengun bílanna í þéttbýli. Fólk ætti að hafa í huga, að mengunin getur orðið 46 sinnum meiri inni í bíl í dag á fjölfarinni götu en á gangi meðfram götunni. Þá eru öll bílagöng með mjög slæmt loft. Það er hægt að læra ýmislegt af Norðmönnum sem hafa m.a. losnað við brennisteinsdíoxíð-mengun að kalla í þéttbýli með markvissum aðgerðum síðustu tuttugu árin.
Flestir deyja nú til dags úr lungnasjúkdómum, þar á meðal krabbameinssjúklingar. Það eru því einhver bestu lífsgæðin að stuðla að hreinu lofti fyrir landsmenn. En langtímamarkmið með úrræðum sem framkvæmd verða þarf til. Lýðheilsan mun bara versna verði ekkert að gert. Það þarf að huga að heilsuþættinum líka samhliða öllum stóriðju- og varmaaflsvirkjunaráformunum.
Höfundur er efnaverkfræðingur.
( innsett, undirstrikanir og leturbreytingar F.S. )
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. september 2008
Kæfisvefn tíðkast meðal barna
24 stundir miðvikudaginn 11. júní 2008
Áætlað er að þrjú til tólf prósent barna á grunnskólaaldri hrjóti. Flest þeirra eiga ekki við nein önnur vandkvæði að stríða en um tvö prósent barna þjást af kæfisvefni sem í auknum mæli er talinn valda hegðunarvandamálum hjá börnum.
Þekkt einkenni
Samkvæmt ráðleggingum frá félagi bandarískra sérfræðinga um svefnvandamál er ýmislegt sem getur bent til þess að barnið þjáist af kæfisvefni. Þau börn eru gjarnan þreytt á daginn og sofa óreglulega og illa þar sem þau vakna oft, grípa andann á lofti í svefni og geta átt erfitt með að halda athygli þegar í skólann er komið. Kæfisvefn hjá börnum getur verið fylgifiskur ofstórra hálskirtla, of hás blóðþrýstings eða þess að barnið er of þungt.
Hægt er að rannsaka barnið með ýmsum ráðum, t.d. þar sem hegðun þess í svefni er tekin upp eða rannsökuð með þar til gerðri tækni.
Kæfisvefn
Á Vísindavefnum segir að kæfisvefn (e. sleep apnea) geti verið hættulegur og full ástæða sé fyrir þá sem þjást af honum að leita til læknis. Þar segir einnig að kæfisvefn sé til hjá börnum en sé þó langalgengastur hjá fullorðnum karlmönnum. Á vefsíðunni doktor. is ritar Þórarinn Gíslason læknir að öndunartruflanir fyrirfinnist einnig hjá börnum og hafi rannsókn meðal sex mánaða til sex ára barna í Garðabæ sýnt að að minnsta kosti 2,4% þeirra voru með öndunartruflanir í svefni.
Rannsóknir hafa verið gerðar á kæfisvefni barna hér á landi en slíkar rannsóknir eru taldar mikilvægur þáttur í greiningu barna með svefnraskanir þar sem þær geta varpað ljósi á algengi, orsakir og alvarleika þessa sjúkdómsástands.
Einnig geta svefnrannsóknir auðveldað valið fyrir þau börn sem þurfa á sértækri meðferð að halda á borð við skurðaðgerð eða öndunarvélarmeðferð við kæfisvefni eða lyfjameðferð við vélindabakflæði.
Til er íslenskt félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflarnir sem kallast Vífill og má lesa ýmsan fróðleik á vefsíðu félagsins www.vifill.blog.is .
Innsett: F.S.
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. ágúst 2008
Hrotur raktar til gæludýraeignar í æsku
Frétt af: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item222977
Fyrst birt: 25.08.2008 12:48
Síðast uppfært: 25.08.2008 12:50
Ástæðan fyrir því að sumir hrjóta kann að mega rekja til gæludýraeignar í æsku. Þetta er á meðal niðurstaðna í nýrri norrænni rannsókn. Sextán þúsund karlar og konur á aldrinum 25 til 54 ára tóku þátt í rannsókninni sem var gerð við Háskólasjúkrahúsið í Umeo í Svíþjóð.
Fólk á Íslandi, í Danmörku, Noregi, Eistlandi og í Svíþjóð var spurt um æsku sína, fjölskylduhagi, svefn, reykingar, hæð og þyngd.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að 16% karla á miðjum aldri hrjóta og 7% kvenna.
Átján prósent þátttakenda reyndust hrjóta að minnsta kosti þrjár nætur í viku.
Rannsakendur komust að því að reynsla æskuáranna geti leitt til þess að viðkomandi hrjóti á fullorðinsárum. Tuttugu og sjö prósent þátttakenda hafði til dæmis þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna sýkingar í öndunarfærum áður en þeir náðu tveggja ára aldri. Þeir sem oft fengu eyrnabólgu eða sýkingu í eyrum á unga aldri voru 18% líklegri til að hrjóta. Þá leiða niðurstöður rannsóknarinnar það í ljós að þeir sem ólust upp í stórri fjölskyldu voru líklegri til að hrjóta.
Þeir sem ólust upp með hund á heimilinu reyndust 18% líklegri til að hrjóta seinna meir en þeir sem ekki áttu hund.
Karl Franklin, stjórnandi rannsóknarinnar, segir að hundum fylgi agnir sem berist í lofti og geti ýtt undir bólgur og þar með leitt til þess að breytingar verði á öndunarfærum snemma á lífsleiðinni. Það geti síðan aukið líkurnar á hrotum seinna á lífsleiðinni.
Aðrir sérfræðingar vilja hins vegar ekki taka undir þá fullyrðingu að hundaeign geti leitt til þess að fólk hrjóti.
Hrotur megi rekja til titrings sem verði í öndunarfærum og óhljóðin sem myndist verði til vegna þess að loft nái ekki að berast óhindrað um öndunarveginn á meðan hrotubelgurinn sofi. Óreglulegt loftstreymi megi annaðhvort rekja til slappleika í hálsi, að kjálki sé skakkur eða spenna í vöðvum, fita hafi safnast í kringum hálsinn eða fyrirstaða sé í nefholi.( Uppsett, leturbreytingar og fl. F.S. )
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur og Hjartaheill kosta nýtt hjartaþræðingatæki
Frá vinstri: Jón Pálmason, fyrir hönd Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur, Guðmundur Bjarnason, formaður Hjartaheilla, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Linda B. Gunnlaugsdóttir frá A. Karlsson, og hjartalæknarnir Kristján Eyjólfsson og Þórarinn Guðnason.
Það eru Gjafa - og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur og Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, sem standa undir kostnaðinum við nýju tækin. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur leggur fram 75 milljónir króna til kaupa á hjartaþræðingartækinu. Þessi sjóður var stofnaður árið 2001 með 200 milljóna króna framlagi Jónínu í sjóð til að efla hjartalækningar á Landspítala. Síðan hefur sjóðurinn stutt hjartalækningarnar ríkulega með fjárframlögum, þar á meðal vegna kaupa á seinna hjartaþræðingartækinu árið 2001. Framlög úr sjóðnum hafa verið ómetanleg við uppbyggingu hjartadeildarinnar. Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, eiga 25 ára afmæli á árinu og minnast tímamótanna meðal annars með því að styrkja kaup á hjartaþræðingartækinu og nauðsynlegum fylgibúnaði. Samtökin leggja fram 25 milljónir og ætla þar að auki að efna til landssöfnunar. Takmark Hjartaheilla er að safna 50 milljónum króna á afmælisárinu og rennur allt það fé sem safnast umfram áðurnefndar 25 milljónir einnig til hjartalækninga á Landspítala.
Samningurinn um kaup á hjartaþræðingartækinu var undirritaður á hjartaþræðingardeildinni á Landspítala Hringbraut þar sem nýja hjartaþræðingarstofan verður líka. Viðstaddir voru meðal annarra Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla, Sveinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hjartaheilla og Jón Pálmason, sonur Jónínu S. Gísladóttur, en hann á sæti í stjórn sjóðsins sem við hana er kenndur.
Hjartaþræðingartækið sjálft, sem nú er undirritaður kaupsamningur um er framleitt af bandaríska fyrirtækinu General Electric Healthcare og heitir Innova 2100 IQ en umboðsaðili GE og seljandi tækisins er fyrirtækið A. Karlsson ehf. Kaupverð tækisins er um 61 milljón króna án virðisaukaskatts. Tækið er af nýjustu og fullkomnustu gerð og er búið stafrænum myndskynjara en með honum fást aukin myndgæði í hjartaþræðingarrannsóknum og hægt er að komast af með minni geislun á sjúklinga og starfsfólk. GE hefur langa reynslu af stafrænum myndskynjurum í röntgentækjum og hefur boðið upp á stafræn hjartaþræðingartæki um árabil. Allur stjórnbúnaður tækisins og á þeim búnaði sem notaður er á hjartaþræðingastofunni verður sambyggður, sem einfaldar vinnuumhverfi starfsfólks við rannsóknirnar. Fullkomin vinnustöð fyrir lækna fylgir með tækinu. Vinnustöðin er búin öllum nauðsynlegum hugbúnaði fyrir frekari skoðun, mælingar og úrvinnslu þeirra gagna sem tengjast hjartaþræðingum.
Áætlaður heildarkostnaður við nýju hjartaþræðingarstofuna nemur um 140 milljónum króna en af þeirri upphæð greiðir Landspítali byggingarkostnað stofunnar sem er áætlaður um 40 milljónir króna. Stofan verður sambyggð núverandi tveimur hjartaþræðingarstofum á hjartaþræðingareiningu hjartadeildar Landspítala í byggingu W. Stofan er byggð inn í húsnæði sem verið hefur hluti af vörumóttöku spítalans. Eftir er að ganga frá kaupum á ýmsum tækjabúnaði sem þarf fyrir starfsemi stofunnar fyrir utan hjartaþræðingatækið en stefnt er að því að hægt verði að taka fyrsta sjúklinginn í hjartarannsókn á stofunni í fyrstu viku nóvember n.k.
Þriðja hjartaþræðingartækið eflir enn starfsemi og afköst hjartadeildarinnar. en það hefur verið markviss stefna heilbrigðisráðherra og stjórnenda LSH og yfirmanna hjartadeildarinnar að draga úr biðtíma eftir hjartaþræðingum. Nú er staðan sú að:
- Engin bið er eftir bráðahjartaþræðingum
- meðalfjöldi hjartaþræðinga á mánuði hefur aukist úr 143 í 163 (jan-júní 2007 og 2008)
- enginn sjúklingur hefur beðið lengur en þrjá mánuði eftir kransæðavíkkun
- meðalbiðtími miðað við þessi auknu afköst er rúmur mánuður
Að lokinni undirritun kynntu hlutaðeigandi sér hjartaþræðingatæki á LSH.
( Undirstrikanir / innsett F.S.)
Greinar um kæfisvefn og fl. | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. maí 2008
Starf Íslands á vettvangi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar
(Skýrsla lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 20072008.)
16.4.2008 http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2777
Dreift hefur verið á Alþingi skýrslu heilbrigðisráðherra um þátttöku Íslands í starfsemi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Í skýrslunni er greint frá fundum framkvæmdastjórnar WHO, alþjóðaheilbrigðisþinginu, fundum svæðisnefndar WHO í Evrópu og fjölmörgum öðrum fundum og athöfnum á vegum stofnunarinnar á árinu 2007.
Það bar helst til tíðinda að í byrjun ársins tók dr. Margaret Chan frá Kína við starfi forstjóra WHO. Hún lýsti því yfir í upphafi ferils síns að hún myndi halda áfram þeim umbótum innan WHO sem forveri hennar dr. Lee Jong-Wook hóf og að ekki væri von á sérstöku umróti í rekstri eða starfsmannamálum stofnunarinnar. Nýi forstjórinn boðaði að sex mál yrðu höfð til viðmiðunar í starfi WHO á næstu árum. Tvö þeirra beindust að grundvallarþörfum fyrir heilbrigðisþróun og heilbrigðisöryggi. Tvö önnur mál snúa að áætlanagerð og varða eflingu heilbrigðiskerfa og þörf fyrir áreiðanlegri upplýsingar við stefnumörkun og mat á árangri. Tvö hin síðustu eru bæði starfslegs eðlis og varða traust á samstarfsaðilum, sérstaklega við framkvæmd verkefna, og þörfina á því að WHO nái árangri sem ein skipulagsheild.
Hugsanlegur heimsfaraldur inflúensu var eitt aðalumræðuefnið á alþjóðaheilbrigðisþinginu 2007 og öðrum fundum WHO á árinu. Á þinginu var samþykkt ályktun þar sem skorað er á aðildarríkin að deila með sér upplýsingum um inflúensuveirur og að aðgangur að bóluefnum og öðrum úrræðum til að verjast inflúensunni sé gerður greiður. Ályktunin fer einnig fram á að WHO komi sér upp birgðum af bóluefnum gegn H5N1 veirunni og öðrum inflúensuveirum sem gætu valdið faraldri. Malaría heldur áfram að valda á ári hverju meira en milljón dauðsföllum í heiminum en hægt er að koma í veg fyrir flest þessara dauðsfalla með einföldum forvörnum. Ákveðið var að framvegis yrði 25. apríl tileinkaður baráttunni gegn malaríu.
Fram kom að mikill árangur hefði náðst í baráttunni gegn mislingum og hefur dánartíðni vegna þeirra lækkað um 60% á tímabilinu 1999 - 2005.
Aðgerðir gegn berklum hafa ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt og er núna áætlað að um 1,6 milljón manna deyi úr berklum árlega.
Aðgerðir til þess að draga úr langvinnum sjúkdómum og barátta gegn offitu og ofþyngd skipa æ veigameiri sess í starfsemi WHO bæði á heimsvísu og svæðisbundið. Mannaflamál heilbrigðisþjónustunnar voru einnig til umfjöllunar. Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er vandi sem menn glíma jafnt við í ríkum sem fátækum löndum. Heilbrigðisstarfsfólk flytur í vaxandi mæli frá þróunarlöndunum til þeirra landa þar sem velmegun er meiri og þróuðu ríkin mennta ekki nægjanlega marga sérhæfða heilbrigðisstarfsmenn. Fulltrúar Íslands hafa á fundum WHO á undanförnum árum einkum beitt sér í lýðheilsumálum.
- Skýrsla um starf á vettvangi WHO á árinu 2007 ( PDF 261 KB - opnast í nýjum glugga)
http://www.heilbrigdisraduneyti.is/media/frettir_fylgiskjol/Skyrsla_um_starf_a_vettvangi_WHO.pdf
Tvö atriði úr skýrslu heilbrigðisráðherra um
120. fund framkvæmdastjórnar WHO í Genf 22.30. janúar 2007,
alþjóðaheilbrigðisdaginn 7. apríl 2007,
60. alþjóðaheilbrigðisþingið í Genf 14.23. maí 2007,
121. fund framkvæmdastjórnar WHO í Genf 24.26. maí 2007 og
57. fund svæðisnefndar WHO í Evrópu í Belgrad 17.21. september 2007.
(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 20072008.)
120. FUNDUR FRAMKVÆMDASTJÓRNAR WHO Í GENF 22.30. JANÚAR 2007
3. Helstu umræðuefni fundarins.
3.3 Baráttan gegn berklum.Í skýrslu til framkvæmdastjórnarinnar var gerð grein fyrir hvernig gengið hefur að námarkmiðum, sem sett voru af alþjóðaheilbrigðisþinginu árið 1991, varðandi greiningu berklaog lækningu þeirra. Þegar ljóst var að markmiðunum yrði ekki náð árið 2000 var fresturinnframlengdur til ársins 2005. Skýrslan sýnir að enn vantar nokkuð upp á að markmiðunum
hafi verið náð. Árið 2005 er áætlað að 8,8 milljónir manna hafi verið greindir með berkla og dauðsföll vegna berkla voru 1,6 milljónir.
Í ályktun stjórnarinnar eru aðildarríkin hvött til frekari dáða í baráttunni gegn berklum og skorað á þau að útfæra langtímaáætlanir um forvarnir og stjórn á þeim í samræmi við heimsáætlun stofnunarinnar um að stöðva berkla 20062015.
ALÞJÓÐAHEILBRIGÐISÞINGIÐ 2007
4. Ályktanir og helstu umræðuefni tekin fyrir í nefnd A.
4.6 Baráttan gegn berklum.Aðildarríki voru hvött til að útbúa og innleiða langtímaáætlanir fyrir forvarnir og meðferðberkla sem væru samhljóða heimsáætlun WHO um að stöðva berkla 20062015, sem miðar að því að minnka um helming tíðni berkla og dauðsfalla af þeirra völdum fyrir árið 2015.
WHO var beðið um að auka stuðning sinn við þau lönd þar sem berklar finnast, sérstaklega þau lönd þar sem finna má ónæma berkla og berklasmitaða alnæmissjúklinga.
( Innsett/ undirstrikanir F.S. )
Greinar um kæfisvefn og fl. | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
352 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar