Óeðlileg skerðing lífeyrisgreiðslna

 
  • Ellen J Calmon formaður ÖBÍ


http://www.obi.is/frettabref/frett/nr/1568

4.4.2014  

Samkomulag ríkisstjórnarinnar við Landssamtök lífeyrissjóða er úti

Um síðustu áramót rann úr gildi samkomulag ríkisstjórnarinnar við Landssamtök lífeyrissjóða (LL) frá 30. desember 2010 sem miðaði að því að koma í veg fyrir víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyris lífeyrissjóða[1]. Samkomulagið tók gildi 1. janúar 2011 og gekk í meginatriðum út á að lífeyrissjóðirnar skerði ekki greiðslur til sjóðsfélaga vegna almennra hækkana bóta almannatrygginga og öfugt. Með þessu þá lækka bætur almannatrygginga ekki þrátt fyrir almennar hækkanir lífeyrissjóðanna.

Ástæður fyrir gerð samkomulagsins

Frá 2006 til 2011 fækkaði umtalsvert í hópi örorkulífeyrisþega með bætur frá TR sem einnig voru með lífeyrissjóðsgreiðslur. Til að átta okkur á því hvernig víxlverkunin er tilkomin þarf að skoða áhrif tekna við útreikning lífeyrissjóðanna á örorkulífeyri. Lífeyrissjóðum ber að greiða öryrkjum lífeyri vegna tekjutaps. Tekið er mið af áunnum réttindum við útreikninginn. Reiknaðar eru út viðmiðunartekjur hvers og eins sem taka mið af meðallaunatekjum síðustu ára fyrir örorkumat. Samkvæmt samþykktum lífeyrissjóðanna mega tekjurnar ekki vera hærri en útreiknaðar viðmiðunartekjur. Árið 2006 var bætt inn í samþykktir margra lífeyrissjóða að taka skyldi í útreikninginn lífeyris- og bótagreiðslur frá almannatryggingum. Fram að því höfðu bætur almannatrygginga ekki áhrif á örorkugreiðslur lífeyrissjóðanna. Breytingin kom til framkvæmda árið 2007 hjá lífeyrissjóðum sem eiga aðild að Greiðslustofu lífeyrissjóða. Afleiðing þess var að greiðslur almennra lífeyrissjóða til fjölda öryrkja lækkuðu eða féllu niður á árunum 2007 til 2010.[2] Lífeyrissjóðirnir bentu sjóðsfélögum sínum á að hafa samband við Tryggingastofnun, þar sem lægri örorkulífeyrir frá lífeyrissjóði gat leitt til þess að almannatryggingar bættu lækkunina að hluta. Það leiddi til þess að örorkulífeyrinn var skertur enn frekar við næstu reglulegu tekjuathugun lífeyrissjóðanna. Að auki eru lífeyrissjóðstekjur tekjutengdar við bætur almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar. Víxlverkun örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefur bitnað harðast á þeim sem voru með lágar lífeyrissjóðstekjur og/eða uppbótargreiðslur vegna mikils kostnaðar sem hlýst af fötlun eða sjúkdómi.

Hvaða þýðingu hefur samkomulagið?

Samkomulaginu við LL var ætlað að koma í veg fyrir áframhaldandi víxlverkun á milli bóta almannatryggingakerfis og lífeyrissjóðsgreiðslukerfis, þ.e. að almennar hækkanir í öðru kerfinu myndu ekki leiða til lækkunar í hinu kerfinu. Á þeim tíma sem samkomulagið var í gildi átti að finna lausn til framtíðar. Framhald samkomulagsins er til skoðunar hjá velferðarráðuneytinu. Því miður hefur ÖBÍ enn ekki fengið nein formleg viðbrögð við fyrirspurn þess efnis hvort samkomulagið verði framlengt með einhverjum hætti  eða hvort sett verði lög sem sporna gegn því að slík víxlverkun geti átt sér stað.

Í bréfi formanns ÖBÍ til félags- og húsnæðismálaráðherra dags. 2. desember 2013, er hnykkt á mikilvægi þessa samkomulags og bent er á þá ríku hagsmuni sem varða þann hóp örorkulífeyrisþega sem samkomulagið hefur varið fyrir skerðingum. Stjórnvöld eru hvött til þess að ganga að samningaborðinu með LL til endurnýjunar samkomulagsins á meðan unnið er að varanlegri lausn. 

Samkomulag eða lög um lífeyrissjóði

Að öllu óbreyttu þ.e. ef samkomulagið verður ekki framlengt eða ekki gripið til annarra aðgerða til að koma í veg fyrir víxlverkun, mun hún fara af stað að nýju. Lífeyrissjóðirnir framkvæma tekjuathugun á þriggja mánaða fresti. Næsta tekjuathugun verður í maí nk. Þá er hætta á að sjóðsfélagar fái tilkynningu um breytingar til lækkunar á lífeyrisgreiðslum. Áhrif á greiðslur almannatrygginga kæmu ekki í ljós fyrr en sumarið 2015 eða þegar árið 2014 hefur verið gert upp. Því er mjög mikilvægt að óvissu um næstu örorkulífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna verði aflétt sem allra fyrst. Samfélagslega er einnig mjög mikilvægt að jafnvægi sé haldið á milli þessara meginstoða lífeyristrygginga landsmanna á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Landsmönnum er samkvæmt lögum skylt að greiða í lífeyrissjóði enda eru þeir ein af grunnstoðum samfélagsins. Viljum við ekki að þær greiðslur sem við höfum innt af hendi til lífeyrissjóðanna komi okkur að gagni hvort sem við verðum örorku- eða ellilífeyrisþegar. Fyrir hvern erum við að greiða í lífeyrissjóðinn? Þess ber að geta að ríkið greiðir svokallaða örorkubyrði til lífeyrissjóðanna sem er ákveðið hlutfall af tryggingagjaldi. Því má ætla að lífeyrissjóðirnir eigi einnig að standa vörð um velferð sjóðsfélaga sinna hvort sem þeir verði elli- eða örorkulífeyrisþegar.

ÖBÍ hvetur ríkisstjórnina til að standa vörð um örorkulífeyrisþega þannig þeir tapi ekki lífeyrissjóðstekjum, að hluta eða öllu leyti.


Ellen Calmon, formaður ÖBÍ

  

[1] http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/32525 (Opnast í nýjum vafraglugga): Samkomulag varðandi víxlverkun bóta og hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega.

[2] ÖBÍ höfðaði prófmál fyrir hönd sjóðsfélaga sem við tekjuathugun 2007 varð fyrir verulegri skerðingu á örorkulífeyrisgreiðslum frá Gildi lífeyrissjóði. Í Héraðsdómi vannst varnarsigur í málinu, en Hæstiréttur sýknaði Gildi lífeyrissjóð í málinu. Lífeyrissjóðsmálinu var skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem vísaði málinu frá í maí 2011. 

 

Innsett: F.S.


Örorkulífeyrisþegar geta ekki beðið eftir stjórnsýslulegum og pólitískum endurskoðunum á heilu kerfi út í hið óendanlega"

 

Auka ekki fjárhagsaðstoð vegna heilbrigðiskostnaðar lífeyrisþega

Innlent kl 07:00, 05. mars 2014

Að mati ráðherra þarf að tryggja að þeir sem standa illa fjárhagslega fái sérstakan stuðning. Að mati ráðherra þarf að tryggja að þeir sem standa illa fjárhagslega fái sérstakan stuðning. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM

Eva Bjarnadóttir skrifar:

Félags- og tryggingamálaráðherra segir engin áform vera um að hækka tekjuviðmið almannatrygginga til aðstoðar örorku- og ellilífeyrisþegum við að standa straum af síhækkandi heilbrigðiskostnaði. Í skoðun er breyting á fyrirkomulagi endurgreiðslu vegna lyfja- og lækniskostnaðar.

Öryrkjum og lífeyrisþegum sem eiga rétt á greiðslum vegna kostnaðar við að standa straum af meðal annars lyfja- og læknisþjónustu, heyrnartækjum og umönnun í heimahúsum fækkaði um tæp 70 prósent frá árinu 2009. Það orsakast af því að tekjuviðmið Tryggingastofnunar (TR), sem er 200.000 krónur á mánuði, hefur ekkert hækkað á tímabilinu.

Eygló Harðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, segir að í skoðun sé að færa allar endurgreiðslur vegna læknis-, lyfja- og sjúkrakostnaðar yfir til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ).

„Það má vel sjá fyrir sér að betur fari á því að SÍ annist allar greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu og þeir fjármunir til þessara þátta sem eru hjá TR flytjist þangað yfir," segir Eygló.

Endurgreiðsla SÍ er ekki tekjutengd heldur lýtur hún að fjórum gjaldflokkum eftir því hvort í hlut eiga börn, fullorðnir, örorku- eða ellilífeyrisþegar. Myndi það samkvæmt óbreyttum lögum leiða til þess fjármunirnir dreifðust á stærri hóp en hingað til.

„Að mínu mati þyrfti þá að tryggja með einhverjum hætti að þeir sem standa illa fjárhagslega fengju sérstakan stuðning, líkt og er markmiðið að baki lögum um félagslega aðstoð," segir Eygló.

Heildarendurskoðun almannatrygginga stendur yfir og liggur ekki fyrir hvenær henni lýkur. Ráðherra boðar þó frumvarp um frekari breytingar á yfirstandandi þingi.
Töluverðar gjaldskrárhækkanir á heilbrigðisþjónustu urðu um áramót, sem eru yfir hækkun bóta almannatrygginga og verðbólgumarkmiðum.


Ellen J. Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins

 

Ellen J. Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins

Geta ekki beðið út í hið óendanlega
„Örorkulífeyrisþegar geta ekki beðið eftir stjórnsýslulegum og pólitískum endurskoðunum á heilu kerfi út í hið óendanlega þar sem þeir eru margir á barmi fátæktar," segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, sem telur endurskoðun almannatryggingakerfisins undanfarin misseri engu hafa skilað.

Hún efast um að tillögur ráðherra séu til bóta. „Ef fjármunir sem TR hefur greitt í uppbætur vegna heilbrigðisþjónustu yrðu færðir yfir til SÍ og dreifðust á stærri hóp skapast sú hætta að lífeyrisþegar fengju enn minni stuðning en er í dag."

Ellen bendir á að lífeyrisþegar hafi iðulega meiri kostnað vegna heilsubrests sem er tilkominn vegna sjúkdóma og skerðinga. Þá geti fólk utan vinnumarkaðar ekki leitað til sjúkrasjóða stéttarfélaga eftir styrkjum.

 

Innsett:FS


Fræðslufundur næsta fimmtudag kl: 19:30 - Góður svefn - grunnstoð andlegrar og líkamlegrar heilsu

 

Fræðslufundur

Góður svefn - grunnstoð andlegrar og líkamlegrar heilsu

 

Gigtarfélagið og Samtök psoriasis- og exemsjúklinga standa fyrir fræðslufundi fimmtudaginn 20. mars n.k. kl. 19:30.

Erla BjörnsdóttirFyrirlesari verður Erla Björnsdóttir með erindið:

„Góður svefn - grunnstoð andlegrar og líkamlegrar heilsu".

Í fyrirlestrinum verður m.a. fjallað um svefn og langvarandi svefnleysi og nokkur úrræði við því.

Erla er sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi (HAM-S) og sinnt þeirri meðferð undanfarin ár.  

 

Staður: Gigtarfélag Íslands Ármúla 5, 2.hæð.

Stund: 20. mars kl: 19:30

 

Allir velkomnir

 

Innsett F.S.


Svefn barna og unglinga - Lykill að lífsgæðum.

Hið íslenska svefnrannsóknafélag ætlar að halda hinn alþjóðlega svefndag (World Sleep Day, http://worldsleepday.org/) hátíðlegan með fræðsludagskrá fimmtudaginn 13.mars.

 

Allir að sjálfsögðu velkomnir og viljum við biðja ykkur að áframsenda þetta á sem flesta - í von um góða þátttöku. Þetta málþing snertir allar fjölskyldur, skólafólk og heilbrigðisstarfsfólk.

Einnig má deila jpg. myndinni á Facebook og víðar!

 

  

Í tilefni af Degi svefnsins stendur Hið Íslenska Svefnrannsóknarfélag fyrir opnum fundi um tvö mikilvæg mál tengdum svefni.   Annars vegar verður farið yfir það hvaða áhrif hrotur geta haft á börn og hvaða úrræði eru til gegn hrotum og kæfisvefni barna.

Hins vegar verða færð rök fyrir því að íslenskir skólar byrji of snemma á daginn fyrir unglinga.   Allt of margir unglingar koma í skólann án þess að hafa náð hinum nauðsynlega átta tíma svefni.   Án hans er líklegt að geðheilsa, líkamlegt ástand, mataræði, einbeiting og fleira fari úr skorðum með neikvæðum afleiðingum.   Fjallað er um nýlegar rannsóknir á þessu sviði og kynntar lausnir.

Sérhver einstaklingur finnur á eigin skinni hver áhrif af góðum svefni eru. Með sama hætti þekkjum við máttleysi og vanlíðan vegna of lítils svefns. Segja má að góðar svefnvenjur séu undirstaða heilbrigðs samfélags. Á fræðslufundinum verða tvö mikilvæg atriði tekin til umfjöllunar.   Líklegt er að bæði þekkist innan flestra fjölskyldna.

 

Punktar úr efni fundarins:

-        Nægur svefn er börnum og unglingum nauðsynlegur fyrir lífsgæði og framtíðina

-        Íslenskir unglingar fara seint að sofa og þjást af mikilli dagssyfju

-        Dagsyfja hefur neikvæð áhrif á námsárangur og líðan

-        Unglingar sem sofa nóg eru hamingjusamari, lifa heilbrigðara lífi og gengur betur í skóla

-        Skólastarf ætti að byrja seinna á daginn

-        15% barna hrjóta

-        Viðvarandi hrotur barna eru alvarleg einkenni sem alltaf ber að athuga betur

-        Hrotur barna geta skert hæfileika þeirra til náms

-        3% barna eru með kæfisvefn

-        Einkenni kæfisvefns barna er öðruvísi en hjá fullorðnum, t.d. einkenni ofvirkni og athyglisbrests

 

 

 

 

 

 

 


17. mars kl. 17:00 í SÍBS-húsinu Síðumúla 6, 2.h. Allir velkomnir. Kaffiveitingar.

11. mar 2014

Fræðsluerindi um berkla og aðrar smitógnir

Haraldur Briem

 

Um 8 milljónir manna smitast af berklum árlega. Með auknum hreyfanleika vinnuafls og fjölgun ferðamanna aukast líkur á að berklaveiki geti borist hingað til lands. Um þetta ræðir dr. Haraldur Briem, sóttvarnaryfirlæknir. Hann kemur í erindi sínu inn á inflúensu og nýja stofna hennar, sem hafa verið að skjóta upp kollinum. Einnig ræðir hann um bráðalungnabólgu, sem er tiltölulega ný af nálinni. Gert er ráð fyrir að erindið sé um 25 mínútur að lengd, og svo svarar Haraldur spurningum á eftir.

Fyrirlesturinn er þann 17. mars kl. 17:00 í SÍBS-húsinu Síðumúla 6, 2.h. Allir velkomnir. Kaffiveitingar.

Innsett: F.S.


Þórður: Þýðir ekki að reyna að toga fólk aftur í fortíðina

VBSjónvarp  

Edda Hermannsdóttir - edda@vb.is                                     31. október 2013 kl. 11:06

Hér má sjá fyrirlesturinn í heild.   http://www.vb.is/frettir/97817

Fjölmiðlafyrirtæki verða að aðlagast eða þau munu deyja, segir ritstjóri Kjarnans.

Fjallað var um nýsköpun í fjölmiðlum á fundi Klaks Innovits.

„Áskrifendum að sjónvarpsstöðum hefur fækkað gríðarlega hratt. Fólk vill ekki láta bjóða sér upp á það að sjónvarpsstjóri ákveði á hvaða tíma og í hvaða röð fólk horfir á efni. Fólk er ekki tilbúið að borga 17 þúsund fyrir pakkann hjá Stöð 2 þegar það getur borgar þúsund krónur fyrir Netflix. Það segir sig sjálft." Þetta sagði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. „Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér. Fjölmiðlafyrirtæki verða að aðlagast eða þau munu deyja."

Fjallað var um nýsköpun í fjölmiðlum í Nýsköpunarhádegi Klaks Innovits á þriðjudaginn. Þórður fjallaði þar um fjölmiðla dagsins í dag ásamt Rakel Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Spyr.is.

 

Innsett: F.S.

 


76% hækkun á mánaðarleigu kæfisvefnsvélar

 

 

10.2.2014

Samkvæmt nýjum lögum sem tóku gildi um síðastliðin áramót. Án vélarinn gæti hún ekki stundað vinnu og yrði þá óvirk í samfélaginu. Sendir ráðherra bréf.

Í Ísland í bítið, var viðtal við Guðný Hólm Birgisdóttur, þar sem hún ræddi þá gífurlegu hækkun sem varð um áramótin á leigu ýmissa hjálpartækja, í hennar tilfelli kæfisvefnsvélar.

Frá 1. janúar 2014 greiðir hún 2.650 krónur á mánuði í leigu fyrir slíka vél í stað 1.500 sem hún greidd mánaðarlega á síðast liðnu ári. Hér er um 76% hækkun að ræða á milli ár og langt yfir öllum verðlagshækkunum.

Vél þessi er henni lífsnauðsynleg og gæti hún ekki verið út á vinnumarkaði ef hennar nyti ekki við. Þá væri hún orðin óvirk á samfélaginu sem væri mun dýrari kostur.

Engar viðvaranir eða upplýsingar vour veittar notendum slíks búnaðar, en notendur þannig búnaðar eru um 3.000 manns. Það var ekki fyrr en reikingur barst nú um mánaðarmótinn sem fólk áttaði sig á þessari gífurlegu hækkun.

Guðný og fleir ætla að senda Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra bréf ti að vekja athygli á þessari ósanngjörnu hækkun.

Viðtalið við Guðný í heild í þættinum, Í bítið (Opnast í nýjum vafraglugga)

 

Innsett: F.S.


Fræðsluerindi 17. febrúar 2014 kl 17:00 í Síðumúla 6, annarri hæð

Félagsráð SÍBS stendur fyrir röð erinda sem haldin eru mánaðarlega fram á vor 2014.  Nú er komið að öðru erindinu og er það í samvinnu við Samtök lungnasjúklinga.


Ásdís Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari á ReykjalundiErindið:

Öndunarhreyfingar sjúklinga með langvinna lungnateppu og lungnaþembu í baklegu og standandi með framhalla á bol.

 

Flytjandi:

Ásdís Kristjánsdóttir, Sviðsstjóri, Sérfræðingur í sjúkraþjálfun á Reykjarlundi

Erindið fjallar um rannsókn sem gerð var á Reykjalundi og LSH Háskólasjúkrahúsi 2011-2012.   Rannsóknin hefur verið kynnt á Vísindadegi Reykjalundar 2012, Degi sjúkraþjálfunar 2013, Norræna lungnaþinginu NLC 2013 og á Evrópsku lungnaráðstefnunni ERS 2013.

 

Aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.


Hefur kæfisvefn áhrif á holdafar ?

 

þetta er athyglisverð grein,  og þá sérstaklega fyrir okkur sem erum með kæfisvefn.

Í greininni segir höfundurinn meðal annars: 

Ég fékk mér tæki (CPAP-Continuous Positive Airway Pressure) út af kæfisvefni. Margir sem eru of þungir eru með kæfisvefn. Það skapar hormónaumhverfi í líkamanum sem ýtir undir aukinn kílóafjölda, sem hækkar magn cortisol í líkamanum sem gerir það að verkum að líkaminn vill skyndibita. Um leið og ég fór að sofa með tækið leið mér betur og var með meiri orku og langaði minna í skyndibita. Auk þess fuku kílóin af mér og komu ekki aftur.

Lesist af varfærni....


mbl.is Missti 99 kíló án þess að fara í megrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Videó inni á heimasíðu SÍBS

 

Aðildarfélög SÍBS og fleyri hafa verið að framleiða myndbönd til kynningar á sjúkdómi sinna félagsmanna,  meðferð og fleyru.

Á heimasíðu SÍBS eru aðgengileg mörg af þessum myndböndum.

Kíkið inn á linkinn:  http://vimeo.com/sibs/videos/rss 

Mörg góð og fróðleg myndböndbönd.

Mynd VÍFILS  "Hrjóta ekki allir?,fræðslumynd um kæfisvefn á Íslandi" er því miður ekki þarna inni ennþá.  Vonandi verður fljótlega bætt úr því.

Kv.  Frímann Sigurnýasson

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband