Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 17. maí 2010
"Hafa þarf samráð fyrir niðurskurð" segir Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Landsambands fatlaðra
Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Landsambands fatlaðra segir að það skipti máli hvernig skorið er niður. Mikilvægt sé að haft sé samráð við samtök fatlaðs fólks ef skera á niður þjónustu við fatlaða.
Félagsmálaráðherra sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að óhjákvæmilegt væri að fækka starfsmönnum í velferðarkerfinu til að ná fram þeirri 40 milljarða króna hagræðingu í ríkisrekstri sem nauðsynleg er. Störfum muni meðal annars fækka í heilbrigðisþjónustu, skólum sem og þjónustu við fatlaða og aldraða.
Ragnar segir að það skipti öllu máli hvernig skorið er niður. Hafa þurfi samráð við samtök fatlaðs fólks. Einnig verði að hafa í huga að margt af því sem kallað sé þjónusta við fatlað fólk sé grunnþjónusta sem gerir fötluðu fólki kleift að vera þátttakendur í samfélaginu.
Ragnar segir að sum þjónusta sé þess eðlis að ekki sé hægt að skera hana niður. Ríkisstjórnin hafi samþykkt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðannna um réttindi fatlaðs fólks. Það feli í sér að gera þurfi lagabreytingar og leggja þessa fullgildingu fyrir Alþingi. Á sama tíma ætli menn að skera niður. Erfitt sé fyrir stjórnvöld að tengja þetta tvennt saman.
Ragnar segir að koma verði á framfæri upplýsingum og áætlun um hvernig eigi að skera niður án þess að unnið sé gegn þeim sáttmála sem búið sé að skrifa undir og standi til að fullgilda.
af ruv.is
undirstrikanir og innsett F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. maí 2010
Enn rýrnar velferðarkerfið hjá Norrænu-velferðarstjórninni.
Niðurskurðurinn hefur bitnað þyngra á lífeyrisþegum heldur en öðrum í samfélaginu. Líklega eru lífeyrisþegar breiðu bök samfélagsins, að áliti ríkisstjórnarinnar.
Nú þegar hafa sparnaðaraðgerðirnar í lyfjamálum leitt til mun minni lífsgæða margra sjúklinga og er þetta einna mest áberandi með astmasjúklinga. "Stjórnarlyfin" gætu leitt til þess að hluti þess hóps þurfi að leggjast inn á sjúkrahús til meðferðar þar sem "stjórnarlyfin" gangnast mun verr en lyfin sem fólkið var komið á eftir oft margra ára prófanir.
Biðlistar eftir aðgerðum eru að lengjast og þar með eykst hættan á að t.d. hjartasjúklingar lifi ekki af bið eftir aðgerð. Þetta er óafsakanlegt.
Nær væri að skattleggja séreignalífeyrir strax, og semja þá um að útgreiðsla hans muni ekki skerða greiðslur T.R. eða Lífeyrissjóðanna.
Einnig hefði mátt auka bolfiskkvótann og selja tímabundinn veiðirétt til að afla tekna í ríkissjóð.
Einnig er nýbúið að úthluta makrílkvóta, en hægt hefði verið að selja tímabundinn veiðirétt þar líka.
Þetta er ekki sú velferðarríkisstjórn sem stjórnarflokkarnir boðuðu.
F.S.
Velferðarþjónustan skorin niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. apríl 2010
Þarft að minna á gott fyrirtæki í svefnrannsóknum.
Á félagsfundi Vífils, félags einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir, fengum við góða kynningu á þessu fyrirtæki.
Svefnrannsóknartækið þeirra er einstaklega nett og þægilegt til svefnrannsókna.
Þegar Flaga flutti úr landi þá var tækniþekking þessara starfsmanna áfram í landinu og ávöxtur þeirra þróunarvinnu er nú orðin öflugt rannsóknartæki og farsæl markaðsvara.
Opinberum stirkjum til svona þróunarvinnu er vel varið og skilar þjóðinni störfum og verðmætum
F.S.
Atvinnulausir sérfræðingar í svefnrannsóknum tóku til sinna ráða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 10. janúar 2010
Gott fjör í æðum? Sunnudaginn 10. janúar verður opið hús kl. 13 - 16 í SÍBS húsinu, Síðumúla 6.
8. janúar 2010 18:00 |
Gott fjör í æðum? |
Opið hús og mælingar á sunnudag |
Sunnudaginn 10. janúar verður opið hús kl. 13 - 16 í SÍBS húsinu, Síðumúla 6. Kynning á Happdrætti SÍBS Þar gefst kostur á að fá ókeypis mælingar á blóðþrýstingi, blóðfitu og súrefnismettun. Allir eru velkomnir og þeir sérstaklega sem ekki þekkja gildi sín hvað þessa þætti varðar. Einnig gefst kostur á fræðslu um starfsemi SÍBS og aðildarfélaganna. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. nóvember 2009
Ályktun Umferðarráðs
Ályktun 228. fundar Umferðarráðs
228. fundur Umferðarráðs haldinn þann 29. október 2009 hvetur alla vegfarendur til að vera eins sýnilegir í umferðinni og kostur er í skammdeginu. Umferðarráð bendir á að endurskinsmerki gagnast mjög vel í þessu skyni. Þau eru ódýr og einföld í notkun. Umferðarráð áréttar að sérhver sem er á ferð í rökkri eða myrkri og ber endurskin sést margfalt betur og fyrr en sá sem er án þess. Foreldrar og forráðamenn barna eru hvattir til að sjá til þess að þau séu sýnileg á leið sinni í skólann á morgnana og einnig þegar þau eru á ferð síðdegis eða að kvöldlagi.
Umferðarráð minnir einnig á reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla þar sem fram kemur að reiðhjól skuli búin ljósi að framan og að aftan auk glitmerkja, ef þau eru notuð í myrkri eða skertu skyggni.
Umferðarráð beinir þeim tilmælum til ökumanna að aka ávallt eftir aðstæðum og huga sérstaklega að gangandi og hjólandi vegfarendum í myrkri.
Umferðarráð hvetur jafnframt menntastofnanir barna og ungmenna, gangandi vegfarendur, reiðhjólamenn og hestamenn til að leggjast á eitt með Umferðarráði, Umferðarstofu og lögreglu til þess að koma þessum málum til betra horfs svo bæta megi umferðaröryggi allra vegfarenda.
Innsett F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. október 2009
Nýr formaður ÖBÍ, Guðmundur Magnússon.
24.10.2009 http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/488
Guðmundur Magnússon var í dag kjörinn formaður Öryrkjabandalags Íslands, á aðalfundi þess.
Tvei voru í kjöri Guðmundur sem hlaut 43 atkvæði og Sigursteinn R. Másson sem hlaut 30 atkvæði.
Guðmundur er fulltrúi SEM samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra í stjórn ÖBÍ og var varaformaður ÖBÍ.
Í hans stað var kjörin til varaformanns í eitt ár, Hjördís Anna Haraldsdóttir frá Félagi heyrnarlausra.
Aðrir sem kjörnir voru í framkvæmdastjórn ÖBÍ að þessu sinni voru Grétar Pétur Geirsson, til gjaldkera.
Tveir meðstjórnendur þau Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra og Sigurður Þór Sigurðsson frá Ás styrktarfélagi.
Þrír varamenn voru kjörnir þau Frímann Sigurnýasson frá SÍBS, Halla B. Þorkelsson frá Heyrnahjálp og Sigrún Gunnarsdóttir Tourette samtökunum á Íslandi.
Innsett: F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. október 2009
Ályktun aðalfundar ÖBÍ - 24. október 2009
Ályktun aðalfundar ÖBÍ
Alvarlegt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur lagst mjög þungt á öryrkja. Þeir hafa orðið að þola skerðingar á framfærslulífeyri umfram aðra þegna þessa lands. Um áramótin síðustu voru bætur almannatrygginga hjá meirihluta lífeyrisþega skertar um allt að 10% og 1. júlí síðastliðinn voru greiðslur til fjölmargra skertar ennfrekar með nær engum fyrirvara. Þar að auki var þátttaka ríkisins í kostnaði við sjúkra-, iðju- og talþjálfun skert til muna nú 1. október.
Öryrkjar nutu ekki góðærisins og eiga því sérstaklega erfitt með að takast á við kreppu og kjaraskerðingar. Aðalfundur ÖBÍ skorar á ríkisstjórn vinstri grænna og samfylkingar að bæta öryrkjum þær skerðingar sem þeir hafa orðið fyrir sem fyrst.
ÖBÍ bindur vonir við að hugmyndir nefndar sem unnið hefur að breytingum á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu nái fram að ganga. Þær gera ráð fyrir því að landsmenn borgi aldrei meira en ákveðna upphæð á ári fyrir lyf og aðra heilbrigðisþjónustu.
ÖBÍ treystir því að nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins komi fram með tillögur sem einfalda kerfið, geri það sanngjarnara og bæti hag öryrkja og sjúklinga til muna. Mikilvægt er að bótaflokkurinn aldurstengd örorka verði áfram í gildi og önnur sértæk úrræði, s.s. umönnunarbætur, uppbót vegna mikils lyfjakostnaðar og bensínstyrkur. Draga þarf verulega úr tekjuskerðingum á ný. Víxlverkunum á milli almannatrygginga og lífeyrissjóðakerfisins til öryrkja verður að linna. Það er ótækt að lífeyrissjóðir skerði réttindi fólks vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu.
Notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) er brýnt að koma á sem fyrst. Stór hópur fatlaðra þarf að vera heima í dag þar sem félagsþjónusta fer einungis fram á heimilum fólks. NPA er úrræði fyrir þennan hóp, auk þess að vera atvinnuskapandi, fyrir fjölbreyttan hóp, um allt land. NPA gerir fötluðum kleift að vera virkir samfélagsþegnar á eigin forsendum, frjálsir og ábyrgir. Við leggjum til að þjónustan verði veitt þar sem fólk kýs.
Ekkert um okkur, án okkar!
Innsett F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. október 2009
Öryrkja vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála 2006.
Rúnar Vilhjálmsson, félagsfræðingur birtir niðurstöður sínar úr rannsókn sem hann hefur gert um, Bein útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðismála, í Læknablaðinu 10 tbl. 95. árg. 2009.
Rannsókn sína byggir Rúnar m.a. á tveimur heilbrigðiskönnunum sem fram fóru 1998 og 2006. Meðalútgjöld heimila vegna heilbrigðismála og kostnaðarbyrði (hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum) voru borin saman milli hópa og ára. Hér verður stiklað á stóru í niðurstöðum Rúnars.
Bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála árið 2006 voru mjög breytileg. Lægst voru þau 0 krónur, en hæst rúmar 402.000 krónur (staðalfrávik: 67.600).
Útgjöldin jukust að raungildi um 29% á tímabilinu frá 1998 til 2006, úr tæpum 82.000 að meðaltali í tæp 106.000. Jafnframt hækkaði kostnaðarbyrði heimila (heilbrigðisútgjöld í hlutfalli við heildartekjur heimilis) úr 1,82% að meðaltali árið 1998 í 2,52% árið 2006.
Heimilisútgjöld langveikra (3,07%) voru hærri en annarra, en þó sérstaklega öryrkja sem vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála.
Stærstu útgjaldaliðir 2006 voru lyf, tannlæknisþjónusta, tæki og lyfjabúðarvörur, og læknisþjónusta (í þessari röð).
Færa má rök fyrir því að gjöld sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu séu komin á varasamt stig með hliðsjón af markmiðinu um jafnt aðgengi. Nýlegar rannsóknir hérlendis sýna að þeir sem hafa hærri krónutöluútgjöld vegna heilbrigðismála, og þó einkum þeir sem hafa hærra hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum, fresta frekar en aðrir læknisþjónustu þó þeir telji sig hafa þörf fyrir þjónustuna.
Stjórnvaldsákvarðanir er varða hækkanir á komugjöldum og öðrum þjónustukostnaði sjúklinga og takmarkanir á endurgreiðslu vegna lyfja eru iðulega teknar án þess að fram fari greining á áhrifum breyttrar skipanar, meðal annars með tilliti til kostnaðar sjúklinga og aðgengis að þjónustu.
Þörf virðist á heildstæðari tryggingaverndarstefnu. Þannig virðist sem tryggingavernd öryrkja sé alls ófullnægjandi (þrátt fyrir gildandi almennar reglur) og ástæða til að auka enn frekar vernd þessa hóps.
Loks er full ástæða til að endurskoða gildandi reglur og framkvæmd varðandi endurgreiðslur samanlagðra heilbrigðisútgjalda heimila, en mjög fá heimili sækja um og fá slíkar endurgreiðslur.
Greinin í heild sinni á heimasíðu Læknablaðsins (opnast í nýjum glugga)
Innsett F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 3. október 2009
Skerðingar á kjörum öryrkja
Fréttablaðið, 03. okt. 2009 06:
http://www.visir.is/article/20091003/SKODANIR03/517700326
Lilja Þorgeirsdóttir skrifar um velferðarmál
Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum voru samþykkt á Alþingi þann 29. júní sl. Breytingarnar voru framkvæmdar til að ná fram sparnaði í ríkisfjármálum á methraða. Tveir dagar liðu frá því að lögin voru samþykkt þar til fjöldi öryrkja og ellilífeyrisþega varð fyrir skerðingum á bótum almannatrygginga.
Lögin fólu m.a. í sér að tekjutengingar jukust þannig að bætur almannatrygginga skertust meira og fyrr en áður. Þá var einnig brotið blað í sögunni þegar lífeyrissjóðstekjur tóku að skerða grunnlífeyri" og einnig bótaflokkinn aldurstengd örorkuuppbót". Breytingin gat jafnframt leitt til þess að fólk missti ákveðin réttindi sem þeim fylgdu s.s. niðurgreiðslu á sjúkraþjálfun, tannlæknakostnað, iðjuþjálfun o.fl.
ÖBÍ mótmælti því harðlega að ráðist væri á almannatryggingakerfið með þessum hætti en stór hópur örorkulífeyrisþega varð fyrir talsverðum skerðingum á tekjum með nánast engum fyrirvara. Dæmi voru um að skerðingarnar væru hlutfallslega meiri en hátekjuskatturinn sem lagður var á launþega með yfir 700.000 kr. í launatekjur á mánuði.
Það er öllum ljóst að erfiðleikar blasa við þjóðinni í kjölfar bankahrunsins. Forsætisráðherra tilkynnti að skera þyrfti niður í ríkisútgjöldum með því að lækka hæstu launin, setja á hátekjuskatt og endurskoða fastlaunasamninga hjá ríkisstarfsmönnum. En tekið var sérstaklega fram að ekki yrði hreyft við launum undir 400.000 kr. á mánuði. Sú ákvörðun er skiljanleg, enda hafa þeir sem eru með hærri tekjur að öllum líkindum meira svigrúm til að taka á sig þyngri byrðar en hinir. Því kom það á óvart þegar bætur örorkulífeyrisþega voru skertar, þar sem tekjur flestra þeirra eru vel undir þessum mörkum.
Skerðingin á bótum almannatrygginga hófst hjá örorkulífeyrisþegum sem búa með öðrum við tæpar 160.000 kr. í heildartekjur á mánuði fyrir skatt og hjá þeim sem búa einir hófst skerðingin við rúmar 180.000 kr. á mánuði. Í dæmum sem starfsfólk ÖBÍ reiknaði út voru skerðingar af heildartekjum öryrkja, þ.e. bætur almannatrygginga og greiðslur úr lífeyrissjóði, í prósentum talið á bilinu 0,1-7,7%.
Þessar skerðingar koma sérstaklega illa við þennan hóp sem hefur litla sem enga möguleika á að auka tekjur sínar sökum fötlunar eða sjúkdóma. Hafa ber í huga að bætur lífeyrisþega eru framfærsla, oft á tíðum, til langs tíma, hjá mörgum allt lífið. Einnig er fólk með örorkumat að jafnaði með hærri útgjöld en aðrir vegna lyfja- og lækniskostnaðar, sjúkra- og iðjuþjálfunar o.fl. en þessi útgjöld hafa hækkað verulega undanfarið. Jafnframt hefur fjöldi lífeyrissjóða lækkað greiðslur til öryrkja um 7-10% í kjölfar bankahrunsins. Þá varð meirihluti lífeyrisþega fyrir allt að 10% skerðingu á bótum almannatrygginga 1. janúar sl. vegna bráðabirgðaákvæðis í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
Slíkar skerðingar eru ómannúðlegar. Það er sérstaklega mikilvægt á tímum kreppu og niðurskurðar að standa vörð um þá sem standa höllum fæti í samfélaginu og hafa lægstu tekjurnar. Langtímafátækt hefur slæm áhrif á heilsu fólks, sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og eykur kostnað ríkisins til lengri tíma litið. Því er það óásættanlegt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar taki á sig hlutfallslega meiri byrðar en aðrir. Skjaldborgin" um heimilin í landinu virðist ekki eiga að ná til lífeyrisþega þrátt fyrir að þeir séu, eins og aðrir, með heimili, börn á sínu framfæri og aðrar skuldbindingar eins og aðrir
Starfsfólk skrifstofu ÖBÍ fær reglulega símtöl frá öryrkjum sem eru ósáttir við sitt hlutskipti. Margir hverjir hafa búið við kröpp kjör í mörg ár og eiga sérstaklega erfitt með að láta enda ná saman í kreppunni. Lífeyrisþegar urðu líka fyrir áföllum í hruninu. Margir hafa tapað sparifé og hlutabréf urðu að engu. Húsnæðis- og bílalán þeirra hafa líka hækkað.
Þeir stjórnmálaflokkar sem nú eru við völd lýstu því yfir fyrir síðustu kosningar að þeir ætluðu að verja velferðarkerfið. Þau loforð hafa ekki staðist nema síður sé. ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld afturkalli þær skerðingar sem lífeyrisþegar urðu fyrir á þessu ári. Fjármálakreppan er því miður staðreynd og spara þarf í ríkisfjármálum, en það er ekki sanngjarnt að öryrkjar taki á sig hlutfallslega þyngri byrðar en aðrir, nú þegar síst skyldi. Það er hvorki stjórnvöldum né þjóðinni til sóma.
Höfundur er framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands.
innsett F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
2 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar