Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 30. desember 2011
Aðför ríkisins að lífeyrisþegum.
Ég skil ekki af hverju verkalýðshreyfingin stendur ekki betur vörð um lífeyrissjóðina og lífeyrisþegana.
Það var ekki tilgangur sjóðanna að vera til að spara ríkinu útgjöld heldur áttu sjóðirnir að bæta afkomu lífeyrisþeganna. Greiðslur frá lífeyrissjóðunum áttu að vera viðbót við greiðslur frá TR.
Örorkulífeyrisþegar þurfa að stofna sérstakar deildir innan stéttarfélaganna til þess að gæta sinna hagsmuna. Þetta þarf að vera rætt í tengslum við gerð kjarasamninga til að stöðva þetta rán ríkisins.
F.S.
Margir fá ekkert frá TR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 24. október 2011
Það þarf alltaf að vera að "vakta" aðgerðir stjórnvalda gagnvart öryrkjum.
Þetta er ekki ný umræða. Aftur og aftur eru skipaðar nefndir til að skoða þessi mál, með það að markmiði að einfalda kerfið en samt tryggja afkomu öryrkja. Gallinn við þetta allt er að þetta má ekki kosta neitt. Þetta var líka svona fyrir bankahrun svo að þetta er ekki hruninu að kenna. Samt hefur ímislegt mjakast áleiðis en alltaf eru stjórnvöld að líta í baksýnisspegilinn og skoða hvernig hægt sé að lækka kostnaðinn.
19. ágúst 2009 sendi aðalstjórn ÖBÍ frá sér umsögn um skírslu nefndar um breytingar á lífeyriskerfinu: Nýskipan almannatrygginga
Þar segir ÖBÍ m.a.
"Að lokum vill ÖBÍ leggja áherslu á nokkur atriði sem skipta máli við einföldunina:
Aldurstengd örorka.
Bótaflokkurinn aldurstengd örorka er afar mikilvægur bótaflokkur fyrir þá sem fæðast eða fatlast snemma á lífsleiðinni og hafa ekki náð að vinna sér inn réttindi í lífeyrissjóðum. Þennan hóp verður að passa sérstaklega í nýju almannatryggingakerfi. Það má með mörgum rökum halda því fram að fyrrgreindur hópur eigi að fá hærri greiðslur úr almannatryggingum en aðrir vegna stöðu sinnar. Þetta kemur fram í skýrslunni en við viljum leggja sérstaka áherslu á það. ÖBÍ leggur jafnframt áherslu á að aldurstengd örorka skerðist ekki vegna tekna og haldi áfram eftir 67 ára aldur."
Af sama tilefni kom 31. ágúst 2009 frá Þroskahjálp:
"Aldurstengd uppbót á lífeyri.
Landssamtökin Þroskahjálp vilja standa sérstaklega vörð um þennan bótaflokk þar sem margir af skjólstæðingum samtakanna hafa búið við fötlun frá fæðingu. Tilkoma þessa bótaflokks var mikið réttlætismál á sínum tíma og tilraun til að jafna ævikjör. Til að svo geti orðið þarf aldurstengda uppbótin að koma sem viðbót við lágmarksframfærslu. Með tilkomu hærra frítekjumarks vegna lífeyristekna er ennþá meira réttlæti í aldurstengdri uppbót sem kemur þeim mest til góða sem hafa litlar sem engar greiðslur úr lífeyrissjóðum".
Það er ekki langt síðan þessi samtök voru að álykta um þetta og fleyra.
Enn er full ástæða til að "vakta" skerðingarhugmyndir stjórnvalda.
Vf: F.S.
Breyta aldurstengdri örorku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.10.2011 kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. ágúst 2011
Er verðtryggingin svikamylla ?
Guðbjörn Jónsson ráðgjafi hefur skoðað hvort verðtrygging, í núverandi formi, sé lögleg. Hann hefur næu gert þrjú myndbönd sem nálgast má á www.youtube.com .
Ég tek undir hans ábendingar og hvet ykkur öll til þess að skoða myndböndin og meta svo hans athugasemdir við núverandi framkvæmd og mér sýnist að bankakerfið sé að hlunnfara viðskiptavini sína með ólöglegum útreikningum á verðtryggingu.
Hér er stórmál á ferðinni og full ástæða til að láta reyna á hvort verðtryggingin standist lög og hvort núverandi reikningskúnstir bankakerfisins á verðtryggðum lánum standist lög.
Myndbönd Guðbjörns Jónssonar má nálgast á:
http://www.youtube.com/watch?v=ATOYpV8NVr8
http://www.youtube.com/watch?v=BKpdiYG8pnQ
http://www.youtube.com/watch?v=M3xfp7ke5po
Ég hvet ykkur til að horfa á öll myndböndin og svo getið þið kveðið upp ykkar úrskurð.
Ég fagna þessu frumkvæði Guðbjörns og þakka honum fyrir að hafa lagt á sig alla þá vinnu sem gerð myndbandanna kallar á.
Þess má geta að Guðbjörn starfar innan ÖBÍ og er nú í bakhóp um lög um almannatryggingar. Öflugur félagi þar.
Kv. Frímann Sigurnýasson
Hagsmunasamtökin standa við útreikninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 20. nóvember 2010
Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar.
Af: OBI.is
Heilbrigðisráðuneytið
b.t. Ingunnar Björnsdóttur
Vegmúla 3
150 Reykjavík
Reykjavík, 12. nóvember 2010
Efni: Umsögn um drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur fengið til umsagnar drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar frá október 2010. Frestur til að skila umsögninni er til mánudagsins 15. nóvember.
Inngangur
ÖBÍ fagnar því að drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi séu komin út, sem boðar breytingu á núverandi kerfi. Miðað við framkomnar tillögur verður kerfið mun einfaldara en það er í dag og er von okkar að kerfisbreytingin verði sem allra fyrst. Ánægjulegt er að sjá að sérstakt viðmið verði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega eins og fram kemur í tillögum 1 og 2. Tillaga 3 kemur ekki til greina að okkar mati.
Breytingin sem boðuð er á kerfinu í heild sinni er jákvæð. Mikilvægt er að greiðsla fylgi sjúklingum en ekki lyfjum, þannig að aukið jafnræði ríki meðal fólks, óháð sjúkdómum. Einnig er mikilvægt að hámark greiðsluþátttöku einstaklinga sé skilgreint og að hægt sé að sækja um lyfjaskírteini þegar því hámarki er náð. Við fögnum því að sýklalyf verði tekin með inn í greiðsluþátttökukerfið, því sýkingar eru oft aukaverkanir ýmissa sjúkdóma. Nauðsynleg lyf vegna aukaverkana, t.d. magalyf, sem fylgja oft langvarandi notkun annarra lyfja eða notkun eldri og ódýrari lyfja þarf einnig að taka inn í kerfið.
ÖBÍ vill þó benda á að ekki er ráðgert að setja aukið fjármagn inn í nýtt kerfi heldur munu fjölmargir sjúklingar greiða meira en áður fyrir lyf sín til að fjármagna aukna niðurgreiðslu hjá öðrum sjúklingum. Slíkt fyrirkomulag kemur sér vel fyrir þá sem eru með verulegan lyfjakostnað þar sem ekkert þak er á því hversu hár lyfjakostnaður getur orðið. En fyrirhuguð breyting kemur niður á þeim sjúklingum sem í dag greiða lægra gjald.
Vert er að benda á að margir sjúklingar þurfa ýmis hjálpartæki sem fylgja lyfjatöku og kostnaði því samfara. Sá kostnaður telst ekki vera vegna lyfja heldur sem hjálpartæki. ÖBÍ leggur áherslu á að sá kostnaður verði skoðaður samhliða breytingu á kerfinu þar sem útgjöld vegna lyfja er aðeins hluti af þeim kostnaði sem sjúklingar verða fyrir. Nauðsynlegt er að fá heildarsýn yfir stöðu mála.
Athugasemdir við ýmis atriði skýrslunnar
Mjög gott er að tekið verður á fjöllyfjanotkun skv. skýrslunni. Hins vegar þarf að huga að því að þegar fólk greinist með sjúkdóma hefst, í mörgum tilvikum, leitun að rétta lyfinu þar sem að hagkvæmustu lyfin henta ekki öllum. ÖBÍ leggur áherslu á að heimild til notkunar annarra lyfja sé virt, m.a. vegna aukaverkana og öryggis, því er sveigjanleiki lyfjaskírteina nauðsynlegur. Þegar lyf eru tekin fyrirvaralaust úr greiðsluþátttöku þurfa að vera skýr og gegnsæ rök fyrir því sem öllum eru aðgengileg. Eins og áður sagði virka sum lyf betur en önnur fyrir ákveðna einstaklinga og því er það alvarlegt mál að taka lyf fyrirvaralaust út.
Í skýrslu vinnuhópsins er talað um kostnaðarvitund sjúklinga og hvatann til að velja ódýrari lyf sem getur í mörgum tilvikum verið jákvætt. En bent er á að margir sjúklingar hafa ekkert val og taka þarf sérstaklega tillit til þess hóps hvað kostnaðarþátttöku varðar við breytingu á kerfinu.
Við upphaf lyfjameðferðar hafa lyf oft verið afgreidd í mjög stórum skömmtum þrátt fyrir að ekki sé vitað hvort lyfið henti viðkomandi eða ekki. Ef í ljós kemur að viðkomandi lyf hentar ekki þá fer hugsanlega rúmlega helmingur lyfsins í ruslið. Huga ætti að því að veita meira svigrúm varðandi stærðir lyfjaskammta svo hægt sé að afgreiða minna af fyrsta skammti af nýju lyfi. Með því móti má spara töluvert fjármagn sem annars færi til spillis.
Í skýrslunni eru taldir upp þeir aðilar sem halda þarf fundi með. Ánægjulegt er að sjá Öryrkjabandalagið þar upp talið en það gleymist að félög sjúklinga hafa hagsmuna að gæta og ættu að vera sjálfsagður markhópur kynningar. Veitendur þjónustunnar eiga að upplýsa sjúklinga um fyrirhugaðar breytingar. Hingað til hefur upplýsingaflæði til sjúklinga ekki verið nógu gott og mætti bæta, m.a. er heimasíða Sjúkratrygginga helst til flókin.
Sá gagnagrunnur sem notaður verður til að halda utan um upplýsingar þarf að vera mjög vel varinn og ekki ætlaður til að setja inn aðrar upplýsingar en upphaflegur tilgangur segir til um. Fólk ætti að geta farið inn á sína eigin lyfjagátt á sama hátt og farið er inn í heimabanka eða síður ríkisskattstjóra og geta fylgst með eigin upplýsingum ásamt upplýsingum um kostnað og lyf.
Úttekt og eftirlit
Mikilvægt er að gerð verði úttekt á kerfinu svo hægt sé að gera sér grein fyrir virkni þess. Úttekt þarf að gera þegar kerfið er sett upp og aftur að ári liðnu. Sú úttekt ætti ekki að vera eingöngu á hendi landlæknisembættisins, því það embætti er fulltrúi kerfisins. Sjúklingar ættu einnig að hafa sinn fulltrúa í eftirliti með kerfinu, sbr. Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Búa þyrfti til embætti umboðsmanns sjúklinga eins og gert hefur verið á norðurlöndum.
Lokaorð
ÖBÍ lítur á þessar breytingar sem fyrsta skrefið í átt að jafnræði. Með fyrirhuguðum breytingum verður kerfið markvissara og gagnast frekar þeim sem þurfa mest á þjónustunni að halda.
ÖBÍ leggur áherslu á að í framhaldi af þessu þarf að skoða sem allra fyrst greiðsluþátttöku sjúklinga í hjálpartækjum, læknisheimsóknum, sjúkra-, iðju- og talþjálfun ásamt tannlæknakostnaði. Lyfjakostnaður er einungis hluti af þeim kostnaði sem öryrkjar og langveikir þurfa að greiða vegna sinnar fötlunar og/eða sjúkdóma.
Rétt er að ítreka það að tillögur nefndarinnar um nýtt greiðsluþátttökukerfi byggja á hagræðingu innan sjálfs kerfisins, þannig að niðurgreiðslur á lyfjum koma frá sjúklingunum sjálfum þar sem ekkert aukafjármagn kemur til af hendi ríkisins. Eðlilegra væri að laga kerfið og auka jafnræði með öðrum hætti með allt samfélagið í huga þ.e. í gegnum skattkerfið. Með því móti væri hægt að halda lyfjakostnaði sjúklinga í lágmarki.
Virðingarfyllst,
f.h. Öryrkjabandalags Íslands
________________________
Guðmundur Magnússon
formaður
innsett/F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 20. nóvember 2010
Greytt fyrir táknmálstúlkun viðskiptavina Tryggin
Oft er spurt til hvers eru öll þessi sjúklingafélög?? Þau gera ekki neitt hvort sem er.
Hér hefur Félag heirnarlausra náð að tryggja heyrnarlausu fólki ókeypis táknmálstúlk þegar það fer í viðtal í TR.
Öll réttindi sem fólk hefur eru tilkomin vegna baráttu og réttindunum verður einungis viðhaldið með því að vera á var...ðbergi og berjast fyrir réttindunum þegar þess þarf.
Sjúklingafélög eru nauðsinleg m.a. til svona réttindagæslu.
Ég óska Félagi Heyrnarlausra til hamingju með árangurinn.
Ritað/Innsett F.S.
Greitt fyrir táknmálstúlkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. október 2010
Ályktun Öryrkjabandalags Íslands 23. október 2010
Öryrkjabandalag Íslands skorar á Alþingi að innleiða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fyrst og gera þær breytingar á lögum sem þarf samkvæmt nefnd um innleiðingu samningsins. Þar með talið lög er tryggja Notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og að fjármagn fylgi einstaklingnum eftir að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga hefur farið fram.
Þær gífurlegu skerðingar sem gengið hafa yfir öryrkja frá bankahruni eru óásættanlegar. Hækka verður lífeyrisgreiðslur um 20% (kr. 36.000,-) og draga til baka þær skerðingar sem settar voru 1. júlí 2009. Taka þarf tillit til að öryrkjar, fatlað fólk og langveikir, búa oft við mikinn auka kostnað vegna fötlunar, veikinda og ferða þeirra er búa á landsbyggðinni. Skattleysismörk hækki í kr. 160.000,- og sett verði lög er koma í veg fyrir lækkun lífeyrisgreiðslna vegna víxlverkana greiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Hætta verður að skattleggja verðbætur eins og um sé að ræða vexti og hækka þak á frítekjumarki fjármagnstekna lífeyrisþega.
Öryrkjabandalag Íslands mótmælir harðlega þeim áformum að skerða húsaleigubætur, þar sem húsnæðiskostnaður fylgir verðlagi á meðan lífeyrir er frystur eða skertur.
ÖBÍ kallar eftir skilningi stjórnvalda og heildarsýn á kjörum og aðstæðum öryrkja og langveikra.
Ekkert um okkur án okkar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. október 2010
Áskorun aðalfundar ÖBÍ 23. október 2010
ÁSKORUN TIL RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn í Reykjavík 23. október 2010, fer eindregið þess á leit við ríkisstjórn Íslands að sparnaður á sviði heilbrigðismála undanfarin tvö ár verði tekinn til endurskoðunar.
Sterkar vísbendingar eru til um að nokkrar þessara sparnaðaraðgerða muni ekki skila tilætluðum árangri heldur aðeins rýra lífsgæði sjúklinga og öryrkja. Ríkur skilningur er á, að nú um stund, þurfi að gæta aðhalds í útgjöldum til heilbrigðismála. Krafa okkar er þó sú að samfélagslegur ávinningur sé meiri en kostnaður.
Fundurinn leggur áherslu á að þessi endurskoðun hefjist eins fljótt og auðið er og henni verði lokið eigi síðar en 3. janúar 2011.
(Áskorun þessi var borin fram af SÍBS og hafði deginum áður verið samþikkt á þingi SÍBS. Undirstrikanir og leturbreytingar eru mínar. Innsett FS )
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. maí 2010
Ályktun Aðalstjórnar ÖBÍ um tillögur félags- og tryggingamálaráðherra um niðurskurð í félagslega kerfinu.
Fyrirhuguðum niðurskurði mótmælt harðlega
http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/568
18.5.2010
Aðalstjórnarfundur ÖBÍ samþykkti samhljóða harðorða ályktun um tillögur félags- og tryggingamálaráðherra um niðurskurð í félagslega kerfinu.
Ályktun aðalstjórnar ÖBI þriðjudaginn 18. maí 2010
Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir harðlega að enn á ný skuli þessi ríkisstjórn sem kennir sig við velferð" ráðast að félagslega kerfinu með því offorsi sem félags- og tryggingamálaráðherra boðaði síðastliðinn föstudag 14. maí. Kominn er tími til að leggja af verðmætamat frjálshyggjunnar.
Allt frá janúar 2009 hafa lífeyrisþegar orðið að bera hlutfallslega mestar byrðar vegna bankahrunsins, þar sem óprúttnir fjárglæframenn mökuðu krókinn á kostnað skattborgaranna. Allt síðastliðið ár dundu skerðingar á örorku- og ellilífeyrisþegum í formi skerðinga á lífeyri eða auknum lyfjakostnaði og hækkun komugjalda.
Það er skýlaus krafa Öryrkjabandalags Íslands að ríkisstjórnin láti af þeirri aðför sem hún hefur stundað gegn lífeyrisþegum og láglaunafólki, en fari að forgangsraða að nýju með félagsleg gildi í fyrirrúmi.
innsett F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. maí 2010
Guðmundur Magnússon: Er ekkert að marka ráðherra?
Fréttablaðið, 19. maí. 2010 06:00
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ.
Þegar ráðist var á öryrkja og aldraða um mitt ár í fyrra fullyrti félags- og tryggingamálaráðherra að ...það væri betra að fá skellinn strax heldur en smátt og smátt". Það er ekki liðið árið þegar sami ráðherra kemur í fjölmiðla og lýsir því yfir að nú standi til að draga enn frekar úr velferðarkerfinu: "...að spara þar um 6% og fækka störfum" sem að sjálfsöðu þýðir minni þjónusta við einmitt þá er verst eru settir, þá sem erfiðast eiga með breytingar, sem eru viðkvæmastir í þjónustu o.s.frv.!
Árni Páll Árnason. Það er ekki nóg að tala fjálglega á fundum og lofa bættri þjónustu, tryggja öllum mannréttindi og heita því að allir fái að sitja við sama borð, hvað þjónustu varðar. Nú er, svo notaður sé orðaforði íþróttafréttamanna: rétt að þú takir þér tak og gyrðir í brók, látir hendur standa fram úr ermum og raunverulega VERJIR VELFERÐARKERFIÐ!!! Eins og þessi stjórn lofaði og hefur marg oft stagast á að hún vilji gera.
Um síðustu helgi var haldið málþing í þjóðfundarstíl um fátækt á íslandi að frumkvæði European Anti Poverty Network (EAPN) og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Um sama leyti kemur út skýrsla Rauða kross Íslands, Hvar þrengir að?", en þar kennir ýmissa grasa. Þeir hópar sem verst standa eru: atvinnuleitendur með litla menntun, barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar með lágar tekjur, innflytjendur sem tala litla íslensku, öryrkjar sem eru með börn á framfæri og börn og unglingar sem skortir tækifæri, t.d. vegna fátæktar, bakgrunns og/eða stöðu forsjáraðila.
Lífeyrisþegar sem aldrei hafa haft mikið hafa verið skertir markvisst síðan janúar 2009 bæði í almannatryggingakerfinu sem og hjá lífeyrissjóðunum sem hafa gengið hvað harðast að láglaunafólki sem vegna veikinda eða fötlunar á rétt á greiðslum úr lífeyrissjóðum sem það hefur greitt í allan sinn vinnutíma. En með hókus pókus" reglum hafa lífeyrissjóðirnir komist upp með að láta almannatryggingakerfið greiða sjóðunum milljarð á ári sem niðurgreiðsla, án þess að bótaþegar fái það í sinn vasa.
Nei, nú er komið nóg! Fyrir rúmu ári var svo kölluð búsáhaldabylting, en nú er komið að hækju- og hjólastólabyltingunni:
Öryrkjar allra landa sameinist." Það er ófært að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð sjái engin önnur úrræði en ráðast á þá er erfiðast hafa það fyrir, hvort sem þeir kallast öryrkjar, atvinnuleitendur eða láglaunafólk.
Innsett F.S.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 19. maí 2010
Eigi skal aftur höggva.........
Er ekki komið nóg af álögum á lífeyrisþega og niðurskurði tryggingabóta og þjónustu við þá.?
Ísland er búið að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna um þjónustu við fatlaða, og það kostar peninga að laga þjónustuna að því sem þar er ætlast til.
Ljóst er að stórir hópar fatlaðra eru nú að fá minni og lakari þjónustu heldur en núgildandi lög gera ráð fyrir. Það kostar peninga að bæta úr því.
Boðaður niðurskurður veldur því að sjúkir og fatlaðir fá ekki lögbundna þjónustu.
Biðlistar eftir lífsnauðsinlegri heilbrigðisþjónustu eru að lengjast, líf fjölda manns er í hættu vegna þess.
Þetta er ekki ástand sem er hægt að sætta sig við.
Svo er verið að reyna að plata sveitafélögin til að taka yfir þjónustu við fatlaða !
Í mínum huga er þetta orðið spurning um að virða rétt fólks til mannsæmandi lífs og almennilegrar heilbrigðisþjónustu.
Ísland er að fjarlægjast öll slík markmið og viðmið með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og það er ekki ásættanlegt.
F.S.
Árás stjórnvalda á félagslega kerfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
2 dagar til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar