Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stefna í málefnum aldraðra til næstu ára

27.6.2008      http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3862  

Frá áramótum hefur félags- og tryggingamálaráðherra farið með yfirstjórn öldrunarmála. Í því felst að annast stefnumótun og áætlanagerð fyrir landið í heild og beita sér fyrir almennri umræðu og kynningu á stöðu og valkostum aldraðra. Stefnumótun liggur nú fyrir.

Ráðgjafarhópur sem félags- og tryggingamálaráðherra fól að gera tillögur um helstu áherslur sem leggja bæri til grundvallar við mótun stefnu í málefnum aldraðra til næstu ára hefur skilað tillögum sínum. Þar eru grundvallaráherslurnar skýr réttindi, fjölbreytt úrræði, valfrelsi og einstaklingsmiðuð þjónusta.

Tillögurnar voru fengnar samstarfsnefnd um málefni aldraðra til umsagnar og tekur samstarfsnefndin undir tillögur ráðgjafarhópsins og þau markmið sem búa þar að baki og lúta að bættri þjónustu og aukinni uppbyggingu í þágu aldraðra.

Í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá maí 2007 og tillagna ráðgjafarhópsins og vinnu sem fram hefur farið í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að undanförnu hefur félags- og tryggingamálaráðherra sett fram eftirfarandi áhersluatriði sem unnið verður að á næstu misserum:

  • Aldraðir fái viðeigandi stuðning og einstaklingsmiðaða þjónustu til að geta dvalið sem lengst á eigin heimili.
  • Aldraðir og aðstandendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi og þjónustu.
  • Almannatryggingakerfið verði einfaldað og réttindi aldraðra verði betur skilgreind.
  • Réttur aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfsforræðis verði virtur.
  • Öldruðum standi til boða fjölbreytt val búsetuforma.
  • Dagvistar-, hvíldar- og skammtímarýmum verði fjölgað.
  • Gæðaviðmið um þjónustu við aldraða verði sett.
  • Eftirlit með þjónustu við aldraða verði aukið og bætt.
  • Nýjar áherslur verði teknar upp við uppbyggingu hjúkrunarheimila og endurbætur á eldra húsnæði.
  • Greiðsluþátttöku aldraðra í hjúkrunar- og dvalarrýmum verði breytt þannig að aldraðir haldi fjárhagslegu sjálfstæði og greiðslur vasapeninga lagðar af.
  • Hjúkrunarrýmum verði fjölgað til að mæta þörf.
  • Fjölbýlum á hjúkrunarheimilum verði útrýmt að mestu leyti.
  • Tryggt verði að öldrunarþjónustan hafi ávallt á að skipa hæfu og metnaðarfullu starfsfólki.
  • Heildarábyrgð á þjónustu við aldraða verði færð til sveitarfélaga eigi síðar en á árinu 2012.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur undanfarna mánuði verið unnið að gerð tímasettrar áætlunar um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og verulegri fækkun fjölbýla. Áætlunin verður kynnt innan tíðar. 

Tillögur ráðgjafarhóps til félags- og tryggingamálaráðherra um stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára (PDF, 627KB)

Umsögn samstarfsnefndar um málefni aldraðra um tillögur hópsins (PDF, 967KB) 

 

(  Öll verðum við gömul og stór hluti virkra félagsmanna Vífils eru jafnframt eldri borgarar.  Því fannst mér ástæða til að benda á þessa fréttatilkynningu Félagsmálaráðuneytisins.  Ég mæli með því að allir kynni sér plöggin tvo sem nefnd eru í fréttinni, og eru linkar inn á plöggin hér ofar.   Hvort sem við erum sammála því sem er verið að stefna að þá er alltaf betra fylgjast með stefnum og straumum, og jafnvel að senda bréf og benda á sínar hugmindir.                              Innsett+eftirmálu  F.S.  )


Fjölgun leiguíbúða

27.6.2008    http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3863  

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um að veita 5 milljarða króna lánsfjárheimild til Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða. Ákvörðunin er tekin á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði frá 19. júní síðastliðnum. Heimildin nær til leiguíbúðalána á almennum markaði vegna söluíbúða sem ekki seljast. Leiguíbúðalán verða veitt aðilum í þeim sveitarfélögum þar sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði er fyrir hendi.

Lánað verður til íbúða sem hafa náð að minnsta kosti fokheldisstigi 1. júlí 2008. Til að takmarka útlánaáhættu Íbúðalánasjóðs vegna lánanna verða ekki veitt lán til íbúða í sveitarfélögum þar sem leiguíbúðir fjármagnaðar af Íbúðalánasjóði standa auðar. Uppfylli íbúðirnar þessi skilyrði getur Íbúðalánasjóður veitt lánsvilyrði en lánin greiðast út þegar íbúðirnar eru fullbúnar og þinglýstur leigusamningur til eins árs liggur fyrir.

Félags- og tryggingamálaráðherra mun óska eftir því við stjórn Íbúðalánasjóðs að sjóðurinn hefji lánveitingar í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar

( Innsett F.S. )


Ráðgjafahópur skipaður um bólusetningar og skimanir vegna smitsjúkdóma og krabbameina

23.6.2008          http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2824    

Heilbrigðisráðherra hefur skipað ráðgjafahóp um bólusetningar og skimanir vegna smitsjúkdóma og krabbameina. 

Tilgangur vinnu ráðgjafahópsins er að fara yfir og meta forvarnir á borð við bólusetningar og skimanir í tengslum við nýja heilsustefnu. Hópurinn skal eins og kostur er leitast við að leggja mat á kostnaðarhagkvæmni bólusetninga og skimana fyrir lýðheilsu Íslendinga almennt og skilgreina betur hvernig best sé að standa að málum. Hópurinn var skipaður þann 18. júní 2008 og skal skila tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. október 2008. 

Ráðgjafahópurinn er þannig skipaður: 

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, formaður
Ásgeir Theódórs, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum
Kristján Sigurðsson, yfirlæknir leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands
Sigurður B. Þorsteinsson, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri, heilbrigðisráðuneytinu
Tinna Ásgeirsdóttir, lektor í heilsuhagfræði við viðskipta- og hagfræðideild H.Í.
Vilhjálmur Rafnsson, prófessor í heilbrigðisfræði og fyrirbyggjandi læknisfræði við læknadeild H.Í.
Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á bólusetningasviði hjá sóttvarnalækni.
 

( Innsett  F.S. )


Íslendingar og Svíar auka samstarf sitt á lyfjasviði

3.6.2008  http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2812 

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og sænskur starfsbóðir hans undirrituðu viljayfirlýsingu um aukið samstarf í lyfjamálum á ráðherrafundi á Gotlandi í dag. Fundur heilbrigðisráðherra Norðurlandanna var haldinn í Visby á Gotlandi dagana 2. og 3. júní. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, lagði áherslu á það í máli sínu á fundi norrænu ráðherranna að efla norrænt samstarf í lyfjamálum, en Guðlaugur Þór Þórðarson hefur lagt ríka áherslu á að opna norræna lyfjamarkaðinn.     Gerði hann á fundinum grein fyrir tilraunaverkefni og samstarfi Íslendinga og Svía á þessu sviði á fundinum og var í þessu sambandi ma. rætt um rafræna afgreiðslu lyfseðla.      Í lok ráðherrafundarins undirrituðu þeir Guðlaugur Þór Þórðarson og Göran Hägglund, félags-og heilbrigðisráðherra Svía, viljayfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórna sinna um aukið samstarf Íslendinga og Svía í lyfjamálum.     Í viljayfirlýsingunni er sérstaklega tekið fram vilji til að auka samstarf á sviði verðmyndunar lyfja og endurgreiðslna vegna lyfjanotkunar.

 innsett/leturbreytingar/undirstrikanir-F.S.


Norræn almannatryggingagátt opnuð

.6.2008   http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2810   

Cristina Husmark Pehrsson opnaði í dag nýja norræna gátt um almannatryggingar. Markmiðið er að einfalda frjálsa för milli Norðurlandanna. „Upplýsingaskortur veldur mörgum þeim hindrunum sem almenningur rekst á, á sviði almannatrygginga. Á almannatryggingagáttinni verður meðal annars hægt að nálgast upplýsingar um reglur sem gilda um sjúkdóma, foreldraleyfi og lífeyrisréttindi á Norðurlöndunum. Þetta ætti að auðvelda þeim lífið sem eru að huga að flutningi eða starfa nú þegar annars staðar á Norðurlöndunum en í heimalandinu", segir Cristina Husmark Pehrsson, en hún er bæði félagsmála- og samstarfsráðherra Svíþjóðar.

Á almannatryggingagáttinni verða upplýsingar um almannatryggingar á Norðurlöndunum og um reglur hvað varðar tryggingar við ólíkar aðstæður, auk þess verða þar krækjur á vefi viðkomandi stjórnvalda á Norðurlöndunum. Á gáttinni verða upplýsingar um réttindi hvað varðar veikindi, foreldraleyfi, atvinnuleysi, nám og lífeyrissjóðsmál.

Vefgáttin er ætluð einstaklingum sem flytja, starfa eða nema í öðru Norðurlandi en heimalandinu og einnig fjölskyldu þeirra, hvor sem hún flytur með eða býr áfram í heimalandi.

Upplýsingarnar eru á öllum Norðurlandamálunum, þar með talið færeysku og grænlensku og einnig á ensku. Stjórnsýsla og umsjón með uppfærslu á upplýsingum er hjá viðkomandi stjórnvöldum á Norðurlöndunum.

Sjá nánar: http://nordsoc.org

(Frá af Norden.org)

innsett  F.S.


Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um sjúkratryggingar

 

15.5.2008    http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2802  

Ráðherra rakti í upphafi í máli sínu aðdraganda breytinga á skipulagi stjórnarráðsins og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna í heilbrigðismálum sem sjúkratryggingafrumvarpið hvílir á. Ráðherra fór svo yfir helstu atriði og þættina sem frumvarpinu er ætlað að breyta. Ráðherra fór yfir megin atriði frumvarpsins sem hann sagði vera þessi:

“Eins og áður sagði er sjúkratryggingakafli laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, fluttur í frumvarpið og ákvæðin sett upp með öðrum hætti.   Kveðið er skýrar á um markmið með sjúkratryggingum,   gildissvið laga um sjúkratryggingar er afmarkað og helstu hugtök skilgreind, sbr. I. kafla.

 

Kveðið er á um nýja sjúkratryggingastofnun, hlutverk hennar, stjórn og forstjóra, sbr. II. kafla.  Hlutverk stjórnar og forstjóra eru sambærileg hlutverki stjórnar og forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Sjúkratryggingar eru skilgreindar með ítarlegri hætti en í lögum um almannatryggingarSjúkratryggingar taka til heilbrigðisþjónustu og annarrar aðstoðar sem ákveðið hefur verið með lögunum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisinsJafnframt taka sjúkratryggingar til bóta samkvæmt lögunum sem greiddar eru í peningum.  Sjúkratryggðir eiga rétt til aðstoðar svo sem nánar er mælt fyrir um í lögunum.

 

Ákvæði um hverjir eru sjúkratryggðir eru skýrari og ítarlegri en í lögum um almannatryggingar, t.d. er tekið mið af ákvæðum EES-samningsins um almannatryggingar, sbr. III. kafla A.

 

Ákvæði um réttindi sjúkratryggðra eru efnislega óbreytt en hafa verið sett upp með öðrum hætti og orðalag gert skýrara, sbr. III. kafla B-D.

 

Gert er ráð fyrir að ákvæði um styrk til að kaupa bifreið verði flutt úr sjúkratryggingum í lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og heyri þar með undir félags- og tryggingamálaráðherra, sbr. 3. tölul. 58. gr.  Ekki er um efnislega breytingu á réttindum einstaklinga að ræða.

 

Gjaldtökuákvæði eru sett í eina grein í frumvarpinu og eru efnislega óbreytt.  Vegna ábendinga fjármálaráðuneytisins voru ákvæðin gerð ítarlegri en ekki ver verið að breyta eða auka gjaldtöku af sjúkratryggðum.

 

Gert er ráð fyrir að heimilt sé að kæra ágreining um bætur til úrskurðarnefndar almannatrygginga með sama hætti og er heimilt samkvæmt lögum um almannatryggingar.

 

Sérstakur kafli, IV. kafli, fjallar um samninga um heilbrigðisþjónustu og hlutverk sjúkratrygginga­stofnunarinnar að því er varðar samningagerð.  Ákvæði og samningaheimildir heilbrigðisráðherra eru flutt úr lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og jafnframt eru ítarlegri ákvæði um endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu, gagnreynda þekkingu, gæði og eftirlit, upplýsingaskyldu, vanefndir og aðgerðir vegna vanefnda og hvernig skuli fara með ágreining.

 

Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. september 2008 en eigi síðar en 1. júlí 2009 taki sjúkratryggingastofnunin við samningsgerð sem nú er í höndum heilbrigðisráðuneytisins.  Þá er gert ráð fyrir að stofnunin taki við samningsgerð við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samningsgerð við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili eigi síðar en 1. janúar 2010.

 Gert er ráð fyrir að ákvæði um mat sjúkratryggðra á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum verði sett í lög um heilbrigðisþjónustu, sbr. 4. tölul. 59. grÁkvæðin eru nú í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Gert er ráð fyrir að sjúkratryggingastofnunin taki við hlutverki Tryggingastofnunar ríkisins 1. september 2008   að því er varðar framkvæmd laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, sbr. 61. gr.

 

Gert er ráð fyrir að starfsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins sem hafa starfað við sjúkratryggingar almannatrygginga og/eða sjúklingatryggingu og eru í starfi við gildistöku laganna skuli boðið starf hjá sjúkratryggingastofnuninni, sbr. ákvæði til bráðabirgða númer eitt.  Hið sama gildir um þá starfsmenn heilbrigðisráðuneytis, heilsugæslunnar og Landspítala sem sinnt hafa samningsgerð og öðrum verkefnum er munu falla undir verksvið stofnunarinnar.

 

Gert er ráð fyrir að forstjóri sjúkratryggingastofnunarinnar hafi heimild til að undirbúa gildistöku laganna, þ.m.t. að bjóða tilteknum starfsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins, heilbrigðisráðuneytis og Landspítala starf hjá stofnuninni frá 1. september 2008, sbr. ákvæði til bráðabirgða númer tvö.

 

Gert er ráð fyrir að sjúkratryggingastofnunin taki við eignum, réttindum og skyldum Tryggingastofnunar ríkisins að því er varðar framkvæmd sjúkratrygginga,   sbr. ákvæði til bráðabirgða númer þrjú.

 

Gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum þar til sjúkratryggingastofnunin tekur við því hlutverki að semja um heilbrigðisþjónustu í síðasta lagi 1. janúar 2010, sbr. ákvæði til bráðabirgða númer fjögur.”

 (Talað orð gildir)    

( Uppsetning Leturbreytingar F.S, )

 


Tekjur aldraðra samkvæmt Vefriti fjármálaráðuneytisins

14.4.2008    http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/almennar-frettir/almennar-frettir/nr/10478  

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 10. apríl 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á tekjum landsmanna.

Tekjur og ráðstöfunartekjur hafa vaxið og kaupmáttur ráððstöfunartekna einnig. Þá hefur samsetning tekna tekið miklum breyttingum, aðallega vegna þess að hlutur fjármagnstekna, beint og óbeint, hefur aukist. Aldraðir hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Hér á eftir verður fjallað um tekjur aldraðra hjóna og teljast þær nokkuð dæmigerðar fyrir aldraða.

Árið 1995 voru meðaltekjur hjóna sem voru eldri en sjötug um 30% lægri en meðaltekjur allra hjóna, en það er í samræmi við alþjóðlega þróun á vinnumarkaði að heildartekjur fólks lækki eftir miðjan aldur. Þegar uppsveiflan fram að aldamótum gekk yfir náðu hinir eldri ekki að halda fyllilega í við þá yngri og tekjurnar urðu 41% lægri en allra hjóna árið 2000. Síðan þá hefur dregið saman með hverju ári og árið 2006 var hópurinn með tekjur sem voru 37,7% lægri en allra hjóna.

hlutfallsleg-skipting-heildartekna-hjona0408

Samsetning tekna hjá eldra fólki hefur tekið miklum breytingum og þær breytingar munu halda áfram á næstu árum.

Hlutur fjármagnstekna hefur þannig vaxið úr því að vera 8% af tekjum árið 1995 í að vera orðinn 39% árið 2006. Allan tímann sem hér er til athugunar hafa fjármagnstekjur þessa hóps verið hærri en meðalfjármagnstekjur allra hjóna.

Hlutur atvinnutekna, sem er uppistaðan af því sem á myndinni er í flokknum aðrar tekjur hefur farið stöðugt minnkandi á þessu tímabili enda fækkar í þeim hópi sem heldur áfram störfum eftir 70 ára aldur til að afla nauðsynlegra ráðstöfunartekna. Eftir árið 2000 hafa lífeyrissjóðirnir haldið sínum hlut nokkurn veginn í tekjumynd þessa hóps og það hefur Tryggingastofnun einnig gert þótt vaxandi tekjur hópsins hafi leitt til þess að hluturinn hefur rýrnað örlítið. Að sjálfsögu er það svo með aldraða eins og aðra landsmenn að fjármagnstekjum er skipt misjafnar á milli manna en öðrum tekjum og sumir aldraðir bera lítið úr býtum meðan aðrir hafa góða afkomu.

Eftir því sem lífeyriskerfi landsmanna byggist upp fjölgar í þeim hópi aldraðra sem hefur góðar og öruggar tekjur. Breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum hafa auk þess auðveldað þeim sem það vilja að halda áfram störfum án þess að það bitni á þeim stuðningi sem þeir njóta frá samfélaginu.

 

( Uppsetning, leturbreytingar  F.S. )

 

Starf Íslands á vettvangi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar

 

(Skýrsla lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)

 

16.4.2008    http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2777  

 

 

Dreift hefur verið á Alþingi skýrslu heilbrigðisráðherra um þátttöku Íslands í starfsemi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. 

 

 

Í skýrslunni er greint frá fundum framkvæmdastjórnar WHO, alþjóðaheilbrigðisþinginu, fundum svæðisnefndar WHO í Evrópu og fjölmörgum öðrum fundum og athöfnum á vegum stofnunarinnar á árinu 2007. 

 

 

Það bar helst til tíðinda að í byrjun ársins tók dr. Margaret Chan frá Kína við starfi forstjóra WHO. Hún lýsti því yfir í upphafi ferils síns að hún myndi halda áfram þeim umbótum innan WHO sem forveri hennar dr. Lee Jong-Wook hóf og að ekki væri von á sérstöku umróti í rekstri eða starfsmannamálum stofnunarinnar. Nýi forstjórinn boðaði að sex mál yrðu höfð til viðmiðunar í starfi WHO á næstu árum. Tvö þeirra beindust að grundvallarþörfum fyrir heilbrigðisþróun og heilbrigðisöryggi. Tvö önnur mál snúa að áætlanagerð og varða eflingu heilbrigðiskerfa og þörf fyrir áreiðanlegri upplýsingar við stefnumörkun og mat á árangri. Tvö hin síðustu eru bæði starfslegs eðlis og varða traust á samstarfsaðilum, sérstaklega við framkvæmd verkefna, og þörfina á því að WHO nái árangri sem ein skipulagsheild. 

 

 

Hugsanlegur heimsfaraldur inflúensu var eitt aðalumræðuefnið á alþjóðaheilbrigðisþinginu 2007 og öðrum fundum WHO á árinu. Á þinginu var samþykkt ályktun þar sem skorað er á aðildarríkin að deila með sér upplýsingum um inflúensuveirur og að aðgangur að bóluefnum og öðrum úrræðum til að verjast inflúensunni sé gerður greiður. Ályktunin fer einnig fram á að WHO komi sér upp birgðum af bóluefnum gegn H5N1 veirunni og öðrum inflúensuveirum sem gætu valdið faraldri. Malaría heldur áfram að valda á ári hverju meira en milljón dauðsföllum í heiminum en hægt er að koma í veg fyrir flest þessara dauðsfalla með einföldum forvörnum. Ákveðið var að framvegis yrði 25. apríl tileinkaður baráttunni gegn malaríu. 

 

Fram kom að mikill árangur hefði náðst í baráttunni gegn mislingum og hefur dánartíðni vegna þeirra lækkað um 60% á tímabilinu 1999 - 2005.

Aðgerðir gegn berklum hafa ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt og er núna áætlað að um 1,6 milljón manna deyi úr berklum árlega.

Aðgerðir til þess að draga úr langvinnum sjúkdómum og barátta gegn offitu og ofþyngd skipa æ veigameiri sess í starfsemi WHO bæði á heimsvísu og svæðisbundið. Mannaflamál heilbrigðisþjónustunnar voru einnig til umfjöllunar. Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er vandi sem menn glíma jafnt við í ríkum sem fátækum löndum. Heilbrigðisstarfsfólk flytur í vaxandi mæli frá þróunarlöndunum til þeirra landa þar sem velmegun er meiri og þróuðu ríkin mennta ekki nægjanlega marga sérhæfða heilbrigðisstarfsmenn. Fulltrúar Íslands hafa á fundum WHO á undanförnum árum einkum beitt sér í lýðheilsumálum.

   

   http://www.heilbrigdisraduneyti.is/media/frettir_fylgiskjol/Skyrsla_um_starf_a_vettvangi_WHO.pdf    

Tvö atriði úr skýrslu heilbrigðisráðherra um

120. fund framkvæmdastjórnar WHO í Genf 22.–30. janúar 2007,   

alþjóðaheilbrigðisdaginn 7. apríl 2007,

60. alþjóðaheilbrigðisþingið í Genf 14.–23. maí 2007,

121. fund framkvæmdastjórnar WHO í Genf 24.–26. maí 2007 og

57. fund svæðisnefndar WHO í Evrópu í Belgrad 17.–21. september 2007.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)

    120. FUNDUR FRAMKVÆMDASTJÓRNAR WHO Í GENF 22.–30. JANÚAR 2007 

 

3. Helstu umræðuefni fundarins.

 

 3.3 Baráttan gegn berklum.Í skýrslu til framkvæmdastjórnarinnar var gerð grein fyrir hvernig gengið hefur að námarkmiðum, sem sett voru af alþjóðaheilbrigðisþinginu árið 1991, varðandi greiningu berklaog lækningu þeirra.    Þegar ljóst var að markmiðunum yrði ekki náð árið 2000 var fresturinnframlengdur til ársins 2005. Skýrslan sýnir að enn vantar nokkuð upp á að markmiðunum

hafi verið náð. Árið 2005 er áætlað að 8,8 milljónir manna hafi verið greindir með berkla og dauðsföll vegna berkla voru 1,6 milljónir.

Í ályktun stjórnarinnar eru aðildarríkin hvött til frekari dáða í baráttunni gegn berklum og skorað á þau að útfæra langtímaáætlanir um forvarnir og stjórn á þeim í samræmi við heimsáætlun stofnunarinnar um að stöðva berkla  2006–2015.    

 

ALÞJÓÐAHEILBRIGÐISÞINGIÐ 2007

4. Ályktanir og helstu umræðuefni tekin fyrir í nefnd A.

 

  4.6 Baráttan gegn berklum.Aðildarríki voru hvött til að útbúa og innleiða langtímaáætlanir fyrir forvarnir og meðferðberkla sem væru samhljóða heimsáætlun WHO um að stöðva berkla 2006–2015, sem miðar að því að minnka um helming tíðni berkla og dauðsfalla af þeirra völdum fyrir árið 2015.

WHO var beðið um að auka stuðning sinn við þau lönd þar sem berklar finnast, sérstaklega þau lönd þar sem finna má ónæma berkla og berklasmitaða alnæmissjúklinga.

 

 

 

 

(  Innsett/ undirstrikanir  F.S. )  

 


Frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega hækkar í 100.000 kr. á mánuði 1. júlí nk.

 

 

Fréttatilkynningar   Félags- og tryggingamálaráðuneytið

 

11.4.2008    http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3756  

 

 

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, þar sem lagt er til að á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geti öryrkjar valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. 

 

Frumvarpið felur í sér að á umræddu tímabili geti örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar aflað atvinnutekna allt að 100.000 kr. á mánuði án þess að þær skerði tekjutryggingu. Hér er um mikla hækkun frítekjumarksins að ræða en í dag skerðist tekjutrygging vegna atvinnutekna umfram 327.000 kr. á ári eða um 27.000 kr. á mánuði. Þann 1. janúar 2009 er gert ráð fyrir að nýtt örorkumatskerfi hafi öðlast gildi og komi í stað þessa frítekjumarks. 

 

Ætla má að hækkun frítekjumarksins muni leiða til aukinnar atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og hafa þannig í för með sér hærri tekjur þeim til handa. Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á hækkun frítekjumarks í baráttunni fyrir bættum kjörum öryrkja og virkrar þátttöku þeirra í samfélaginu og er þessi breyting í samræmi við áherslur bandalagsins. Breytingin er jafnframt í samræmi við þau markmið sem hugmyndir örorkumatsnefndar um starfshæfnismat og starfsendurhæfingu byggja á. Í ljósi fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu með áherslu á starfshæfnismat og starfsendurhæfingu mun hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega aðeins gilda til bráðabirgða þar til nýtt kerfi með nýjar viðmiðunarreglur hefur verið tekið upp. 

 

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru liðlega 30% örorkulífeyrisþega með launatekjur eða reiknað endurgjald í desember 2007 eða um 4.600 einstaklingar. Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar má áætla að þar af muni um 2.650 einstaklingar hafa ávinning af hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur í 100.000 kr. á mánuði. Ekki er unnt að áætla fyrirfram þann fjölda sem mun nýta sér nýjar viðmiðunarreglur varðandi frítekjumark á atvinnutekjur, en þess má vænta að talsvert fjölmennur hópur örorkulífeyrisþega nýti sér þetta tækifæri til þess að feta sig á ný út á vinnumarkaðinn. Breytingin mun því fela í sér aukin tækifæri til handa örorkulífeyrisþegum með þeim auknu lífsgæðum sem þátttaka á vinnumarkaði felur í sér fyrir lífeyrisþegana sjálfa og samfélagið í heild.

 

 

( Innsett F.S.)  

 


Húsaleigubætur hækkaðar í fyrsta sinn frá árinu 2000

Fréttatilkynningar    http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3752  

 

7.4.2008

  

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, undirritaði í dag reglugerð sem kveður á um hækkun húsaleigubóta frá og með 1. apríl 2008. Húsaleigubætur hafa ekki hækkað frá árinu 2000. Einnig mun ríkið nú í fyrsta skipti koma að greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

  

Samkvæmt reglugerðinni hækka grunnbætur húsaleigubóta um 69%, úr 8.000 krónum í 13.500 krónur,     bætur vegna fyrsta barns hækka um 100%, úr 7.000 krónum í 14.000 krónur og   bætur vegna annars barns hækka um 42%, úr 6.000 krónum í 8.500 krónur. Hámarkshúsaleigubætur hækka þar með um 15.000 krónur eða um 48% og geta hæstar orðið 46.000 krónur í stað 31.000 krónur áður.

Hækkunin tekur gildi frá og með 1. apríl síðastliðnum en húsaleigubætur hækkuðu síðast árið 2000.

  

Í samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga um hækkun húsaleigubóta er einnig kveðið á um þátttöku ríkisins í greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

Sveitarfélög eru hvött til að taka upp sérstakar húsaleigubætur og rýmka skilyrði fyrir sérstökum húsaleigubótum svo þær nái til fleiri heimila.

Hámarksgreiðsla almennra og sérstakra húsaleigubóta gæti þar með orðið 70.000 krónur í stað 50.000 króna áður.

Ríkið kemur nú í fyrsta sinn að greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

  

Áætlaður árlegur viðbótarkostnaður vegna þessara aðgerða er um 620 milljónir króna vegna húsaleigubóta og um 100 milljónir króna vegna sérstakra húsaleigubóta.

Samkomulag er um að ríkissjóður greiði 60% af heildarkostnaði vegna hækkunarinnar og sveitarfélögin 40%.

( Uppsetning/ undirstrikanir F.S. )


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband