Færsluflokkur: Greinar um kæfisvefn og fl.

Tengist öll bölvun kæfisvefni og og svefntruflunum.

 

Það er alltaf að koma í ljós hve mikil áhrif svefntruflanir hafa á heilsu þeirra sem þetta bitnar á.

Nú er það krabbamein.  Fyrir stuttu var málþing um tengsl svefntruflana og Altsheimer og annarra heilabilana.   Æðasjúkdómar,  hjartasjúkdómar,  háþrístingur,  sykursýki,  og fleyra.

Þetta blogg er heimasíða fyrir Vífil, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir og okkur er mikið kappsmál að fá fordómalausa umræðu um hrotur og svefntruflanir.

Ég hvet alla til að ræða við heimilislæknirinn sinn ef þeir telja sig geta verið með svefntruflanir.

Það er frekar einfalt að rannsaka svefntruflanir og meðhöndlunin er hættulaus.  

Góðir sérfræðingar eru til staðar á Lungnadeild LHS í fossvoginum.

F.S.

 


mbl.is Hrotur auka líkur á krabbameini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álögur á sjúklinga vegna komu- og umsýslugjalda sérfræðilækna

Af:  http://www.visir.is/alogur-a-sjuklinga-vegna-komu--og-umsyslugjalda-serfraedilaekna/article/2012705089993

Fréttablaðið Aðsendar greinar 08. maí 2012 06:00
Heilbrigðismál
Guðmundur Magnússon
formaður Öryrkjabandalag Íslands
Heilbrigðismál Guðmundur Magnússon
formaður Öryrkjabandalag Íslands
Guðmundur Magnússon skrifar:
Ár er liðið frá því að samningar á milli Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna runnu út þann 31. mars 2011. Í kjölfarið og vegna samningsleysis hafa sjúklingar þurft að greiða komu- og umsýslugjald fyrir þjónustu sérfræðilækna á stofum þeirra. Hér er um viðbótargjald að ræða, sem leggst við hluta sjúklings í útlögðum kostnaði. Rétt er að taka fram að ekki allir sérfræðilæknar innheimta slíkt gjald. ÖBÍ hafa borist dæmi um viðbótargjöld á bilinu 500 kr. til 3.500 kr. fyrir hverja komu.

Staðan bitnar fyrst og fremst á tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum sem þurfa á þjónustu sérfræðilækna að halda. Þar er þyngst byrðin á langveikum og öldruðum, sem þurfa meira á heilbrigðisþjónustu að halda, þar með talið þjónustu sérfræðilækna, en allur almenningur í samfélaginu. Ástandið hefur í för með sér auknar álögur fyrir þessa einstaklinga og fjölskyldur þeirra og kemur sérstaklega illa við tekjulága aldraða, öryrkja og foreldra langveikra barna. Í rannsókn sem framkvæmd var 2006 af Rúnari Vilhjálmssyni félagsfræðingi kom fram að öryrkjar vörðu um 6% af heildartekjum heimilisins í heilbrigðismál. Sú tala hefur að öllum líkindum hækkað, en gjaldtaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu jókst umtalsvert í kjölfar bankahrunsins, sbr. könnun Hagdeildar ASÍ frá byrjun árs 2009.

Einstaklingur með afsláttarkort borgar að fullu komu- og umsýslugjald. Þar sem þetta er viðbótargjald gefur það ekki rétt upp í afsláttarkort Sjúkratrygginga Íslands. Hér er því um að ræða hreint viðbótargjald sem sjúklingurinn einn ber kostnaðinn af. Sjúklingar sem reglulega leita til sérfræðilækna bera þá tugi þúsunda í viðbótargjald yfir lengra tímabil.

Eitt af markmiðum laga um réttindi sjúklinga er að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi. Óheimilt er að mismuna sjúklingum, meðal annars á grundvelli efnahags. Þjónusta sérfræðilækna er einn nauðsynlegur þáttur í veitingu heilbrigðisþjónustu. Gjaldtaka fyrir hvers kyns heilbrigðisþjónustu á að fara eftir ákvæðum laga um sjúkratryggingar og ákvæðum sérlaga eftir því sem við á, og engu öðru.

Minna má á Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af Íslands hálfu fyrir réttum 5 árum (30. mars 2007) en í 25. gr. samningsins er kveðið á um að aðildarríkin skuli „…viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. […] að sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum, sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga…“.

Hver er staðan í samningaviðræðum Sjúkratrygginga Íslands og samninganefndar sérfræðilækna? Eru samningaviðræður í gangi á milli samninganefndanna eða er algjör biðstaða?
ÖBÍ skorar á samningsaðila að sameinast í þeirri viðleitni að semja sín á milli þannig að öllum notendum þjónustu sérfræðilækna sé tryggt aðgengi að sérfræðiþjónustu án aukinnar kostnaðarhlutdeildar sjúklinga.
 
Innsett: F.S.



Bættu svefninn og kynlífið

 

AF:  http://www.dv.is/mobile/lifsstill/2011/4/29/baettu-svefninn-og-kynlifid/

23:07 › 29. apríl 2011

Þið hjónin gantist kannski með hvað hitt hrýtur mikið á nóttunni en hugsanlega er þetta ekkert gamanmál og jafnvel kemur það niður á kynlífinu án þess að neinn geri sér það ljóst.

Ef marka má nýlega rannsókn á svefnvandamálum og afleiðingum þess staðfesta 61 prósent fullorðinna að svefnvandinn komi beint niður á kynlífinu. Vandinn stafar ekki einungis af því að fólk fær ekki nægan svefn og er þar með of þreytt til að stunda kynlíf heldur geta kæfisvefn og hrotur einnig haft sínar afleiðingar.

Í þýskri rannsókn sem gerð var árið 2009 kom fram að 69 prósent þeirra sem þjást af kæfisvefni eiga einnig við alvarleg kynlífsvandamál að etja. Þar má telja vandamál með reisn, erfiðleika við að kalla fram fullnægingu og almenna ófullnægju með kynferðislega ánægju.

Þetta er meðal annars talið orsakast af súrefnisskorti en fái líkaminn ekki það súrefni sem hann þarfnast er hætt við að framleiðsla á „nitric oxide“ (efni sem er karlmönnum nauðsynlegt til að öðlast og halda reisn) falli niður í lágmark.

HROTUR
Fólk sem hrýtur er tvisvar sinnum líklegra en það sem ekki hrýtur til að vera ósátt við kynlíf sitt. Niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var af Mayo Clinic í Rochester í Minnesota sýna að hroturnar skapa fjarlægð í samböndum, bæði líkamlega, andlega og bókstaflega þar sem fólk endar oft á að sofa hvort í sínu herberginu til að þurfa ekki að vakna við hroturnar í makanum.

Hvað er til ráða?
Ef fólk tekur málin í sínar hendur eru oftast lausnir og ráð á reiðum höndum. Til dæmis er hægt að láta greina svefnvandann og þá getur lausnin verið svo einföld að ekki þarf annað en að skipta um stellingu og sofa þá ýmist á hlið eða baki, með minna eða meira undir höfðinu. Sumir gætu þurft að fá súrefniskút í svefnherbergið og öðrum gæti gagnast að fara í einfalda aðgerð sem opnar nasirnar.
Lykilatriðið er að vera á verði og leita lausna: Ef makinn segir að þú hrjótir á nóttunni og þú færð átta stunda svefn á en ert þrátt fyrir það þreytt/ur allan daginn – þá er mál að leita til læknis og láta kanna ástandið

Innsett: F.S.

 

 

 

 


Líkami barna og unglinga eldist langt fyrir aldur fram – Lífslíkur minnka verulega á næstu áratugum

 

 Sunnudagur - 22.4 2012 - 22:35 - Ummæli (1)

http://eyjan.is/2012/04/22/likami-barna-og-unglinga-eldist-langt-fyrir-aldur-fram-lifslikur-minnka-verulega-a-naestu-aratugum/?fb_comment_id=fbc_10151546535495364_31828672_10151546664245364#f6dbaa245f7201 

feittbarn

Vilhjálmur hefur verulegar áhyggjur af ofþyngd barna og unglinga.

Sykursýki er mun stærra og vaxandi vandamál en tölur gefa til kynna. Allt að tuttugu sinnum fleiri gætu verið ógreindir eða með forstig sykursýki en fyrirliggjandi tölur sýna. Þetta vandamál gæti kollvarpað hugmyndum manna um lífslíkur, segir heimilislæknir.

Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir, gerir sykursýki ítarleg skil í grein sem hann skrifar á Eyjuna. Hann segir hættu á að þetta vandamál, sem við höfum sjálf skapað, vaxi okkur yfir höfuð. Hins vegar þarf ekki háskólasjúkrahús til að vinna bug á vandanum, heldur einungis skilning almennings.

Vilhjálmur segir að fátt ógni heilsu fólks í hinum vestræna heimi og sykursýkin, en til hennar má rekja alvarlega kvilla eins og hjarta- og æðasjúkdóma, nýrnabilun, heilablóðfall og blindu, svo eitthvað sé nefnt. Rót vandanst felst fyrst og fremst í hreyfingarleysi og slæmu mataræði.

Alla jafna ætti sykursýki að vera aldursbundinn við fullorðna, en málið verður alvarlegra þegar líkami barna og ungmennna „eldist langt fyrir aldur fram.“ Að öllu óbreyttu, segir Vihjálmur, stefnir í að helmingur þjóðarinnar fái sykursýki innan fárra áratuga.

Greind sykursýki er líka aðeins eins og toppurinn á ísjaka af miklu stærra vandamáli. Þar sem margfalt fleiri eru ógreindir eða með forstig sjúkdómsins. Talað er um allt að tuttugufalda tíðni miðað við tölurnar sem við sjáum í dag. Aðallega hjá vaxandi fjölda fólks sem á við ofþyngd að stríða og eru komnir með fyrstu einkenni skerts sykurþols, neyta of mikils sykurs og hreyfa sig ekki nóg. Nokkuð sem við í heilsugæslunni sjáum í dag í vaxandi mæli.

Vilhjálmur bendir á að í Bandaríkjunum stefnir hátt í helmingur íbúa að verða allt of þungur. Íslendingar virðast næstir í röðinni. Mestar áhyggjur hefur Vilhjálmur af lífstíl ungu kynslóðarinnar.

Sem færa má rök fyrir að tengist mest mikilli neyslu sykurs, aðlalega sykraðra drykkja, auk meiri neyslu sælgætis og aukabita, yfir daginn og langt fram á kvöld. Eins og ákveðin fíkn, sykurfíkn. Alls drekka Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar um 1 kíló af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð,

segir Vilhjálmur og bætir við:

Há tíðni sykursýki í offitufaraldrinum sem nú gengur yfir hinn vestræna heim og allt stefnir í að versni tugfalt að öllu óbreyttu, mun kollvarpa hugmyndum manna um auknar meðallífslíkur. Þess í stað draga líkurnar verulega niður. Fjöldi sjúklinga með alvarlegar afleiðingar sykursýkinnar mun verða heilbrigðiskerfinu ofviða og draga úr gæðum þess.

Grein Vilhjálms í heild sinni.

Innsett: F.S.

 


Ertu rétt greindur? eftir Vilhjálm Ara Arason

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/04/16/ertu-rett-greindur

16.4 2012

 

Miklu máli skiptir að gera sér grein fyrir einkennum gróðurofnæmis, sem líkst getur slæmu kvefi, jafnvel með mikilli slímhimnubólgu í augum eins og sést á myndinni og miklum nefstíflum og hnerraköstum, ennis- og kinnholubólgum og jafnvel berkjubólgu og asthma. Allt einkenni sem verulega dregur úr lífsgæðunum og eykur hættu á fylgisýkingum. Ömurlegur sjúkdómur hjá annars frísku fólki, vanmetinn, vangreindur og oft undirmeðhöndlaður hjá okkur Íslendingum á sumrin. Þegar fólk grætur alla daga, af allt öðrum ástæðum en helst væri ástæða að gráta yfir. Jafnvel vakir á nóttunni og missir úr vinnunni.

Verst er þegar viðkomandi veður síðan í villu eða hefur ekki aðgang að fullnægjandi útskýringum á sjúkdómseinkennum og réttri meðferð. Ofnæmissjúkdómar og þá sérstaklega gróðurofnæmi, eru alltaf að verða algengari í hinum vestræna heimi. Heimi hreinlætis þar sem vöntun virðist vera á eðlilegri nálgun við náttúruna, flóruna okkar, moldina, gróðurinn og dýrin. Talið er að allt upp undir 30% ungs fólks á Norðurlöndunum sé með ofnæmi af einhverju tagi, flestir fyrir gróðri. Tíðnin hefur að því er virðist aukist mest hjá unga fólkinu. Mest er sennilega öllu hreinlætinu um að kenna, frá blautu barnsbeini og áhrifa ýmissa kemískra efnanna í umhverfinu, í þvottaefnum og snyrtivörum. Í því sambandi má ekki heldur gleyma vaxandi tíðni ofnæmissjúkdóma og excema hjá börnum og unglingum, tengt fæðuofnæmi og stundum hugsanlega skorti á D-vítamíni sem mikið var talað um í vetur. Eins hvernig við nálgumst okkar nánasta umhverfi og vægum sýkingum með oft stórbrotnum inngripum. Vonandi þó ekki þrávirkum iðnaðarefnunum sem stöðugt safnast meira upp í náttúrunni, mest í köldum sjónum.

Þeir sem eru með ofnæmi fyrir fíflum, eru með þeim fyrstu sem fá einkenni ofnæmis snemma á vorin á Íslandi. Þegar þeir fyrstu springa út, út undir húsveggjunum okkar nú í lok mars. Síðan eru það trjátegundirnar sem margar eru alltaf að verða fleiri og stærri, ekki síst aspirnar, bjarkir og hlynurinn. Birkið okkar alíslenska hefur síðan mikið að segja fram eftir öllu sumri, en yfir hásumarið eru það grösin og smárinn sem eru allsráðandi í sjúkdómsmyndinni, ekki síst á þurrum slátturdögum.

Ofnæmi er eins og hver annar langvinnur sjúkdómur sem oft er hægt að halda niðri með réttri meðferð. Meðferðin getur hins vegar verið bæði flókin og dýr. Ofnæmistöflur sem ekki valda of mikill sljóvgun, fyrirbyggjandi steraspray í nefið alla daga, æðaherpandi spray við bráðaeinkennum og miklum stíflum í nefi, augndropar sem eru gefnir fyrirbyggjandi 2-3 svar á dag allt sumarið eða æðaherpandi augndropar við miklum einkennum og bjúg í augum, sem samt oft geta líka valdið þurrki í slímhúðum við of mikla notkun. Stundum jafnvel sterakúrar í töfluformi sem þarf að trappa niður eða fyrirbyggjandi sterasprautur í vöðva á vorin sem gerir gæfumuninn fyrir þá allra verstu og sem oft er reyndar vannýttur möguleiki strax á vorin. Og þrátt fyrir góða meðferð geta komið einstaka grátdagar, eins og gengur, í þurrki og roki þar sem augun verða bæði rauð og bólgin.

Meðferð við ofnæmi á þannig að vera klæðskerasaumuð að þörfum hvers og eins, til að lágmarka einkenni og til að reyna að koma í veg fyrir óæskilegar aukaverkanir af lyfjunum. Eins og á við auðvitað um meðferð allra langvinna sjúkdóma. Kostnaður við lyfjakaup á ofnæmisltyfjum er hins vegar því miður allt of hár, enda niðurgreiðsla þess opinbera takmarkaður. Margir hafa þannig ekki ráð á bestu lyfjunum í dag og láta sig því hafa það næst besta, eða bara að vera oft hálf grátandi og hnerrandi yfir sumarið. Á tíma sem flestum ætti að geta liðið aðeins betur en á öðrum tímum ársins og fengiðtækifæri til að njóta þess sem sumarið hefur best upp á að bjóða, sumarfrí, útivist og ferðalög.

Þreyta og pirringur sem er samfara gróðurofnæmi er vanmetið vandamál í þjóðfélaginu og sem veldur vinnutapi og umtalsvert skertum lífsgæðum þess sem í hlut eiga og jafnvel nánustu aðstandendum. Ráðgjöf og fræðsla um ofnæmi þarf því að vera miklu betri og aðgengilegri á heilsugæslustöðvunum en hún er í dag. Auk heilsugæslunnar sinna síðan sérfræðingar í ofnæmisjúkdómum verstu tilfellunum og gera ofnæmispróf þegar þeirra er þörf. Greiningin er þó oftast fenginn með góðri sögu einni saman og klínísku mati á einkennum. Rétt meðferð er síðan lykilatriðið til að sem flestir fái að njóta björtu grænu mánuðanna sem best, ekkert síður en þeirra löngu, hvítu og svörtu, á landinu annars hinu ágæta.

Innsett F.S.

 


Góð frásögn öryrkja af sínu lífshlaupi. Þessi grein á erindi við alla.

 

Það er oft erfitt að útskíra fyrir helbrigðu fólki hvernig það sé að verða öryrki. 

Hér er gömul skólasystir mín að segja sína sögu og gerir það mjög vel.

 Það getur hent okkur öll að missa heilsuna og verða öryrkjar.  Það hefur enginn búið sig sérstaklega undir það að verða öryrki og þurfa að lifa á bótum og jafnvel á maka sínum.

Það eru ótrúlega miklir fordómar gegn öryrkjum og öllum þeim sem þurfa að lifa á opinberu framfæri, í formi TR-bóta eða annarra bóta.

Stefanía segir vel og skilmerkilega frá sínu lífshlaupi og þetta er góð les ning fyrir okkur öll.

Takk fyrir góða frásögn og grein Stefanía.

Innsett og párað:   F.S.

 


mbl.is Líklega er ég bara sannur Íslendingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vill Lilja Mósesdóttir með lífeyriskerfi þjóðarinnar ?


Nú eru pólitíkusar farnir að vinna að sínum framboðsmálum.  Samstaða hennar Lilju og félaga er að brjóta utan af sér eggjaskurnina og á leið inn á hinn pólitíska vígvöll.   Ég hef oft dáðst af baráttuhug hennar innan og utan ríkisstjórnar.  Nú fer í hönd tími „drotningarviðtala“ þar sem meðvirkir fréttamenn fá stjórnmálamenn í átakalítil viðtöl og krefja stjórnmálamanninn ekki um upplýsandi svör.  

Hér http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/02/07/lifeyrissjodir_eitrud_blanda  er Lilja Mósesdóttir í sínu drottningarviðtali og lætur gamminn geysa um lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið. 

Þó svo Samstaða sé að skríða úr egginu þá á það ekki við Lilju sjálfa.  Hún hefur verið hluti af núverandi ríkisstjór, Norrænu velferðarstjórninni. 

Tryggingastofnun Ríkisins (TR) er gegnumstreymis tryggingakerfi og í upphafi borguðu launamenn ákveðinn hluta af launum sínum til TR gegn því að þeir ættu rétt á lífeyrir frá TR, yrðu þeir fyrir heilsutjóni,  yrðu öryrkjar  og  þegar þeir næðu eftirlaunaaldri,  þ.e. fengju Ellilífeyri.  Því er hér um að ræða réttindi sem fólk er að ávinna sér alla ævi eða fram að starfslokum.  Þeir sem fæddust fatlaðir fengu líka lífeyri frá TR og var það hugsað sem samtryggingaþáttur TR. 

Frá stofnun Tryggingastofnunar Ríkisins hafa ríkisstjórnir hvers tíma verið að grauta í reglum og réttindum fólks hjá TR.   Þrátt fyrir að hér hafi löngum setið hægrisinnaðar ríkisstjórnir þá hefur grunnlífeyririnn verið látinn ósnertur þó svo að allskonar skerðingar og launatengingar hafi itnað á öðrum lífeyrisgreiðslum.  Í öryrkjadóminum var um það fjallað að líta bæri á ákveðinn grunn lífeyri sem mannréttindi lífeyrisþegans.  Einnig eru grunnlífeyrisréttindi tryggð í alþjóðasamningum/sáttmálum sem Ísland er aðili að en virðir lítt. 

Eitt af afrekum þessarar ríkisstjórnar (Norrænu Velferðarstjórnarinnar) var að heimila skerðingu  grunnlífeyris alveg niður í 0.kr. 

Þegar ég les þetta viðtal við  Lilju Mósesdóttir þá rifjast upp fyrir mér að hún var hluti ríkisstjórnarinnar og er alveg jafn ábyrg fyrir þessari réttindaskerðingu lífeyrisþega og aðrir í ríkisstjórninni.Því er stór hópur lífeyrisþega sem fær í dag ekki neinn lífeyrir frá TR, þrátt fyrir að hafa greitt til TR frá stofnun TR.  ÞETTA ER RÁN og þeir sem stóðu að þessari réttindaskerðingu eru ræningjarnir. 

     (L M)  „Ég hef velt mikið fyrir mér lífeyriskerfinu í kjölfar hrunsins og komist að þeirri niðurstöðu að það sé eitruð blanda að vera með þessa vinnumarkaðssjóði sem fólk er skyldugt til að greiða í,“ segir Lilja Mósesdóttir þingmaður.                (Undirstrikanir eru mínar FS) 

Það kemur ekki nægilega fram hvað er átt við hér. Eitruð blanda. 

Það sem hefur farið verst með lífeyrisgreiðslur TR eru stjórnmálamenn sem hafa rænt fólk marglofuðum réttindum sínum.  Alþingi velur ráðherrann,  ráðherrann skipar stjórn TR sem vinnur svo undir hæl ráðherrans.  Ef lífeyrisþegi kærir svo ákvarðanir TR þá fer kæran til ÚRA (úrskurðarnefnd almannatrygginga) sem sami ráðherra skipar.   Þessu kerfi hefur diggilega verið viðhaldið í tíð Velferðarstjórnarinnar. 

Þessi ríkisstjórn skipaði svo nefnd til að endurskoða Lög um almannatryggingar,  sem m.a. TR starfar eftir. Það hafa ótal ríkisstjórnir gert en tryggja alltaf að við stjórnarskipti og jafnvel við ráðherraskipti þá er vinnu nefndarinnar ítt út af borðinu og byrjað upp á nýtt.  Með þessu hefur verið tryggt að engar breytingar yrðu gerðar.  

Velferðar-ráðuneytið hélt núverandi nefnd upptekinni við að skoða endalausa útreikninga, frá ráðuneytinu, um einhverjar tilfærslur innan kerfisins og allt út frá NÚLL-LAUSN.  þetta átti ekki að kosta neitt og væri tilfærsla frá einum lífeyrisþega til annars.  Nánast ekkert var rætt þar um breytingar á lögunum sjálfum.  Allir stjórnmálaflokkarnir áttu fulltrúa í þessari nefnd. 

Þarna átti t.d. að ræða skerðingareglur TR sem fela í sér að TR (ríkið)  skerðir greiðslur TR til lífeyrisþega ef lífeyrisþegi fær greiðslur frá sínum lífeyrissjóði.  Þannig hirðir ríkið mestallan ávinning launamanna af að greiða í lífeyrissjóð.  Lífeyrissjóðirnir áttu að koma sem viðbót við greiðslur TR til að bæta efnahag og lífsgæði lífeyrisþegans.    

ÞETTA ER RÁN, samkvæmt mínum skilningi. 

Mikið hefði verið gott að eiga VIRKAN BARÁTTUJAXL  innan ríkisstjórnarinnar sem hefði gefið sér tíma til að vinna að þessum málum.     Ég tel að svo hafi ekki verið. 

Víkjum aftur að orðum Lilju Mósesdóttur.

      „Almannatryggingakerfið þarf að geta borgað lífeyri sem dugar til framfærslu. Það kostar auðvitað skattgreiðendur“  

     „Ef þessir vinnumarkaðssjóðir lækka lífeyrisgreiðslur, þá er fólk neytt til að leita á náðir   hjálparsamtaka.“ 

     „Það er búið að hola almannakerfið, sem á að vera samtryggingarkerfi, alveg að innan,“ segir Lilja. 

Það hefði bætt stöðu lífeyrisþega mikið ef TR/Alþingi  hefði „leyft“ lífeyrisþegum að halda greiðslum lífeyrissjóðanna án þess að þær skertu TR greiðslurnar.   Það var hægt að ganga frá þessu með einföldum hætti, ef Velferðarstjórnin hefði fengist til þess og t.d. Lilja hefði barist fyrir því innan stjórnarinnar. 

   (L M)  „Mér dugar ekki eitthvert aukið sjóðsfélagalýðræði þegar peningarnir sem eru inni í þessum sjóðum eru ekkert bara þeirra eign, heldur líka eign ríkisins. 

   (L M)  „Þeir eru jafnframt með þessa samtryggingu sem felst í því að þeir lofa að tryggja sjóðsfélögum a.m.k. 56% af meðallaunum yfir starfsævina. Til þess að geta staðið við þetta hefur m.a. þurft styrk ríkisins við þessa sjóði. Styrkurinn hefur birst í því að skattur er ekki tekinn af iðgjaldagreiðslum áður en þær fara inn í sjóðinn, heldur á eftir.“ 

(Undirstrikanir eru mínar FS) 

Þetta eru ótrúleg viðhorf hjá Lilju hagfræðingi.  Það getur ekki talist styrkur að skattur sé tekinn af útgreiðslum úr lífeyrissjóðum, en ekki inngreiðslum.   Ætla má að greiddur lífeyrir lífeyrissjóðanna sé 70-80% tilkominn vegna fjármagnstekna og ætti því að skattleggjast samkvæmt því.  Það er ekki gert heldur eru útgreiðslur lífeyrissjóðanna skattlagður sem launatekjur, sem eru mun hærri skattur.  Ríkið tryggir sér auka tekjur með þessu fyrirkomulagi og fær tekjurnar þegar lífeyrirþeginn fær greiðslurnar og þarf þjónustuna sem lífeyrisgreiðslan og skatturinn eiga að standa undir. 

Ríkið á ekki neitt í almennu lífeyrissjóðunum vegna þessarar skattafrestunar. Skattafrestun er víðar en í þessu dæmi.   T.d.  má fresta sköttun söluhagnaðar í nokkur ár.  Lífeyrissjóðirnir eru alfarið eign launþeganna sem greiða í lífeyrissjóðina. 

   (L M)  „Það er ljóst að það þarf uppstokkun á lífeyrissjóðakerfinu, það er allt of stórt fyrir íslenskt efnahagslíf. Ef við ætlum að taka á skuldavanda heimilanna og væntanlegu gengisfalli við afnám gjaldeyrishafta, þá verðum við að taka á lífeyrisjóðakerfinu og stokka það upp. .“

(Undirstrikanir eru mínar FS) 

Nú þegar þjóðin er með áhyggjur af hve stór hluti fjár lífeyrissjóðanna hefur tapast í bankahruninu þá hefur Lilja áhyggjur af að lífeyrissjóðirnir séu of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf og vill stokka upp lífeyrissjóðakerfið.   

   (L M)  „Almannatryggingakerfið þarf að geta borgað lífeyri sem dugar til framfærslu. Það kostar auðvitað skattgreiðendur, en í stað þess að hækka skatta, þá tökum við skattinn af þessum lífeyrissjóðum sem þeir hafa verið að sýsla með inni í fjárfestingarsjóðunum og tapað.“

(Undirstrikanir eru mínar FS) 

Hér fer að sjást til botns.   Lilja vill fara í kjölfar annarra ræningja og ræna, með sérsköttum, fé lífeyrissjóðanna til að laga stöðu almannatryggingakerfisins Í DAG og hugsa ekki neitt til framtíðarinnar.  Lífeyrissjóðakerfið er hugsað til að hver kynslóð fólks geti framfleitt sér og greitt fyrir þjónustu samfélagsins sem þeir þurfa síðar sem lífeyrisþegar.   

Það tókst illa að vernda lífeyrissjóðakerfið í bankahruninu.  Alþingismenn kepptust við að auka aðgengi fjárglæframanna að fé lífeyrissjóðakerfisins og þátt Alþingis þarf að skoða betur, tel ég. 

Verið var að vinna að því að lífeyrissjóðirnir fengju leyfi til að „lána“ t.d. fjármálagjörninga til fjármálafyrirtækja til skortsölu,  sem er bara veðmálastarfsemi. 

Sem betur fer þá var þetta ekki gert. Mér finnst þetta viðtal vond kynning á Lilju Mósesdóttur og hennar baráttumálum á fyrstu dögum Samstöðu í kosningabaráttu.  

Hvað Lilju varðar og lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingar,  þá var mér brugðið við lestur viðtalsins og mér fannst Lilja tala að mikilli léttúð um þessi kerfi og mér finnst að hún beri enga virðingu fyrir því fólki sem hefur látið hluta launa sinna inn í lífeyrissjóðina.  Þetta er fólkið sem á lífeyrissjóðina sem Lilja talar um að hirða.   RÁN á RÁN ofan segi ég og mótmæli öllum slíkum hugmyndum.   

Frímann Sigurnýasson


mbl.is Lífeyrissjóðir eitruð blanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hrotur. Hér er vitaskuld ekki átt við þá sem glíma við kæfisvefn.

 

Af http://www.ruv.is/pistlar/gudmundur-palsson/hrotur

30.03.2011 Senda

Hrotur

Allir sem hafa heyrt aðra manneskju sofa þekkja óhljóðin sem oft fylgja sofandi fólki. Hroturnar. Þennan hvimleiða fylgifisk alsælunnar sem oft fylgir - eða á að fylgja, svefninum. Þessu dásamlega og bráðnauðsynlega ástandi sem langflest dýr fara í. Þegar við sofum hlöðum við batteríin fyrir næsta dag, hvílum okkur og endurnærumst. Og auðvitað getur það verið erfitt og dálítið leiðinlegt að vakna upp við hroturnar í næsta manni. Kannski um miðja nótt. Ef til vill þegar maður er nýdottinn inn í draumalandið og þann furðuheim sem opnast manni í svefni.

En afhverju í ósköpunum hrýtur fólk? Þegar við sofum slaknar á vöðvum líkamans. Líka þeim sem eru í munni og koki. Þeir síga því inn á við og geta valdið fyrirstöðu þegar loftið sem við öndum að okkur þröngvar sér framhjá gómfillunni og úfnum. Úfurinn er semsagt dinglumdanglið við op koksins á okkur. Þá titrar þessi skemmtilegi og kannski pínulítið furðulegi húðflipi, úfurinn, aftast í munninum á okkur, sem og gómfillan og þá myndast þetta brak og þessir brestir sem eru hrotur. Og ekki má gleyma blessaðri tungunni sem lekur niður þegar menn sofa með opinn munninn og ýtir úfnum aftur í kok. Þá heyrast jafnvel enn hærri hrotur.

Og hrotur eru mismunandi. Allt frá nokkuð sakleysislegu og ef til vill dálítið róandi og notalegu suði til ærandi hávaða. Tæpur helmingur fólks hrýtur af og til og fjórðungur hrýtur nær alltaf þegar hann sefur. Karlar hrjóta frekar en konur og gamlir karlar frekar en ungir. Það er vegna þess að með aldrinum slaknar á vöðvum líkamans. Svo er þyngra fólki hættara til að hrjóta en þeim sem eru léttari.


Ýmislegt fleira getur valdið því að fólk hrýtur. Áfengi og sljóvgandi lyf slaka á vöðvunum. Kvef getur valdið fyrirstöðu, ofnæmi og reykingar geta líka valdið hrotum.


En er eitthvað hægt að gera til að losna við þessa óspennandi hliðarverkun svefnsins? Jú, það er víst ýmislegt, en fer að sjálfsögðu eftir ástandi fólks. Þeir sem eru of þungir gætu létt sig um nokkur kíló, það getur verið gott að sofa á hliðinni til að tungan renni ekki aftur í kok - þar kemur þyngdaraflið til sögunnar - svo er líka hægt að prófa að sofa með hátt undir höfðinu, þeir sem eru með stíflað nef geta úðað nefúða í nasirnar og losað þannig um stíflu og svo getur verið gott að sleppa því að drekka áfengi eða taka inn sljóvgandi lyf. Að maður tali ekki um reykingar, sem allir eiga auðvitað að hætta hvort sem er. Hér er vitaskuld ekki átt við þá sem glíma við kæfisvefn, sem þarfnast læknisfræðilegrar meðferðar af allt öðru tagi.


Svo er náttúrulega hægt að stinga bara töppum í eyrun á þeim sem deila með manni rúmi eða herbergi. Góða nótt.

 

innsett: F.S.



 


22 smituðust af berklum í fyrra: Sprenging miðað við fyrri ár - Flestir smitaðra útlendingar

 

 

 

02. apr. 2011 - 20:20

 

Ástæða er til að hafa áhyggjur að verulegri fjölgun berklatilfella meðal barna í Evrópu. 22 einstaklingar greindust með berkla á Íslandi á síðasta ári. Tilfellin eru óvenjumörg miðað við fyrri ár.

 

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Læknablaðsins. Samkvæmt nýrri skýrslu um útbreiðslu berkla í Evrópu kemur fram að heildartala þeirra sem smitast af berklum fer lækkandi, en berklasmit á meðal barna hefur aukist nokkuð.

 

Alls  greindust  22 einstaklingar hafi greinst með berkla í fyrra sem er óvenju mikið miðað við fyrri ár. Til samanburðar voru tilfellin 9 árið 2009. Af þeim sem greindust með berkla voru 16 af erlendu bergi brotnir.

 

Um miðjan 9. áratug síðust aldar greindust nánast engin börn á skólaaldri með berkla og því var almennum berklahúðprófum í skólum hætt.

 

    "Á undanförnum áratugum hefur hlutur innflytjenda til landsins meðal berklaveikra farið vaxandi. Nú sem fyrr eru Asíubúar hlutfallslega flestir meðal berklaveikra, en tíðni jákvæðra berklaprófa meðal íbúa frá Afríku, Asíu og Austur-Evrópu er einnig há. Það er ljóst að ekki næst til allra innflytjenda í læknisskoðun við komu til landsins. Því er afar brýnt að heilsugæslustöðvar hafi í huga berkla þegar fólk sækir læknisþjónustu vegna einkenna sem bent gætu til berkla",

 

er haft eftir Haraldi Briem, sóttvarnarlækni,  í Læknablaðinu. Árlega látast 1.300 manns úr berklum í heiminum öllum, en sjúkdómurinn  er vel læknanlegur ef hann er greindur nógu fljótt. talið er að 25 til 30 prósent af fólki séu sýkt af berklabakteríunni þótt aðeins 10 prósent af þeim taka sjúkdóminn. 

----    ----    ----    ----    ----    ----  

Greinina má finna hér:

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/04/nr/4183  

 innsett: F.S.

 


Ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu í SÍBS húsinu, Síðumúla 6, kl. 16:00-19:00, í dag

 

SÍBS og Hjartaheill bjóða  almenningi ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu í SÍBS húsinu, Síðumúla 6, kl. 16:00-19:00, í dag,  mánudag 7. febrúar.

Gengið er inn að austanverðu og mælingarnar verða á annari hæð.

Sem fyrr segir verður mælt á tímabilinu 16:00-19:00 en skráningu lýkur kl. 18:00.

innsett: F.S.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband