Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fróðleg viðtöl og fl. um þunglyndi.

 

Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur, ræðir við Sigmar Guðmundsson um langvarandi baráttu sína við þunglyndi og kvíða í Kastljósi 17. október, 2007. [12. jan. 2012] Steindór hefur nú náð miklum árangri í baráttunni við þunglyndið og kvíðann: http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=Lt65VVd50j8

Einnig er yngra útvarpsviðtal við Steindór.    http://www.youtube.com/watch?v=Lt65VVd50j8&feature=relmfu 

Steindór J. Erlingsson, líf og vísindasagnfræðingur, ræddi um langvarandi baráttu sína við geðröskun í morgunútvarpi Rásar 2, 12. janúar, 2012. Tilefni viðtalsins var greinin "Frá vonleysi til vonar: Hugleiðingar fræðimanns um sjúkling, geðlyf og bata" sem birtist skömmu fyrir jól í tímaritinu Geðvernd (40: 24-29, 2011). Greinin fjallar um hvernig honum tókst að öðlast sjálfsskilning og bata eftir að hann hætti neyslu geðlyfja.

Hægt er að nálgast greinina hér: http://www.raunvis.hi.is/~steindor/gedvernd.pdf

Þetta er mjög áhugavert og gott efni. 

Innsett: F.S.

 

 


Myndband um svefntruflanir.

Þetta er áhugavert myndband um svefntruflanir eins og t.d. kæfisvefn.  Einnig hvað hægt er að gera til að bregðast við þeim.  Aðallega kynning á mismunandi svefntruflunum.

 http://www.youtube.com/watch?v=X2yfUL8uct0 

Þetta er ótextað og er á ensku.

Innsett: F.S.

 

 


Líkami barna og unglinga eldist langt fyrir aldur fram – Lífslíkur minnka verulega á næstu áratugum

 

 Sunnudagur - 22.4 2012 - 22:35 - Ummæli (1)

http://eyjan.is/2012/04/22/likami-barna-og-unglinga-eldist-langt-fyrir-aldur-fram-lifslikur-minnka-verulega-a-naestu-aratugum/?fb_comment_id=fbc_10151546535495364_31828672_10151546664245364#f6dbaa245f7201 

feittbarn

Vilhjálmur hefur verulegar áhyggjur af ofþyngd barna og unglinga.

Sykursýki er mun stærra og vaxandi vandamál en tölur gefa til kynna. Allt að tuttugu sinnum fleiri gætu verið ógreindir eða með forstig sykursýki en fyrirliggjandi tölur sýna. Þetta vandamál gæti kollvarpað hugmyndum manna um lífslíkur, segir heimilislæknir.

Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir, gerir sykursýki ítarleg skil í grein sem hann skrifar á Eyjuna. Hann segir hættu á að þetta vandamál, sem við höfum sjálf skapað, vaxi okkur yfir höfuð. Hins vegar þarf ekki háskólasjúkrahús til að vinna bug á vandanum, heldur einungis skilning almennings.

Vilhjálmur segir að fátt ógni heilsu fólks í hinum vestræna heimi og sykursýkin, en til hennar má rekja alvarlega kvilla eins og hjarta- og æðasjúkdóma, nýrnabilun, heilablóðfall og blindu, svo eitthvað sé nefnt. Rót vandanst felst fyrst og fremst í hreyfingarleysi og slæmu mataræði.

Alla jafna ætti sykursýki að vera aldursbundinn við fullorðna, en málið verður alvarlegra þegar líkami barna og ungmennna „eldist langt fyrir aldur fram.“ Að öllu óbreyttu, segir Vihjálmur, stefnir í að helmingur þjóðarinnar fái sykursýki innan fárra áratuga.

Greind sykursýki er líka aðeins eins og toppurinn á ísjaka af miklu stærra vandamáli. Þar sem margfalt fleiri eru ógreindir eða með forstig sjúkdómsins. Talað er um allt að tuttugufalda tíðni miðað við tölurnar sem við sjáum í dag. Aðallega hjá vaxandi fjölda fólks sem á við ofþyngd að stríða og eru komnir með fyrstu einkenni skerts sykurþols, neyta of mikils sykurs og hreyfa sig ekki nóg. Nokkuð sem við í heilsugæslunni sjáum í dag í vaxandi mæli.

Vilhjálmur bendir á að í Bandaríkjunum stefnir hátt í helmingur íbúa að verða allt of þungur. Íslendingar virðast næstir í röðinni. Mestar áhyggjur hefur Vilhjálmur af lífstíl ungu kynslóðarinnar.

Sem færa má rök fyrir að tengist mest mikilli neyslu sykurs, aðlalega sykraðra drykkja, auk meiri neyslu sælgætis og aukabita, yfir daginn og langt fram á kvöld. Eins og ákveðin fíkn, sykurfíkn. Alls drekka Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar um 1 kíló af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð,

segir Vilhjálmur og bætir við:

Há tíðni sykursýki í offitufaraldrinum sem nú gengur yfir hinn vestræna heim og allt stefnir í að versni tugfalt að öllu óbreyttu, mun kollvarpa hugmyndum manna um auknar meðallífslíkur. Þess í stað draga líkurnar verulega niður. Fjöldi sjúklinga með alvarlegar afleiðingar sykursýkinnar mun verða heilbrigðiskerfinu ofviða og draga úr gæðum þess.

Grein Vilhjálms í heild sinni.

Innsett: F.S.

 


iBrain í þróun - Gæti nýst við einhverfu, þunglyndi og kæfisvefn

 

Af:  http://eyjan.is/2012/04/03/ibrain-i-throun-stephen-hawking-adstodar

Þriðjudagur - 3.4 2012 - 21:30 - Ummæli (3)

iBrain í þróun – Gæti nýst við einhverfu, þunglyndi og kæfisvefn

Vísindamaðurinn Stephen Hawking.

Stephen Hawking aðstoðar nú við að hanna tæki sem hlotið hefur nafnið iBrain og er ætlað að lesa hugsanir. Tækið sem vísindamenn vona að verði til þess að Hawking geti tjáð sig einungis með því að nota hugann á þó langt í land með að vera fullklárað.

Í  New York Times kemur fram að tilgangurinn sé þó ekki einungis að komast inn í höfuð Hawking og aðstoða hann í tjáskiptum heldur er markmiðið að tækið geti aðstoðað við að fylgjast með og sjúkdómsgreina einhverfu, þunglyndi og kæfisvefn. Tækinu er meðal annars ætlað að leysa af hólmi dýrar stofur fyrir svefnrannsóknir sem krefjast þess af sjúklingum að þeir verji nóttinni þar.

Philip Low leiðir hópinn og segir að tækið geti safnað upplýsingum um einstaklinginn í rauntíma og skiptir má engu máli hvað hann er að gera. Um tilraunina með Hawking segir Dr.Low að markmiðið sé að Hawking geti búið til nægilega stöðug og endurtekin mynstur svo að tækið geti þýtt það í stafi og orð. Sjálfur er Hawking mjög ánægður með þetta framlag Low og segist munu halda áfram að taka þátt í þróuninni.

Innsett F.S.

 


Alzheimer og kæfisvefn.

 

Athyglisverð grein um möguleg tengs á milli Kæfisvefns og Alzheimer.  Þetta er verið að rannsaka eins og margt annað sem tengist kæfisvefni og líka Alzheimer.

Hér er sagt frá þessu vegna fundar um Alzheimer.

Ég birti þetta hér á síðu um Kæfisvefn og þá sem dæmi um þær rannsóknir sem verið er að gera og tengjast Kæfisvefni og öðrum svefnháðum öndunartruflum.

Athyglisverð grein og þess virði að kynna sér.

 

Innsett F.S.


mbl.is Skoða tengsl kæfisvefns og Alzheimer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

22 smituðust af berklum í fyrra: Sprenging miðað við fyrri ár - Flestir smitaðra útlendingar

 

 

 

02. apr. 2011 - 20:20

 

Ástæða er til að hafa áhyggjur að verulegri fjölgun berklatilfella meðal barna í Evrópu. 22 einstaklingar greindust með berkla á Íslandi á síðasta ári. Tilfellin eru óvenjumörg miðað við fyrri ár.

 

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Læknablaðsins. Samkvæmt nýrri skýrslu um útbreiðslu berkla í Evrópu kemur fram að heildartala þeirra sem smitast af berklum fer lækkandi, en berklasmit á meðal barna hefur aukist nokkuð.

 

Alls  greindust  22 einstaklingar hafi greinst með berkla í fyrra sem er óvenju mikið miðað við fyrri ár. Til samanburðar voru tilfellin 9 árið 2009. Af þeim sem greindust með berkla voru 16 af erlendu bergi brotnir.

 

Um miðjan 9. áratug síðust aldar greindust nánast engin börn á skólaaldri með berkla og því var almennum berklahúðprófum í skólum hætt.

 

    "Á undanförnum áratugum hefur hlutur innflytjenda til landsins meðal berklaveikra farið vaxandi. Nú sem fyrr eru Asíubúar hlutfallslega flestir meðal berklaveikra, en tíðni jákvæðra berklaprófa meðal íbúa frá Afríku, Asíu og Austur-Evrópu er einnig há. Það er ljóst að ekki næst til allra innflytjenda í læknisskoðun við komu til landsins. Því er afar brýnt að heilsugæslustöðvar hafi í huga berkla þegar fólk sækir læknisþjónustu vegna einkenna sem bent gætu til berkla",

 

er haft eftir Haraldi Briem, sóttvarnarlækni,  í Læknablaðinu. Árlega látast 1.300 manns úr berklum í heiminum öllum, en sjúkdómurinn  er vel læknanlegur ef hann er greindur nógu fljótt. talið er að 25 til 30 prósent af fólki séu sýkt af berklabakteríunni þótt aðeins 10 prósent af þeim taka sjúkdóminn. 

----    ----    ----    ----    ----    ----  

Greinina má finna hér:

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/04/nr/4183  

 innsett: F.S.

 


Ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu í SÍBS húsinu, Síðumúla 6, kl. 16:00-19:00, í dag

 

SÍBS og Hjartaheill bjóða  almenningi ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu í SÍBS húsinu, Síðumúla 6, kl. 16:00-19:00, í dag,  mánudag 7. febrúar.

Gengið er inn að austanverðu og mælingarnar verða á annari hæð.

Sem fyrr segir verður mælt á tímabilinu 16:00-19:00 en skráningu lýkur kl. 18:00.

innsett: F.S.


Kæfisvefn veldur hjarta- og æðasjúkdómum - segir doktorsnemi í líffræði. Viðtal við Ernu Sif Arnardóttur

http://www.laeknabladid.is/2009/07/nr/3574

07. tbl 95. árg. 2009

 „Rannsóknin tengist fyrst og fremst kæfisvefni þar sem við erum að leggja áherslu á að skilja betur hvernig kæfisvefn veldur hjarta- og æðasjúkdómum en við erum líka að skoða hvað gerist í svefnleysi; hvers vegna sumir þola svefnleysi betur en aðrir og hvort hægt sé að finna á því beinar líkamlegar skýringar,“ segir Erna Sif Arnardóttir, doktorsnemi í líffræði, sem útnefnd var Ungur vísindamaður ársins á Vísindadögum Landspítala í byrjun maí. 

u03-fig1_opt

Erna Sif Arnardóttir sem fékk verðlaun á Vísindadögum Landspítala er glaðvakandi og einbeitt yfir svefnrannsóknum sínum. 

„Þetta er doktorsverkefnið mitt við læknadeild Háskóla Íslands og leiðbeinendur mínir eru Þórarinn Gíslason, yfirlæknir á lungnadeild Landspítala, og Allan I. Pack, prófessor við University of Pennsylvania,“ segir Erna Sif. Hún bætir við til nánari skýringar að rannsókn sín sé að miklu leyti byggð á Íslensku kæfisvefnsrannsókninni sem staðið hefur yfir um nokkurra ára skeið undir stjórn Þórarins Gíslasonar og er ein stærsta rannsókn í heiminum á því sviði, að sögn Ernu Sifjar. „Sú rannsókn beinist fyrst og fremst að því að rannsaka hvaða gen valda kæfisvefni og er samstarfsverkefni Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar og styrkt af NIH (National Institute of Health) í Bandaríkjunum. Það segir reyndar talsvert um alþjóðlegt mikilvægi rannsóknarinnar því sjaldgæft er að NIH styrki rannsóknir sem fara fram algerlega utan Bandaríkjanna.“ 

Hvað er kæfisvefn?

„Kæfisvefn er sjúkdómsástand sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni og fylgir yfirleitt hrotur og mikil dagsyfja,“ segir Erna Sif. „Truflanirnar stafa af því að öndunarvegurinn lokast endurtekið í svefni í 10 sekúndur eða lengur, getur varað allt að tvær mínútur. Öndunin stöðvast algerlega í þennan tíma, eða grynnist verulega, og þessu fylgir verulegt súrefnisfall í blóði sjúklingsins. Súrefnisfallið er talið aðalorsökin fyrir flestum fylgikvillum og slæmum afleiðingum kæfisvefns. Kæfisvefninn veldur einnig verulegri truflun á svefni og dregur úr svefngæðum, einstaklingurinn fær ekki jafn mikinn djúpsvefn og ekki jafnmikla hvíld og heilbrigðir einstaklingar. Kæfisvefnssjúklingar þjást því gjarnan af dagssyfju, sofna undir stýri eða við störf sín yfir daginn og eru með skert lífsgæði. Kæfisvefn er um helmingi algengari hjá körlum en konum, alþjóðlegar rannsóknartölur segja 4% karla á miðjum aldri með kæfisvefn en um 2% kvenna. Hér á Íslandi meðhöndlum við nú þegar þennan fjölda þannig að tölurnar eru eflaust nokkuð hærri og stöðugt koma nýir sjúklingar með alvarlegan kæfisvefn svo sjúkdómurinn er raunverulegt vandamál hjá talsvert stórum hópi fólks.“ 

Umfangsmiklar mælingar

„Fjöldi kæfisvefnssjúklinga í þessari rannsókn er um 2000 auk ættingja og ég nýti mér þennan mikla efnivið í rannsóknina mína sem tekur til mun afmarkaðri þátta kæfisvefns en stóra rannsóknin gerir. Við mína rannsókn voru allir nýir sjúklingar sem komu til kæfisvefnsrannsóknar teknir í ítarlegri rannsókn. Tekið var blóðsýni og fita var mæld yfir allan kviðinn með segulómun, bæði iðrafita (visceral fat) og fita undir húð (subcutaneous fat). Það er talið að iðrafita sé hættulegri hvað varðar kæfisvefn en önnur líkamsfita og við gerðum því nákvæmar mælingar á fitudreifingu allra nýrra sjúklinga. Síðan bætast við niðurstöður úr svefnmælingum, hversu alvarlegan kæfisvefn hver og einn er með og ítarlegur spurningalisti um heilsu, dagsyfju og fleira.“

Úr blóðsýninu eru mældir bólguþættir en Erna Sif segir að vitað sé að bólga valdi aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. „Við vitum einnig að 60% íslenskra kæfisvefnssjúklinga eru með háþrýsting og að hluti af þeim þjáist einnig af hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki. Kæfisvefn eykur mjög líkurnar á þessum sjúkdómum. Bólguboðefnin sem við mælum í blóðinu eru C-reactive protein (CRP) og Interleukin-6 (IL-6). Þessi efni fara út í blóðið frá ýmsum líkamssvæðum, meðal annars fer IL-6 úr fitunni sjálfri og sérstaklega virðist sem iðrafitan setji mikið af bólguboðefnunum frá sér. Þeir sem eru í yfirþyngd eru yfirleitt með mjög aukin bólguboðefni í blóðinu. Við erum að reyna skilja betur sambandið á milli kæfisvefns og sjúkdómanna sem ég nefndi. Hvernig kæfisvefninn veldur þeim. Er það kæfisvefninn sjálfur? Eru það tengslin milli kæfisvefns og offitu? Hefur það áhrif á líkur á hjarta- og æðasjúkdómum hvort einstaklingur með kæfisvefn er grannur eða í yfirþyngd? Það sem við sjáum er að á milli kæfisvefns og offitu er einhvers konar víxlverkun þannig að jafnalvarlegur kæfisvefn hjá grönnum einstaklingi og einstaklingi með offitu hefur meiri áhrif á bólguþætti hjá þeim sem er í offitu. Þeir sem eru grannir en þjást af kæfisvefni virðast því vera í minni áhættu með hjarta- og æðasjúkdóma þó áhættan sé ennþá til staðar.“

 Erna Sif segir að sambandið milli kæfisvefns og offitu sé flókið og erfitt að draga saman í eina setningu. „Það er engu að síður þannig að því þyngri sem maður er því meiri líkur eru á að hann sé með kæfisvefn. Grannir geta einnig þjáðst af kæfisvefni en ástæðurnar eru aðrar en hjá þeim sem þyngri eru. Grannur maður með kæfisvefn er líklega með litla höku, stóran úf, stóra tungu, eitthvað sem veldur því að öndunarvegurinn þrengist. Hins vegar gerist það hjá þeim sem þyngjast að öndunarvegurinn þrengist vegna þess að fita safnast inn á öndunarveginn, tungan stækkar og aukin kviðfita dregur úr öndunargetu. Það hefur verið sýnt fram á að allt að 97% þeirra sem eru með alvarlega offitu eru með kæfisvefn. Tengslin þarna á milli eru augljós en þó eru allar offiturannsóknir litaðar af því að kæfisvefn er yfirleitt ekki rannsakaður. Faraldsfræðilegar rannsóknir staðfesta að kæfisvefn veldur há-þrýstingi og einnig hefur verið staðfest að hjá þeim sem eru með ómeðhöndlaðan kæfisvefn er mikil aukning dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig er talið að kæfisvefn valdi sykursýki þó orsakatengslin séu ekki jafn ítarlega rannsökuð og hitt sem ég nefndi.“ 

Viðbrögð við svefnleysi

Annar hluti rannsóknar Ernu Sifjar beinist að líkamlegum áhrifum svefnleysis. „Það er vitað að magn bólguboðefna eins og CRP og IL-6 eykst í blóði þeirra sem missa svefn heila nótt eða sofa skemur en fjóra tíma á sólarhring. Einnig hefur komið fram í nýlegum rannsóknum að matarlyst eykst við svefnleysi þar sem brenglun verður á hormónunum ghrelin og leptin sem stjórna svengd; einstaklingurinn sækir þá sérstaklega í kolvetnaríka fæðu. Einnig verður skerðing á sykurþoli við svefnleysi sem eykur áhættu á sykursýki af gerð II. Í nýlegri rannsókn sem stóð yfir í tvær vikur þyngdust þeir þátttakendur sem fengu ekki að sofa lengur en fjóra klukkutíma á sólarhring. Einnig er vitað að fólk með skertan svefn er með verulega skerta athygli og einbeitingu og kemur kannski ekki sérstaklega á óvart.

 

Í rannsókninni völdum við tvo hópa til samanburðar, annars vegar fólk sem við vissum af fyrri mælingum að þoldi svefnleysi vel í athyglisprófum og hins vegar fólk sem við vissum að þoldi svefnleysi illa og stóð sig verr í sömu prófum. Öllum var síðan haldið vakandi í 38 tíma og líkamlegt ástand rannsakað nákvæmlega um leið og einstaklingarnir leystu athyglispróf. Við höfum áhuga á að vita hvort sykurþolið er betra og bólguviðbrögðin minni hjá þeim sem þola svefnleysið vel en hjá þeim sem þola það illa? Tengslin þarna á milli eru ekki þekkt. Við gerðum einnig mjög umfangsmiklar mælingar meðan á rannsóknartímanum stóð, tókum blóð á fjögurra tíma fresti bæði við eðlilegan svefn fyrir vökutímabilið, á meðan á því stóð og svo fyrstu nóttina eftir svefnleysi í lok rannsóknartímans. Við erum núna að gera mælingar á breytingunum sem verða í genatjáningu í 39 þúsund genum við svefnleysi í samanburði við eðlilegan svefn og vöku. Þessar mælingar eru gerðar með örflögutækni (microarray) sem gerir okkur kleift að skoða allar breytingar sem verða á frumustarfsemi en ekki bara einangruð boðefni.“ Erna Sif segir niðurstöður ekki liggja fyrir ennþá en tilgáta hennar er sú að þeir sem upplifi svefnleysi sem lítið mál verði fyrir minni líkamlegum áhrifum en hinir. „Reyndar eru til tvær gerðir af fólki sem sefur lítið að jafnaði. Annars vegar eru þeir sem sofa alltaf 4-6 tíma og hins vegar eru þeir sem sofa 4-6 tíma á virkum dögum og bæta sér síðan upp svefnleysið með miklum svefni um helgar. Seinni hópurinn er líklega að valda sér einhverjum skaða en mögulegt er að hinir þurfi hreinlega ekki meiri svefn.“

 

Hún segir að upplýsingar um áhrif svefnleysis geti komið sér mjög vel fyrir fólk sem er að velta fyrir sér hvort óreglulegur vinnutími og/eða vaktavinna henti því. „Ég tel að fólk vilji vita hvort það sé að valda sér heilsufarslegum skaða með því að vinna þannig að það dragi verulega úr svefni, jafnvel þótt það upplifi líðan sína ágætlega og geti haldið athyglinni. Læknar eru einmitt gott dæmi um stétt sem vinnur mikið og til skamms tíma hafa vaktir verið mjög langar hjá læknum. Mér finnst í rauninni stórmerkilegt hvað læknar hafa unnið langan vinnudag og langar vaktir miðað við hvað vitað er um áhrif svefnleysis á frammistöðu og athyglisgáfu. Margar rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að læknar og aðrar stéttir gera meiri mistök eftir að hafa staðið langar vaktir. Svo þegar líkur benda til að svefnleysið hafi áhrif á heilsufar læknisins sjálfs spyr maður sig hvort ekki eiga að leggja miklu meiri áherslu á að draga úr vinnu- og vaktaálagi.“

 

Fyrstu niðurstöður úr kæfisvefnshluta rannsóknar Ernu Sifjar voru kynntar innan Landspítala á Vísindadögum og á stórri ráðstefnu í Seattle. Reikna má með birtingu í tímariti í lok sumars. „Niðurstöður úr svefnleysisrannsókninni verða væntanlega birtar í haust eða fyrri part næsta vetrar. Ég stefni svo að því að ljúka doktorsnáminu í lok næsta árs,“ segir Erna Sif Arnardóttir að lokum

Innsett: F.S.

 

 

 

 

 


Svefnleysi getur leitt til vænisýki

Af:  Vísir, 30. des. 2008 08:10

Atli Steinn Guðmundsson skrifar:

 

„Ertu þá ei annað en knífur hugans, helber sjónhverfing, sem slæðist fram úr hitaþrungnum heila?" spurði Macbeth hershöfðingi eftir að hafa myrt Duncan Skotlandskonung í svefni.

 

Samkvæmt dr. Daniel Freeman og samstarfsfólki hans við Sálfræðistofnun King´s College í London getur svefn einmitt leikið stórt hlutverk í geðslagi fólks, einkum svefnleysi en það er einmitt kvilli sem Macbeth þjáðist af samkvæmt leikriti Shakespeares.

 

Rannsókn Freemans og félaga leiddi í ljós að 70 prósent fólks í hópi sem tekinn var til rannsóknar þjáðist af svefnleysi og sýndi um leið sterk einkenni vænisýki sem margir þekkja betur sem paranoju. Freeman bendir á að fátt komi í staðinn fyrir góðan nætursvefn og svefninn hafi betri áhrif á andlega heilsu fólks en margan gruni.

 

Ekki er nóg með þetta heldur er góður svefn einnig forvörn gegn hjartasjúkdómum og skapar hreinlega bara betri almenna líðan, segir Freeman. Með von um góðan svefn á árinu 2009

Innsett F.S. 

 

Hvað er kæfisvefn.

 

 

Í tvo til þrjá áratugi hefur verið vitað að til eru öndunartruflanir sem eingöngu koma fram í svefni.(Svefnháðar öndunartruflanir)     Kæfisvefn er hluti þeirra.

 

 

Tala má um þrjár tegundir kæfisvefns,  1. hindrun á loftflæði um kverkar og barka (Obstructivur),   2.  truflun á stjórnun öndunar í heilanum(Central) og   3. blöndu af þessu tvennu.

 

 

Hindrun á loftflæði um kverkar og barka er lang algengasta orsök kæfisvefns og það sem ég ætla að ræða um hér.

 

 Kæfisvefn (sleep apnea syndrome) er ástandið kallað, þegar öndunarhlé eru fleiri en 30 yfir nóttina (5 eða fleiri á klukkustund ) og þeim fylgir hrotur með ýmsum öðrum einkennum svo sem óværum svefni, miklum byltum í svefni og mikilli svitamyndun að næturlagi.   

Við endurtekin öndunarhlé fellur súrefnismettunin í blóði, hlutþrýstingur koltvísýrlings í blóði hækkar, blóðþrýstingurinn hækkar og hjartsláttartíðnin eykst. Segja má að þá sé komið tress ástand sem magnast og endar í að viðkomandi vaknar eða losar svefn.  Viðkomandi nær þá sjaldan eða aldrei á REM svefnstigið sem er hinn eiginlegi hvíldarsvefn

Fólk vaknar svo að morgni án þess að vera vel úthvílt þrátt fyrir að það fái að því er sýnist eðlilegan nætursvefn og finni fyrir syfju og þreytu á daginn.

Hjá fullorðnum telst það öndunarhlé ef öndunin hættir alfarið í 10 sekúndur eða lengur.

 

 

Offita getur verið sjálfstæð orsök kæfisvefns og einnig samverkandi með öðrum þáttum, svo sem nefskekkju (skekkja á miðsnesi), sepamyndun, stórum hálskirtlum og lítilli höku.

 

 

Hrotur einar sér eru því ekki fullnægjandi vísbending um kæfisvefn, heldur þurfa fleyri einkenni að fylgja með .

 

 

Ef ómeðhöndlaður kæfisvefn er á háu stigi eru slíkir sjúklingar í margfalt meiri hættu að lenda í umferðar- eða vinnuslysum. Einnig er meðal þeirra aukin dánartíðni, fyrst og fremst vegna hjarta- og æðasjúkdóma.     Það er því ljóst að ómeðhöndlaður kæfisvefn er daunans alvara.

  Veruleg tenging virðist á milli þess að vera með sýrubakflæði að næturlagi og öndunarfæraeinkenni og svo milli sýrubakflæðis og astma. Þegar kokið er lokað eru sífellt gerðar öflugri og öflugri tilraunir til að ná niður lofti - sá neikvæði þrýstingur virðist verða til þess að fólk sogar sýru upp úr maganum. Sjúklingurinn hóstar og þetta virðast vera astmaeinkenni - en þegar betur er skoðað þá er þetta ekkert sem líkist venjulegum astma, heldur er sýruerting í berkjunum og svarar ekki venjulegri astmameðferð.    Við kæfisvefnsmeðferð ganga þá þessi einkenni til baka.

Ekki er enn ljóst hve stóran þátt kæfisvefn á í öndunarfæraeinkennum en rannsóknir fara fram á því sviði, m.a. hérlendis.

  

Samkvæmt rannsóknum er talið að 4% karla og 2% kvenna   þjáist af kæfisvefni, sem þýðir að kæfisvefn er einn af algengustu langvinnum sjúkdómum.

 

 

Algengasta og árangursríkasta meðferðin við alvarlegum kæfisvefni felst í daglegri notkun CPAP(Continuous Positive Airway Pressure)-öndunarvéla í svefni. (Önnur meðferðarúrræði ekki nefnd hér)   Þetta er einföld öndunarvél þar sem, með aðstoð loftblásara, er aukinn þrýstingur á innöndunarlofti.   Sjúklingur sefur þá með grímu tengda við öndunarvélina.

Með CPAP-öndunarvélinni er komið í veg fyrir öndunarhlé, sjúklingurinn sefur eðlilega, hvílist og finnur ekki fyrir dagsyfju.

Filgikvillar kæfisvefns, s.s. háþrýstingur, verða þá yfirleitt viðráðanlegri.

 

 Til að fækka dýrum legudögum hafa sjúklingar grunaðir um kæfisvefn verið skimaðir í heimahúsi fremur en að þeir séu lagðir inn næturlangt á sjúkrahús til slíkrar rannsóknar.

Hægt er að komast í skimun fyrir kæfisvefni á eftirtöldum stöðum:   Landspítala - háskólasjúkrahúsi Fossvogi,    Læknasetrinu Þönglabakka 6,   Fjórðungssjúkrahúsinu Akureyri,  .Heilbrigðisstofnun Austurlands, Neskaupstað    og á   Reykjalundi fyrir inniliggjandi sjúklinga.

Mátun og prófun á öndunarvélum er eingöngu á Landspitali Háskólasjúkrahús (LHS) Fossvogi lungnadeild og eru sjúklingar innileggjandi á meðan.

 

 

Ef þú er með grun um að þú gætir verið með kæfisvefn, þá er best  að leita til heimilislæknis með áhyggjur sínar og þeir senda beiðni áfram til réttra aðila.

 

 
Upplýsanga aflað í greinum eftir: Magnús Jóhannsson læknir,  Þórarinn Gíslason, læknir,  Bryndís S. Halldórsdóttur hjúkrunarfræðing og Þorbjörg Sóley Ingadóttur hjúkrunarfræðing
 

 

Frímann Sigurnýasson formaður Vífils

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband