Færsluflokkur: Kjaramál

Eru leiðtogar ASÍ að berjast fyrir eigin kjarabótum eða kjaraskerðingu fyrir aðra launamenn ??

 

Ég held að ASÍ verði að fara að skoða eigin vinnubrögð í kjarabaráttunni.   Það þarf að auka greiðslur í lífeyrissjóði ASÍ til að bæta lífeyrisréttindi þeirra fólks. 

Svo er stóra málið að það þarf að koma í veg fyrir að ríkið ræni lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóðanna.

Nú skerða greiðslur lífeyrissjóðanna bætur Tryggingastofnunar Ríkisins svo að áunnin lífeyrisréttindi ganga, að stórum hluta, til ríkisins í gegnum þessar skerðingar.

Verkalíðsfélögin öll verða að vinna betur að réttindum lífeyrisþega og koma í veg fyrir þessar skerðingar.

ASÍ á ekki að öfundast út í lífeyrisréttindi annarra heldur vinna að því að bæta lífeyrisréttindi sinna félagsmanna.

Til þess eiga þeir að nota kjarasamningana.

F.S.

 


mbl.is Vilja afnema ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að leysa rekstrarvanda verndaðra vinnustaða ?

 

Nú er blindravinnustofan í vanda og niðurskurður á framlagi ríkisins er að gera þeim erfitt fyrir. 

Á samdráttartímum eru vinnustaðir að fækka fólki og þá missa fatlaðir oft frekar vinnuna en aðrir.  Því er enn mikilvægara að tryggja rekstur verndaðra vinnustaða og atvinnu þeirra fötluðu einstaklinga sem vinna þar.  

Ríkið fær virðisaukaskatt af seldum vörum og svo skatta af 30 einstaklingum sem vinna þar.

  Stjórnvöld verða að huga betur að þessum vinnustöðum og tryggja vinnu og velferð fötluðu einstaklinganna sem vinna þar.

F.S.


mbl.is Blindravinnustofan í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

Frétt af:   http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33060 

24/10/2011 

Í byrjun næsta árs verða lágmarksbætur lífeyrisþega 203.000 krónur og hafa þá hækkað um 61% frá árinu 2007. Þá hafa útgjöld almannatrygginga sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs farið úr 9,5% árið 2006 í 13,1% árið 2012 miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands síðastliðinn laugardag. 

Velferðarráðherra kom víða við í ávarpi sínu. Hann sagði mikilvægt mál hafa verið lögfest á Alþingi nú í haust þegar samþykkt voru lög sem koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum. „Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna.“ 

„Í þrengingum okkar frá hruni hafa stjórnvöld alltaf lagt áherslu á að útfærslur aðhaldsaðgerða og niðurskurðar útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Grunnþjónustan hefur verið varin eins og kostur er og þau verkefni sem samstaða er um að ríkið sinni í þágu samfélagsins. 

Það hefur líka sýnt sig að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum og þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu hafa dregið úr álögum á þá tekjulægstu en fært skattbyrðina í auknum mæli á herðar þeim sem hærri tekjur hafa.“

 Ráðherra ræddi einnig um endurskoðun almannatryggingakerfisins, stefnumótun í húsnæðismálum og fyrirhugaða upptöku húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Þá talaði hann um frumvarp til breytinga á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sem verður lagt fram á Alþingi á næstunni: 

„Ég er sannfærður um að fólk muni fljótt sjá að þetta kerfi er bæði einfaldara og réttlátara en það sem við búum við núna, af því að það mismunar ekki sjúklingum eftir því hvers eðlis veikindi þeirra eru og af því að það er byggt upp til þess að draga úr kostnaði hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda vegna veikinda sinna. Sambærilegar breytingar tel ég nauðsynlegt að gera varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllu, einfaldlega af því að gildandi kerfi styður ekki nógu vel við bakið á þeim sem helst þurfa á því að halda.“ 

     innsett F.S.


Hækkanir bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga

6/6/2011

Velferðarráðherra hefur kynnt hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum.

Bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækka frá 1. júní síðastliðnum þannig að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur njóti hliðstæðra kjarabóta og samið var um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Markmiðið er ekki síst að bæta hag þeirra sem lökust kjörin hafa og draga úr fátækt.

Almannatryggingar

Bætur hækka um 8,1%

Bætur almannatrygginga hækka um 8,1% og er þar með tryggt að lífeyrisþegar með óskertar bætur njóta 12.000 kr. hækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þannig munu lífeyrisþega njóta hækkunarinnar og þá einnig þeir sem hafa aðrar tekjur, til dæmis frá lífeyrissjóðum eða atvinnutekjur.

Eftirtaldir bótaflokkar almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar hækka um 8,1%:

  • Elli- og örorkulífeyrir.
  • Tekjutrygging.
  • Heimilisuppbót.
  • Aldurstengd örorkuuppbót.
  • Endurhæfingarlífeyrir.
  • Barnalífeyrir.
  • Barnalífeyrir vegna menntunar.
  • Dánarbætur.
  • Maka- og umönnunargreiðslur.
  • Mæðra- og feðralaun.
  • Sérstök uppbót til framfærslu.
  • Sjúkra- og slysadagpeningar.
  • Uppbætur vegna kostnaðar.
  • Umönnunargreiðslur.
  • Vasapeningar.
  • Örorkustyrkur.

Viðmið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkar.

Enn fremur er viðmiðið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkað um 12.000 kr. þannig að lágmarkstrygging einstaklinga verður 196.140 kr. og 169.030 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Með þessu er verið að tryggja að þeir sem minnst hafa njóti einnig þeirra hækkana sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um.

Jafnframt er gerð sú breyting frá og með 1. júní síðastliðnum verður ekki tekið tillit til uppbótar vegna reksturs bifreiðar (bensínstyrkur) við útreikning framfærsluuppbótar. Uppbót vegna reksturs bifreiðar hækkar jafnframt um 8,1% og verður 11.705 kr.

Eingreiðsla

Þeir sem hafa fengið greiddan lífeyri innan almannatryggingakerfisins á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 eiga rétt á eingreiðslu að fjárhæð 50.000 kr. Þeir sem eiga rétt á fullum lífeyri fá því óskerta eingreiðslu án tillits til lækkunar vegna annarra tekna. Tryggingastofnun greiðir eingreiðsluna til lífeyrisþega 15. júní næstkomandi.

Desember- og orlofsuppbætur hækka

Orlofsuppbót verður 28,3% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 20% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 10.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Desemberuppbót verður 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 30% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 15.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Atvinnuleysistryggingar

Grunnatvinnuleysisbætur hækka

Grunnatvinnuleysisbætur hækka um 12.000 kr. sem svarar til krónutöluhækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og verða því 161.523 kr. á mánuði frá og með 1. júní síðastliðnum.

Eingreiðsla

Atvinnuleitendur sem eru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá 50.000 kr. eingreiðslu sem greidd verður út 10. júní næstkomandi.

Atvinnuleitendur sem eru hlutfallslega tryggðir eða hafa ekki staðfest atvinnuleit á öllu tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá greidda hlutfallslega eingreiðslu. Biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikninga enda hafi atvinnuleitandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma. Eingreiðslan verður aldrei lægri en 12.500 kr. miðað við að atvinnuleitandi hafi verið að fullu tryggður.

Desemberuppbót

Enn fremur hefur verið ákveðið að atvinnuleitendur njóti desemberuppbóta sem reiknast sem 30% af grunnatvinnuleysisbótum. Er jafnframt gert ráð fyrir að greitt verði álag að fjárhæð 15.000 kr. í desember 2011 í samræmi við álag á desemberuppbót launafólks á almennum vinnumarkaði. Desemberuppbótin í desember 2011 til atvinnuleitenda verður því 63.457 kr.

Aðrar greiðslur

Jafnframt verða greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hækkaðar um 8,1% sem og fæðingarstyrkur til foreldra og ættleiðingarstyrkir.


Um 62% fólks með örorkumat hefur innan við 200 þúsund krónur á mánuði til ráðstöfunar.

af:  http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/665

22.12.2010  

Stöð2 sýndi í gær, 21. desember, nýja hlið á kjörum öryrkja, sem er að hluta nær staðreyndum, enn er þó framsetningin villandi.

Í frétt þeirra segir meðal annars að tölurnar sýni það sem menn fá í vasann, „?eina sem getur bæst við eru húsaleiga, barna- og vaxtabætur, rétt eins og hjá fólki á vinnu markaði."

ÖBÍ hefur áræðanlegar upplýsingar um að inn í þeim uppgefnum tölum frá TR sem Stöð2 styðst við, séu einnig meðtaldar greiðslur meðlags, mæðralauna, dánarbóta, umönnunarbóta og annarra uppbóta sem fámennur hópur einstaklinga á rétt á vegna sérstakra aðstæðna.

Meðlag, mæðralaun, umönnunarbætur og dánarbætur er greiðslur sem allir almennir launamenn eiga rétt á ef þeir eru í slíkri stöðu. Þessar tölur þyrfti því að aðgreina í umræddu dæmi Stöðvar2.

Í frétt Stöðvar2 er þess einnig getið að 757 öryrkjar fari yfir 350 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuð (þ.e. tekjur eftir skatta). ÖBÍ vill benda á að allir þeir öryrkjar sem hafa í launa-, lífeyris- eða fjármagnstekjur kr. 331.778 (fyrir skatta) eða hærri, fá enga bætur almannatrygginga frá TR þar sem tekjutengingaráhrif hafa þá skert bætur lífeyrisþegans niður í núll. Þeir 757 öryrkjar sem tilgreindir eru í fréttinni sem hátekjumenn greiða því skatta og skyldur jafnt á við aðra launamenn í landinu. Sá fjöldi sem er í þessari stöðu mun vera hærri eða um 900 manns, samkvæmt nýlegum upplýsingum TR til ÖBÍ.

TR skjal -skerðingaráhrif tekna á bætur (opnast í nýjum vafra)

Fjármagnstekjur og skerðingar.

Loks má geta þess að allir öryrkjar sem fá fjármagnstekjur (vexti, verðbætur) af sínum bankareikningi greiða sömu skatta og aðrir þegnar þessa lands. Einnig eru bætur þeirra skertar vegna þessara tekna krónu á móti krónu, ef þeir fá uppbót á framfærslu (á við þá sem lægstu bæturnar hafa). Launamenn verða hinsvegar ekki fyrir því að laun þeirra séu skert þó nokkrar krónur fáist í vexti á ári.

Reiknivél TR fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málin betur. (opnast í nýjum vafra)

Frétt Stöðvar2 þann 21. desember.
 

Innsett  F.S.


Notendastýrð persónuleg aðstoð og kostnaður við þjónustu við aldraða og fatlaða

 

10.12.2010

http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/660

 

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, unnin fyrir ViVe-Virkari velferð.

Í þessrai skýrslu er fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð og tiltekin nokkur dæmi um kostnað við núverandi þjónustu við aldraða og fatlaða á Íslandi. Að skýrslunni unnu Dr. Sveinn Aganrsson frostöðumaður Hagfræðistonfunar HÍ og Þorvarður Atli Þórsson hagfræðingu.

Vive er vinnuhópur sem hefur tekið saman áætlun fyrir íslens stjornvöld um hvernig hægt er að breyta velferðarkerfi þannig ða fatlaðir og aldraðir geti lifað sjálfstæðu lífi utan stofnana.


Skýrslan í heild (767kb)

 

 innsett F.S.

 


Viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja.

 

 

Víxlverkanir stöðvaðar   

http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/657

8.12.2010

 

Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu 3. desember sl., viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja.

Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja. Fyrir hönd lífeyrissjóðanna er viljayfirlýsingin undirrituð með fyrirvara. Á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða er á það bent að hver og einn lífeyrissjóður eigi að sjálfsögðu síðasta orðið um aðild sína að samkomulaginu. Einnig segir að formsatriðum samkomulagsins skuli ljúka fyrir miðjan desember og að því búnu taki hver lífeyrissjóður afstöðu til málsins.

 

Víxlverkanirnar hafa ítrekað skert bætur öryrkja.

Á vef ráðuneytisins er viðurkennt að víxlverkanirnar hafa komið öryrkjum illa og staðið í vegi fyrir kjarabótum þeim til handa. Lífeyrissjóðirnir hafa síðustu misserin miðað greiðslur sínar til öryrkja við tekjur þeirra áður en þeir urðu fyrir örorku. Þetta hefur leitt til þess að þegar stjórnvöld hafa hækkað bætur til öryrkja hafa greiðslur lífeyrissjóðanna lækkað að sama skapi. Tekjutengingin milli almannatrygginga og lífeyrissjóða er gagnkvæm. Aðgerðir stjórnvalda til að bæta kjör öryrkja hafa því litlu skilað til þessa hóps og sömuleiðis hafa hærri greiðslur úr lífeyrissjóðum leitt til lækkunar örorkubóta.

 

Aftenging víxlverkunarinnar mun gilda í 3 ár.

Viljayfirlýsingin felur í sér að víxlverkanir milli örorkubóta almannatrygginga og lífeyrissjóðstekna verða aftengdar í þrjú ár (árin 2011, 2012, 2013). Áhrif atvinnutekna öryrkja á bætur og greiðslur úr lífeyrissjóðum verða hins vegar óbreytt. Aðilar eru sammála um að nota þennan tíma til að finna lausn á fyrirkomulagi þessara mála til framtíðar. Samhliða mun fara fram endurskoðun á tekjutengingu ýmissa bótaflokka almannatrygginga.

 

Viljayfirlýsingin (opnast á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða)

 

Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnará heimasíðu Landssambands lífeyrisjóða 

 

Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnar á heimasíðu félags og tryggingamálaráðuneytis

 

innsett F:S:


Endalok velferðarkerfisins?


Af: http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/624

 12.10.2010

 Öryrkjar hafa fengið meira en nóg! Staða örorkulífeyrisþega hefur versnað til muna í kreppunni segir m.a. í grein formanns ÖBÍ og framkvæmdastjóra ÖBÍ sem birtist í Morgunblaðinu 11. október.

 

Öryrkjar hafa fengið meira en nóg!

 Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er mikið reiðarslag fyrir fjölda öryrkja og ellilífeyrisþega, en þar er gert ráð fyrir enn meiri skerðingum en orðið er. Slík aðgerð er ekki í anda þeirrar ríkisstjórnar sem kjörin var í síðustu kosningum með fyrirheit um að verja velferðarkerfið. Þau loforð hafa engan veginn staðist.

Staða örorkulífeyrisþega hefur versnað til muna í kreppunni. Frá því í janúar 2009 hafa umtalsverðar tekjuskerðingar átt sér stað í almannatryggingakerfinu. Breytingar hafa verið gerðar á lögum og reglugerðum ásamt túlkun og framkvæmd þeirra, sem hafa komið illa niður á öryrkjum og sjúklingum. Mörg mál sem koma inn á borð ráðgjafa Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) eru mjög erfið viðureignar, því kerfið er mun flóknara en áður og fólk nær ekki að framfleyta sér á lágum bótum, á sama tíma og útgjöld hafa aukist í heilbrigðiskerfinu. Fólk talar um verulega skert lífsgæði og vanlíðan sem þessu fylgir.

Svo virðist sem öryrkjar séu sá hópur sem eigi að rétta af gjaldþrot þjóðarbúsins, á sama tíma og milljarðar eru afskrifaðir í íslenska bankakerfinu, hjá ráðamönnum og öðrum tengdum aðilum, er njóta forgangs í íslensku samfélagi.

 

Lífsnauðsynleg leiðrétting

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum leiðréttingum á greiðslum almannatrygginga um næstu áramót annað árið í röð. Um lífsviðurværi fólks er að ræða sem þarf að treysta á velferðarkerfið vegna örorku eða langvarandi veikinda. Mikil vonbrigði eru fólgin í því að stjórnvöld brjóti lög sem sett voru til að lífeyrir fylgdi verðlagi.

ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld hækki bætur almannatrygginga um að lágmarki 18-20% en með því væri lögum framfylgt. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað frá 1. janúar 2009, þegar þær hækkuðu hjá flestum um tæplega 10% en hefðu átt að hækka um nær 20%. Þann 1. janúar sl. voru bætur frystar og í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir neinum leiðréttingum á kjörum öryrkja þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 28% frá því í janúar 2008 til ágúst 2010. Því er alveg ljóst að kjör öryrkja eru langt undir fátæktarmörkum sé miðað við skilgreiningu á hugtakinu fátækt innan Evrópusambandsins.

 

Skerðingar á bótaflokkum

Greiðslur sem lífeyrisþegar fá úr almannatryggingakerfinu eru 153.400 kr. fyrir skatt fyrir þá sem búa með öðrum og 180.000 kr. fyrir þá sem búa einir. Eins og gefur að skilja, þá duga slíkar bætur engan veginn í þeirri kreppu sem nú ríkir. Hluti af þessum greiðslum er bótaflokkur sem heitir „sérstök uppbót til framfærslu" sem er án frítekjumarks þannig að aðrar bætur skerða bótaflokkinn krónu á móti krónu. Jafnvel þeir öryrkjar sem fá bensínstyrk vegna hreyfihömlunar lenda í slíkum skerðingum. Ein undantekning er þó á þessari reglu, sem tók gildi 1. júlí sl., eftir mikinn þrýsting frá ÖBÍ, en það er sérstök uppbót vegna mikils lyfja- og lækniskostnaðar. Nauðsynlegt er að undanskilja fleiri bótaflokka sem fólk fær vegna mikils kostnaðar sem hlýst af fötlun eða sjúkdómum. ÖBÍ hefur margsinnis bent á nauðsyn þess að breyta skerðingarákvæðum bótaflokksins sem var komið á rétt fyrir bankahrun en hann heldur fólki í viðjum fátæktar.

 

Óréttlátar tekjutengingar

Vert er að minnast þess mikla áfalls þegar lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum tóku gildi þann 1. júlí 2009. Lögin höfðu víðtækar afleiðingar í för með sér fyrir fjölda öryrkja og ellilífeyrisþega sem urðu fyrir talsverðum skerðingum á bótum almannatrygginga með aðeins tveggja daga fyrirvara. Tekjutengingar jukust þannig að bætur skertust meira og fyrr en áður. Nýmæli tóku einnig gildi þegar lífeyrissjóðstekjur tóku að skerða „grunnlífeyri" og einnig bótaflokkinn „aldurstengd örorkuuppbót". Breytingin leiddi til þess að margt fólk missti ákveðin réttindi sem þeim bótaflokkum fylgdu s.s. niðurgreiðslu á sjúkraþjálfun, tannlæknakostnaði, iðjuþjálfun o.fl. ÖBÍ mótmælti harðlega þessum aðgerðum en stór hópur lífeyrisþega varð fyrir skerðingum, sem í sumum tilvikum voru hlutfallslega hærri en hátekjuskatturinn sem síðar var lagður á launþega með yfir 700.000 kr. í tekjur á mánuði.

 

Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga

Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur einnig komið niður á öryrkjum og sjúklingum. Sem dæmi þá var reglum um kostnaðarþátttöku sjúklinga í sjúkra-, iðju- og talþjálfun breytt 1. október 2009, sem jók kostnað sjúklinga enn frekar. Jafnframt eru dæmi þess að fólk geti ekki keypt nauðsynleg hjálpartæki, þar sem kostnaðarhlutdeild sjúklinga miðast við ákveðna prósentu af kaupverði sem hefur hækkað verulega vegna gengishrunsins. Í sumum tilvikum greiðir Tryggingastofnun ríkisins ákveðna upphæð í hjálpartækjum, sem hefur ekki breyst þrátt fyrir miklar verðhækkanir og eru heyrnartæki dæmi um slíkt. Hækkunin lendir á þeim sem þurfa að nota tækin.

 

Skerðingar lífeyrissjóðanna

Til viðbótar við þær skerðingar sem stjórnvöld hafa komið á hafa öryrkjar og ellilífeyrisþegar orðið fyrir skerðingum hjá mörgum lífeyrissjóðum í kjölfar kreppunnar sem eru á bilinu 7-19%. Þessu til viðbótar hafa margir lífeyrissjóðir skert bætur öryrkja sérstaklega frá árinu 2006 þrátt fyrir hörð mótmæli ÖBÍ. Þeir lífeyrissjóðir sem um ræðir tóku mið af greiðslum almannatrygginga við útreikning bóta sem hefur leitt til þess að þær hafa lækkað umtalsvert. Lægri lífeyrissjóðsgreiðslur geta leitt til þess að fólk fái hærri greiðslur úr almannatryggingakerfinu, en einungis að litlum hluta, sem síðar leiðir til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur skerðast enn frekar. Víxlverkunin hefur leitt til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur hafa fallið niður hjá mörgum. Skerðingin hefur bitnað mest á þeim öryrkjum sem hafa lægstu tekjurnar og hefur að auki haft aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Til að sporna við þessu rak ÖBÍ prófmál gegn lífeyrissjóðnum Gildi. Málið fór fyrir Héraðsdóm og vannst sigur í málinu. Gildi áfrýjaði til Hæstaréttar sem úrskurðaði lífeyrissjóðnum í vil. Það voru mikil vonbrigði, enda varðar þessi niðurstaða fjölda öryrkja sem bíða eftir því að fá leiðréttingu sinna mála. ÖBÍ hefur ákveðið að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu og hefur umsókn verið send með ósk um að málið verði tekið fyrir. ÖBÍ hefur ítrekað bent stjórnvöldum á það óréttlæti sem í þessu felst og á erfitt með að skilja ástæðu þess að ekki sé búið að setja lög sem kveða á um ólögmæti slíkra skerðinga. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir kemur fram að ráðgert er að samkomulag náist við lífeyrissjóðina um að þeir líti ekki til bóta almannatrygginga við samanburð á tekjum öryrkja. Reynslan sýnir að taka beri slíkar yfirlýsingar með fyrirvara.

 

Erfið staða öryrkja

Eins og gefur að skilja eru mál þeirra sem leita til ráðgjafa ÖBÍ mun erfiðari nú en áður. Öryrkjar, sem margir hverjir bjuggu við kröpp kjör í góðærinu, eiga ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum þegar föst gjöld eins og lán og/eða húsaleiga hefur verið greidd. Greinilegt er að stjórnvöld skortir heildarsýn og skilning á aðstæðum öryrkja.

ÖBÍ fer fram á það við stjórnvöld að breytingar verði tafarlaust gerðar á fjárlagafrumvarpinu til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið. Slíkar skerðingar á kjörum fólks koma alltaf verst niður á þeim sem síst skyldi. Það er mikil áhætta fólgin í því að hópur fólks lifi við sára fátækt sökum fötlunar eða heilsubrests. Slíkur ráðahagur getur leitt til samfélagslegs tjóns sem verður ekki bætt. Það má öllum vera ljóst að ekki hefur verið staðið vörð um kjör öryrkja á þessum erfiðu tímum. Það er spurning hvort endalok íslenska verferðarkerfisins séu runnin upp.

 

7. október 2010

 Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ.

 Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ.

 innsett FS

 


Skerðingar á kjörum öryrkja

Fréttablaðið, 03. okt. 2009 06:

http://www.visir.is/article/20091003/SKODANIR03/517700326

Lilja Þorgeirsdóttir skrifar um velferðarmál

 

Lilja Þorgeirsdóttir

 

Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum voru samþykkt á Alþingi þann 29. júní sl. Breytingarnar voru framkvæmdar til að ná fram sparnaði í ríkisfjármálum á methraða. Tveir dagar liðu frá því að lögin voru samþykkt þar til fjöldi öryrkja og ellilífeyrisþega varð fyrir skerðingum á bótum almannatrygginga.

 

Lögin fólu m.a. í sér að tekjutengingar jukust þannig að bætur almannatrygginga skertust meira og fyrr en áður. Þá var einnig brotið blað í sögunni þegar lífeyrissjóðstekjur tóku að skerða „grunnlífeyri" og einnig bótaflokkinn „aldurstengd örorkuuppbót". Breytingin gat jafnframt leitt til þess að fólk missti ákveðin réttindi sem þeim fylgdu s.s. niðurgreiðslu á sjúkraþjálfun, tannlæknakostnað, iðjuþjálfun o.fl.
ÖBÍ mótmælti því harðlega að ráðist væri á almannatryggingakerfið með þessum hætti en stór hópur örorkulífeyrisþega varð fyrir talsverðum skerðingum á tekjum með nánast engum fyrirvara. Dæmi voru um að skerðingarnar væru hlutfallslega meiri en hátekjuskatturinn sem lagður var á launþega með yfir 700.000 kr. í launatekjur á mánuði.

 

Það er öllum ljóst að erfiðleikar blasa við þjóðinni í kjölfar bankahrunsins. Forsætisráðherra tilkynnti að skera þyrfti niður í ríkisútgjöldum með því að lækka hæstu launin, setja á hátekjuskatt og endurskoða fastlaunasamninga hjá ríkisstarfsmönnum. En tekið var sérstaklega fram að ekki yrði hreyft við launum undir 400.000 kr. á mánuði. Sú ákvörðun er skiljanleg, enda hafa þeir sem eru með hærri tekjur að öllum líkindum meira svigrúm til að taka á sig þyngri byrðar en hinir. Því kom það á óvart þegar bætur örorkulífeyrisþega voru skertar, þar sem tekjur flestra þeirra eru vel undir þessum mörkum.

 

Skerðingin á bótum almannatrygginga hófst hjá örorkulífeyrisþegum sem búa með öðrum við tæpar 160.000 kr. í heildartekjur á mánuði fyrir skatt og hjá þeim sem búa einir hófst skerðingin við rúmar 180.000 kr. á mánuði. Í dæmum sem starfsfólk ÖBÍ reiknaði út voru skerðingar af heildartekjum öryrkja, þ.e. bætur almannatrygginga og greiðslur úr lífeyrissjóði, í prósentum talið á bilinu 0,1-7,7%.

 

Þessar skerðingar koma sérstaklega illa við þennan hóp sem hefur litla sem enga möguleika á að auka tekjur sínar sökum fötlunar eða sjúkdóma. Hafa ber í huga að bætur lífeyrisþega eru framfærsla, oft á tíðum, til langs tíma, hjá mörgum allt lífið. Einnig er fólk með örorkumat að jafnaði með hærri útgjöld en aðrir vegna lyfja- og lækniskostnaðar, sjúkra- og iðjuþjálfunar o.fl. en þessi útgjöld hafa hækkað verulega undanfarið. Jafnframt hefur fjöldi lífeyrissjóða lækkað greiðslur til öryrkja um 7-10% í kjölfar bankahrunsins. Þá varð meirihluti lífeyrisþega fyrir allt að 10% skerðingu á bótum almannatrygginga 1. janúar sl. vegna bráðabirgðaákvæðis í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

 

Slíkar skerðingar eru ómannúðlegar. Það er sérstaklega mikilvægt á tímum kreppu og niðurskurðar að standa vörð um þá sem standa höllum fæti í samfélaginu og hafa lægstu tekjurnar. Langtímafátækt hefur slæm áhrif á heilsu fólks, sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og eykur kostnað ríkisins til lengri tíma litið. Því er það óásættanlegt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar taki á sig hlutfallslega meiri byrðar en aðrir. „Skjaldborgin" um heimilin í landinu virðist ekki eiga að ná til lífeyrisþega þrátt fyrir að þeir séu, eins og aðrir, með heimili, börn á sínu framfæri og aðrar skuldbindingar eins og aðrir

Starfsfólk skrifstofu ÖBÍ fær reglulega símtöl frá öryrkjum sem eru ósáttir við sitt hlutskipti. Margir hverjir hafa búið við kröpp kjör í mörg ár og eiga sérstaklega erfitt með að láta enda ná saman í kreppunni. Lífeyrisþegar urðu líka fyrir áföllum í hruninu. Margir hafa tapað sparifé og hlutabréf urðu að engu. Húsnæðis- og bílalán þeirra hafa líka hækkað.
Þeir stjórnmálaflokkar sem nú eru við völd lýstu því yfir fyrir síðustu kosningar að þeir ætluðu að verja velferðarkerfið. Þau loforð hafa ekki staðist nema síður sé. ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld afturkalli þær skerðingar sem lífeyrisþegar urðu fyrir á þessu ári. Fjármálakreppan er því miður staðreynd og spara þarf í ríkisfjármálum, en það er ekki sanngjarnt að öryrkjar taki á sig hlutfallslega þyngri byrðar en aðrir, nú þegar síst skyldi. Það er hvorki stjórnvöldum né þjóðinni til sóma.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands.

innsett F.S. 

 

 

 

 


Lagt til að lágmarkslífeyrir verði 186 þúsund á mánuði

 

 

 

Vísir, 18. ágú. 2009 05:15

http://www.visir.is/article/20090818/FRETTIR01/557249197/-1

Huga skal að „lífskjaratryggingu", þannig að enginn fái lægri upphæð en lágmarksupphæð lífeyris til framfærslu, 186.000 krónur. Auka þarf fjárhagsaðstoð sveitarfélaga svo þetta geti orðið.

 

Einnig ættu atvinnulausir að greiða það sama fyrir heilbrigðis­þjónustu og aldraðir og öryrkjar greiða. Þeir ættu að fá ókeypis í sund, og frían aðgang að listasöfnum og íþróttaviðburðum.

 

Svo segir í skýrslu sem nefnd um sálfélagsleg viðbrögð við kreppunni skilaði nýlega af sér til heilbrigðisráðherra.

 

Ráðherrann, Ögmundur Jónasson, er ánægður með skýrsluna, sem miðar við reynslu Finna af síðustu kreppu þeirra.
„Lærdómur þeirra var að þeir hefðu gengið of langt í að draga úr útgjöldum til velferðarmála og það hefði í sjálfu sér framlengt krísuna," segir Ögmundur. Skýrslan sé því brýning fyrir okkur um að gæta hagsmuna þeirra sem lakast standi.

 

Spurður hvort farið verði eftir ábendingunum, segir hann: „Auðvitað eigum við að taka þessi varnaðarorð alvarlega og setja okkur að markmiði að hlíta þeim."

 

Í skýrslunni segir að nauðsynlegt sé að nýta strax allar leiðir til að vinna gegn neikvæðum afleiðingum kreppunnar á heilsu og félagslega stöðu fólks, til að forðast heilsubrest og hamla þannig gegn auknum útgjöldum á sviði heilbrigðis- og félagsmála.

 

„Íslendingar fá ekki annað tækifæri til að kanna hvort skynsamlegra hefði verið að bregðast öðruvísi við hér á landi eftir fimm ár. Það verður of seint," segir í niður­stöðum nefndarinnar.

 

Í skýrslunni er lýst yfir ánægju með stofnun Velferðarvaktar, til að fylgjast með afleiðingum hrunsins á einstaklinga og fjölskyldur.
Mikilvægt sé að tryggja sterka heilsugæslu, þótt minna fé sé til reiðu. Þá skal efla mæðra- og ungbarnavernd og setja á fót „virknimiðstöðvar" þar sem fólk getur komið til að „halda festu í daglegu lífi".
Hún telur að finnsk stjórnvöld hafi í sinni kreppu vanmetið síðari „sálfélagsleg eftirköst" hennar.
Finnskir sérfræðingar bentu nefndinni á að það sé ekki aðeins mannúðlegt að grípa til slíkra aðgerða, það sé einnig ódýrara en að gera það ekki.
Nefndin var skipuð af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. klemens@frettabladid.is

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn.
Vífill er félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Félagið er sjúklingafélag og er eitt af aðildarfélögum SÍBS.

Þettta er okkar sameiginlega blogg síða og verður væntanlega mest bloggað um málefni sem okkur tengjast.

F.S.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband