Færsluflokkur: Örorkumat og mál öryrkja
Laugardagur, 29. mars 2008
Lífeyrir hækkar og lágmarksframfærsluviðmiði flýtt.
Í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hefur fjármálaráðuneytið reiknað út að meðaltalshækkun lægstu launa þann 1. febrúar samkvæmt nýgerðum kjarasamningi sé um það bil 7% frá 2007. Í samræmi við það hefur félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, undirritað reglugerð sem kveður á um hækkun lífeyris almannatrygginga hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum um 4% frá og með 1. febrúar síðastliðnum. Hækkunin tekur til allra lífeyrisflokka almannatrygginga og kemur til viðbótar þeirri 3,3% hækkun sem kom til framkvæmda 1. janúar síðastliðinn. Frá áramótum hefur lífeyrir almannatrygginga því hækkað um 7,4% eða sem nemur um það bil 9.400 krónum á mánuði miðað við óskertar bætur.
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur einnig í samráði við forsætisráðherra ákveðið að fela nefnd sem vinnur nú að endurskoðun almannatrygginga að móta tillögur að sérstöku lágmarksframfærsluviðmiði fyrir lífeyrisþega og jafnframt flýta þeirri vinnu eins og kostur er. Lágmarksframfærsluviðmiðið taki meðal annars tillit til hækkunar lægstu launa í nýgerðum kjarasamningum og liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.
Ofangreindar aðgerðir eru í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Koma þær til viðbótar þeim kjarabótum lífeyrisþega sem tilkynntar voru með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í desember síðastliðnum og koma til framkvæmda í áföngum á árinu, fyrst með afnámi makatengingar þann 1. apríl næstkomandi. Þær aðgerðir ásamt þeim hækkunum lífeyris sem taka gildi frá 1. febrúar síðastliðnum nema um það bil 9 milljörðum króna á ári þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda.
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. mars 2008
Ný lög um bætt kjör aldraðra og öryrkja samþykkt á Alþingi.
FEL - Fréttir frá félagsmálaráðuneyti 2008-03-13
http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3723
Í dag voru samþykkt á Alþingi ný lög um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Hér er um að ræða fyrsta frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra á þessu sviði en málefni aldraðra og almannatryggingar fluttust frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins um síðustu áramót.
Með frumvarpinu eru stigin afar mikilvæg skref sem munu bæta stöðu fjölda einstaklinga og fjölskyldna þeirra, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, þegar lögin höfðu verið samþykkt í dag. Ég legg hins vegar áherslu á að hér er um að ræða skref á lengri leið. Gert var ráð fyrir í greinargerð með frumvarpinu að lagðar yrðu fram tillögur sem tryggðu örorkulífeyrisþegum sama frítekjumark og ellilífeyrisþegum eða ígildi þess. Gengið er út frá því að tillögur berist frá örorkumatsnefnd forsætisráðherra nú á vorþinginu þannig að hægt verði að afgreiða þá lagasetningu fyrir gildistöku 1. júlí næstkomandi. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja er jafnframt kveðið á um að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði eða sambærilega réttarbót með öðrum hætti fyrir 1. júlí næstkomandi. Mikilvægt er að vinnu á vegum fjármálaráðuneytisins við útfærslu á því verði hraðað svo bæta megi stöðu tekjulægstu hópa ellilífeyrisþega í landinu.
Lagabreytingarnar eru byggðar á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 og byggjast á niðurstöðum verkefnisstjórnar félagsmálaráðherra frá 30. nóvember 2007 og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. desember síðastliðinn. Breytingarnar munu taka gildi í þremur áföngum. Helstu nýmæli í lögunum eru eftirfarandi:
- Skerðing bóta vegna tekna maka verður að fullu afnumin frá og með 1. apríl.
- Sett verður 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur elli- og örorkulífeyrisþega frá 1. apríl, meðal annars í þeim tilgangi að draga úr ofgreiðslum bóta.
- Vasapeningar til einstaklinga á dvalar- og hjúkrunarheimilum munu hækka frá 1. apríl 2008.
- Skerðingarhlutfall ellilífeyris verður lækkað úr 30% í 25% frá 1. apríl og frítekjumark hækkað frá sama tíma.
- Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 6770 ára verður hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí.
- Sett verður 300.000 króna frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur örorkulífeyrisþega frá 1. júlí.
- Aldurstengd örorkuuppbót hækkar frá 1. júlí.
- Loks verður skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar afnumin frá og með 1. janúar 2009.
Verkefnisstjórn félags- og tryggingamálaráðherra mun áfram vinna að endurskoðun og einföldun almannatryggingakerfisins og hefur henni verið falið að skila ráðherra heildstæðum tillögum þar að lútandi fyrir 1. nóvember 2008.
( Innsett F.S. )
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. febrúar 2008
Málstofa á vegum Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði
Málstofa á vegum Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði
Sjálfsmatsblöð geta auðveldað sjúklingum að taka virkan þátt í endurhæfingu sinni
Kristín Þórarinsdóttir hjúkrunarfræðingur MS, lektor við Háskólann á Akureyri og verkefnastjóri við Sjúkrahúsið á Akureyri
Í stefnumótun og lögum um heilbrigðisþjónustu er vaxandi áhersla lögð á það að sjúklingar taki virkan þátt í meðferð sinni og að þjónustan sé einstaklingsmiðuð. Í raun má segja að horfið hafi verið frá forræðishyggju í heilbrigðiskerfinu og að sjúklingar hafi breyst frá óvirkum þiggjendum heilbrigðisþjónustunnar til virkra þátttakenda sé tekið mið af stefnumótun í heilbrigðisþjónustu í hinum vestræna heimi síðustu áratugina. Ef grannt er skoðað má hins vegar greina ákveðna forræðishyggju í þessum miklu stefnumótunarbreytingum. Ástæður þessa má meðal annars rekja til þess að við stefnumótunina hefur þátttaka sjúklinga verið ákvörðuð út frá sjónarhóli heilbrigðisstarfsfólks og stjórnenda en ekki út frá sjónarhóli sjúklinga. Á síðustu árum hafa sjálfsmatseyðublöð verið þróuð á Íslandi fyrir sjúklinga í endurhæfingu meðal annars til að gera þeim kleyft að taka þátt í endurhæfingu sinni. Sjúklingar í endurhæfingu eru beðnir um að skrá á blöðin mat sitt á heilsufari á heilrænan hátt og greina þá heilsufarsþætti sem valda þeim óþægindum. Blöðin eru byggð á heilsufarslyklum þeim sem flokkunarkerfi NANDA hjúkrunargreininga byggir á. Miðað er við sjúklingarnir ræði síðan mat sitt við hjúkrunarfræðing. Blöðin og vinnulagið þeim tengt eru byggð á rannsóknum en hafa verið aðlöguð að klínísku starfi í samvinnu við hjúkrunarfræðinga í endurhæfingu. Í fyrirlestrinum verður þróun blaðanna kynnt en lögð verður sérstök áhersla á hvernig rannsóknir á virkri þátttöku út frá sjónarhóli sjúklinga verða nýttar við frekari þróun þeirra. |
Mánudaginn 10. mars 2008, kl. 12:10-12:50
í stofu C-201 á 2. hæð í Eirbergi, Eiríksgötu 34.
Málstofan er öllum opin. www.rsh.hi.is
Þeir sem hafa áhuga á að vera í fjarfundasambandi gefi Ingibjörgu Einarsdóttur upp IP-númer með góðum fyrirvara, sími: 525-4985 / netfang: ingaein@hi.is.
( innsett F.S. )
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. febrúar 2008
Af vef T.R. Breytingar á almannatryggingum
J
óhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, lagði frumvarpið fram á þingi 19. febrúar sl. Á þingfundi 21. febrúar var það samþykkt til 2. umræðu og vísað til félags- og tryggingamálanefndar.
Megin inntak frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra er eftirfarandi:
- Reynt verður að draga úr van- og ofgreiðslum. Gripið verður til sérstakra aðgerða til að draga úr van- og ofgreiðslum tekjutengdra greiðslna. Helsta breyting til úrbóta er sú að frítekjumark upp að 90.000 kr. verður sett á fjármagnstekjur. Í athugasemdum verkefnastjórnar sem félags- og tryggingamálaráðherra skipaði í október kemur fram að stór hluti ofgreiðslna sem myndast hjá greiðsluþegum kemur til vegna þess að þeir hafa ekki tilkynnt fjármagstekjur sínar til Tryggingastofnunar. Þetta sé úrræði til betrumbótar á því. Greiðslur til um 16.200 ellilífeyrisþega og 4.200 örorkulífeyrisþega gætu hækkað við þessa breytingu, alls hjá um 20.400 einstaklingum.
- Afnám tekjutengingar við maka. Gert verður ráð fyrir að tekjur maka muni framvegis ekki hafa áhrif til skerðingar greiðslna. Greiðslur til um 5.800 lífeyrisþega myndu hækka eða hjá um 3.900 örorkulífeyrisþegum og 1.900 ellilífeyrisþegum.
- Frítekjumark 67-70 ára hækkað. Kveðið er á um að frítekjumark ellilífeyrisþega 67-70 ára vegna atvinnutekna verði hækkað úr 300.000 kr. upp í 1.200.000 á ársgrundvelli. Áður hefur launatenging 70 ára og eldri verið afnumin. Slík breyting er ekki lögð fram í frumvarpinu hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega en gert er ráð fyrir að framkvæmdanefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingar starfsendurhæfingar vinni að tillögum um framkvæmd að svipaðri lendingu fyrir þá hópa. Í athugasemdum verkefnastjórnar ráðuneytisins kemur fram að með þessari breytingu sé ellilífeyrisþegum enn frekar gert kleift að afla aukinna tekna atvinnu án þess að þær tekjur hafi áhrif á ellilífeyri. Um leið myndu greiðslur til um 700 ellilífeyrisþega hækka og allmargir ellilífeyrisþegar, sem ekki hafa átt rétt á greiðslum vegna núverandi skerðinga, myndu öðlast rétt til greiðslu.
- Frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna. Gert er ráð fyrir því nýmæli að frítekjumark verði sett á lífeyrisjóðstekjur örorku og endurhæfingarlífeyrisþega upp að 300.000 kr. á ársgrundvelli. Lífeyrissjóður upp að 300.000 kr. á ári myndi því ekki hafa áhrif á tekjutryggingu og heimilisuppbót lífeyrisþega. Um 7000 örorkulífeyrisþegar myndu njóta hærri greiðslna vegna þessarra breytinga.
- Afnám skerðingar vegna innlausnar séreignarsparnaðs. Kveðið er á um afnámskerðingar á bótagreiðslna vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Gert er ráð fyrir að það taki gildi 1. janúar 2009. Samskonar heimild verður til fyrir vistmenn á stofnunum.
Hækkun á aldurstengdri örorkuuppbót. Kveðið er á um að fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar muni hækka. Gert er ráð fyrir að sá hópur sem fær fulla aldurstengda örorkuuppbót stækki þar sem að þeir sem verða örorkulifeyrisþegar 24 ára eða yngri munu njóta þess í stað 19 ára og yngri áður. Um 12.000 örorkulífeyrisþegar myndu njóta þessarra hækkana, þó í mismiklum mæli. - Hækkun vasapeninga og afnám frítekjumarks. Gert er ráð fyrir að frítekjumark fyrir vasapeninga verði afnumið og um leið fjárhæð vasapeninga hækkað úr 30.000 kr. á mánuði upp í 36.755 kr.
Í athugasemdum með frumvarpinu kemur enn fremur fram að fjármálaráðuneytið vinnur áfram að því að tryggja ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25.000 kr. frá lífeyrissjóði.
Loks vinnur verkefnastjórnin sem skipuð var í október af félags- og tryggingamálaráðherra áfram að því markmiði að einfalda almannatryggingakerfið. Um er að ræða heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og er verkefnastjórninni ætlað að skila samræmdum tillögum fyrir 1. nóvember 2008.
Sjá má frumvarpið í heild sinni hér
( Innfært F.S. )
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. desember 2007
Ályktun Aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ )
Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir og lýsir eindreginni andstöðu við yfirstandandi aðgerðir lífeyrissjóða gegn öryrkjum. Með aðgerðum sínum hafa stjórnir lífeyrissjóðanna sett kjör og réttindi öryrkja aftast í forgangsröðina og vegið harkalega að því samtryggingarhlutverki sem lífeyrissjóðunum er ætlað og er grundvöllur skylduaðildar landsmanna að lífeyrissjóðum. Fleiri lífeyrissjóðir hafa tilkynnt um aðgerðir og að óbreyttu munu aðgerðir sjóðanna rústa afkomu þúsunda Íslendinga á næstu 2-3 árum.
ÖBÍ skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja þeim sjúku og fötluðum, sem verða fyrir skerðingum og niðurfellingum af hálfu lífeyrissjóða, þegar í stað fullan lífeyri á móti. ÖBÍ skorar jafnframt á aðildarfélög Alþýðusambands Íslands, sem eiga fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóðanna að beita sér nú af heilindum og réttsýni í þágu þeirra félagsmanna sinna sem mest þurfa á stuðningi heildarsamtaka launafólks að halda nú fyrir jólin.
Reykjavík, 6. desember 2007
Aðalstjórn ÖBÍ
Örorkumat og mál öryrkja | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. desember 2007
Hetjuleg varnarbarátta Öbí.
Framkoma lífeyrissjóðanna við öryrkja er beinlínis árás á velferð þeirra.
Örirkjarnir eru allir félagsmenn stéttarfélaganna sem "eiga" lífeyrissjóðina. Það er hluti af tilgangi lífeyrissjóðanna að veita sínum félagsmönnum þessa tryggingarvernd sem örorkulífeyririnn er.
Það er sífellt verið að hækka ellilífeyrisgreiðslur sjóðanna vegna góðrar stöðu þeirra. Á sama tíma væla þeir og skera niður greiðslur örorkulífeyrisþega. Þetta er alveg siðlaust.
Það er löngu orðið tímabært að losna við fulltrúa vinnuveitenda úr stjórn lífeyrissjóðanna. Allt framlag vinnuveitenda í lífeyrissjóðina, fyrir sína starfsmenn, er hluti af launakostnaði vinnuveitandans. Það er jafn fráleitt að vinnuveitendur skipti sér af rekstri lífeyrissjóðanna eins og vinnuveitendur ætluðu sér að skipta sér af annarri ráðstöfun launanna sem þeir greiða. T.d. því hvað við kaupum í matinn.
Losum lífeyrissjóðina við vinnuveitendur úr stjórnum sjóðanna.
Stéttafélögin verða að standa vörðö um alla sína félagsmenn. Líka öryrkjana.
Hugmyndin um Áfallatryggingasjóð, sem borgi fyrstu 5 árin örorkulífeyrir, byggist á því að taka fé frá sjúkrasjóðum stéttarfélaganna til að fjármagna þetta. Stéttafélögin verða að finna lausn á þessum málum án þess að mismuna lífeyrisþegum .
Stéttafélögin verða að sýna meiri ábyrgð í þessu máli og tryggja greiðslu örorkulífeyris lífeyrissjóðanna og almennt bara afkomumöguleika allra þeirra sm þurfa á örorkulífeyri að halda. Stéttafélög hafa oft tekið velferðarmál og barist fyrir þeim og nú er þeirra að verja afkomu sinna félagsmanna sem þurfa að fá örorkulífeyrir frá lífeyrissjóðunum.
Af hverju eru ekki örorkulífeyrisþega-deildir innan stéttafélaganna ?
F.S.
Vilja frelsi frá lífeyrissjóðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. nóvember 2007
Félagsmálaráðherra vill stöðva fyrirhugaðar skerðingar á örorkulífeyri
( Undirstrikanir og leturbreytingar eru mínar F.S.)
Félagsmálaráðherra ávarpaði í dag þing Landssambands íslenskra verzlunarmanna. Þingið er haldið á 50 ára afmæli landssambandsins og árnaði félagsmálaráðherra félagsmönnum þess heilla og þakkaði það kraftmikla og oft á tíðum brautryðjendastarf sem unnið hafi verið á þeirra vegum að hagsmunum launþega.
Í ávarpi sínu vék félagsmálaráðherra meðal annars að fyrirhuguðum skerðingum nokkurra lífeyrissjóða á örorkulífeyri og sagði meðal annars:
Skerðingar lífeyrissjóðanna munu að óbreyttu hafa tvennt í för með sér, verri kjör þeirra öryrkja sem fyrir þeim verða og tilfærslu útgjalda frá lífeyrissjóðunum yfir á ríkissjóð. Niðurstaða mín eftir ítarlega skoðun á þessu máli er eindregið sú að ríkisvaldið og lífeyrissjóðirnir verði í sameiningu að leysa þessi mál, annars vegar tímabundið og hins vegar til langframa og koma í veg fyrir þá víxlverkun milli almannatrygginga og lífeyrissjóða sem bæði skerða lífeyrisgreiðslur og rýra kjarabætur öryrkja.
Ég tel að allra leiða verði að leita til þess að lífeyrissjóðirnir hætti við þessar skerðingar og skoða þarf hvort ekki sé rétt að ríkisvaldið komi um leið til móts við sjóðina með því að útgjöld, sem ella kæmu fram hjá almannatryggingakerfinu, renni til lífeyrissjóðanna þar til frambúðarlausn finnst á málinu.
Ræða félagsmálaráðherra á 26. þingi Landssambands íslenskra verzlunarmanna
-- -- -- -- -- -- -- -- -- -- -- -- --
Mínar hugleiðingar í framhaldi af þessari fréttatilkynningu.
Það er ótrúlegt að verkalíðsfélögin hafi ekki sýnt þessum öryrkjum meiri stuðning.
Þetta eru allt félagsmenn þeirra verkalíðsfélaga sem eiga tiltekna lífeyrissjóði.
Þegar framreiknaðar eru viðmiðunartekjur örorkulífeyrisþega þá er það gert miðað við neysluvísitölu en ekki launavísitölu.
Þetta eitt getur leitt til þess að lífeyrissjóðurinn skerði eða felli niður örorkulífeyrir einhverra einstaklinga, af því að lauvavísitalan (launin) hafa hækkað meira en neysluvísitalan (voruverð og fl.).
Lífeyrisþegum er því kierfisbundið haldið frá því að njóta batnandi lífsakjara í landinu.
Það svakalega í þessu er að það eru lífeyrissjóðirnir = verkalíðsfélögin sem standa fyrir þessu.
Viðmiðunartímabil launa örorkulífeyrisþegans er síðustu þrjú starfsárin.
Þeir sem reyna að vinna, eftir að starfsgetan er orðin skert, eru með því að skerða örorkulífeyrir sinn til frambúðar.
Það er ánægjulegt að félagsmálaráðherra ætlar að taka á einhverjum hluta af þessu vandamáli.
Það þarf þó að gera mikið meyra. FSÖrorkumat og mál öryrkja | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. október 2007
NÚ SEGJUM VIÐ STOPP! VIÐ BÍÐUM EKKI LENGUR
Ég tel að þetta eigi erindi til okkar allra.
Ég vona að þið bregðist vel við þessari áskorun og skrifið undir.
Sendi smá ítarefni af BLOGGINU, ef einhver vill lesa umræðuna þar.
Kv. Frímann.
Að vera 75prósent öryrki í velferðarsamfélaginu http://www.ragjo.blog.is/blog/ragjo/entry/335878
HRÓP Á AÐSTOÐ KÆRU VINIR VILJIÐ ÞIÐ LESA ÞETTA OG AÐSTOÐA OKKUR.http://asdisomar.blog.is/blog/asdisomar/entry/340181/#comments
OPIÐ BRÉF SEM ÉG HEF SKRIFAÐ TIL ÞINGMANNA OG RÁÐHERRA, ER AÐ SENDA ÞEIM ÞAÐ Í PÓSTI ( RAFRÆNT)http://www.asdisomar.blog.is/blog/asdisomar/entry/341450
Ég minni á undirskriftalistann og vona að sem flestir kvitti á hann.
To: Allir Íslendingar
NÚ SEGJUM VIÐ STOPP! VIÐ BÍÐUM EKKI LENGUR
Við vitum ekki hvernig morgundagurinn verður. Öll gætum við lent í því að verða öryrkjar. Við, maki okkar, börnin okkar, systkin okkar, foreldrar okkar eða vinir okkar. En vonandi eigum við öll eftir að eldast.
Það er fáránlegt að búa í landi sem á að teljast jafn gott og okkar en samt sem áður geti það verið svo gott sem fjárhagslegt sjálfsmorð að giftast þeim sem maður elskar.
Pælið í því ef þú ert ástfangin öryrki eða ellilífeyrisþegi þá getur tekjutenging beinlínis valdið því að þið getið ekki leyft ykkur þann munað að giftast eða skrá ykkur í sambúð, því fólk hefur ekki efni á að vera heiðarlegt.
Myndir þú vilja sækja um vinnu og komast að því að launin þín væru algerlega miðuð við laun maka þíns ?
Eða skerðast launin þín ef þú sparar pening?
Ef þú erfir óvænt háa fjárhæð, er þá hætta á því að þú fáir engin laun?
Veistu hver kjör öryrkja og ellilífeyrisþega eru? Sagt er að maður mæli þetta alltaf best á eigin skinni, það er satt.Hugsaðu þér að þú mundir kaupa hlut í REI og selja hann svo eftir ár fyrir góðan hagnað. Tvær milljónir jafnvel. Þetta væri þó skammvinnur gróði þar sem Tryggingastofnun myndi því næst skerða lífeyri þinn, þar sem andskotinn hafi það, að þú skulir nokkuð þurfa á bótum á halda ef þér tókst að næla þér í hagnað af hlutabréfum.
Ef ég inni í Lottó þyrfti ég að láta börnin mín leysa út vinninginn, því annars missi ég bæturnar, launin mín.
Semsagt, við erum í fátækrargildru. Við sem að þessari undirskriftarsöfnun stöndum og héldum að heiðarleiki og rétt framkoma mundi skila okkur réttlátum bótum, höfum komist að því að það er óheiðarleikinn einn sem skilar sæmilegum afgangi.
Meira að segja eldri borgarar sem sumir hverjir eru að leggja til hliðar handa afkomendum sínum, eða eiga eignir sem síðan ganga til erfingja þeirra, er rukkaðir ár aftur í tímann ef kemur í ljós að þeir hafa fengið háa vexti af sparnaði sínum að mati TRST. Ekki einu sinna gamla fólkið okkar fær bæturnar sínar í friði. Allt er skorið við nögl.
Við viljum að sama gangi yfir lífeyrisþega og útivinnandi fólk, arður, söluhagnaður, vinningar, allt skal metast eins og gagnvart þeim sem vinna fyrir launum sínum. Við vinnum reyndar líka fyrir launum okkar, en okkar vinna felst í því að vera innilokuð, þjökuð og skert. Ykkar vinna felst í því að hafa tilgang og geta vaknað að morgni, vitandi að það bíður ykkar dagur fullur af verkefnum og áskorunum. Enginn einstaklingur á að þurfa að búa við það að tekjur makans skerða lífeyri viðkomandi.
Ég heiti á þig að skrifa undir áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar að breyta lögum um tekjutengingu bóta og bæta kjör öryrkja og ellilífeyrisþega.Sincerely,
Örorkumat og mál öryrkja | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. október 2007
Hér er á ferðinni mjög stórt og mikilvægt mál.
Viðbrögð Gylfa Arnbjörnssonar eru honum til skammar. Hann er framkvæmdastjóri ASÍ og er að vinna að þessu máli til að létta örorkulífeyrisgreiðslum að lífeyrissjóðunum og koma þaim yfir á Áfallatryggingasjóð, fyrstu fimm árin.
Svo er það alveg rétt sem Sigursteinn Másson bendir á að þessi sjóður skapar mismunun í samfélaginu.
Eins og ég sé þetta þá eru tillögur um ASÍ og SA um svokallaðan áfallatryggingasjóð bein afleiðing af tillögum Örorkumatsnefndar forsætisráðherra, sem m.a. ÖBÍ átti fulltrúa í og samþykkti niðurstöður nefndarinnar og fulltrúi þeirra skrifaði undir fyrir hönd ÖBÍ.Það sem sagt er um nýtt endurhæfingarkerfi fyrir öryrkja í þessu sambandi er bara gulrót til að selja hugmyndina um breytt lífeyriskerfi og stofnun áfallatryggingasjóð..
Starfsgreinasambandið ( SA )hefur áður sagt að :
Eigi hugmyndir ,,örorkumatsnefndar forsætisráðherra að ná fram að ganga, þarf að breyta bæði hlutverki sjúkrasjóða aðildarfélaga SGS og lífeyrissjóðanna
Það er því ljóst að tillögur Örorkumatsnefndar forsætisráðherrahafa nú leitt til tillagna þeirra sem hér er verið að ræða um.
Ekki eru öll aðildarfélög Starfsgreinasambandsins sammála stefnu sambandsins og tillögum þess og Samtaka Atvinnulífsins.Umræður um þessar tillögur hafa verið mjög litlar, þangað til nú síðustu vikurnar þegar verið er að kynna tillögurnr innan aðildafélaga Starfsgreinasambandsins ( SA ).
Í þessu sambandi er talað um að stórauka þurfi endurhæfingu. Það er alveg rétt, en það eru ekki ní tíðindi. Það var ein af forsendum frumvarpsins 1999 að endurhæfingin yrði stóraukin.Það dugði ekki til að Alþyngi legði meiri peninga í endurhæfinguna
Við verðum að muna að þetta ferli; Örorkumatsnefndi forsætisráðherra og tillögur ASÍ og SA um áfallatryggingasjóð fer af stað til að bæta hag lífeyrissjóðanna með því að minnka örorkubótaþáttinn í lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóðanna.
Tetta er samhangandi mál eins og kemur t.d. fram í tilvitnun í álit Starfsgreinasambandsins hér ofar.
Sjá nánar á:
http://vifill.blog.is/blog/vifill/entry/329688
http://vifill.blog.is/blog/vifill/entry/327511
http://vifill.blog.is/blog/vifill/entry/300871
http://vifill.blog.is/blog/vifill/entry/183806
Ég minni síðan á undirskriftalistann og vona að sem flestir kvitti á hann.
F.S.
Öryrkjar sjálfum sér verstir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Örorkumat og mál öryrkja | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 7. október 2007
Ályktun aðalfundar ÖBÍ 6. október 2007
( Af vef Öryrkjabandalags Íslands, http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/303 )
Ályktun aðalfundar ÖBÍ 6. október 2007
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands fagnar yfirlýstri stefnu stjórnvalda um umbætur í velferðarkerfinu, þar sem áhersla skal lögð á einföldun almannatryggingakerfisins, einstaklingsmiðaða þjónustu, aukna endurhæfingu og virka samfélagslega þátttöku fatlaðra. ÖBÍ leggur áherslu á að skipulagt verði eitt nýtt og betra almannatryggingakerfi fyrir alla landsmenn. ÖBÍ hafnar alfarið hugmyndum sem fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hafa kynnt um sérstakt tryggingakerfi fyrir hluta landsmanna. Jafnframt varar ÖBÍ mjög við hugmyndum sem miða að einkavæðingu almannatrygginga, sem er augljós ávísun á mismunun.
Undanfarin ár hafa skattar á fyrirtæki og á hæstu laun lækkað umtalsvert. Nú er tími lágtekjufólks kominn. ÖBÍ skorar á stjórnvöld að gera tillögur ÖBÍ um kjara-, skatta- og velferðarmál að sínum. ÖBÍ skorar ennfremur á Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins að koma í veg fyrir boðað afnám og niðurfellingu örorkulífeyris fyrir á annað þúsund öryrkja. Komi skerðing lífeyrissjóðanna til framkvæmda er ljóst að sjóðirnir hafa brugðist samtryggingarskyldum sínum og samfélagslegri ábyrgð. Þar með kynnu forsendur skylduaðildar að lífeyrissjóðunum að vera brostnar. Slíkar aðstæður hlytu að leiða til heildarendurskoðunar stjórnvalda á lögum um starfsemi lífeyrissjóðanna, þar sem hlutverk þeirra, skyldur og ábyrgð í íslensku samfélagi yrðu endurskilgreind.
Örorkumat og mál öryrkja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bloggar
- Dægurmál
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Greinar um kæfisvefn og fl.
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tilkynningar til félagsmanna
- Tónlist
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Örorkumat og mál öryrkja
Um bloggið
Vífill, félag fólks með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
1 dagur til jóla
Nýjustu færslur
- 17.11.2017 SÍBS viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili
- 15.7.2016 Um kæfisvefn.
- 21.6.2016 Réttarríkið virkar seint.
- 20.6.2016 Loksins komin niðurstað í máli ÖBÍ gegn Reykjavíkurborg
- 21.10.2015 Er ekki von á hækkun fyrir lífeyrisþega.?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar